Vinnustofur | Nordic Libraries Together

Föstudagur 20. október kl. 10:30 - 12:00

Tölvupóstur varðandi skráningu á vinnustofur verður sendur á ráðstefnugesti tveimur vikum fyrir ráðstefnuna.

Jan David Hanrath Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir

Jan David Hanrath og Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir | Þátttaka er lykillinn 

Borgarbókasafninu verður umbreytt á komandi árum. Hönnunarteymið telur að þátttaka ólíkra aðila muni bæta gæði verkefnisins sem og auka meðvitund fólks á hvernig landslag bókasafna í borgum samtímans er að breytast. Þess vegna hefur verið lögð gríðarleg áhersla á þátttöku almennings í endurhönnun bókasafnsins. Í vinnustofunni lærum við að tileinka okkur nokkrar af þeim aðferðum sem notaðar hafa verið í hönnunarferlinu, þar sem jafnt starfsfólk bókasafnsins sem og notendur tóku þátt. 

Jan David Hanrath er arkitekt (og fyrrverandi bókavörður) sem hefur sérhæft sig í hönnun bókasafna. Hann er hluti af skapandi samstarfsvettvangi sem heitir Ministry of imagination, sem vinnur að því að hjálpa bókasöfnum og menningarstofnunum að láta framtíðardrauma sína rætast. 

Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir er deildarstjóri nýsköpunar hjá Borgarbókasafninu og leiðir fyrir hönd bókasafnsins umbreytingu á Grófarhúsi og samtalið við hönnunarteymi hússins. Bakgrunnur hennar er hönnun og verkefnastjórnun og er hún sérfræðingur í að vinna með hönnunarhugsun sem breytingarafl. 

Theresa Himmer | Hönnun þriðja rýmisins 

Skrifum bók! 
Skrifum bókasafn! 

Í þessari vinnustofu er þátttakendum boðið að taka þátt í sameiginlegri, spekúlatífri æfingu og ímynda sér hið norræna almenningsbókasafn í náinni framtíð.

Bókasafnið hefur á undanförnum árum farið í gegnum miklar umbreytingar. Frá því að hlúa aðallega að því sem snýr að textum yfir í að breytast í lifandi samfélagsrými.

Hvað höfum við lært á þessari vegferð og hvernig getur reynsla okkar nýst sem grunnur í að sjá fyrir okkur næstu skref í þróun bókasafnsins? Ímyndum okkur róttækt og frjálslega. 

Með Borges og Foucault í liði ásamt hugmyndum okkar um þriðja staðinn, byggjum við saman Draumabókasafn framtíðarinnar, og miðlum því sem við sjáum fyrir okkur í textum. Þeim verður síðan safnað í sameiginlegu skjalasafni og komið á framfæri í formi einfaldrar rafrænnar bókar. 

Theresa Himmer er arkitekt og listamaður með aðsetur í Kaupmannahöfn. Meðfram listinni rekur Theresa arkitektastofu þar sem aðallega er unnið að umbreytingu innanhúss í opinberum byggingum, s.s. bókasöfnum, söfnum og tónlistarrýmum. Meðal annars sér hún um umbreytingar á Almenningsbókasöfnum Kópavogs og Ísafjarðar. Myndlistarverk hennar spanna breiðan skala; ljósmyndir, myndbönd, innsetningar og bækur, og hafa verið sýnd víða um heim. Hún er félagi í Whitney Museum Independent Study Program og nam við School of Visual Arts í New York og Aarhus School of Architecture í Danmörku.

Dokk1 í Árósum

Susanne Gilling og Lisbeth Overgaard Nielsen | Bókasafnið sem vettvangur lýðræðis í nærumhverfinu 

Við búum í samfélagi þar sem umræður af ýmsum toga lifa og dafna. Í mörgum tilfellum fara þessar umræður fram á netinu og eru misjafnar að gæðum. Hvað gerist ef bókasafnið þitt ákveður að halda utan um og hýsa slíkar umræður í raunheimum (t.d. á bókasafninu)? Veldur bókasafnið því? Hvernig getum við unnið með þessar hugmyndir og hvers konar hæfni og samstarfsaðila þurfum við á að halda? 

