Haustvertíð Borgarbókasafnsins að hefjast

Haustdagskrá Borgarbókasafnsins er hafin og af nógu að taka. Hér höfum við tekið saman smá yfirlit yfir hvað verður á seyði á söfnunum okkar.

 

Grófin | yfirlit

Í Grófinni er gróska og áhersla á þátttöku og samsköpun í opnum rýmum. Nokkur verkefni eru undir þeim hatti og má þar nefna Opið samtal, þar sem lýðræðisleg og gagnrýnin samtöl eiga sér stað á bókasafninu og Vettvangur samsköpunar, en í nóvember verður haldið málþing þar sem fjallað verður um hvernig virkja má samfélagsrými svo fólk úr öllum áttum geti mæst. 

Það eru viðburðir fyrir þau sem vilja spjalla (til dæmis Spjöllum með hreim), skrifa (meðal annars Samskrifa) og hlusta (svo sem Vínylkaffi).

Unglingar þurfa ekki að láta sér leiðast í Grófinni (þótt það sé að sjálfsögðu í boði líka). Anime klúbburinn hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár og nú bætist við klúbburinn Hinsegin prentfélagið, fyrir 15-18 ára. Reglulega er svo boðið upp á námskeið og smiðjur í tónlistar- og myndvinnsluverinu, en í haust verða meðal annars námskeið í Adobe Premiere og Max/MSP.

Svakalega sögusmiðjan hefur störf um miðjan september, fyrir börn á aldrinum 9-12 ára.  

 

Gerðuberg | yfirlit 

Gerðuberg horfir sérstaklega til umhverfisins í haust, eins og oft áður. Meðal viðburða þar má nefna ruslaplokk með kakóstund í lokin í byrjun september og fyrirlestur um gámagrams í byrjun október.

Endurnýting er eitt af lykilorðum umhverfisverndar og því upplagt fyrir börn og foreldra þeirra að koma með leikföng sem lítið eru notuð og gefa þeim nýtt líf á leikfangaskiptimarkaði í október. Hver veit nema einhverjar gamlar gersemar fái að fljóta með heim í staðinn.

Fyrir skapandi fólk verður boðið upp á kennslu í haustkransagerð sem og japanskri leturgerð.

 

Spöngin | yfirlit

Fræðakaffi verður á sínum stað, síðasta mánudag í mánuði. Á döfinni er umfjöllun um veðrið, svínslegar krossgátur og ástarbréf.

Fyrir þau sem ekki langar að skrifa falleg bréf heldur segja einhverjum til syndanna má benda á smiðjuna Rifrildi fyrir byrjendur og lengra komna og eftir reynsluna þaðan er kannski komið efniviður til að vinna áfram í rappsmiðju með Reykjavíkurdætrum. Svo er auðvitað enn önnur lausn, en það er að láta sokkabrúður tala máli sínu.

Skema í HR heldur áfram að miðla til barna og ungmenna og heldur smiðjur í tölvuleikjagerð og forritun í byrjun nóvember. Myndasöguklúbbur fyrir 13-16 ára hefst í september sem og Svakalega sögusmiðjan, fyrir 9-12 ára.

Reglulegir viðburðir eiga áfram sinn sess í Spönginni og má þar nefna Hannyrðastundir sem haldnar eru á fimmtudögum, Spilum og spjöllum á laugardögum og Tilbúningur fyrsta miðvikudag hvers mánaðar, þar sem skapandi fólk á öllum aldri hittist til að endurvinna ýmislegt í eitthvað nýtt. Einnig eru lestrarhestarnir að pússa lesgleraugun því leshringirnir eru að hefja störf eftir sumarfrí.

 

Árbær | yfirlit 

Í Árbænum eiga hannyrðir sérstakan sess, enda aðstaðan góð, og eru þar starfræktir þrír hannyrðaklúbbar sem eru vel sóttir (raunar svo vel að þeir eru fullsetnir). Boðið er upp á aðstoð og ráðgjöf við saumaskapinn einu sinni í mánuði yfir vetrarmánuðina. 

