Algengar spurningar

 

 

Hér má finna allt um Rafbókasafnið og leiðbeiningar um innskráningu og notkun Rafbókasafnsins.

Ef þú finnur ekki svarið hér getur þú sent okkur skilaboð.
 

Hvað er hægt að fá að láni í Borgarbókasafninu?

Borgarbókasafnið á fjölbreytt úrval bóka, tímarita, tónlistar, nótna, kvikmynda,  borðspila, kökuforma, tungumálanámskeiða og annars fyrir alla aldurshópa.
Þú getur leitað að öllu saman hér á þessum vef. Prófaðu að slá inn titil, höfund eða efni í leitargluggann hér fyrir ofan.
Auk þess er hægt að leigja eða kaupa myndlist eftir íslenska listamenn í Artóteki Borgarbókasafnsins, sem er í Grófinni, Tryggvagötu 15. Sjá nánar á artotek.is.
 

Hvað kostar bókasafnskort?

Allt um árgjald fyrir bókasafnskort og önnur gjöld má finna í gjaldskrá. Hægt er að skrá nýtt eða endurnýja útrunnið kort hér á vefnum með því að skrá notanda inn á „Mínar síður“ hér fyrir ofan og greiða árgjald.

Eldri borgarar, 67 ára og eldri, greiða ekki fyrir bókasafnskort, og geta skráð nýtt kort eða endurnýjað hér á vefnum með því að skrá notanda inn á „Mínar síður“ hér fyrir ofan.

Börn og unglingar undir 18 ára aldri,  öryrkjar og einstaklingar á endurhæfingarlífeyri þurfa ekki að greiða fyrir bókasafnskort. Þá fá handhafar Menningarkortsins ókeypis bókasafnskort með sama gildistíma og Menningarkortið.

Bókasafnskort fyrir þessa hópa þarf að skrá og endurnýja í afgreiðslu bókasafnsins, og er ekki hægt að skrá eða endurnýja hér á heimasíðunni.
 

Hvað gildir bókasafnskortið lengi og hvar get ég notað það?

Bókasafnskortið gildir í eitt ár. Kortið gildir í öllum almenningsbókasöfnum á höfuðborgarsvæðinu. Þau eru:

Öll menningarhús Borgarbókasafnsins
Bókasafn Garðabæjar
Bókasafn Hafnarfjarðar
Bókasafn Kópavogs
Bókasafn Mosfellsbæjar
Bókasafn Seltjarnarness

Hvar fæ ég stafrænt bókasafnskort?

Smelltu hér til að sækja stafrænt bókasafnskort fyrir snjallsíma.

Android notendur þurfa að setja upp appið „Smart Wallet“ til þess að nota kortið.

Get ég pantað bækur eða annað efni?

Já! Fyrsta skrefið er að finna bókina eða það efni sem þú vilt taka frá (í leitarglugganum hér að ofan). Síðan smellir þú á titilinn og velur „Taka frá“, og svo hvert þú vilt sækja. Ef þú hefur ekki þegar skráð þig inn, ferðu fyrst í gegnum innskráningarferlið.

Hér er að finna nánari leiðbeiningar hér um hvernig panta á efni á síðunni en einnig er sjálfsagt að hringja í síma 411 6100 og fá aðstoð.
 

Hvenær get ég sótt efnið sem ég pantaði?

- Ef efnið er í hillu höfum við samband við þig í tölvupósti eða síma þegar efnið er tilbúið til afhendingar.

- Ef efnið er inni en ekki á því safni sem þú baðst um, munum við koma því á rétt safn og láta vita um leið og hægt er að sækja. Farið er með efni milli safnana tvisvar í viku.

- Ef efnið sem þig langar í er ekki inni, setjum við þig á biðlista og látum vita um leið og það er aðgengilegt og tilbúið á safninu þínu.
 

Get ég séð á netinu hvað ég er með í láni?

Já. Þú getur skráð þig inn hér efst á síðunni, þar sem stendur „Mínar síður“. Til þess notar þú annaðhvort kennitölu og PIN númer (það sama og í sjálfsafgreiðsluvélunum) eða rafræn skilríki.

Á „Mínum síðum“ geturðu séð hvað þú ert með í láni og hvenær þarf að skila, þú getur fylgst með frátektum, endurnýjað útlán, greitt sektir og endurnýjað bókasafnskortið ef þarf.

Hvað má ég hafa bækurnar/tónlistina/DVD lengi?

Útlánstími gagna er mismunandi en bækur eru að jafnaði lánaðar út í 30 daga; tónlist og myndefni í 2 vikur.

Fullorðnir geta haft allt að 40 gögn að láni á sama tíma; börn undir 18 ára aldri geta haft að hámarki 15 gögn að láni á sama tíma.
 

Er hægt að framlengja lán?

