Öll velkomin í sögustund
Sögustundir fyrir vini og fjölskylduna
Við bjóðum reglulega upp á sögustundir sem eru opnar öllum í söfnunum okkar síðdegis á virkum dögum og um helgar. Við hvetjum fjölskyldur og öll hin til að mæta og eiga saman notalega stund í hlýlegu umhverfi. Eftir sögustundina bjóðum við upp á föndur, spjall eða eitthvað annað skemmtilegt til að gera samverustundina eftirminnilega.
Sjáið hvaða sögustundir eru á dagskrá í viðburðadagatalinu okkar.
Sögustund á náttfötunum
Í Sólheimum bjóðum við fjölskyldum og börnum að mæta á náttfötunum með uppáhalds tuskudýrið sitt og hlusta á skemmtilega sögu fyrir svefninn. Sögustundirnar eru annan fimmtudag í mánuði kl. 18:30-19:30 september - apríl. Skráning er nauðsynleg þar sem það eru takmörkuð pláss.
Sjáið hvaða sögustundir á náttfötunum eru á dagskrá í viðburðadagatalinu okkar. Skráningarform er að finna inn í hverjum viðburði fyrir sig.
Langar þig að halda sögustund á þínu tungumáli?
Í Söguhorninu gefst tækifæri til þess að bjóða upp á eigin sögustund fyrir gesti safnsins. Þú velur sögurnar, tungumálið, bókasafnið og tímasetningu, bókar rýmið og býður þeim sem þú vilt að komi og njóti samverustundarinnar með öðrum gestum safnsins.
Sögustund heima í stofu
Við hvetjum foreldra og aðra fullorðna til þess að gefa sér stund til að setjast niður og lesa með börnunum. Lestarstund með börnunum er dýrmæt samverustund sem styrkir tengsl, eflir orðaforðann og þannig hlúum við að lestaruppeldi barnanna sem er grunnurinn að leik og námi.
Borgarbókasafnið hefur framleitt skemmtileg sögustundarmyndbönd í gegnum tíðina. Á rás Borgarbókasafnsins er að finna sögustundir á íslensku með Sólu sögukonu og Starínu og Sigrúnu Eldjárn og einnig sögustundir á pólsku, spænsku og litháísku.