Ásta Ólafsdóttir sýnir útsaumsmyndir á sýningu sinni Að halda þræði.

Á handverkskaffi í október verður fjallað um vettlingaprjón í Lettlandi og síðar í sama mánuði verður garnskiptimarkaður fyrir prjónara og heklara sem langar að hrista upp í garnhirslunni. Plöntuskiptimarkaður verður svo fyrir þau sem vilja hrista upp í plöntuhirslunni...

Tilbúningur er svo haldinn í Árbænum annan fimmtudag hvers mánaðar, notalegar stundir, þar sem þátttakendur búa eitthvað til úr einhverju og endurnýta alls konar. Leiðbeinendur koma með hugmyndir, efni og áhöld og aðstoða við tilbúninginn. Viðburðirnir henta skapandi fólki á öllum aldri.

 

Kringlan | yfirlit

Leikhúskaffi verður á sínum stað í tengslum við valdar sýningar í Borgarleikhúsinu. Á haustönn verður fjallað um sýningarnar Með guð í vasanum, Fíusól og Aðventu.

Þótt að erill verslunarmiðstöðvar sé á næsta leiti má finna lestrarró á bókasafninu í Kringlunni, en þar eru bæði starfræktir leshringir og lestrarkósí.

Fyrir þau sem eru að feta sig áfram í íslensku, eða hafa áhuga á öðrum tungumálum má nefna Kakó lingua þriðja sunnudag í mánuði, þar sem lögð er áhersla á fjölmenningarlegar samverustundir þvert á kynslóðir og Spilum og spjöllum annan fimmtudag hvers mánaðar.

 

Sólheimar | yfirlit 

Í þessu elsta starfandi útibúi Borgarbókasafnsins, vilja gestir helst vera á náttfötunum, enda bæði huggulegt og heimilislegt á bókasafninu. Mánaðarlega er enda boðið upp á sögustund á náttfötunumfyrir börn. Fyrir börn sem vilja frekar búa til vélmenni en hlusta á kvöldsögu má benda á að Skema í HR býður upp á vélmennasmiðju 25. nóvember.

Deilihagkerfi, eins og bókasöfn, eru umhverfisvæn í eðli sínu. Í ár eru 60 ár síðan bókasafn var opnað í Sólheimum og í ár hafa verið haldnir ýmsir skiptimarkaðir í því tilefni. Listaverka- og skrautmunaskiptimarkaður verður haldinn í byrjun september og jólaskrautsskiptimarkaður í desember.

Í Sólheimum er Lesfriður öll miðvikudagskvöld frá kl. 19:30-21:30. Ef þér finnst einmanalegt að lesa, eða ef þú ert kannski að lesa dálítið skuggalegar bækur og finnst betra að hafa einhvern í kringum þig, þá gæti Lesfriður verið eitthvað fyrir þig.

 

Úlfarsárdalur | yfirlit

Úlfarsárdalur er náttúruperla, í nágrenni bókasafnsins eru fjöll og firnindi. Í  byrjun september verður sögustund á gönguskónum þar sem Linda Ólafsdóttir og Margrét Tryggvadóttir bjóða bæði upp á fræðslu og listasmiðju. Táknmálstúlkur verður með í för og hvetjum við því döff fólk að mæta.

Lóaboratoríum verður með bókakaffi í september þar sem áhugafólk um grín, volk og vesen er hvatt til að mæta.

Opnar smiðjur eru í Úlfarsárdal fyrsta fimmtudag hvers mánaðar, á döfinni eru meðal annars barmmerkjasmiðjavínylskerasmiðja og tónlistar-sphero smiðja þar sem þú lærir að láta hluti leika tónlist!

Fastir liðir á þriðjudögum eru samverumiðaðir, en þá eru bæði hannyrðastundir og fjölskyldumorgnar.