Jóladagatal 2019 | Jólaálfurinn sem flutti inn

Urður er sjö ára og hlakkar mikið til jólanna en einn morguninn þegar hún fer á fætur er komin pínulítil hurð á vegginn við dyrnar inn í eldhús og litlum rauðum stígvélum hefur verið stillt snyrtilega upp fyrir framan.  Getur verið að danskur jólaálfur sé fluttur inn?

Hér má hlusta á eða lesa sögu jóladagatals Borgarbókasafnsins frá árinu 2019, eftir Grétu Þórsdóttur Björnsson og Halldór Snorrason.

Jólaálfurinn sem flutti inn

1

Hurðin á veggnum

Urður opnaði augun í augnablik. Lokaði þeim svo aftur. „Ætli það sé komin dagur?” hugsaði hún með sér. Það var allavega enn enginn kominn að vekja hana. Auðvitað ekki. Það var sunnudagur. Enginn kæmi að vekja hana. Sunnudagur? Kannski var mamma komin heim! Myrkrið fyrir utan hjálpaði henni ekkert við að meta hvort það væri kvöld, mið nótt, eða morgunn. Hún áræddi að fara á fætur. Hana langaði svo að hitta mömmu. Mömmu sem hafði ekki verið heima síðan það var síðast helgi.

Gólfið var kalt viðkomu þegar hún trítlaði af stað út úr herberginu sínu. Á ganginum lituðu götuljósin veggina gula og þegar hún gekk fram hjá eldhúsinu kom notaleg birta frá jólaljósinu sem stóð í eldhúsglugganum. Lítið bros læddist fram á varirnar. Urður elskaði þennan tíma. Þegar jólaljósin voru komin upp og fengu að loga alla nóttina. Á eldhúsborðinu stóð hálfkláraður aðventukrans sem þau pabbi hennar höfðu verið að bisa við fyrir svefninn.

En hvað var þetta? Urður blikkaði nokkrum sinnum. Pírði augun. Á veggnum við hliðina á dyraopinu að eldhúsinu var eitthvað. Hún stoppaði og starði. Var þetta lítil hurð? Hún horfði aðeins lengur. Andaði aðeins örar.

Nei. Það var sennilega enn mið nótt og hana var að dreyma. Á meðan hún gekk í svefni. Allavega ekki alveg í vöku. Urður sleit augun af veggnum. Útundan sér sýndist henni hún sjá pínulitla skó, snyrtilega frágengna, með hælana upp að veggnum.

Nei. Hún var sofandi. Hún hraðaði sér inn í svefnherbergi foreldra sinna. Í rúminu voru tvær  hrúgur sem virtust gráar í rökkrinu. Frá þeim heyrðist þungur andardráttur. Urður andaði léttar. Mamma var komin heim. Urður skreið upp í og laumaði sér undir sæng.

„Hæ ástin mín. Það sem ég hef saknað þín” var umlað og Urður fann heitan andardrátt á hálsinum. „Æ og köldu tásurnar þínar” hvíslaði mamma. Hlýjar hendur tóku utan um tásurnar og byrjuðu að nudda í þær yl. Í örstutta stund. Mamma var sofnuð aftur. En Urður gat ekki lokað augunum. Hafði í alvörunni verið lítil hurð á ganginum?

Finnur hurð

2

Hafraslóðin

„Það er haframjöl hér út um öll gólf!” heyrði Urður mömmu hrópa fram á gangi. Urður hentist á fætur. Það var rétt. Kannski svolitlar ýkjur að það væri út um öll gólf, en það var haframjöl á gólfinu. Í fínni slóð frá skúffunni þar sem haframjölið var geymt að litlu hurðinni á veggnum. Hún var þarna ennþá. Litla hurðin. Og skórnir. Jafn snyrtilegir með hælana upp að vegg. En voru þeir ekki á öðrum stað en í gær?

„Það er nú spennandi að það sé lítill, stríðinn jólaálfur hér á heimilinu. Okkar eigin drillenisse. Ætli það hafi drillenisser flutt inn til annarra en okkar?” Pabbi brosti og fékk sér meiri graut. „Þú kannski kemst að því í skólanum í dag.” hélt hann áfram, glotti yfir hafragrautinn og blikkaði hana. Urður vissi ekki hvað hún átti að halda. Var hann að stríða henni? Hafði hann búið til hurðina á vegginn? Þau mamma? Mamma hafði sannarlega hljómað hissa í morgunn, þegar hún hljóðaði upp yfir sig vegna haframjölsins. Þau höfðu bæði virst hissa í gær útaf hurðinni. En kannski voru þau bara búin að æfa sig. Voru að leika?

Urður yrði að skoða þessa hurð betur. Það þýddi ekkert lengur að halda sig í fjarlægð frá henni. Var hún máluð á? Límd? Hurðin leit bara svo ekta út að hún kærði sig ekkert um að fara að pota í hana. Hvað ef mamma hennar og pabbi væru ekki að stríða og það byggi álfur þarna inni? Hún yrði að skoða þessa hurð betur.

„Urður. URÐUR” Urður hrökk við. „Já?” ,,Ætlar þú að stara á hurðina í allan dag? Þú verður að klæða þig svo þú náir eitthvað að borða fyrir skóla vinkona.”

„Já. Já, já” Urður staulaðist inn í herbergi. Það yrði að bíða þar til eftir skóla að skoða þessa hurð nánar. Þótt hún vildi varla viðurkenna það, ekki einu sinni fyrir sjálfri sér, þá var hún fegin. Hún gæti látið það bíða aðeins lengur að kanna hurðina. Og hver vissi? Kannski yrði hurðin horfin að skóladeginum loknum.

Blá mjólk

3

Blá mjólk

„Voru stríðnisálfar á ferðinni hjá öðrum en okkur?” kallaði pabbi úr eldhúsinu. Urður var enn í herberginu sínu að klæða sig. Hún svaraði ekki. Hún hafði ekki spurt neinn, en hún nennti ekki að útskýra það fyrir pabba sínum. Þegar hún gekk fram gjóaði hún augunum í átt að hurðinni. Það fór ekkert á milli mála. Hurðin litla var enn á sama stað. Urður hraðaði sér framhjá.

Urður var svo heppin að hafa farið í heimsókn til ömmu eftir skóla í gær. Og þegar hún kom heim, var of seint að fara í hurðaskoðun. Hún hafði svolítið verið að vona að þessi hurð myndi bara hverfa. Svona púff yfir nótt. Alveg eins og hún kom.

Urður hlammaði sér fyrir framan pabba sinn. Í sömu andrá datt henni svolítið í hug..

„Pabbi, er ekki þriðjudagur?” Urður var spennt. Pabbi leit kíminn á hana og kinkaði kolli. Hún mátti ekkert vera að því að velta lítilli hurð fyrir sér. Þriðjudagsmorgnar voru nefnilega bestu morgnarnir. Þá voru þau pabbi bara tvö heima og hún fékk stundum að blanda góða múslíinu út í hafragrautinn. Þessu sem átti bara að vera um helgar. Urður hljóp í skápinn, greip pakkann, setti upp sitt allra besta bros og leit vonaraugum á pabba sinn.

Hann brosti til baka og blikkaði hana. Hann þurfti ekkert alltaf að nota orð til þess að Urður vissi að hann meinti já. Hún brosti á móti. Út að eyrum.

Í næstu andrá spratt pabbi á fætur. Hann var í miðjum klíðum við að hella mjólk, sem skvettist út um allt borð. Pabbi saup hveljur. „Hva? Hva?” kvakaði hann og horfði á allt sullið. Hann leit undrandi á Urði. Svo aftur á borðið. „Urður?!”

Augun á Urði höfðu stækkað um helming við brussuganginn í pabba. Loks sá hún hvað hafði ollið uppþotinu. Um borðið, og gólfið, flæddi blár vökvi. Mjólkin, sem pabbi hafði skvett svo glæsilega út um allt, var blá.