Já. Þú getur skráð þig inn hér efst á síðunni, þar sem stendur „Mínar síður“. Þar geturðu framlengt hverju láni tvisvar sinnum. Einnig er hægt að framlengja með því að hringja í Bókasafnið í síma 411-6100 eða mæta á staðinn: Sjá staðsetningar og símanúmer safnanna.
 

Hvað eru „Mínar síður“?

Á „Mínum síðum“ geta innskráðir lánþegar séð yfirlit yfir útlán, endurnýjað lán, greitt skuldir og pantað efni o.fl.

Þú getur skráð þig inn hér efst á síðunni, þar sem stendur „Mínar síður“. Til þess notar þú annað hvort kennitölu og lykilorð eða rafræn skilríki.

Frekari upplýsingar um þjónustu á „Mínum síðum“.
 

Hvar fæ ég lykilorð?

Lánþegar velja sér lykilorð með skírteinum sínum. Lykilorðið er notað til þess að skrá sig inn á „Mínar síður“ hér á vefnum, á leitir.is og á Rafbókasafnið.

Ef þú hefur gleymt lykilorðinu þínu, eða hefur aldrei skráð nýtt lykilorð, þá geturðu sótt um það hér: Sækja um nýtt lykilorð í bókasafnskerfi.

Lykilorðin komu til í júní 2022 með nýju bókasafnskerfi. Fyrir þann tíma var PIN númer notað fyrir allar innskráningar, en nú er PIN aðeins notað fyrir sjálfsafgreiðsluvélar.

 

Hvar fæ ég PIN?

Lánþegar velja sér PIN-númer með skírteinum sínum. Númerið er notað í sjálfsafgreiðsluvélunum.

Ef þú hefur gleymt PIN-númerinu þínu þá eru tvær leiðir til að stilla nýtt.

Fyrri leiðin er að skrá þig inn á „Mínar síður“ hér á vefnum, fara í „stillingar“, skrá nýtt PIN-númer og vista.

Sú síðari er að koma í afgreiðslu bókasafnsins með skilríki og biðja um nýtt PIN-númer og starfsfólk safnsins gengur frá því í einum grænum.
 

Er bókasafnskortið mitt í gildi?

Það er einfalt mál að athuga það: prófaðu að smella á „Mínar síður“ efst hér á síðunni og skrá þig inn. Ef bókasafnskortið þitt er útrunnið verður þér boðið að endurnýja gildistímann.

Ef kortið er í gildi getur þú séð gildistímann með því að opna „Mínar síður“ og velja „Mínar stillingar“.

Bókasafnskort er innifalið í Menningarkortinu og fylgir gildistíma þess. Til að virkja Bókasafnskort með Menningarkortinu þarf að koma í afgreiðslu safnsins.

Sjá nánar um Menningarkortin á menningarkort.is.
 

Má ég nota bókasafnskort einhvers annars eða má ég lána mitt kort?

Nei. Bókasafnskort Borgarbókasafns eru gefin út á einstakling og það er óheimilt að nota kort annarra. Sem eigandi bókasafnskorts berð þú ábyrgð á öllu efni sem lánað er út á það.
 

Hvað með fólk sem kemst ekki á bókasafnið vegna aldurs eða fötlunar?

Borgarbókasafnið býður upp á heimsendingarþjónustu sem nefnist Bókin heim.
 

Hvað kostar að taka bækur eða DVD að láni?

Það kostar ekkert aukalega að taka bækur, DVD eða hvað sem er að láni – en þú þarft að eiga gilt bókasafnskort.
 

Hversu háar eru sektir?

Sjá allt um sektir og gjöld í gjaldskrá.
 

Kemst ég á netið í Borgarbókasafninu?

Aðgangur er að tölvum og internetinu í öllum söfnum Borgarbókasafnsins, og einnig er hægt að prenta og skanna.

Einnig er þráðlaust net í öllum söfnum Borgarbókasafnsins og geta gestir því komist á netið í fartölvum sínum, símum o.s.frv.
 

Hvað gerist ef ég týni eða skemmi efni sem ég er með í láni?

Greiða þarf fyrir gögn sem glatast eða skemmast í meðförum lánþega. Viðmiðunargjald fyrir glötuð eða ónýt gögn má sjá í gjaldskrá.
 

Get ég pantað efni frá öðrum bókasöfnum?

Já. Þegar þú tekur frá bækur eða annað efni hér á vefnum þarft þú bara að tilgreina hvert þú vilt sækja; ef efnið er til á einhverju safnanna okkar verður næsta lausa eintak sent á milli.

Sömuleiðis er hægt að fá sendar frátektir frá samstarfssöfnum okkar í Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi, með því að senda frátektarbeiðni á Leitir.is og biðja um afhendingu á eitthvert bókasafnanna okkar.

Loks er hægt að panta millisafnalán fyrir bækur eða annað efni frá bókasöfnum á landsbyggðinni eða utan landsins, sjá nánar í leiðbeiningum um millisafnalán.
 

Tekur Borgarbókasafnið við bókagjöfum?

Nei, því miður getum við ekki tekið við bókagjöfum.