Samþykkt fyrir Borgarbókasafn Reykjavíkur

I. KAFLI

Um stjórnun safnsins og verksvið þess.

1. gr.

Borgarbókasafn Reykjavíkur er í eigu Reykjavíkurborgar. Menningar- og íþróttaráð Reykjavíkur fer með hlutverk stjórnar safnsins og gerir tillögur til borgarráðs um stefnumörkun í málefnum þess, hefur eftirlit með rekstri og að samþykktum og stefnu sé fylgt. Stjórn Borgarbókasafns er að öðru leyti í höndum borgarbókavarðar.

Rekstrarkostnaður safnsins greiðist úr borgarsjóði í samræmi við starfs- og fjárhagsáætlun ár hvert. Borgarbókasafn er ekki rekið í hagnaðarskyni.

2. gr.

Borgarbókasafn Reykjavíkur starfar í samræmi við gildandi bókasafnalög nr. 150/2012 og Yfirlýsingu UNESCO og Alþjóðasamtaka bókasafna (IFLA) um almenningsbókasöfn frá 2022.

Undir Borgarbókasafn Reykjavíkur heyra bókasöfnin í Árbæ, Gerðubergi, Grófinni, Klébergi, Kringlu, Sólheimum, Spöng og Úlfarsárdal.

3. gr.

Borgarbókasafn Reykjavíkur er alhliða upplýsinga- og menningarstofnun og meginhlutverk þess er að jafna aðgengi að menningu og þekkingu. Lögð er áhersla á gott aðgengi borgarbúa á öllum aldri að þjónustu, aðstöðu, fræðslu og viðburðum. Borgarbúar skulu eiga greiðan aðgang að þeim bókasöfnum sem undir safnið heyra í hverfum borgarinnar auk annarrar þjónustu safnsins sem borgaryfirvöld kunna að ákveða á hverjum tíma. Afgreiðslutíma skal miða að þörfum notenda á hverjum starfsstað.

Helstu verkefni Borgarbókasafns Reykjavíkur eru:

  1. Að bjóða upp á vandaða upplýsingaþjónustu, aðstöðu, viðburðadagskrá og vel samsettan safnkost fyrir almenning sem endurspeglar sem flest sjónarmið. Nýta til þess nýjustu þekkingu, miðlunarleiðir og tæknibúnað á hverjum tíma.
  2. Að bjóða upp á vandaða og fjölbreytta menningarstarfsemi fyrir notendur.
  3. Að vera leiðandi í kynningu á bókmenntum og bókmenntatengdum viðburðum og að standa fyrir verkefnum sem hvetja til lestrar og lestrarsamveru í öllum aldurshópum og stuðla að læsi í víðri merkingu þess orðs.
  4. Að sinna menningaruppeldi barna og ungmenna með fræðslu og skapandi starfi.
  5. Að sinna samstarfsverkefnum á sviði inngildingar og samfélagslegrar þátttöku sem auka víðsýni og skilning í samfélaginu.
  6. Að bjóða notendum að nýta aðstöðu Borgarbókasafnsins til samveru, viðburðahalds, innblásturs, lærdóms og virkrar þátttöku.
  7. Að stunda eftir föngum rannsóknir sem tengjast megináherslum í starfsemi stofnunarinnar.
  8. Að vera leiðandi í samstarfi almenningsbókasafna á Íslandi og innleiða bestu lausnir sem þekkjast alþjóðlega í þjónustu og starfsemi bókasafna.
  9. Að hafa á að skipa ánægðu og hæfu starfsfólki.
  10. Að hafa hagkvæma nýtingu og stýringu fjármuna að leiðarljósi við rekstur stofnunarinnar.
  11. Borgarbókasafn Reykjavíkur skal setja sér stefnu, leiðarljós og markmið fyrir starfsemi og rekstur og fylgja eftir með aðgerðaáætlun.

4. gr.

Starfsstaðir Borgarbókasafnsins skulu vera opnir almenningi á auglýstum tímum. Stofnunin og starfsemi hennar skal kynnt almenningi, og nemendum í samráði við skólayfirvöld í Reykjavík.

Borgarbókasafni Reykjavíkur er heimilt að taka gjald fyrir bókasafnskort og aðra veitta þjónustu í samræmi við gildandi bókasafnalögum nr. 150/2012. Gjöld skulu innheimt samkvæmt staðfestri gjaldskrá. Allur arður af starfseminni rennur til stofnunarinnar sjálfrar.

5. gr.

Sviðsstjóri menningar- og íþróttasviðs ræður borgarbókavörð til fimm ára í senn að viðhöfðu samráði við menningar- og íþróttaráð. Borgarbókavörður skal ef þess er kostur, hafa sérfræðimenntun á sviði bókasafns- og upplýsingafræða og þekkingu á starfsemi og rekstri bókasafna. Starfið skal auglýst samkvæmt ákvæðum í 75. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. Sviðsstjóri getur ákveðið að framlengja ráðningu borgarbókavarðar til fimm ára í senn að höfðu samráði við menningar- og íþróttaráð. Borgarbókavörður ber ábyrgð á faglegri starfsemi stofnunarinnar; útlána- og upplýsingaþjónustu, viðburðum, fræðslu og miðlun. Hann ber einnig ábyrgð á endurnýjun og viðhaldi safnkosts og búnaðar.

6. gr.

Borgarbókavörður veitir borgaryfirvöldum ráðgjöf varðandi bókasafns- og upplýsingamál.

 

II. KAFLI

Safnkostur. Aðföng og grisjun.

7. gr.

Borgarbókavörður ber ábyrgð á uppbyggingu safnkosts, aðföngum (innkaupum, gjöfum) og grisjun. Borgarbókavörður getur skipað teymi innan safnsins sem sjá um uppbyggingu safnkosts í samræmi við stefnu safnsins á hverjum tíma. Almenningur getur lagt fram tillögur um innkaup sem lagðar eru fyrir teymið. Safnkostur er við það miðaður að safnið þjónar öllum almenningi.

Borgarbókavörður tekur ákvörðun um gjafir sem safninu eru boðnar og metur hvort þær skuli þegnar. Almennt skal ekki taka við gjöfum sem kvaðir fylgja.

 

III. KAFLI

Heimild til að setja á stofn styrktarfélag.

8. gr.

Heimilt er að stofna styrktarfélag við Borgarbókasafn Reykjavíkur. Skal aflafé þess sett í sérstakan sjóð og varið til afmarkaðra verkefna. Slíkt fé skal ekki dragast frá þeirri fjárhæð, sem er árlega ætluð til starfsemi safnsins í fjárhagsáætlun borgarinnar.

Samþykkt í menningar- og íþróttaráði 13. júní 2025.
Jafnframt fellur þá úr gildi samþykkt fyrir Borgarbókasafn Reykjavíkur sem samþykkt var í borgarstjórn 20.janúar 2015

Samþykkt þessi tekur gildi 25.06.2025
Samþykkt í borgarstjórn Reykjavíkur 25.06.2025