Lítil fótspor

4

Lítil fótspor

Urður sat í rúminu sínu, skoðaði bók og beið eftir mömmu, sem blaðraði í símann.

,,Ég var að hugsa um að segja þér sögu í stað þess að lesa í dag, ljúfan mín.” Mamma var loks búin í símanum og birtist í dyragættinni.

,,Ertu til í það?” Urður kinkaði kolli. 

,,Ég var nefnilega að tala við hana Tine og hún var að segja mér svo margt skemmtilegt um julenisser, eða drillenisser eins og þeir geta verið.” Mamma brosti. Urði langaði ekki að heyra þetta. Hún var orðin svolítið þreytt á þessum drillenisse. Þennan morgun hafði allt verið með nokkuð kyrrum kjörum og hún hélt að kannski væri hann bara farinn, þrátt fyrir að hurðin væri á sínum stað. Sú óskhyggja stóð ekki lengi. Þegar hún var að klæða sig í útifötin hafði hún séð pínulítil spor í hvítu dufti. Mamma, sem hafði potað í duftið, sagði þetta vera hveiti. Núna eftir skóla höfðu þær mamma svo grandskoðað hurðina, en orðið einskis vísari. Hurðin leit bara alveg eins út þegar hún var skoðuð nálægt og þegar hún var skoðuð langt frá. Og það var ekki hægt að opna hana. Mamma hafði prófað.

Kannski væri best að vita svolítið meira. Urður brosti til mömmu sinnar og dæsti um leið og hún sagði. ,,Okei, segðu mér frá jólaálfinum.”

Mæðgurnar kúrðu sig undir sæng ,,Hún Tine var sko alveg hissa á að það væri jólaálfur hjá okkur. Hún hélt að þeir byggju bara í Danmörku.“ byrjaði mamma ,,Eða í það minnsta bara hjá dönskum fjölskyldum” hélt hún áfram og strauk Urði um kinnina. ,,Jólaálfarnir eru þjóðsagnaverur í Danmörku og í gamla daga voru þeir oft að passa upp á dýrin á bóndabæjunum. Núna eru þeir líka hjá fólki sem á engin dýr og þá eru þeir víst mest að spila á spil til að stytta sér stundir. Annars segir þjóðsagan líka að álfarnir séu að hjálpa jólasveininum á Grænlandi. Vissirðu það?” Urður hristi hausinn. Það vissu nú allir að jólasveinarnir byggju í fjöllunum á Íslandi og ekki á Grænlandi. Mamma hélt áfram.

,,En það sem verra er, að ef þeir eru eitthvað ósáttir, þá fara þeir að stríða fólkinu sem þeir búa hjá. Í gamla daga var það þannig að stundum urðu þeir bara reiðir og fluttu af bænum. Og það var nú aldeilis ekki gott. Því veistu hvað? Þá tóku þeir gæfuna með sér af bænum.”

Urður fann herping í maganum. Af hverju var álfurinn ósáttur? Og hvernig gæti hún passað upp á að hann færi ekki með gæfuna úr húsinu?

Klósett pakkað inn

5

Jólapakki á klósettinu

Urður rumskaði. Hvaða hljóð var þetta? Eitthvað var að trufla svefninn hennar, draga hana úr draumaheimi og hún sem nennti alls ekki að vakna. Urður barðist við að opna augun. Eitthvað sem hljómaði eins og hávær hlátrasköll ómaði. Voru þetta mamma og pabbi? Að skellihlæja? Nú hrökk Urður upp. Hvað var svona fyndið?

Urður staulaðist á fætur. Hljóðin bárust frá klósettinu. Var kominn morgunn? Urður var alls ekki viss. Hún gekk á hljóðin. Í dyragættinni á baðherberginu stóð pabbi hennar hlæjandi. Inni á baði sat mamma á baðkarsbrúninni og skellihló. Eiginlega var ekki hægt að segja að hún væri sitjandi, því hún veltist um, og Urður átti erfiðast með að skilja hvernig mömmu hennar tókst að halda sér á bríkinni.

,,Jæja Urður Murður” sagði pabbi glettinn og rótaði í hárinu á henni þegar hann sá hana standa við hlið sér. ,,Það var þér til happs að mamma þín var óvenju spræk í morgunsárið og búin að opna augun þegar hún fór á klósettið. Annars hefðum við verið að skúra piss hér upp af gólfinu.” Þá sá Urður það. Klósettið var vafið inn í rauðan pappír með hvítum doppum á. Eins og jólagjöf sem átti bara eftir að setja undir tré. 

Urður setti í brýrnar. Henni var ekki skemmt. Hún hafði minnst á næturævintýrin á heimilinu við nokkra vini sína. Krakkarnir höfðu hlegið. Sérstaklega þegar hún sagði þeim frá pabba sem sullaði blárri mjólk út um allt, en enginn hafði upplifað neitt svipað. Enginn virtist plagaður af hrekkjalóm sem læddist um heima hjá þeim á nóttunni. Nú hlógu mamma og pabbi að jólapökkuðu klósetti. En þau skildu þetta bara ekki. Á nóttinni var einhver að laumast um heima hjá þeim! Kannski innbrotsþjófur!?! Urður fann fyrir þungum steini í maganum. Hlátrasköllin gerðu hana reiða. Þau skildu þetta bara ekki. Þau urðu að losna við hann! Hver sem hann var. Og fyrst þau skildu þetta ekki, þá yrði Urður að ganga í málið. Hún skyldi koma þessum drillenisse út. Og það án þess að hann tæki gæfuna þeirra. 

Hver bakar um miðja nótt

6

Hver bakar um miðja nótt?

„Urður mín. Urður!“ Pabbi Urðar sat á rúmstokknum og horfði framan í hana þar sem hún barðist við að opna augun. „Það er búið að lífga upp á desember að drillenissen hafi verið hjá okkur Pabbi hennar gerði gæsalappir í loftinu um leið og hann lagði sérstaka áherslu á orðið drillenissen „en það gengur ekki að þú sért að baka hérna á nóttinni. Ef eitthvað kemur upp á, ef það kviknar í… Það er bara stórhættulegt.“ Urður heyrði tóninn í röddinni. Honum var fúlasta alvara. Urður dró andann djúpt og reyndi að ná utan um að pabbi hennar héldi að hún hefði verið að baka.

„Ég var ekki að gera þetta.“ sagði Urður með undrun í röddinni.
„Vinkona. Það er hveiti út um allt borð, kökudeigsrestar í lítilli skál, vel sleikt teskeið og litlar kökur í ofninum. Ég var ekki að baka, mamma þín var ekki að baka. Þetta er ekkert óljóst“
Hann horfði á hana alvarlegum augum.
„Pabbi. Ég var ekki að gera þetta!“
„Urður mín. Það er bara best að segja sannleikann“ Nú voru augun í pabba orðin ásakandi.  „Pabbi. Ég gerði þetta ekki“ Urður fann röddina bresta um leið og hún reyndi að finna sinn allra mest sannfærandi tón. Húnsá vonbrigðin í augum pabba síns um leið og hann lagði höndina á hné hennar. Hann horfði á hana í nokkra stund.

„Þetta má allavega ekki gerast aftur!“ sagði hann með áherslu um leið og hann stóð upp. Hvernig gat hann haldið að hún hafi gert þetta? Var hann búinn að halda það allan tímann? Að hún hafi staðið að baki öllum hrekkjunum? Að hún hafi pakkað klósettinu inn? Hún vissi ekki einu sinni hvar hún ætti að finna lím.

