Framtíðarbókasafnið

Höfundur myndar Elín Elísabet

Borgarbókasafnið hefur á síðustu árum unnið að því að móta og hrinda í framkvæmd nýrri framtíðarsýn, þar sem bókasöfn eru menningar- og samfélagsmiðjur í hverfum borgarinnar. Nútímabókasafn kallar á rúmgott og bjart rými fyrir fólk til að koma saman og dvelja á safninu, athvarf fyrir einstaklinga og fjölskyldur, stað þar sem allir geta dvalið á sínum forsendum og haft jafnt aðgengi að fjölbreyttu rými, upplifun og upplýsingum óháð samfélagsstöðu eða þjóðerni.

Samfélagsleg nýsköpun er að ryðja sér til rúms í meira mæli og kemur ekki aðeins fram í endurbótum á þjónustu heldur einnig í leiðum til að koma til móts við þarfir samfélagsins og í stuðningi borga við umhverfi sem hvetja til samveru og þátttöku. Bókasöfn gegna þar lykilhlutverki og borgir um allan heima hafa verið, eða eru, að efla þeirra starf og endurbæta eða jafnvel byggja alveg ný bókasöfn sem verða samfélagsmiðjur hverfa og borga.

Kynning um framtíðarbókasafnið var haldin á opnum fundi Menningar-, íþrótta og tómstundaráðs í Ráðhúsi Reykjavíkur þann 12. nóvember 2018. Þar lagði Borgarbókasafnið fram þrjár mögulegar leiðir að framtíðarbókasafni borgarbúa. Sjá greinagerð hér.

Í greinargerðinni er hægt að sjá dæmi um þróun bókasafna erlendis en hér fyrir neðan getur þú skoðað myndband sem sýnir nokkur skemmtileg dæmi. 

Markmiðið Borgarbókasafnsins er að þróa söfnin þannig að þau þjóni betur þörfum íbúa Reykjavíkur og veiti þeim aðstöðu til jafns við það sem er að gerast erlendis. 

Borgarbókasafnið vinnur eftir notendamiðaðri hönnun og í aðgerðaáætlun þjónustustefnu er markvisst leitað til notenda, t.d. í gegnum vinnu með rýnihópum, vefumræðuborðum, gestakönnunum o.fl. 17 hugmyndaríkir krakkar tóku þátt í hugmyndasmiðju um framtíðarbókasafnið og sérstakt flugráð var haldið í maí 2018. Samantekt úr undangenginni vinnu ásamt Þjónustustefnu Borgarbókasafnsins 2017-2020 var dregin saman fyrir þátttakendur í flugráðinu sem innblástur fyrir vinnuna. Samantektin innihélt lykilspurningar um þarfir notenda og væntingar starfsfólks, ásamt innsýn í hvernig bókasöfn eru að þróast í heiminum í dag, bæði hvað varðar hönnun og hjartsláttinn í söfnunum.

Markmiðið með vinnu flugráðs var að til yrðu hugmyndir og leiðir að framtíðarsýn fyrir hús orðsins í Grófinni og nærumhverfi þess.

Flugráð lykilorð

Vinna undanfarinna mánaða og afrakstur flugráðs leggur mikilvægan grunn að endurhönnun og umbreytingu hússins. Í því felst stórt tækifæri fyrir borgarbúa til þess að eignast sitt framtíðarbókasafn, hús allra þessara orða og gjörða. Í þjónustustefnu Borgarbókasafnsins 2017-2020 er yfirmarkmiðið að skapa heildræna og nútímalega þjónustuupplifun til framtíðar. Við stækkun og eflingu Borgarbókasafnsins í Grófarhúsi gefast einnig fjölmörg tækifæri til að víkka hlutverk safnsins og hússins út sem lifandi samfélagsmiðju og fjölbreytts menningar-, margmiðlunar-, sköpunar-, lýðræðis-, barna- og bókahúss fyrir alla borgarbúa, ásamt því að bæta mögulega við grunn borgaraþjónustu - nú eða nýsköpunarrými fyrir borgina. Bókasöfn geta verið vettvangur í þeirri samfélagslegu nýsköpun sem þarf að eiga sér stað á tímum hraðra breytinga.

Mynd efst á síðu er eftir Elínu Elísabetu