Kíkið í heimsókn með börnin

Allir dagar eru heimsóknardagar! 

Borgarbókasafnið er samkomustaður fjölskyldunnar. Við bjóðum börnum og fjölskyldum upp á fjölbreytta dagskrá allt árið um kring – alls konar smiðjur, sumarlestur, páskabingó, jólaföndur og allt þar á milli! Á safninu má finna innblástur, taka þátt í spennandi viðburðum, skoða skemmtilegar sýningar og örva bæði (les-)andann og sköpunarkraftinn. Kíkið á viðburðadagskrána.

Uppáhaldsstaður fjölskyldunnar

Líður þér best í notalegheitunum í Sólheimum? Viltu vetrarsólina í Spönginni? Við hvetjum fjölskyldur til þess að flakka á milli allra menningarhúsa Borgarbókasafnsins sem hvert og eitt hefur sinn sjarma. Svo er um að gera að heimsækja hverfissafn fjölskyldunnar reglulega. Á söfnunum okkar er margt við að vera; bækur fyrir alla, tímarit, tónlist og kvikmyndir, auk þess sem við drögum reglulega fram skemmtileg spil, leikföng og spennandi búninga. Stundum er bara betra að vera ugla! Eða skrímsli! 
 

Lesa, læra, leika? 

Þegar krakkarnir hafa aldur til eru þau velkomin í heimsókn á eigin vegum, eftir skóla eða um helgar. Á Borgarbókasafninu er ýmislegt í boði fyrir krakka og bókasafnið er skemmtilegur samverustaður fyrir vini, þar sem hægt er að dunda sér við lestur, föndur, spil eða allt eftir því sem boði er hverju sinni. Verkstæðin eru spennandi staður til þess að fikta sig áfram. Svo er auðvitað um að gera að taka heimanámið með og klára það í ró og næði á bókasafninu, eða vinna hópverkefni. 


Hvað viltu lesa næst? 

Við leggjum áherslu á læsi í mjög víðu samhengi og hvetjum foreldra og börn til þess að nýta sér aðstoð bókavarðanna okkar til þess að finna skemmtilegt og spennandi lesefni fyrir krakkana. Það er um að gera að leyfa þeim að ráða ferðinni og finna hvar áhugi þeirra liggur þegar kemur að vali á lestrar- og afþreyingarefni. Börn þurfa að verða læs á marga vegu, svo sem á texta, myndir, tækni og menningu. 


Ókeypis skemmtun!

Börn að 18 ára aldri fá ókeypis bókasafnskort og fullorðna fólkið getur valið á milli þess að kaupa bókasafnskort eða Menningarkortið sem gildir einnig í Borgarsögusafni og Listasafni Reykjavíkur. Bókasafnskortið gildir líka í Rafbókasafninu