Aðstaða í Grófinni

Á 1. hæð blasir við hið bjarta Bókatorg þar sem hægt er að sækja innblástur í nýjustu bækurnar og annað áhugavert efni sem þar er stillt út, gjarnan í tengslum við umræðuna í samfélaginu og uppákomur ýmiss konar. Bókatorgið hentar vel til viðburðahalds, s.s. fyrir móttökur, tónleika og kynningar. Stærðin er 64 fermetrar, opið, bjart og hátt til lofts.

Í Artótekinu er mikið úrval listaverka eftir samtímalistamenn, sem notendur geta leigt tímabundið eða fest kaup á. 

Á 1. hæðinni er ókeypis aðgengi að tölvum auk þess sem hægt er að koma sér vel fyrir og lesa dagblöð, tímarit eða annað efni. Notendur geta fengið að ljósrita, prenta eða skanna gögn gegn vægu gjaldi.

Torgið – á 1. hæðinni er breytanleg aðstaða fyrir notendur þar sem hægt er að læra, vinna saman í hópavinnu, halda fundi, tylla sér niður, kíkja í tímarit og bækur, hitta fólk og sinna sínum hugðarefnum. Hægt er að bóka Torgið til eigin afnota en viðburðir á vegum safnsins ganga fyrir í rýminu. Þegar Torgið er ekki bókað vegna viðburða er öllum velkomið að nota plássið að vild og raða húsgögnum upp eftir eigin þörfum. Notendur sjá sjálfir um að raða upp á þann hátt sem hentar og ganga frá eftir sig að notkun lokinni. 

Á 2. hæð er að finna íslensk og erlend skáldrit og gott úrval ljóðabóka. Þar er einnig að finna Handavinnuhornið þar sem tilvalið er að tilla sér niður, glugga í bækur og tímarit, í leit að innblæstri að næsta handavinnuverkefni.

Á hæðinni er notaleg barnadeild þar sem börn og fjölskyldur þeirra geta átt góðar samverustundir við lestur, leik og spilamennsku. Í Hringnum við barnadeildina er oft boðið upp á myndlistarsýningar og skemmtilegar útstillingar á safnkosti.

Á fimmtu hæðinni er sérhannað rými fyrir unga fólkið. Glæsileg myndasögudeild með fjölbreyttu efni, góðu úrvali af tónlist og kvikmyndum; geisladiskum, hljómplötum, nótum, myndböndum og mynddiskum auk bóka og tímarita. Þar er einnig hlaðvarpsstúdíóið Kompan og tónlistar- og myndvinnsluver þar sem notendur hafa ókeypis aðgang að fjölbreyttum forritum, tækni og tólum tengdum tónlist og myndvinnslu. Þarna er einnig að finna úrval fræðibóka þar sem grúskarar geta fundið allt milli himins og jarðar.

Á fimmtu hæðinni er líka hægt að læra í rólegheitum og njóta útsýnis yfir sjóinn og að Esjunni.

Sýningar- og viðburðahald í Grófinni

Listamenn geta lagt inn umsókn um sýningarhald  eða umsókn um viðburð. Sýningarteymi Borgarbókasafnsins fundar reglulega til að fara yfir og svara umsóknum sem berast. Sýningarteymi áskilur sér rétt til að leggja línur og móta sýningarhald Borgarbókasafnsins út frá áherslum í viðburðadagskrá á hverjum tíma og velur úr umsóknum í samræmi við þær. Deildarstjórar Borgarbókasafnsins taka afstöðu til umsókna um viðburðahald.

Sjá yfirlit yfir aðstöðu í menningarhúsum Borgarbókasafnsins.

Nánari upplýsingar veitir Barbara Guðnadóttir, safnstjóri í Grófinni
barbara.gudnadottir@reykjavik.is