BLINDHÆÐ

Blindhæð er verkefni unnið í samstarfi við listræna stjórnandann Daríu Sól Andrews. Sýningin opnar þann 13. mars, samfara Evrópuviku gegn kynþáttamisrétti, og stendur yfir í einn mánuð.  Sýningin dreifist milli fjölmargra staðsetninga bókasafnsins í borginni. 
Á sýningartímanum er boðið upp á fjölbreytta dagskrá, s.s. listamannaspjall, opnar umræður, smiðjur fyrir börn og kvikmyndasýningar.

"Listaverkin vísa í persónulegar upplifanir listamannanna af rasisma í Evrópu og þá sérstaklega í skandinavísku samhengi. Hér birtist einstök sýn  á viðfangsefninu út frá reynsluheimi listafólksins, sem býður áhorfandanum upp á leiðir til að horfast í augu við eigin fordóma frá ólíkum sjónarhornum. Flestir reyna að sneiða hjá samtölum um öráreitni, samfélagslega útskúfun og kerfisbundinn rasisma. Við stillum áleitnum raunveruleikanum upp bak við persónulega blindhæð, sem við forðumst. Staðreyndin er þó sú að kerfisbundinn rasismi er til staðar innan stofnana okkar, hann er hluti af tengslum okkar á milli og birtist í framkomu, stundum óbeint og ómeðvitað. Sýningin, rétt eins og Evrópuvikan gegn kynþáttamisrétti, er tækifæri fyrir okkur sem samfélag til að koma saman og viðurkenna í hvaða rýmum þörf er á auknum sýnileika og vernd þeirra sem eru ekki hvítir á hörund. Hvernig getum við unnið gegn samfélags- og stofnanagerð sem byggir á rasisma og forréttindastöðu sumra? Hvar eigum við að byrja? Hvernig er hægt að kalla fólk til ábyrgðar? Nauðsynlegt er að byrja á að viðurkenna vandann og móta skýra stefnu gegn rasisma." Daría Sól Andrews
 

Listamennirnir Salad Hilowle (SE), Nayab Ikram (FI), Hugo Llanes (IS) og Claire Paugam (IS) sýna ljósmyndir, kvikmyndir og innsetningu tengda persónulegri reynslu af rasisma. 

Samfara sýningunni er börnum (8-13 ára) boðið að taka þátt í vinnustofu þar sem skoðaðar eru fyrirframgefnar hugmyndir okkar um söguhetjur. Yrsa Þöll Gylfadóttir leiðir vinnustofuna og býður þátttakendum að spyrja sig af hverju hvítur húðlitur er ráðandi í myndskreytingum barnabóka á Íslandi. Vinnustofan fer fram á fjórum mismunandi staðsetningum Borgarbókasafnsins: Grófinni, Kringlunni, Gerðubergi og Spönginni.
 

Borgarbókasafnið sækist eftir skapandi samtarfi til að auðga menningardagskrána og kynnast fjölbreyttari nálgunum, sem styðja við framtíðarsýn bókasafnsins sem almenningsrýmis allra.

Frekari upplýsingar:

Martyna Karolina Daniel, sérfræðingur – Fjölmenningarmál
Martyna.Karolina.Daniel@reykjavik.is

Daría Sól Andrews, sýningarstjórn
daria.andrews9@gmail.com