Um Stofuna

Hvað er Stofan | A Public Living Room?

Einu sinni í mánuði er stofan opnuð af samstarfsaðila sem hefur hannað rýmið eftir sínu höfði.  Opnun stofunnar hefst með samtali við aðila að eigin ósk.  Í hvert skipti sem stofan er opnuð er upphafssamtalið tekið upp og notað í hlaðvarp, sem  gerir samskiptin í stofunni aðgengilegri fleiri notendum. 

Stofan er tilraunakenndur staður – samfélagsrými eins og bókasafnið gæti verið. Þetta er staður sem býður notendum að tengjast öðrum, finnast þau vera hluti af samfélaginu á eigin forsendum, taka þátt sem borgari á jafnréttisgrundvelli og eiga í samskiptum sem takmarkast ekki við tungumálakunnáttu. Í samtölum í Stofunni er höfðað til allra skynfæra þegar umhverfið, hugmyndir og skilningur eru könnuð.
 

Hvernig er Stofan | A Public Living Room?

Hreyfanleiki er hluti af eðli stofunnar, sem er ekki bundin við eina staðsetningu heldur getur birst í ólíku umhverfi – jafnt innan- sem utandyra.

Ár hvert er hópi notenda boðið til skapandi samstarfs í þróun dagskrár Stofunnar í kringum ákveðið þema:

  • 2021-22: Samfélagsrými sköpuð 
  • 2022-23:  Ólíkar samskiptavíddir kannaðar
  • 2023-24: Not og gildi safnsins í dag og daganna sem koma skulu

Í byrjun er verkefnið kynnt mögulegum samstarfsaðilum og þeim boðið að taka þátt í tveimur hugarflugsfundum. Á fyrri hugarflugsfundi er verkefnið, eðli samstarfsins og áhersla kynnt og mögulegar hugmyndir/kringumstæður rýndar. Á seinni hugarflugsfundi kynna samstarfsaðilar mögulegar útfærslur í dagskrárgerð, hugmyndum er kastað á milli og aðilar kynnast betur innbyrðis. Hver samstarfsaðili hittir verkefnastjóra til að kanna kringumstæður og undirbúa rými. Gert er ráð fyrir tveimur undirbúningsfundum fyrir hverja opnun.

 

Af hverju er Stofan | A Public Living Room á bókasafninu?

Stofan er vettvangur bókasafnsins til að prófa sig áfram í samsköpun í dagskrárgerð og þróun rýmisins með nýjum notendum til að þróa fjölbreyttari dagskrá og eftirsóknarverðari stað fyrir fleiri.