Safnfræðsla fyrir 8-12 ára

Við bjóðum 8-12 ára börnum í heimsókn ásamt kennara að kynnast safninu og starfsemi þess með því að koma í heimsókn á safnið í hverfinu sínu. 

Bókasnakk | fræðsla að vori
Við bjóðum börnunum í kynningu og spjöllum við þau um nýjar og áhugaverðar bækur. Börnin fá smá smakk á öllu því sem okkur finnst mest spennandi fyrir þau í þeim tilgangi ýfa upp lestrarhungrið fyrir sumarið.  Í kjölfarið kynnum við sumarlestur safnsins og í lok kynningarinnar skoðum við saman barnadeild safnsins þar sem við sýnum þeim bækur og hjálpum þeim að finna eitthvað skemmtilegt að lesa.

Fjársjóðsleit | fræðsla að hausti
Við förum á vit ævintýranna og ímyndum okkur að við séum að leita að fjársjóði... eða hvað? Bókasöfnin eru full af spennandi fjársjóðum og í þessari safnfræðslu fá börnin tækifæri til að læra að finna sína fjársjóði í safninu með skemmtilegum ratleik. Með ratleiknum læra börnin á uppbyggingu og kerfi safnsins og hvaða ótal möguleika söfnin hafa upp á að bjóða. 

Við hvetjum kennara allra skólastiga til að kynna sér hvað menningarhús Borgarbókasafnsins hafa upp á að bjóða og hafa heimsóknir á bókasafnið sem fastan lið í kennslunni. Söfnin eru sannkallaðir griðastaðir fyrir börn þar sem þau geta leitað eftir afþreyingu, hitt vini sína, unnið heimavinnuna eða tekið þátt í skapandi verkefnum.

Nánari upplýsingar um safnfræðsluna veita barnabókaverðir á hverjum stað.
Hægt er að senda fyrirspurnir á fraedsla@borgarbokasafn.is

Verkefnastjóri barnastarfs er Ingibjörg Ösp Óttarsdóttir, ingibjorg.osp.ottasrsdottir@reykjavik.is