Hugsanirnar snerust í hringi, maginn var herptur og mest langaði hana að fara fram og öskra á pabba sinn. Þungbrýnd klæddi hún sig í fötin. Hún þurfti víst að fara í skólann. En hvað hafði pabbi hennar sagt? Þetta var ekki hann og ekki mamma. Þó að pabbi hennar tryði henni ekki, þá vissi Urður að þetta var ekki hún sjálf. Varla var pabbi svona reiður bara til að stríða henni. Honum var virkilega alvara. En ef þetta var ekki pabbi, ekki mamma og ekki Urður… Var fluttur inn? Urður þurfti að fara í skólann, en í kvöld... Hún skyldi sko finna út úr því hvað var um að vera þarna í húsinu!

Næturvaktin

7

Næturvaktin

Mamma og pabbi voru sofnuð. Urður hins vegar var búin að gera sitt allra besta til að halda  sér vakandi. Og passa að mömmu og pabba grunaði ekki neitt. Hún spilaði við þau. Borðaði popp. Horfði á bíómynd. Reyndi að leiða hjá sér allt þetta fullorðins tal um sannleikann og hvað hann væri sagna bestur. Annars yrði hún bara reið. Hún var sko ekkert að plata. En þau höfðu alveg látið það eiga sig að tala meira um baksturinn og drillenissen. Urður bauð góða nótt eins og ekkert væri í bígerð. Svo beið hún. Þetta var erfitt. Hún hafði aldrei vitað hvað það var erfitt að halda sér vakandi. Sérstaklega ekki þegar maður lá kyrr uppi í rúmi og lét eins og maður væri sofandi.

En nú virtust þau loksins sofnuð. Urður stóð upp úr rúminu og klæddi sig í heimasokkana. Það héldi smá hita í tásunum og það sem mikilvægara var, hjálpaði henni að læðast hljóðlaust. Hún gekk að herbergisdyrunum og kíkti fram. Allt virtist vera með kyrrum kjörum.  Hún sá voða lítið af litlu hurðinni. Gæsahúðin spratt fram. Hárin á hnakkanum risu. Þyrfti hún í alvöru að fara út úr herberginu ef hún ætlaði að fylgjast með? Herbergisþröskuldurinn var óyfirstíganlegur. Svo skörp lína á milli öryggis og... Og einhvers. Hvernig hafði henni fundist þetta vera góð hugmynd?

Urður bakkaði í rúmið sitt. Hún reyndi að pakka sænginni alls staðar að sér, en hrollurinn sat í henni. Þrátt fyrir þreytuna átti hún erfitt með að sofna. Hún lá kyrr og reyndi að anda rólega, hlusta á þögnina, finna svefninn. Allt í einu var þögnin rofin. Hljóð eins og.. Eins og ískur í hjörum? Urður stífnaði upp, hjartað barðist ótt og títt og hún klemmdi aftur augun. Hún yrði. Hún þvingaði sig fram úr, að þröskuldinum. Stakk hausnum fram. Litla hurðin stóð opin. Við hana pínulítil vera í rauðum buxum, með rauða húfu að bisa við að klæða sig í skó. Veran leit upp. Í augnablik horfðust þau í augu. Í augnablik áður en Urður snérist á hæl og þeytti sér upp í rúm.Hjartað hamaðist. Gerðist þetta í alvöru?

Næturgesturinn

8

Næturgesturinn

Urður lá í rúminu og bylti sér. Þótt pabbi lægi á gólfinu hjá henni, þótt hún væri dauðþreytt, var erfitt að sofna. Hún hugsaði um morguninn. Þegar hún hafði svo sannarlega ætlað að sýna mömmu og pabba. Þegar hún hafði reynt hvað hún gat að opna hurðina, en allt kom fyrir ekki. Hurðin hafði verið pikkföst. Bara eins og límd á vegginn. Alveg eins og þegar þær mamma skoðuðu hana. Og þau höfðu bara hrist hausinn, mamma og pabbi. Þó að þau hafi  ekki sagt neitt, fann Urður alveg að þau voru þreytt á bullinu í henni. Sem var svo ósanngjarnt. Því þetta var ekkert bull.

Urður velti sér á hina hliðina. Reyndi að gleyma þessum hugsunum. Hún var svo þreytt. Urður rumskaði. Hún hafði greinilega náð að blunda, en hvað var það sem vakti hana? Hún  leit í skyndi niður á gólf. Pabbi lá grafkyrr, með lokuð augu og frá honum bárust háværar hrotur. Hann var greinlega í fasta svefni. Hún hafði harðneitað að fara sofa nema einhver yrði hjá henni. Eftir nóttina á undan gat hún alls ekki verið ein. Eftir mikið taut og suð dró pabbi að lokum fram dýnu og hlunkaðist niður hjá henni.

Urður pírði augun í myrkrinu. „Hej“ heyrðist lágri röddu fyrir aftan hana. Hún snéri sér í snarhasti. Á rúmbríkinni upp við vegginn var eitthvað. „Hej“ sagði röddin aftur og þetta eitthvað virtist nú veifa lítilli hendi. „Ég sá að þú sást mig í gær“ þetta eitthvað hélt áfram að tala. Fyrir utan galopin augun, sem einblíndu á eitthvað, var Urður sem frosin. Þetta eitthvað líktist manneskju, en var meira á stærð við..? Kettling kannski?. Eitthvað með rauða húfu og löng eyru starði á Urði. „Af hverju gefið þið mér aldrei graut?“ spurði það. Urður myndastytta sagði ekkert. Hjartað hamaðist og hún óskaði þess af lífs og sálarkröftum að pabbi vaknaði. Áframhaldandi hrotur sögðu henni að það væri ekki að gerast. „Ég heiti Níels. Hvað heitir þú?“ Áfram sagði Urður ekkert. „Veistu ekki að maður á að gefa álfinum sínum graut?“

Sími

9

Jólagrauturinn

Urður heyrði mömmu vera að baksa frammi. Lágvær tónlist ómaði undir skarkala frá diskum og skálum. Urður leit niður. Pabbi var þarna enn. Steinsofandi. „Mamma?“ Urður brölti yfir pabba sinn og flýtti sér inn í eldhús. 

„Mamma? Mamma, mamma!“ Loks leit mamma upp. „Góðan daginn“ brosti hún og hélt áfram að taka úr uppþvottavélinni. „Mamma! Við verðum að gefa honum graut. Þá hættir hann að stríða okkur“ Urður var óðamála. 

„Hættir hver að stríða okkur?“ spurði mamma annars hugar. „Álfurinn!“ Urður var hneyksluð. Um hvað gæti hún annars verið að tala. „ Nú?“ brosti mamma og leit loks almennilega upp. „Og góðan daginn litlan mín“ Mamma ruglaði í hárinu á Urði og horfði á hana íbyggin. 

„Þá bara gerum við það. Gefum álfinum graut. Náðu í haframjölið.“ skipaði mamma. „Nei. Ekki hafragraut. Grjónagraut. Álfar borða grjónagraut!“ Urði hálfbrá við ákveðnina í sjálfri sér. Ekki að hún væri ekki vön að vera ákveðin. En af hverju var hún svona viss um að þetta yrði að vera grjónagrautur? Hún mundi óljóst eftir litlu verunni, álfinum, sem hafði raskað svefnrónni hennar um nóttina. Eftir samtalinu sem þau áttu. Eintalinu sem hann átti, var sennilega réttara að segja. Hún hafði bara legið grafkyrr, starað og hlustað þar til hann lét sig hverfa. Eða hvað? Gerðist þetta í raun og veru?

Í sömu andrá staulaðist pabbi svefndrukkinn inn í eldhús og þá hvarf allur efi úr huga Urðar. Þau urðu að gera grjónagraut. Framan í pabba var búið að tússa svört gleraugu og freknur. Mamma sprakk úr hlátri þegar hún sá pabba. 

„Þú hefur aldeilis sofið fast þegar drillenissen var á ferðinni í nótt“ sagði mamma glettin. Pabbi var eitt spurningarmerki í framan, þar til mamma lyfti símanum upp fyrir framan andlitið á honum og hann sá sig í myndavélinni. Þá rak hann upp stór augu og leit síðan á Urði. 

