blindspot word

Um þennan viðburð

Tími
17:00
Verð
Frítt
Hópur
Fyrir öll
Liðnir viðburðir

BLINDHÆÐ | Myndlistarsýning

Laugardagur 13. mars 2021 - Sunnudagur 11. apríl 2021

Samsýningin Blindhæð opnar 13. mars samfara Evrópuviku gegn kynþáttamisrétti. Listræn stjórnun sýningarinnar er í höndum Daríu Sól Andrews (IS). Listamennirnir Salad Hilowle (SE), Nayab Ikram (FI), Hugo Llanes (IS) og Claire Paugam (IS) sýna ljósmyndir, kvikmyndir og innsetningu tengda persónulegri reynslu af rasisma. Verkin dreifast þvert á staðsetningar safnsins. 

"Listaverkin vísa í persónulegar upplifanir listamannanna af rasisma í Evrópu og þá sérstaklega í skandinavísku samhengi. Hér birtist einstök sýn  á viðfangsefninu út frá reynsluheimi listafólksins, sem býður áhorfandanum upp á leiðir til að horfast í augu við eigin fordóma frá ólíkum sjónarhornum. Flestir reyna að sneiða hjá samtölum um öráreitni, samfélagslega útskúfun og kerfisbundinn rasisma. Við stillum áleitnum raunveruleikanum upp bak við persónulega blindhæð, sem við forðumst. Staðreyndin er þó sú að kerfisbundinn rasismi er til staðar innan stofnana okkar, hann er hluti af tengslum okkar á milli og birtist í framkomu, stundum óbeint og ómeðvitað. Sýningin, rétt eins og Evrópuvikan gegn kynþáttamisrétti, eru tækifæri fyrir okkur sem samfélag til að koma saman og viðurkenna í hvaða rýmum þörf er á auknum sýnileika og vernd þeirra sem eru ekki hvítir á hörund. Hvernig getum við unnið gegn samfélags- og stofnanagerð sem byggir á rasisma og forréttindastöðu sumra? Hvar eigum við að byrja? Hvernig er hægt að kalla fólk til ábyrgðar? Nauðsynlegt er að byrja á að viðurkenna vandann og móta skýra stefnu gegn rasisma." Daría Sól Andrews

Salad Hilowle fæst við sjálfsmyndir, minningar og rými í listsköpun og kvikmyndagerð sinni. Hann býr og starfar í Svíþjóð og á rætur að rekja til Sómalíu og Gävle.    
Nayab Ikram er ljósmyndari og myndlistarmaður frá Álandseyjum í Finnlandi og starfar í Turku. Verk hennar, In Between, kannar tilfinningar tengdar þeirri stöðu að vera á milli (e. in-betweenship), þar sem táknræn merking hárs er skoðuð í sögulegu samhengi. 
Listsköpun Hugo Llanes felur í sér rannsókn á pólitískum og félagslegum sprungum og fagurfræði sem streymir frá þeim. Til verka hans teljast afleiður málverka, staðbundnir gjörningar og innsetningar. Hann lítur til félagslegra kringumstæðna í verkum sínum, eins og flutning fólks milli landa, misbeitingu valds og áhrif nýlenduhyggju á þróun sjálfsmynda og persónusérkenna. Verk hans hvetja áhorfandann til íhugunar sem og þátttöku. 
Claire Paugam er franskur listamaður sem býr og starfar í Reykjavík. Í myndlistarverkum sínum vinnur hún þverfaglega og sinnir einnig fjölbreyttum verkefnum á sviði sýn­ing­ar­stjórn­un­ar, sviðshönn­un­ar og kennslu.
Daría Sól Andrews er sjálfstætt starfandi listrænn stjórnandi og listgagnrýnandi, sem býr og starfar í Reykjavík.
 

Kvikmyndir Salad Hilowle eru sýndar á opnun sýningarinnar í Grófinni, í Spönginni í kjölfar listamannaspjalls Claire Paugam og Hugo Llanes og í Gerðubergi á sérstakri kvikmyndasýningu.

Ljósmyndir eftir Nayab Ikram eru til sýnis í Grófinni og vídeóverk hennar er einnig sýnt á sérstökum viðburði í Gerðubergi.

Verk Hugo Llanes eru til sýnis í Grófinni frá 13.-27.mars og síðar í Spönginni frá 27.mars til 11. apríl. 

Claire Paugam sýnir verk sín í Spönginni yfir allt sýningartímabilið, frá 13.mars til 11. apríl. 

 

BLINDHÆÐ | DAGSKRÁ

Viðburðurinn á Facebook

Sjá hér upplýsingar um sóttvarnarráðstafanir safnsins.

 

Nánari upplýsingar veitir:

Martyna Karolina Daniel, sérfræðingur fjölmenningarmála
martyna.karolina.daniel@reykjavik.is

Daría Sól Andrews, sýningarstjóri
daria.andrews9@gmail.com