Grænir fingur og umhverfið
Græna bókasafnið
Öll átta söfn Borgarbókasafnsins eru með fjórða græna skrefið, viðurkenningu Reykjavíkurborgar fyrir vistvænar áherslur, en bókasafnið hefur um árabil lagt mikið upp úr því að vera umhverfisvæn stofnun.
Starfsemi bókasafna er auðvitað í eðli sínu umhverfisvæn, en græn gildi Borgarbókasafnsins endurspeglast ekki einungis í hringrás safnkostsins heldur einnig á bakvið tjöldin, í viðburðahaldi og umgjörð hvers safns fyrir sig.
Hvað þýðir að vera grænt safn?
Söfnin átta hafa hvert sína sérstöðu og gera hlutina með sínu nefi en eiga það sameiginlegt að nota öll „umhverfisgleraugun“ í hvívetna.
Í Gerðubergi er starfsfólk duglegt við að gera tilraunir með ræktun af öllu tagi og fer það ekki framhjá þeim sem nota safnið. Þar er meðal annars að finna dásamlegan plöntuskiptimarkað þar sem hægt er að koma með afleggjara og plöntur eða taka með sér heim.
Borgarbókasafnið Árbæ er með plöntuskiptimarkaði nokkrum sinnum á ári og skiptimarkaðir af ýmsum öðrum toga poppa reglulega upp á söfnunum. Föndurviðburðir á söfnunum eru oftar en ekki umhverfisvænir og er viðburðaröðin Tilbúningur gott dæmi um það, en Tilbúningur er á dagskrá bæði í Árbæ og Spönginni.
Í Grófinni, Gerðubergi, Kringlunni og Úlfarsárdal er Hringrásarsafnið þar sem hægt er að fá ýmis gagnleg tól og tæki að láni, frábær kostur í stað þess að kaupa allt, sem svo kannski er bara notað einu sinni eða tvisvar.
Nýjasta æðið á bókasafninu er svo Fræsafnið sem er sem nú staðsett fimm söfnum Borgarbókasafnsins, í Árbæ, Gerðubergi, Grófinni, Sólheimum, Spönginni og Úlfarsárdal. Öllum er frjálst að næla sér í ókeypis fræ á Fræsafninu og þau sem vilja geta komið með afgangs fræ og gefið í Fræsafnið.
Sem dæmi um græna viðburði gafst börnum og fullorðnum nýlega tækifæri að fræðast um hvernig ormar búa til mold og allt um inniræktun. Haldin var borðspila- og púslskiptimarkaður við góðar undirtektir og við bjuggum til fallegar luktir úr gömlum krukkum.
Næst á dagskrá er að læra allt um grasalækningar og jurtalitun, breyta gömlum flíkum í nýjar, smiðja þar sem við búum til lífríki í krukkum og svo munum við hittast og búa til hótel fyrir pöddur svo eitthvað sé nefnt.
Viðburðir framundan
Við höldum áfram að bjóða upp á fjölbreytta viðburði og samverustundir fyrir almenning á öllum söfnum okkar. Hér má skoða viðburðadagatalið.
Og hér má nálgast yfirlit yfir þá viðburði framundan sem flokkast undir Græna bókasafnið