Ohh af hverju hafði hann gert þetta? Fjárans álfur! Urður fann kökk safnast í hálsinum. Pabbi hafði gist inni hjá Urði og hún sá í augunum hans hvað hann var að hugsa. Þessi álfur skyldi sko fá að kenna á því fyrir öll leiðindin sem hann var að valda henni. Hún ætlaði ekki að vera hrædd. Þetta yrði afdrifarík nótt.

Grjónagrautur með slátri

10

Grjónagrautur með slátri

Urður vaknaði við pabba, sem var að koma sér á fætur. Enn sem komið var, engin hróp eða köll. Enginn óvanalegur hlátur. Kannski hafði það virkað? Urður hafði sofið ein í herberginu sína þessa nótt. Pabbi hafði líka harðneitað að vera hjá henni aftur. Urði grunaði að það hefði mest með tússinn, sem tók hann hálfan morguninn að þrífa framan úr sér, að gera. 

Kvöldið áður höfðu þau eldað saman grjónagraut. Það síðasta sem hún athugaði fyrir svefninn var grautarskálinn fyrir utan litlu hurðina. Grjónagrautur með fallega bráðnuðum kanilsykri og hálf slátursneið. Reyndar langaði Urði minnst af öllu að gefa honum eitthvað. 

Þessi uppátæki voru eitt, en að mamma og pabbi héldu að það væri hún... Hana langaði mest að elta þennan álf uppi og henda honum út.

En... það var svolítið öðruvísi að hugsa það um morguninn standandi með mömmu og pabba sér við hlið, sem sendu veigamikil blik sín á milli, eða liggjandi alein inni í herbergi þegar nóttin var að skella á. Svo hún sagði sjálfri sér að sáttaleiðin væri betri. Kannski yrði hann glaður af graut og Urður myndi ekki lenda í meira veseni út af hrekkjum. 

Þegar Urður kom fram sá hún að hurðin var enn á sínum stað. Það var greinilega búið að hreyfa við grautnum. Ekki mikið, en samt. Álfurinn var svo lítill að það var ekkert skrítið. Auðvitað gæti hann ekki borðað meir. 

Morgunmaturinn gekk áfallalaust. Urður var svo mikið að leita að dularfullum prakkarastrikum að hún gleymdi meira að segja að biðja um góða múslíið. Eftir morgunmatinn fór hún í könnunarleiðangur. Á klósettinu var ekkert athugavert. Á ganginum engin spor. Allt með kyrrum kjörum í öllum herbergjum. Þetta hafði heppnast. Nú myndi hann láta þau í friði.

Urður andaði út. Hún léttist um mörg kíló og axlirnar sigu niður um nokkra metra. Hún greip skóhornið og renndi sér ofan í skóna. Henni var létt og hún hlakkaði til að fara í skólann. 

Bamm. Urður steyptist á andlitið með miklum skell. Hún fann stingandi sársauka í nefinu og enninu, en var of undrandi til að fara að gráta. Hún snéri sér við en það var eitthvað skrítið við fæturna. Hún leit niður fyrir sig og sá að skórnir voru reimaðir saman. „Fari það í hábölvað!“ muldraði hún út um samanbitnar tennur. „Hann skal sko fá að kenna á því“ 

 

Álfur og stelpa

11

Grjónagrautur með smjöri

„Af hverju settuð þið ekkert smjör í grautinn?“. „Ha?“ svaraði Urður í hálfgerðu móki. Urður hafði verið um það bil að sofna þegar hún var kitluð í nefið. Hún hristi sig og leit við. 

„Sko. Mér finnst grautur ekki góður nema það sé smjör í honum. Væn smjörklessa. Og helst rauð saft. En smjör er algjört lágmark.“ Urður gretti sig. „Hver setur smjör út í grjónagraut?“ spurði hún hneyksluð. Svo hneyksluð að hún tók ekki eftir því að hún var að tala við álf. 

Nú var það hans að vera hissa „Borðarðu ekki smjör út í grautinn?“ spurði hann. Öll gremja var horfinn úr tóninum og í stað þess komin undrun. „Þið eruð skrítnasta mannfólk sem ég hef hitt.“

„Ég þekki engan sem borðar smjör út í grautinn sinn“ ákveðnin í tóni Urðar var ekki til að villast á. Henni fannst hugmyndin um smjör í grjónagraut fáránleg. Álfurinn horfði stóreygur á Urði „En rautt saft?“

Urður flissaði. Hún hafði smakkað rauða saft hjá vonkonu mömmu úti í Danmörku. En á Íslandi hafði hún aldrei séð það. „Ég þekki engan sem drekkur rauða saft. Hvað þá að setja hana út á grautinn sinn.“ hló Urður.

„Er sængin svona fyndin í kvöld?“ Pabbi kallaði úr stofunni. „Á ég að koma kíkja á þetta mál? Urður leit í kringum sig. Álfurinn var horfinn. „Pabbi? “ Kallaði Urður á móti. „Nennirðu að setja smjör í grjónagrautinn við hurðina? 

Á Íslandi

12

Á Íslandi

Urður hafði drifið sig upp rúm um leið og kvöldmaturinn var búinn. Kyssti og knúsaði mömmu og pabba í flýti og hálf ýtti pabba út áður en hann kláraði söguna sem hann var að lesa fyrir hana. Stekkjastaur var nefnilega á leiðinni og hún ætlaði að drífa sig að sofna. Reyndar átti hún pínu erfitt með það. Hugsanir um lítinn álf voru að flækjast fyrir henni.

Smjörið hafði virkað. Reyndar hafði álfurinn skilið eftir ummerki  þennan morgunn. Haframjölsslóð á eldhúsborðinu. En að þessu sinni var hægt að lesa úr slóðinni TAK.

Urður bylti sér. Fyrst hafði hún hafði hlustað á mömmu og pabba sýsla frammi, svo hafði hljóðnað, ljósunum fækkað og lágvært suð frá sjónvarpinu barst inn í herbergið. Hún var þreytt. Hún kíkti í gluggann. Hún var svo spennt. 

Skyndilega heyrðist skarkali. 

Urður hrökk við. Hafði hún blundað? Það var alveg algjört myrkur og það heyrðist ekkert frá sjónvarpinu. Foreldrar hennar greinilega farin að sofa. 

,,Af hverju ertu með dót út um allt? Kanntu ekki að taka til?”

Á skrifborðinu sá hún veruna litlu. Álfinn. Á gólfinu fyrir neðan hann lágu litir dreifðir yfir kubbahrúgu. Hann hafði rekist í pennaveskið sem valt og innihaldið dreifst yfir dótahrúguna sem fyrir var á gólfinu. 

Urður ranghvolfdi augunum. Það var nú alveg nóg að mamma og pabbi nöldruðu yfir þessu.

,,Mamma sagði að þú hlytir að vera ekta danskur álfur, fyrst þú vilt smjör á grjónagrautinn!” Hún virti athugasemdirnar um draslið að vettugi.

,,Hvað ætti ég að vera annað en danskur álfur?” spurði álfurinn og virtist hneykslaður.

,,Ehh íslenskur? Flestir sem búa á Íslandi eru íslenskir. Eða þú veist maður má alveg vera ekki íslenskur og bara búa á Íslandi af því að mann langar það. Ég átti heima í Danmörku og samt var ég íslensk líka þá!” romsaði Urður upp úr sér. 

Það var þögn í dágóða stund þar til álfurinn sagði lágt: ,,Er ég á Íslandi?” Álfurinn sagði ekki meir. Bíll keyrði hægt framhjá. Í birtunni frá framljósunum sá Urður glampa í augnkrókunum og lítið tár sem rann niður kinn.

