Hópaheimsóknir í Grófina

Borgarbókasafnið Grófinni tekur á móti stórum hópum og smáum í leiðsögn um húsið. Allir hópar eru hjartanlega velkomnir en kennarar í efstu bekkjum grunnskóla, framhaldsskólakennarar og þau sem kenna íslensku sem annað mál eru sérstaklega hvött til að koma með nemendur sína í vettvangsferð á safnið.  

Hægt er að fá leiðsagnir á íslensku og ensku en einnig á pólsku, frönsku og spænsku fyrir smærri hópa.

Í heimsókninni fræðast gestir almennt um Borgarbókasafnið;
- að það sé á átta stöðum í Reykjavík.
- að öll séu velkomin alltaf og að ekki þurfi að eiga bókasafnskort til að njóta þar góðra stunda.
- að þar sé tilvalið að hanga með góðum vinum til að læra saman, spila, sinna hannyrðum eða hvaðeina sem gesti langar til að gera.
- að á safninu séu fjöldi ókeypis viðburða í hverri viku; tónleikar, föndur, fræðsla, smiðjur og ótalmargt fleira, fyrir börn og fullorðna.
- að bókasafnið sé opið áhugasömum til að halda sína eigin viðburði.
- að börn undir 18 ára fái ókeypis bókasafnskort.

...og ýmislegt fleira.  
 
Þá er rölt um safnið og gestum sýndur safnkosturinn og aðstaðan. Auk fjölbreytts bókakosts á íslensku og ensku á Borgarbókasafnið einnig ágætt safn barna –og fullorðinsbóka á öðrum tungumálum. Einnig geta korthafar fengið lánaða dvd, geisladiska og vínilplötur auk þess sem safnið á mikið af borðspilum til að spila á staðnum eða fá lánuð heim. Þá nýtur teiknimyndasöguhornið (comics) fyrir lengra komin ávallt mikilla vinsælda. Einnig er í Grófinni hlaðvarpshljóðver (podcast studio) og vel tækjum búið tónlistar - og myndvinnsluver sem korthafar geta notað sér að kostnaðarlausu.   

Æskilegt er að ekki séu fleiri en 30 í hverjum hópi.   

Aðgengi í Grófinni er gott, lyftur á milli hæða og vel rúmt á milli bókahillna. Salerni fyrir fatlaða er á fyrstu hæð. 

Samgöngur: Strætó númer 14 stoppar á Geirsgötu við Listasafn Reykjavíkur/Hafnarhúsið en einnig er Lækjartorg aðeins 5 mínútna gangur frá Grófarhúsinu. Tvö bílastæði fyrir fatlaða eru við aðalinnganginn, á milli bókasafnsins og Listasafns Reykjavíkur.


Fyrir nánari upplýsingar og bókanir:
Hildur Björgvinsdóttir | verkefnastjóri viðburða og fræðslu 
hildur.bjorgvinsdottir@reykjavik.is |  411-6122