Skipurit Borgarbókasafnsins

Borgarbókasafn Reykjavíkur var stofnað 1919 en hóf starfsemi 19. apríl 1923. Safnið er alhliða upplýsinga- og menningarstofnun og meginhlutverk þess er að jafna aðgengi að menningu og þekkingu. Lögð er áhersla á gott aðgengi borgarbúa á öllum aldri að þjónustu, fræðslu og viðburðum á sviði menningar og lista. Safnið gegnir forystuhlutverki meðal almenningsbókasafna og sækir fyrirmyndir sínar til fremstu safna heims hvað varðar þjónustu, viðburðahald, aðstöðu og tæknibúnað. Starfsemin einkennist af fagmennsku, og ber ávallt vott um virðingu víðsýni og sköpunarkraft.

 Borgarbókasafnið hefur það að markmiði að stuðla að lýðræði og ná til allra borgaranna án tillits til aldurs, kyns, kynþáttar, stjórnmálaskoðana, trúar, þjóðernis eða þjóðfélagsstöðu, skapa vettvang fyrir fólk til að rækta hæfileika sína, örva andann og sköpunarkraftinn og standa í alþjóðlegu samhengi jafnfætis bestu almenningsbókasöfnum og menningarhúsum.

Skipurit Borgarbókasafnsins

Í dag eru bókasöfnin sjö en miðlægar deildir sinna rekstri, miðlun og nýsköpun. Teymi skipuð starfsfólki safnanna og miðlægra deilda sinna fjölbreyttum verkefnum undir stjórn teymisstjóra.
​​​
Borgarbókasafnið er rekið af Reykjavíkurborg og heyrir undir Menningar- og íþróttasvið. Það starfar samkvæmt bókasafnalögum nr. 150 frá 2012, yfirlýsingu Menningar- og vísindastofnunar Sameinuðu þjóðanna (Unesco) um almenningsbókasöfn frá 1994, menningarstefnu Reykjavíkurborgar og samþykkt fyrir Borgarbókasafn frá 2015.