Jólasveinarnir koma í Grófina og ná í dót í skóinn
Við vitum að jólasveinum er umhugað um náttúruna, enda jú búsettir í fjöllunum með gömlu hjónunum Grýlu og Leppalúða. Okkur langar því að hjálpa þeim, með aðstoð gesta bókasafnsins, að gefa börnum umhverfisvænni gjafir í skóinn.
Hjálparhelluborð í Grófinni
Á Borgarbókasafninu í Grófinni hefur verið komið upp hjálparhelluborði fyrir jólasveinana þar sem hægt að koma með dót sem börnin leika sér ekki lengur með, t.d. lítil púsl, pez kalla, litla bíla, bangsa eða hvað eina sem til fellur, er hreint og í heilu lagi. Tilvalin samverustund foreldra og barna, hlusta á jólalög og fara saman í gegnum dótið og ákveða hverju skal halda og hvað má gefa jólasveininum, til að gefa öðrum börnum. Hjálparhelluborðið er við afgreiðsluna á Borgarbókasafninu Grófinni.
Jólasveinunum er síðan boðið að laumast í hjálparhelluborðin og taka sér það sem þeir halda að muni nýtast vel í skóinn.
Þannig græða öll; börnin sem gefa dótið sitt læra um hringrásarhagkerfið og umhverfisvernd og jólasveinarnir fá gefins dót til að gefa áfram og minna rusl endar í náttúrunni.
Bækur í skóinn handa litlum bókaormum
Þá minnum við sveinkana líka á að þeir geta fengið lánaðar bækur á bókasafninu til að setja í skóinn hjá börnum sem sofa vært. Þeir verða bara að muna að láta fylgja með miða þar sem þeir biðja börnin um að skila bókunum fyrir sig. Það er mjög mikilvægt því jólasveinarnir eru ekki með tölvur og netfang og því ekki hægt að senda þeim áminningartölvupóst um skiladag.
Nokkrar fleiri umhverfisvænar tillögur að skógjöfum fyrir bræðurna þrettán:
- Piparkökuhús til að setja saman og skreyta.
- Vasaljós til að fara með í ævintýralega kvöldgöngu t.d. Í Öskjuhlíðinni.
- Kakóbréf til að hafa heitan drykk með í brúsa í kvöldgönguna.
- Gömul (barna) tímarit og skæri til að klippa út og föndra úr.
- Gjafabréf fyrir kakóbolla á kaffihúsi.
- Bókasafnskort (ókeypis fyrir börn).