Fjölskyldumorgnar

Fjölskyldumorgnar eru notalegar stundir þar sem þeim sem eru með ung börn gefst tækifæri á að hittast, leika, lesa og syngja saman með ungviði sínu og skiptast á sögum um lífið, tilveruna og auðvitað börnin. Stundum er boðið upp á fræðsluerindi um börn og uppeldi en einnig á bókasafnið mikið af forvitnilegum og fræðandi bókum og tímaritum tengdu efninu sem hægt er að glugga í á staðnum eða fá lánað heim ef þú átt bókasafnskort.
Auðvitað er líka mikið úrval af barnabókum!

Stundirnar eru hugsaðar fyrir fjölskyldur með ungabörn og börn á leikskólaaldri.

Góð skiptiaðstaða er á öllum söfnunum og alltaf heitt á könnunni.

Fjölskyldumorgnarnir eru í Grófinni, Gerðubergi og Úlfarsárdal, einu sinni í viku á hverju safni. Hér fyrir neðan má lesa nánar um stundirnar.

 

Fjölskyldumorgnar | Krílastundir í Grófinni

Alla fimmtudaga kl. 10:30 – 11:30

Notalegar samverstundir með yngstu börnunum þar sem við leikum, lesum og spjöllum saman. Klukkan 11 býður starfsmaður upp á söngstund fyrir börnin.

Staðsetning: 2.hæð - barnadeild

 

 

Fjölskyldumorgnar | Viltu vera Memmm í Gerðubergi?

Alla miðvikudaga kl. 10 – 12

Memmm býður upp á fjölskyldumorgna, opinn leikskóla Memmm Play þar sem við syngjum, leikum og lærum saman.

Memmm eru félagasamtök sem vinna að fjölskylduvænna samfélagi. Þar vinna áhugasamir einstaklingar að því að skapa tækifæri fyrir fjölskyldur til þess að njóta samveru og gæðastunda á fjölbreyttan hátt. Komdu og vertu Memmm!

 

 

Fjölskyldumorgnar | Krúttleg stund í Krílahorninu Úlfarsárdal

Alla þriðjudaga kl. 10:30 – 11:30

Fjölskyldumorgnarnir í Krílahorninu eru óformlegar samverustundir með yngstu kynslóðinni þar sem börnin una við leik og fullorðna fólkið spjallar um daginn og veginn. Krílahornið er svæði í stöðugri þróun og tökum við gjarnan við hugmyndum um það hvernig við getum gert enn betur.

Hægt er að hita pela á bókasafninu.

 

Morgunstund með barnabörnunum

Fjölskyldumorgnar | Morgunstund í Grófinni með barnabörnunum

Alla mánudaga kl. 10:00 - 11:00

Ömmur, afar og barnabörn eru velkomin í samverustund í barnadeild Grófarinnar á mánudagsmorgnum. Morgunstundin er hugsuð sem tækifæri til að kynnast öðrum, deila reynslu og eiga góða stund. Heitt á könnunni og tilvalið að grípa nokkrar barnabækur í leiðinni.

Staðsetning: 2.hæð - barnadeild