Sorgmæddi álfurinn

13

Sorgmæddi álfurinn

Urður hafði drifið sig upp í rúm um leið og kvöldmaturinn var búinn. Kyssti og knúsaði mömmu og pabba í flýti og hálf ýtti mömmu út áður en hún kláraði söguna sem hún var að lesa fyrir hana. Að þessu sinni var hún ekki að bíða eftir jólasveininum. Eitthvað hafði fælt álfinn kvöldið áður og þennan dag hafði hún ekki fundið nein ummerki um hann. Nema litlu hurðina auðvitað, sem enn var á sama stað. Allan daginn hafði hún hugsað um tárvotu augun sem komu í kjölfar þess að hann fékk að vita að hann væri á Íslandi.

Urður hlustaði á mömmu og pabba sýsla frammi, svo hljóðnaði, ljósunum fækkaði og lágvært suð frá sjónvarpinu barst inn í herbergið. Loks var slökkt á sjónvarpinu og allt varð hljótt í húsinu. Ætti hún að fara að leita að álfinum. Hann hét Níels var það ekki? Urður stóð á fætur og læddist að hurðinni. Hún kíkti fram á gang. Litla hurðin var lokuð. Alveg eins og hún var á daginn. Grauturinn ósnertur.

Urði langaði ekki að stíga yfir þröskuldinn. Hún stóð sem fastast og horfði á hurðina. „Níels? Níííels?“ hún kom sjálfri sér á óvart með því að kalla hvíslandi út í loftið. Það kom henni enn meira á óvart að litla hurðin opnaðist og út kíkti álfurinn. Þau horfðust í augu og svo trítlaði hann til hennar með hangandi haus og signar axlir.

Urður settist á hækjur sér og horfði á Níels, hinum megin við þröskuldinn. Um stund þögðu þau, þar til hún rauf þögnina. „Af hverju ertu svona leiður?“ Hann snökti og leit upp. „Allir álfar þurfa að hjálpa til við að koma gjöfum til barna á aðfangadag, ef ég er ekki með þá kannski náum við því ekki. Ég þarf að vera með fjölskyldunni minni um jólin.“ hann dró djúp andann „Og ég veit ekki hvernig ég á að komast til þeirra.“ Nú opnuðust allar flóðgáttir og álfurinn hágrét.

Urður fékk sting í magann og fann að hennar kinnar voru orðnar tárvotar. Hún rétti hendina yfir þröskuldinn og setti einn putta í lófa álfsins. „Ég skal hjálpa þér!“ sagði hún einlæglega, án þess að hafa nokkra hugmynd um hvernig hún kæmi álf til Danmerkur.

Bleik bakklóra

14

Bleik bakklóra

„Níels. Níels“ Urður hvíslaði út í loftið. Röddin var um það bil að bresta. Allan daginn hafði Urður reynt að finna lausn á því hvernig Níels kæmist aftur heim, en án árangurs. Augun á Urði fylltust af tárum þegar hún sá Níels. Hún kom ekki upp orði, en hristi hausinn neitandi. Níels fitjaði upp á nefið og settist á rúmstokkin við hliðina á Urði. Þannig sátu þau drykklanga stund.

„Hey“ sagði Níels skyndilega upprifinn og hélt áfram. „Geturðu ekki bara sent mig aftur í húsinu sem ég kom í?“ Ég get alveg farið í það aftur. Þó það hafi verið mjög þröngt“. „Hvaða hús ertu að tala um?“ spurði Urður. Hann hugsaði sig um áður en hann byrjaði að lýsa því „Veggurinn var alveg svartur og svona undarlega mjúkur. Inni var fullt af upprúlluð teppum, svo mörgum að ég komst varla fyrir og svo þétt rúlluð að ég náði ekki að breiða neitt yfir mig. Það varð líka alveg ískalt í svolítinn tíma. En ég fann rosa góða bakklóru, svona fallega bleika og hvíta með passlega stífum hárum. Svo opnaðist húsið bara allt í einu og var ekki hús lengur. Þá flutti ég yfir í vegginn þar sem ég bý núna.“

Urður fékk uppljómun. Gat það verið? „Bíddu hér“ skipaði hún og rölti inn á bað. Urður fann  tannburstann hennar mömmu sinnar og kom aftur að vörmu spori.

„Er þetta bakklóran? spurði hún. Hann kinkaði glaður kolli. Urður sprakk úr hlátri. Hún hló og hló og hló. „Þetta er… tannburstinn… hennar mömmu“ sagði hún milli hláturroka „Og þú varst að… klóra þér… á bakinu með honum!“ Níels hló með. Meira að því hvað Urður hló mikið, en að honum fyndist fyndið að tannbursti hefði verið notaður sem bakklóra. Hlátrasköllin dóu út og þau sátu aftur hljóð á rúmbríkinni. Á morgun skyldi hún finna út úr því hvort hann kæmist aftur með ferðatöskunni til Danmerkur.

Þegar enginn trúir manni

15

Þegar enginn trúir manni

„Mamma?“ Urður leit upp frá morgunverðinum og reyndi að böggla út úr sér spurningu. „Ferð þú eitthvað aftur fyrir jólin?“. „Já!“ svaraði mamma hress „Við förum auðvitað í Sælukot að gera laufabrauð.“ „Ahh“ hrópaði Urður spennt. „Í dag?“ „Nei krútta, um næstu helgi. Eftir tæpa viku“. Urður vaggaði sér til á stólnum af spenningi. Í smá stund. Þar til hún mundi að hverju hún hafði raunverulega verið að spyrja.

„Nei sko... Svona til Danmerkur?“ Mamma horfði athugul á Urði, teygði svo fram hendina og  strauk henni yfir hárið. „Nei krúttið mitt, engar áhyggjur. Það eru engar fleiri vinnuferðir á þessu ári. Ég verð bara hér heima með ykkur pabba. Nú og upp í bústað með ykkur pabba“ bætti hún við og blikkaði. Urður var ekki með áhyggjur af því að mamma hennar færi. Hún var með áhyggjur yfir að hún færi ekki.

„Mamma. Hvernig eigum við eiginlega að koma jólaálfinum heim til sín ef þú ferð ekkert aftur til Danmerkur?“ Mamma horfði á Urði og teygði til munninn, eins og hún gerði svo oft þegar hún hugsaði sig um. „Helduru að hann komi sér ekki bara sjálfur? Alveg eins og hann kom hingað.“ „En þekkirðu engan annan sem er að fara til Danmerkur? Hann verður að komst heim!“ reyndi Urður.

„Heyrðu litla stýra. Ég ætla nú ekki að fara leita að fólki á leið til Danmerkur til að taka með sér álf. Ég held að jólaálfar hverfi alveg af sjálfu sér þegar það koma jól“ sagði mamma og blikkaði. „Mamma, hann kemst ekki sjálfur, hann þarf að komast til fjölskyldunnar sinnar, annars eru börn sem fá engar jólagjafir!“

Mamma brosti örlítið út í annað munnvikið. Urður þekkti þetta bros. Það þýddi svona svona Urður litla, þetta mál er útrætt. Það sauð á Urði. Afhverju gat fullorðið fólk aldrei skilið neitt? Hún yrði að finna út úr þessu sjálf. Án allrar hjálpar.

13 jólasveinar

16

13 jólasveinar

„Nú fór hún alveg með það. Skór upp í glugga. Fuss og svei segi ég nú bara.“ heyrði Urður tautað úr glugganum. „Níels. Ní-els!“ Urður hvíslaði ákveðið út í loftið, en fékk engin viðbrögð. Hávær dynkur gall við. Skórinn hafði hrunið á gólfið.

„Hvað er í gangi?“ hrópaði pabbi um leið og hann stökk af stað úr stofunni. „Ekkert. Þú þarft ekkert að koma“ svaraði Urður en það var of seint. „Þetta var bara skórinn, hann datt úr gluggakistunni.“ Urður brosti svo mikið að hún varð skrítin í framan. Hún vonaði að pabbi hennar kæmi ekki auga á Níels sem stóð við gluggakarminn, hálfur á bak við gardínu. „Ehh... Sko ég veit ekki hvernig þetta gerðist“ sagði hún um leið og hún stökk upp úr rúminu og reyndi að teygja enn meira á brosinu „ég bara laga þetta.“

Pabbi hennar stóð kyrr í gættinni og brosti. „Allt í lagi vina mín. Farðu svo að sofna. Ekki viltu missa af jólasveininum“ sagði pabbi og blikkaði. Hann sendi Urði fingurkoss og snérist á hæl.

