Hver er söguhetjan? | Smiðja
Sjá skráningarform neðst á síðunni.
Hvernig sjáum við sögupersónur fyrir okkur þegar við höfum ekki myndir til að styðjast við? Í smiðjunni ögrum við fyrirfram gefnum hugmyndum okkar með því að myndlýsa sögur í sameiningu og veltum fyrir okkur hvaðan þessar hugmyndir koma. Efni og teikniáhöld eru í boði hússins.
Aldur 8-13
Yrsa Þöll Gylfadóttir og Iðunn Arna, höfundar texta og myndanna í bókinni Bekkurinn minn, munu leiða smiðjuna með ýmsum teikni- og sagnaverkefnum.
Smiðjan verður á eftirfarandi stöðum:
14. mars í Grófinni, kl. 13-15
20. mars í Kringlunni, kl. 14-16
21. mars í Gerðubergi, kl 13-15
27. mars í Spönginni, kl. 13-15
Yrsa Þöll Gylfadóttir er rithöfundur og hefur gefið út bæði skáldsögur fyrir fullorðna og barnabækur í léttlestrarseríunni Bekkurinn minn. Serían fjallar um krakka sem eru saman í bekk í íslenskum grunnskóla, en hver bók er sögð frá sjónarhorni eins nemanda. Lesandi fær því að kynnast fjölbreyttum veruleika ólíkra barna í bekknum, bæði innan og utan veggja skólans. Yrsa hefur áður stýrt ritsmiðjum fyrir börn og unglinga, en hún hefur einnig unnið á frístundaheimili, kennt íslensku og frönsku, unnið sem leiðsögumaður og kennt börnum og fullorðnum borðspil.
Iðunn Arna lærði myndlýsingu, bókband og umbrot í Willem de Kooning Academie í Hollandi árið 2015. Árið 2018 flutti hún heim til Íslands og byrjaði að myndskreyta íslenskar barnabækur, þar af jólaljóðabókina Hvuttasveinar (Bókabeitan 2019), barnabækurnar Ævintýri Munda lunda (Bókabeitan 2019) og Brásól Brella; Vættir, vargar og vampírur (Bókabeitan 2020), léttlestrarbækurnar í Bekkurinn minn seríunni; Prumpusamloka (Bókabeitan 2020) og Geggjað ósanngjarnt! (Bókabeitan 2020). Iðunn hefur einnig myndlýst kennslubókina Halló Heimur (Menntamálastofnun 2020) og unnið að endurgerð á myndum úr gömlu bókinni Litla gula hænan sem var upphaflega gefin út árið 1930 og var endurprentuð í lit árið 2020 af útgáfunni Sæmundur.
Nánari upplýsingar veitir:
Martyna Karolina Daniel, sérfræðingur fjölmenningarmála
martyna.karolina.daniel@reykjavik.is