
Um þennan viðburð
Sýning | Skissur verða að...bókum! Bergrún Íris
Í þessari sýningu getur þú séð inn í töfrandi heim barnabókanna. Myndhöfundar leyfa okkur að fylgjast með hugmyndavinnu og skissugerð sem að lokum verða að fullsköpuðum myndum í barnabókum.
Mynd- og rithöfundurinn Bergrún Íris Sævarsdóttir sýnir skissu- og hugmyndaferlið á bak við nokkrar af bókunum sínum. Meðal verka á sýningunni eru skissur úr hennar fyrstu bók, Vinur minn, vindurinn, sem kom út árið 2014 og var tilnefnd til Barna- og unglingaverðlauna Norðurlandaráðs sem og Fjöruverðlaunanna. Aðrar bækur eru til dæmis Töfralandið, Langelstur í bekknum og hinar sívinsælu bækur um Freyju og Fróða sem Bergrún skapaði ásamt rithöfundinum Kristjönu Friðbjörnsdóttur. Á sýningunni fá áhorfendur innsýn inn í marglaga starf höfundar sem bæði skapar orð og myndir.
Mynd- og rithöfundurinn Bergrún Íris Sævarsdóttir er fædd árið 1985 og býr í Hafnarfirði ásamt fjölskyldu sinni. Bergrún útskrifaðist með BA gráðu í listfræði úr Háskóla Íslands 2009, lauk diplómanámi í teikningu frá Myndlistaskólanum í Reykjavík vorið 2012 og sótti sumarskóla í barnabókagerð í Anglia Rushkin, Cambridge School of Art. Bergrún Íris hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir verk sín, meðal annars Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og unglingabóka, Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur og Vest-Norrænu barnabókaverðlaunin.
Boðið verður uppá smiðju í tengslum við sýninguna.
Nánari upplýsingar veitir:
Guðrún Elísa Ragnarsdóttir, verkefnastjóri
gudrun.elisa.ragnarsdottir@reykjavik.is | 411 6145