„Níels!“ Urður var ströng í röddinni þó að hún reyndi að hvísla „Viltu gjöra svo vel að láta skóinn minn í friði. ,Askasleikir kemur í nótt.“ „Askasleikir?“ Hváði Níels. „Já!“ „Hver er Askasleikir?“ spurði hann aftur. „Sjötti jólasveinninn“ svaraði Urður óþolinmóð. „Sjötti jólasveinninn?“ Augun á Níels voru venjulega stór, en núna fylltu þau nánast allt andlitið. „Það er bara einn jólasveinn og hann kemur á jólunum. Eftir 7 daga. Þegar ég þarf að vera kominn heim, manstu?“ „Auðvitað. Níels! Það er svarið!!“ Urði var svo mikið niðri fyrir að hún hoppaði upp í rúminu, en lagðist jafn harðan niður aftur, þegar hún mundi að hún vildi ekki vekja grunsemdir hjá mömmu og pabba. „Það er ekki einn jólasveinn, það eru auðvitað þrettán og veistu hvað?“ Níels vissi ekki hvað. „Þeir fara líka til íslenskra krakka sem búa í Danmörku. Það hlýtur einhver þeirra að geta tekið þig með!“

Er hann hér enn?

17

Er hann hér enn?

Urður reif sig á fætur um leið og hún heyrði þrusk í mömmu og pabba. Hún kíkti örsnöggt í skóinn og sá að þar var eitthvað. Hún mátti ekkert vera að því að kanna nánar hvað það var. Hún hljóp fram til að athuga með litlu hurðina.

Hún var enn á sínum stað. Vonbrigðin helltust yfir hana. Hún hafði komið Níels vel fyrir í gluggakistunni og sagt honum að biðja jólasveininn að taka sig með. En hér var hann enn. Eða hvað? Ætli Níels gæti verið farinn og bara hurðin eftir? Hún bankaði á hurðina. Ekkert gerðist og hurðin virtist límd á vegginn, alveg eins og þegar þær mamma skoðuðu hana í fyrsta sinn.

Voðalega var erfitt að svona jólaálfar væru bara á ferðinni á kvöldin og nóttunni. Urður var allt of óþolinmóð til að bíða fram á kvöld með að fá að vita hvort Níels væri enn hjá þeim. Í skólanum ræddu krakkarnir um hvað jólasveinninn hafði fært þeim og það var ekki fyrr en þá, sem Urður fattaði að hún hafði alveg gleymt að athuga hvað var í skónum. En sú vitleysa. Kannski hafði verið einhver vísbending.

Þegar Urður kom heim sá hún klementínu í skónum. Ekki vísbending. Hún leitaði að sporum eftir Níels, en sá ekkert sem benti til að hann hefði verið að hrekkjalómast. Raunar hafði hann ekkert hrekkt þau í nokkra daga. Kannski var það vegna grautarins með smjörklípunni. Urður hélt samt frekar að hann væri of miður sín, eftir að hann komst að því að hann væri fastur á Íslandi.

Þegar Urður lagðist í rúmið var hún eiginlega búin að sannfæra sjálfa sig. Hann hlaut að vera farinn. Það hlaut að vera. Hún fann fyrir létti þegar hún hugsaði til þess að hann væri kominn heim. „Urður. Uurðuur?“ hvíslaði Níels. Urður opnaði augun. Á rúmbríkinni stóð niðurlútur álfur og sorgin skein úr augunum hans. „Ég sá engan jólasvein og gat ekki beðið neinn að taka mig með“ sagði hann lágri titrandi röddu. Ó, nei. Hvað ættu þau til bragðs að taka?

Skyrgámur

18

Skyrgámur

„Mundir þú eftir að kíkja í skóinn í morgunn?“ spurði pabbi á milli hafragrautarskeiða. „Ehh nei“ svaraði Urður um leið og hún reis upp úr stólnum og hljóp inn í herbergi. Það eina sem hún hafði munað eftir að kíkja á, var hvort hurðin væri enn á sínum stað. Það var hún. Hún kom til baka með fernu af uppáhalds djúsnum sínum. Hana langaði að vera glöð yfir djúsnum, en hún var meira leið því að jólasveininn hafði komið og þessi hafði heldur ekki tekið Níels með sér. Eins viðeigandi og það nú hefði verið að Hurðaskellir hefði skellt litlu hurðinni á eftir þeim, eitt síðasta sinn.

Pabbi virtist ekki taka eftir innri baráttu Urðar. „Jólaálfurinn okkar hefur alveg haldið sig á mottunni síðan jólasveinarnir fóru að koma. Það eru engin ummerki eftir hann lengur nema hurðin. Kannski þú ættir að skrifa bréf til jólasveinanna og þakka þeim fyrir að jólaálfurinn sé annars hugar þessa dagana.“

„Bréf? Auðvitað!“ hrópaði Urður upp yfir sig. Hún ljómaði. Hún gæti skrifað bréf og beðið jólasveininn að taka Níels með heim. „Pabbi, Níels er ekki of annars hugar út af jólasveinunum. Hann er leiður að komast ekki heim. Ég er búin að segja þér þetta. En kannski vill jólasveinn taka hann með ef ég skrifa bréf og bið hann um það.“ Urður mátti ekkert vera að því að heyra svar frá pabba eða að klára matinn sinn, heldur hljóp hún beint inn í herbergi og settist við skriftir.

Elsku Skyrgámur. Hann Níels Jólaálfur villtist til Íslands í ferðatöskunni hennar mömmu. Nú er hann fastur á Íslandi og hann þarf að komast heim til að dreifa gjöfum fyrir jól. Svo saknar hann fjölskyldunnar sinnar í Danmörku alveg óskaplega mikið. Hann er svo leiður að hann er ekki einu sinni stríðinn lengur, sem er starf jólaálfa. Viltu vera svo vænn að taka hann með þér þegar þú ferð til íslensku krakkanna í Danmörku? Þín Urður ---

Áður en Urður lagðist í rúmið þetta kvöld kíkti hún í gluggakistuna. Bréfið var vel áberandi í miðri gluggakistu, beint við hliðina á skónum og hinu megin við bréfið stóð opið bláberjaskyr. Urður var ánægð með sig. Í kvöldrökkrinu rétt áður en hún sofnaði hvíslaði hún út í loftið. „Bless Níels. Góða ferð til Danmerkur“

Vonbrigðin

19

Vonbrigðin

„Elsku ljúfa. Hvað ertu að gera?“ spurði mamma um leið og hún settist fyrir aftan Urði og tók utan um hana. Urður sat á gólfinu með krosslagða fætur gegnt litlu hurðinni og starði. „Mér sýnist þú vera eitthvað leið.“ mamma hélt áfram að tala. Urður svaraði engu. Enn var hann hér. Skónum vel raðað, með hælana upp að vegg. Og Níels hafði sagt henni að ekki færi hann án þeirra.

„Hvað eru margir dagar til jóla núna?“ spurði Urður lágmælt. „5 dagar. Minna en ein vika“ svaraði mamma glaðlega, þar sem hún vaggaði þeim varlega á gólfinu. Urður andvarpaði. Þetta voru ekki góðar fréttir. „Bara einn dagur þar til við förum í Sælukot“ hélt mamma brosandi áfram og kyssti Urði í hálsakotið.

