Ráðstefna | Nordic Libraries Together

Reykjavík, dagana 18. – 20. október 2023 (sjá dagskrá ráðstefnunnar)

Nordic Libraries Together | Almenningsbókasafnið sem samfélagsvettvangur

Í tilefni af 100 ára afmæli Borgarbókasafnsins bjóðum við fagfólki á sviði bókasafna og öðrum áhugasömum á ráðstefnuna Nordic Libraries Together. Um er að ræða ráðstefnu sem haldin er að frumkvæði NINJA, samráðsvettvangs norrænna almenningsbókasafna en Reykjavík er þriðji ráðstefnustaðurinn á eftir Malmö 2021 og Bergen 2022. Ráðstefnan er skipulögð í samstarfi við Amtsbókasafnið á Akureyri og Bókasafn Kópavogs með stuðningi frá Bókasafnasjóði, Landskerfi bókasafna, Upplýsingar, Samtaka forstöðumanna almenningsbókasafna og Þjónustumiðstöð bókasafna.

Innblástur frá fyrirlesurum, vinnustofur um skapandi leiðir og lausnir og tengslamyndun

Á ráðstefnunni verður hlutverk almenningsbókasafna í samfélaginu skoðað. Lykilfyrirlesarar eru framarlega á sínu fagsviði þegar kemur að samfélagi og bókasafninu sem þriðja staðnum. Eric Klinenberg er einn fremstri félagsfræðingur okkar tíma og hefur skrifað metsölubókina Palaces for the people sem fjallar um almenningsbókasöfn sem lykilstofnanir þegar kemur að lífvænlegum samfélögum. Jan David Hanrath er arkitekt (og fyrrverandi bókavörður) sem hefur sérhæft sig í hönnun bókasafna. Hann er hluti af skapandi samstarfsvettvangi sem heitir The Ministry of Imagination, sem vinnur að því að hjálpa bókasöfnum og menningarstofnunum að láta framtíðardrauma sína rætast.

Á ráðstefnunni gefst þátttakendum kostur á að kynnast nýlegum og framúrstefnulegum verkefnum sem hafa orðið til á undanförnum árum og fela í sér samfélagslega nýsköpun. Jafnframt verður þátttakendum boðið að taka þátt í smiðjum og umræðum.

Merki Nordic Libraries Together ráðstefnunnar er hannað af Ragnar Rørnes.

Nánari upplýsingar veitir:

Barbara Helga Guðnadóttir, safnstjóri í Borgarbókasafninu Grófinni
barbara.helga.gudnadottir@reykjavik.is | 411 6130