Aðgengi | Borgarbókasafnið Grófinni
Almenningssamgöngur
Hægt er að taka strætó í miðbæinn úr öllum hverfum borgarinnar. Þægilegt er að fara úr við stoppistöðina við Lækjartorg og tekur um 3-5 mín að ganga þaðan að safninu. Strætó nr. 14 (stoppistöð Hafnarhús) stoppar einnig nálægt bókasafninu. Sjá nánar á straeto.is.
Hjólastæði
Til hliðar við innganginn er að finna 8 stæði fyrir reiðhjól.
Bílastæði og inngangur
Bílastæði er m.a. að finna aftan við húsið á gjaldsvæði 1 og einnig er bílastæði á gjaldstæði 2 við höfnina, auk þess sem bílastæðahús eru við Vesturgötu í Grjótaþorpinu, sem notar Easypark greiðsluappið, og við Hafnartorg, sem notar Parka greiðsluappið.
Tvö bílastæði fyrir hreyfihamlaða er að finna beint fyrir framan innganginn að safninu. Engir þröskuldar eru við inngang á safnið. Hægt er að fá hjólastól lánaðan til að nota á safninu. Starfsfólk við þjónustuborð aðstoðar gjarnan.
Við hvetjum öll, sem eiga þess kost, að nýta sér vistvænar samgöngur.
Lyftur
Húsið er á sex hæðum, þar af er bókasafnið á 1., 2. og 5. hæð. Skrifstofa safnsins er á 4. hæð. Lyftur eru á tveimur stöðum í húsinu. Stigagang og lyftu er að finna til hægri þegar komið er inn um aðalinngang og aðrar lyftur er að finna við enda gangsins hægra megin við þjónustuborð á fyrstu hæð.
Barnavagnar
Velkomið er að koma með barnavagna inn á safnið. Geyma má vagna í anddyri. Hægt er að fá að láni barnakerrur á staðnum og eru þær staðsettar rétt fyrir innan anddyrið.
Salerni
Á 1. hæð eru þrjú salerni þar af ein fyrir hreyfihamlaða. Á 2. hæð eru tvö salerni. Skiptiborð fyrir ungbörn er að finna á báðum hæðum. Öll salerni eru ókyngreind. Salernin eru læst af öryggisástæðum og þurfa notendur að biðja um lykla hjá starfsfólki í afgreiðslu.
Nestisaðstaða
Á Torginu á 1. hæð og við fjölskylduborð í barnadeild á 2. hæð er velkomið að snæða nesti.
Hljóðvist og lýsing
Almenningsbókasöfn eru oft á tíðum erilsöm enda staður fyrir fólk að koma saman á. Talsvert er um heimsóknir ýmissa hópa og fjölbreyttir viðburðir í boði, jafnt á virkum dögum sem og um helgar. Þrátt fyrir þetta er oft hægt að hitta á rólegar stundir og mögulegt að koma sér vel fyrir á notalegum stað til að sökkva sér niður í lestur, vinnu eða lærdóm, einkum á Torginu á 1. hæð og á 5. hæðinni þar sem hægt er að koma sér fyrir í þægilegum hægindastólum, sófum eða við borð í lestrarrýminu sem snýr út að höfninni. Lesrýmið er hljóðlátt svæði en ef unnið er í hópum og verkefnum þar sem samtalið skiptir máli, er upplagt að nota rýmið Tryggvagötu megin eða nýta Torgið á fyrstu hæðinni. Engin lokuð rými eru í boði fyrir notendur.
Hljóðvistin er víðast hvar ágæt í húsinu nema þá helst á 1. hæðinni þar sem hátt er til lofts og vítt til veggja. Píphljóð berst frá sjálfsafgreiðsluvélum.
Flúrljós eru í loftum en birtan almennt frekar mild en dagsbirtu nýtur við glugga á öllum hæðum. Ljósaseríur eru í nokkrum gluggum yfir dimmustu mánuðina.
Leiðsöguhundar eru velkomnir á safnið
Nánari upplýsingar veitir:
Barbara Guðnadóttir, safnstjóri
barbara.gudnadottir@reykjavik.is | 411 6100