Urður elskaði að fara í Sælukot. Venjulega. Að þessu sinni fannst henni þungbært að þurfa að fara. Hvað yrði um Níels á meðan þau voru ekki heima. Hún mátti ekkert vera að því að gera laufabrauð og fara í fjallgöngur. Fjallgöngur? Urður hafði fengið nýja hugmynd. „Mamma. Er ekki fjall hjá Sælukoti?“ spurði hún. „Jú, eða það stendur við Búrfell.“ svaraði mamma „Er það fjallið sem jólasveinarnir búa í?“ Mamma hló.

„Ég bara veit það ekki. Þeir búa bara upp í fjöllum, en ég veit svo sem ekki í hvaða fjalli. Ertu að hugsa um að fara að heimsækja þá?“ Það var einmitt það sem Urður var að hugsa. Ef hún fyndi jólasveinana áður en þeir legðu af stað til byggða þá gætu þeir tekið Níels með sér. Nú þyrfti hún bara að finna leið til að koma Níelsi upp í Sælukot. „Má ég fara með ferðatöskuna þína?“ spurði Urður mömmu sína Níels hafði áður verið í töskunni hennar svo hann hlyti að geta flutt í hana aftur. Urður myndi bara útskýra þetta fyrir honum um kvöldið. Þetta yrði að lukkast.

Sælukot

20

Sælukot

Föstudagsseinnipartur. Síðasti skóladagurinn þetta árið búinn. Endaði með jólaballi og dans í kringum jólatréð. Það höfðu komið tveir jólasveinar og Urður hafði spurt þá hvort þeir gætu komið Níelsi til Danmerkur, en þeir höfðu bara hlegið. Hún hafði líka spurt þá hvort þeir byggju í Búrfelli. Þeir sögðust bara búa í öllum fjöllunum. Hún vissi samt ekki alveg með þessa sveinka. Nokkrir krakkar höfðu reynt að toga í skeggið á þeim og Urður var alls ekki viss um að þeir væru ekta. Kannski bara kallar að leika jólasveina.

En nú var hún komin heim og þeim mun meira sem hún hugsaði um það varð hún sannfærðari um að það byggju jólasveinar í Búrfelli. Hún sat tilbúin í skóm með ferðatöskuna hennar mömmu pakkaða sér við hlið. Litla hurðin var á sínum stað en engir litlir skór stóðu fyrir framan. Urður þorði alls ekki að opna töskuna enda hafði Níels sagt henni að það væri hættulegt fyrir álfa ef þeir færu á stjá á daginn og ef fólk sæi þá. Sérstaklega fullorðið fólk. Hún skyldi sko passa hann. Sérstaklega núna þegar þau voru svo nálægt því að koma honum heim. Hún var samt með smá áhyggjur, því hún gat ekki verið viss um að hann væri með.

„Urður varst þú að smyrja nesti?“ hrópaði pabbi með hausinn hálfan inni í ísskáp. Urður hristi hausinn. Pabbi leit upp þegar hún svaraði ekki og horfði á hana ásakandi augnaráði. „Mér finnst ólíklegt að hún mamma þín hafi búið þetta til“ sagði hann og lyfti augabrúnunum til að leggja áherslu á orð sín. Urður gekk að ísskápnum til að sjá nestið sem pabbi fussaði yfir.

Þegar Urður leit inn í ísskáp gat hún ekki annað en hlegið. Í ísskápnum lágu ópakkaðar samlokur sem voru alls konar í laginu, lítið hreindýr, stjörnur og hjörtu. Það sem var þó skrítnast var áleggið. Á milli tveggja brauðsneiða lágu piparkökudropar. Það leit út fyrir að Níels hefði tekið aftur til starfa. Urður hafði ekki lengur áhyggjur af Níels. Hann hlaut að vera með fyrst að hann hafði smurt nesti og hann var greinilega vongóður fyrst hann var tekinn aftur til starfa, svo það gat Urður verið líka. Nú mátti Sælukotshelgin byrja.
 

Heimkynni jólasveinanna

21

Heimkynni jólasveinanna

Þetta var svo slæm hugmynd. Þetta var allra versta hugmyndin. Urður stóð skjálfandi ístígvélum og úlpu við endann á pallinum. Við hlið hennar stóð Níels í sömu þunnu fötunum og sömu litlu skinnskónum og alltaf. Það var meira myrkur en Urður hafði nokkurn tíma séð áður. Fyrir aftan þau var útiljós við útihurðina. Frá því kom lítil týra. Rétt nægjanlegt ljós til að lýsa upp blautan viðinn í pallinum. Þar sem Urður stóð sá hún ekkert. Framundan var ekkert. Ekkert nema svartamyrkur. Á hárinu lentu litlir blautir dropar. Hvað voru þau að gera?

„Sérð þú í myrkri?“ heyrði hún hvíslað sér við hlið. „Nei. En þú?“ svaraði Urður“ „Nei.“ Þau stóðu kyrr við endann á pallinum. Hvorugt þeirra sagði neitt. Hvorugt tók skrefið út í myrkrið. Að lokum tók Urður til máls. „Við finnum ekki jólasveina í svona myrkri. Við verðum að finna vasaljós og hlýrri föt.“ Rétt í því sem þau snéru sér við sá Urður risastórum skugga bregða fyrir í ljósskímunni við hurðina. Var þetta úlfur? Urður greikkaði sporið.

Urður reyndi að læðast um inni. Hvar skyldu vasaljósin vera? Gúmmístígvélin ískruðu ískyggilega þar sem hún spígsporaði um. Loks gerðist það sem alls ekki mátti gerast. „Ert þú komin á stjá Urður mín“ Pabbi var risin á fætur og komin fram til hennar. „Ertu í stígvélum? Og úlpu? Heyrðu krútta, þú ert eitthvað að ruglast. Það er nótt. Hérna ég skal hjálpa þér.“ Pabbi tók af henni úlpuna, leiddi hana að rúminu, breiddi yfir hana sæng, kyssti hana á ennið og hvíslaði „Góða nótt.“

Hlýjan frá sænginni var notaleg. Ljósskíman frá næturljósinu var róandi. Í augnablik var hún fegin að vera aftur í rúminu. Þar til hún sá Níels bregða fyrir í ljósskímunni. Þá fékk hún sting í hjartað. Á morgun. Þetta yrði að gerast á morgun. Það var síðasta tækifærið!

Jólakötturinn

22

Jólakötturinn

Aftur var komin nótt. Aftur voru Urður og Níels komin út. Að þessu sinni var Urður pollróleg.Hún hafði undirbúið fjallgönguna vel. Hún var vel klædd, á bakinu poki með nesti og á enninu bar hún hellaljósið hans pabba. Meira að segja himininn var með þeim í liði, því skýin sem höfðu byrgt þeim sýn og vætt á þeim kollinn kvöldið áður voru horfin og máninn lýsti þeim leið. Það var allt undir. Þetta mátti ekki mistakast.

Þau gengu af stað í átt að fjallinu. Malarveginn eins og langt og hann náði og þá yfir urð og þúfur. Upp gróna hlíð meðfram kindagirðingu. Níels var orðin svo þreyttur í fótunum að Urður bar hann. Urður var orðin svo þreytt að þau settust niður, fengu sér nesti. Urði var hugsað til mömmu og pabba. Eins gott að þau myndu ekki vakna. Hún hafði aldrei laumast um, eins þessar síðustu vikur. Tilhugsuninni fylgdi stingur í magann.

Urður reyndi að hrista það af sér. Þau héldu aftur af stað. Í þann mund fannst Urði skugganum, sem þau höfði séð kvöldið áður bregða aftur fyrir. Þegar hún rýndi betur sá hún ekkert. Hún beit á jaxlinn. Þetta var ekkert. Það var erfitt að klöngrast upp brattann og þar sem Níels var svo skrefstuttur gekk ferðin enn seinlegar. Þau sögðu ekkert. Bara puðuðu áfram.

