Lán frá öðrum bókasöfnum

Hvað er til ráða ef bókin er ekki til á þínu bókasafni?

Það er alltaf hægt að finna lausn! En hún veltur á eftirfarandi:

Er þetta bók eða rafbók sem hægt er að finna á rafrænu formi?

Þá er ráð að athuga hvort hún sé til á Rafbókasafninu.

Ef þú átt bókasafnskort í gildi hjá Borgarbókasafninu hefur þú aðgang að Rafbókasafninu. Hér má finna leiðbeiningar fyrir innskráningu á Rafbókasafnið. Þar er líka hægt að leggja til að bækur, sem safnið á ekki, verði keyptar inn til útláns. Það getur oft tekið mun skemmri tíma en að fá bók senda landshluta á milli eða lengra að – nánar um það hér fyrir neðan.

Ef þetta á ekki við , þá er í langflestum tilfellum hægt að fá bókina senda í

  • millideildaláni á milli safna Borgarbókasafns, eða frá öðrum almenningsbókasöfnum á Höfuðborgarsvæðinu
  • eða millisafnaláni frá safni utan höfuðborgarsvæðisins

Millideildarlánin eru gjaldfrjáls en gjald er tekið fyrir millisafnalán samkvæmt gjaldskrá.

Er bókin til á öðru safni Borgarbókasafns?

Ef bókin sem þú leitar að er t.d. ekki til í Grófinni en er til í Spönginni, þá er hægur leikur að fá hana senda á milli. Smelltu á „Mínar síður“ hér efst á síðunni til að skrá þig inn og leitaðu svo að bókinni í leitarglugganum þar við hliðina. Þegar þú finnur bókina geturðu valið „Taka frá“ og valið þitt safn sem afhendingarstað.

Keyrt er á milli safnanna á þriðjudögum og fimmtudögum, svo það geta liðið nokkrir dagar þar til bókin berst á þitt safn – og eitthvað lengra ef öll eintök eru í útláni.

Borgarbókasafnið tekur ekkert gjald fyrir þessa þjónustu.

Auðvitað er alltaf hægt að hringja í safnið þar sem bókin er til, eða senda tölvupóst, og biðja um að hún verði send á milli. Sjá símanúmer og netföng allra safna Borgarbókasafns.

Er bókin til á öðru bókasafni á höfuðborgarsvæðinu?

Almenningsbókasöfn á höfuðborgarsvæðinu eru í samstarfi, sem þýðir að ef þú átt skírteini hjá Borgarbókasafninu þá gildir það jafn lengi í bókasöfnum Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness.

Auk þess eru reglulegar ferðir á milli Borgarbókasafnsins, Bókasafns Mosfellsbæjar og Bókasafns Seltjarnarness. Ef bókin sem þú leitar að er til hjá öðru hvoru þeirra, en ekki Borgarbókasafni, er hægur leikur að fá hana senda á milli  og það kostar ekkert aukalega. Til þess getur þú haft beint samband við annað hvort safnanna, eða sent frátektarbeiðni í gegnum Leitir.is og valið eitthvert safn Borgarbókasafnsins sem afhendingarstað.

Ef bókin er eingöngu til á einhverju hinna almenningsbókasafnanna á höfuðborgarsvæðinu, Í Garðabæ, Hafnarfirði eða Kópavogi, þá kostar það ferð á viðkomandi safn. En mundu að ef þú átt bókasafnskort í gildi á Borgarbókasafninu þá gildir það sömuleiðis á þessum bókasöfnum.

Er bókin til á öðru bókasafni utan höfuðborgarsvæðisins?

Ef bókin sem þú leitar að er t.d. bara til í Amtsbókasafninu á Akureyri getur þú fengið hana senda í millisafnaláni til Borgarbókasafns. Þú byrjar á að skrá þig inn á Leitir.is, finnur bókina og velur „Millisafnalán“. Athugaðu að Borgarbókasafnið tekur gjald fyrir hvert millisafnalán samkvæmt gjaldskrá.

Hér eru nánari leiðbeiningar, skref fyrir skref, frá Landskerfi bókasafna.

Er bókin hvergi til á landinu samkvæmt Leitir.is?

Ef bókin sem þú leitar að virðist hvergi vera til geturðu farið á Leitir.is og valið „Millisafnalán“ efst á síðunni. Þá færðu upp form sem þú fyllir inn eftir bestu getu og sendir. Hér þarftu ekki að byrja á að skrá þig inn á Leitir.is, en beiðnir um millisafnalán eru samt sem áður bindandi, og safnið tekur gjald fyrir hvert millisafnalán samkvæmt gjaldskrá.

Útlánstími bóka sem eru fengnar að láni úr erlendum söfnum er oftast þrjár til fjórar vikur.

Hér eru nánari leiðbeiningar, skref fyrir skref, frá Landskerfi bókasafna.

Ef þú vilt spyrja frekar út í millisafnalán getur þú haft samband við þitt safn (sjá símanúmer og netföng allra safna Borgarbókasafns) eða sent okkur fyrirspurn.

Ef bókin er til annarstaðar – en þér finnst að Borgarbókasafnið ætti að eiga hana til!

Þá skaltu láta okkur vita. Sendu endilega innkaupatillögu, við förum yfir allar tillögur sem berast og látum vita ef og þegar bókin (eða diskurinn eða platan eða hvað sem það nú er) verður keypt inn.