Kveikjur | Nordic Libraries Together

Fimmtudagur 19. október kl. 13:30-15:30

Stuttar kynningar á verkefnum sem víkka sjóndeildarhringinn

Martin Memet Könick, Paulina Stanley og Jacob Lindblad | Fáðu sendiherra lýðræðis að láni - aðferðir til að styrkja lýðræðið 

Verkefnið Fáðu sendiherra lýðræðis að láni var sett á laggirnar að frumkvæði almenningsbókasafna í borginni Landskrona fyrir alþingiskosningarnar í Svíþjóð 2022. Markmiðið var að auka borgaralega þátttöku í hinu lýðræðislega kerfi með því að bjóða einstaklingum og félagasamtökum þessa nýstárlegu þjónustu. Eftir kosningarnar hefur verið unnið að því að styrkja skilning á og þátttöku í lýðræðislegu samfélagi. Hópurinn segir frá verkefninu og hvernig þau hafa vakið athygli á mikilvægu hlutverki almenningsbókasafna þegar kemur að spurningum og svörum um lýðræði. 

Martin er borgarbókavörður í Landskrona og situr í stjórn IFLA sem fulltrúi almenningsbókasafna. Í störfum sínum leggur hann megináherslu á að mæta þeim áskorunum sem blasa við lýðræðinu og samfélaginu og nýta og þróa krafta almenningsbókasafnsins sem hreyfiafl fyrir framtíð jafnræðis, snjalltækni og skemmtilegheita. 

Paulina, lýðræðissendiherra Landskrona, er með akademískan bakgrunn í arkitektúr og sjálfbærri borgarþróun. Starf hennar snýst um málefni eins og þátttöku, lýðræði og félagslega sjálfbærni, bæði út frá sjónarhorni borgarinnar og bókasafnsins. 

Jacob er bókavörður á borgarbókasafninu í Landskrona og heldur utan um stafræna og lýðræðislega þátttöku, félagslega sjálfbærni og aðgengi notenda. Hann langar að kanna hvernig almenningsbókasafnið geti verið  kraumandi vettvangur fyrir þýðingarmikla lýðræðislega upplifun þar sem notendur upplifa lýðræðið á merkingarbæran hátt.  
 

Martyna Karolina Daniel og Hildur Björgvinsdóttir | Spjöllum með hreim – öruggur staður til að æfa sig að tala íslensku 

Vikulegir viðburðir fyrir öll sem vilja æfa sig að tala íslensku í vinalegu og afslöppuðu umhverfi undir leiðsögn reyndra kennara. Boðið er upp á fjórar tegundir viðburða sem gestir/notendur geta valið úr eftir áhugasviði og kennsluaðferð. Þannig skapast tækifæri fyrir þátttakendur á þessu tungumála-lærdóms-ferðalagi að hitta fólk og eignast nýja vini. 

Martyna er sérfræðingur á sviði fjölmenningar hjá Borgarbókasafninu. Hún sér um þróunarverkefni sem miða að því að gera bókasafnið að stað án aðgreiningar, þar sem öll upplifa sig velkomin og notar til þess aðferðir sem stuðla að þátttöku ólíkra hópa í dagskrá bókasafnsins, á jafnréttisgrundvelli. Hún kannar gjarnan mismunandi leiðir til að halda utan um þvermenningarleg tengsl og notar meðal annars oft á tíðum myndlistina til að mynda tengingu milli fólks, þvert á tungumál. 

Hildur, sem lærði mannfræði og menningarmiðlun, starfar sem verkefnastjóri viðburða og fræðslu á Borgarbókasafninu. Þar tekur hún meðal annars  á móti skólahópum og nýjum íbúum landsins sem hafa annað móðurmál en íslensku og skipuleggur viðburði með áherslu á  fjölmenningu. 

Hanna Hopea | Bókasafnsþjónusta sem er raunverulega fyrir alla

Hanna hefur leitt verkefni í samvinnu við stofnanir sem beina sjónum einkum að fólki sem á erfitt uppdráttar í lífinu. Markmið þeirra er að öðlast betri skilning og læra t.d. hvernig best er að eiga samskipti við notendur sem eiga við erfiðleika við að stríða.  

Hanna starfar á Oodi, aðalbókasafninu í Helsinki. 
 

Sara Bindeballe | Að gefa fleirum rödd í umræðunni 

Starfsfólk bókasafnsins í Dokk1 í Árósum telur bókasöfn mikilvægan vettvang fyrir opinbera umræðu – og því fleiri raddir sem taka þátt, því betra. Þessa dagana er verið að skoða hvernig mögulegt er að virkja fleiri ólíka hópa fólks til að taka þátt í umræðum, vinnustofum og viðburðum, auk þess að finna leiðir til að auka virka þátttöku í þeim. Sara mun velta upp hugmyndum og nefna dæmi úr þessari vinnu. 

Sara Bindeballe sér um viðburði og uppákomur á Dokk1 í Árósum í Danmörku og tekur þátt í átaki almenningsbókasafna í Árósum sem snýr að því að styrkja lýðræði í nærumhverfinu, t.d. með því að skipuleggja umræður, finna nýja samstarfsaðila og kenna borgaralega þátttöku í vinnustofum fyrir skólahópa. 

 

Bagir Kwiek | Rómískar bókmenntir, eru þær til? 

Aktívistinn, rithöfundurinn og lestrarsendiherrann Bagir Kwiek er af rómískum uppruna en hefur búið í Svíþjóð alla sína ævi. Hann hefur barist fyrir réttindum Rómafólks og vakið athygli á menningu þeirra og sögu með ýmsum hætti. Bókasöfn hafa alltaf verið honum hugleikin en hann segir sjálfur að þar hafi hann strax í æsku fundið að þar væri hann velkominn. Bagir Kwiek hefur í störfum sínum reynt að byggja brú milli ólíkra menningarheima, auka skilning, draga úr fordómum og berjast fyrir réttindum og auknum sýnileika Rómafólks. Bókmenntir og bókasöfn leika þar stórt hlutverk. 

Bagir Kwiek er lestrarsendiherra Svíþjóðar og umsjónarmaður Rómíska bókasafnsins þar í landi.

Nánari upplýsingar veitir:

Barbara Helga Guðnadóttir, safnstjóri í Borgarbókasafninu Grófinni
barbara.helga.gudnadottir@reykjavik.is | 411 6130

 

Skráning