Spjöllum saman um efnið út frá reynslu okkar og skoðunum. 

Susanne Gilling, Manager Library Services, Aarhus Public Libraries and Dokk1 

Lisbeth Overgaard Nielsen: Head of Program, Partnership & Democracy, Aarhus Public Library/Dokk1

Almenningsbókasöfn í Aarhus hafa á síðustu árum unnið að því að halda utan um umræður um hitamál sem snerta nærumhverfið í samvinnu við tengda aðila og fjölmiðla. Þeirri reynslu verður miðlað í þessari vinnustofu. 

Hanna Hopea | Hvernig er best að mæta notendum í viðkvæmri stöðu?  

Í þessari vinnustofu tekur Hanna Hopea efniviðinn úr kveikjufyrirlestri sínum skrefinu lengra og bætir við spurningunni „hvernig“? Vinnustofan er haldin með það að leiðarljósi að skoða framkvæmd, þátttöku og að byggja brýr. 

Hanna Hopea starfar í Oodi aðalbókasafninu í Helsinki.   

Martin Memet Könick

Martin Memet Könick, Paulina Stanley og Jacob Lindblad | Beinum athygli að bókasafninu sem „þriðja staðnum“ 

Í vinnustofunni könnum við hvernig best er að starfa með og vera í tengslum við nærsamfélagið. Einnig hvernig við tökum utan um allar góðu hugmyndirnar sem kvikna í slíku samstarfi og breytum í eitthvað áþreifanlegt. 

Martin er borgarbókavörður í Landskrona og situr í stjórn IFLA sem fulltrúi almenningsbókasafna. Í störfum sínum leggur hann megináherslu á að mæta þeim áskorunum sem blasa við lýðræðinu og samfélaginu og nýta og þróa krafta almenningsbókasafnsins sem hreyfiafl fyrir framtíð jafnræðis, snjalltækni og skemmtilegheita. 

Paulina, lýðræðissendiherra Landskrona, er með akademískan bakgrunn í arkitektúr og sjálfbærri borgarþróun. Starf hennar snýst um málefni eins og þátttöku, lýðræði og félagslega sjálfbærni, bæði út frá sjónarhorni borgarinnar og bókasafnsins. 

Jacob er bókavörður á borgarbókasafninu í Landskrona og heldur utan um stafræna og lýðræðislega þátttöku, félagslega sjálfbærni og aðgengi notenda. Hann langar að kanna hvernig almenningsbókasafnið geti verið  kraumandi vettvangur fyrir þýðingarmikla lýðræðislega upplifun þar sem notendur upplifa lýðræðið á merkingarbæran hátt.  

Karin Larsson

Karin Larsson | Aðgengi á bókasöfnum 

Í þessari vinnustofu fjöllum við um vinnu við þróun og endurnýjun á húsnæði bókasafna almennt, þar sem samvinna á milli arkitekta og starfsfólks safnanna fer fram. Ferli sem hjálpar okkur að skilja allar hliðar á aðgengismálum. 

Bókasafnið er staður fyrir okkur öll og á að vera öllum aðgengilegt. Það snýst ekki aðeins um aðgengi að húsnæðinu sjálfu, heldur einnig aðgengi að því sem fram fer, s.s. viðburðum fyrir börn og fullorðna og hvernig fólk ratar um bygginguna. Er bókasafnið þitt aðgengilegt? Hvernig veistu hvort sú er raunin og getur þú sýnt okkur fram á það? Lærum meira um hugtakið algild hönnun (universal design) og hvernig við nýtum þá hugmyndafræði. 

Karin Larsson er deildarbókavörður á bókasafninu í Malmö, Svíþjóð og ber ábyrgð á aðgengismálum safnsins.  

Nánari upplýsingar veitir:

Barbara Helga Guðnadóttir, safnstjóri á Borgarbókasafninu Grófinni
barbara.helga.gudnadottir@reykjavik.is | 411 6130