Það var Níels sem rauf þögnina. „Eftir hverju eigum við að leita til að finna hvar jólasveinarnir eiga heima.“ Urður stoppaði. Spurningin sló hana alveg út af laginu. Hún hafði ekki hugmynd. Allur undirbúningurinn, allar hugsanirnar höfðu bara snúist um að komast upp í fjall. En áttu jólasveinarnir heima inni í fjallinu? Og hvernig kæmist maður inn í fjallið til þeirra? Enginn hafði nokkurn tíma farið að heimsækja jólasveinana. Afhverju ætti henni þá að takast það núna?

Urður varð örmagna á augabragði, settist niður og gróf andlitið í höndum sér. Níels fylgdi fordæmi hennar. Það varði ekki lengi, því augnabliki síðar stökk Níels á fætur. Risastórt, svart, loðið dýr var komið alveg upp að þeim, starði á þau með grænum glyrnum og hvæsti. Urður þeyttist líka á fætur og þau hlupu eins hratt og fæturnir báru þau niður brekkuna. Það brakaði í steinum undan fótum Urðar og hún hélt að hún væri að koma af stað skriðu. Lægra heyrðist í tipli Níelsar. Þrátt fyrir stærð dýrsins virtist ekkert heyrast í fótataki þess. Urður hljóp og hljóp. Bústaðurinn var enn langt í burtu, bara lítill depill í fjarlægð. Hún þakkaði mánanum fyrir að sjá þó það langt.

Heyrði hún ekki í skrefunum hans Níelsar lengur? Hún leit við. Fyrir aftan sig sá hún risavaxinn kött með álf í kjaftinum. Hann hafði náð Níels. „Neeeeiiii“ öskraði hún. Í sömu andrá birtist mamma og rétt á eftir henni pabbi. Kattarófreskjunni virtist bregða og missti gripið um Níels. Urður stökk í fangið á pabba sínum og Níels í fangið á mömmu. Honum var borgið. Um sinn. En kæmist hann nokkurn tíma heim?

Hvernig koma á jólaálfi heim til sín

23

Hvernig koma á jólaálfi heim til sín

Urður, pabbi og Níels sátu á sófanum. Pabbi sat með fartölvuna í fanginu og gúgglaði „Hvernig á að koma jólaálfi til síns heima?“ Níels starði hugfanginn á þennan töfrakassa og sönglaði på loftet sidder nissen med sin julegrød með skál af grjónagraut og vænni klípu af smjöri. Það sama gerði Urður. Eins og henni hafði fundist tilhugsunin ógeðfelld, þá var grjóni með smjöri ótrúlega góður.

Það kom í ljós að Níels var ekki með ofnæmi fyrir fullorðnu fólki og mamma og pabbi höfðu verið ótrúlega hjálpleg síðan þau björguðu Níels úr klóm jólakattarins. Þau pabbi höfðu ætlað að gera jólagjöf fyrir mömmu, sem enn var ekki komin í jólafrí, þennan dag. En það fékk að bíða. Nú skyldu þau koma Níels heim. Ekki gætu þau lifað með því að dönsk börn fengju engar gjafir.

Google hjálpaði óvanalega lítið. Þetta var greinilega ekki vandamál sem google hafði svar við á reiðum höndum. Rétt fyrir hádegi hringdi mamma. Frændi samstarfskonu hennar var á leið með flugi til Danmerkur.Þau máttu engan tíma missa. Þau pökkuðu Níels ofan í litla tösku. Að þessu sinni þurfti hann ekki að húka á milli upprúllaðra fata, heldur fékk hann mjúkan kodda undir sig og hlýtt teppi. Þau brunuðu af stað, en í því hringdi mamma. „Hann er lagður af stað upp á völl “ glumdi í hátalarakerfinu í bílnum. Hún gaf sér ekki einu sinni tíma til að heilsa. Pabbi tók U-beyju. „Við náum honum uppi á velli!“ hrópaði pabbi og brunaði upp á flugvöll. Þau náðu honum ekki.

40 mínútum seinna voru þau komin upp á völl, en frændinn var víst kominn í gegnum öryggishliðið.

„Við gefumst ekki upp núna“ sagði pabbi staðfastur. Eftir að hafa troðið sér í gegnum mannmergðina og spurt fullt af fólki hvert það væri að fara lenti pabbi á danskri flugfreyju. Pabbi sagði henni alla sólarsöguna um stríðna álfinn sem hafði villst frá Danmörku alla leið til Íslands. Hvernig hann og mamma héldu að þetta væri Urður að stríða þeim, en að þau hefðu loksins séð álfinn í þann mund sem jólakötturinn var að fara borða hann. Um það hvernig álfurinn þurfti að komast heim til að deila út jólagjöfum. Á meðan pabbi sagði upp og ofan af sögunni hafði Níels laumast upp úr töskunni sinni. Hann brosti til flugfreyjunnar og veifaði. Hún hrökk aftur fyrir sig og sullaði kaffi úr pappamáli yfir gólfið. Hún var orðlaus um stund. Svo færðist bros yfir andlitið. „Ég skal taka þig með“ sagði hún, greip töskuna sem Níels var í, blikkaði og snérist á hæl. „Glædileg jul“ var það síðasta sem þau heyrðu og svo voru þau horfin. Flugfreyjan og Níels.

Gleðileg jól!

24

Aðfangadagur

Urður gekk ganginn fram og aftur. Það var svo skrítið að þar væri engin lítil hurð. Hún hugsaði um litla vin sinn sem væri vonandi búinn að hjálpa með allar gjafirnar og í þann mund að fara borða jólagraut með smjöri og rauðri saft.

Urður var búin í jólabaðinu og komin í sitt fínasta púss. Hún sat í fanginu á ömmu sinni í eldhúsinu og fylgdist með foreldrum sínum þeytast fram og aftur með matarföt, potta og ausur. Það var kveikt á útvarpinu, en frá því heyrðist ekkert. Í útsendingunni ríkti algjör þögn. „Nú fer alveg að hringja inn“ hvíslaði amma í eyra Urðar. Þær hlustuðu á útvarpsþögnina og skarkalann í eldhúsinu.

Kling, kling, kling

Jólabjöllurnar í útvarpinu hringdu inn jólin. Á sama augnabliki virtust öll verk í eldhúsinu klárast. Ótrúleg værð færðist yfir og þau knúsuðust og kysstust gleðileg jól. Þau gengu saman inn í stofu og horfðu á jólatréð sem fyllti upp í hálfa stofuna, uppljómað. Undir trénu var fullt af pökkum, en það var ekki það sem fangaði athygli Urðar. Á miðju trénu lá stórt umslag stílað

TIL URÐAR
Hjálparhellu
jólaálfsins

Urður horfði stóreyg til mömmu sinnar og pabba. Þau brostu og kinkuðu kolli. Hún tók umslagið og opnaði.

Kæra Urður, Mamma og Pabbi

Ég er svo þakklátur fyrir alla hjálpina við að komast heim fyrir jólin. Hugsunin um vonsvikin börn gerði mig svo dapran, því ég vil að allir geti fengið að vera glaðir á jólunum. Álfafjölskyldan var líka ósköp áhyggjufull því þau höfðu ekkert séð mig. Það er dýrmætt að vera með þeim á jólunum. Yðar einlægur

Níels Julenisse 

Urður brosti og leit yfir stofuna. Stofuborðið svo fallegt í flöktandi ljósinu frá kertinu. Mamma, pabbi, amma Stína og Urður, um það bil að troða sig út af kræsingum og jólaöli, dansa í kring um jólatréð og opna pakka. Samt var það alls ekki það sem skipti mestu máli. Það dýrmætasta var að Urður var ekki lengur að laumast með óþægilegt leyndarmál, að mamma og pabbi trúðu henni og höfðu verið ómetanleg hjálp. Það dýrmætasta af öllu var að þau áttu hvort annað að og voru saman. Hún faðmaði að sér bréfið og hvíslaði út í loftið „Gleðileg jól“