Jóladagatal 2020 | Nornin í eldhúsinu

Jóladagatal Borgarbókasafnsins og Bókmenntaborgarinnar árið 2020 var framhaldssagan Nornin í eldhúsinu eftir Tómas Zoëga og Sólrún Ylfu Ingimarsdóttur

Hver býr í kofanum? Eru allar nornir hættulegar? Jólaævintýri Péturs og Stefaníu birtist upphaflega með nýjum kafla á hverjum degi frá 1. desember til jóla, en nú má finna það í heild sinni hér fyrir neðan.

Hér má lesa skemmtilegt viðtal við þau Tómas og Sólrúnu.

Jóladagatalið má finna á öllum helstu hlaðvarpsveitum. Jóladagatalið á Spotify.

Ófreskjan í myrkrinu

1. kafli: Ófreskjan í myrkrinu

Þetta hófst allt saman í byrjun desember þegar Pétur var á leið í skólann. Hann var einn á ferð því honum hafði tekist að sannfæra pabba um að hann þyrfti ekki á fylgd að halda. Fólk sem komið var í annan bekk gat nú gert ýmislegt án aðstoðar.

Meðfram göngustígnum voru ljósastaurar sem vörpuðu stórum ljóskúlum á nánasta umhverfi sitt. Á milli þeirra var myrkur. Pétur var staddur í birtunni við einn staurinn þegar mikill hvellur fékk hann til að hrökkva í kút. Þetta hljómaði eins og flugeldur en þar sem enn var mánuður í gamlárskvöld gat það ekki verið. Hvellinum hafði heldur ekki fylgt neinn blossi. Hljóðið bergmálaði nokkrum sinnum á milli húsanna í hverfinu þar til það dó út og grafarþögn tók við.

Pétur skotraði augunum í kringum sig. Þetta hafði verið einum of ógnvænlegt fyrir hans smekk. Svona nokkuð átti ekki að gerast á myrkum vetrarmorgnum. Þeir áttu að vera hljóðir og kyrrlátir. Hann stóð grafkyrr við ljósastaurinn í nokkrar mínútur.

„Svona nú,“ hvíslaði hann að sjálfum sér. „Áfram með þig. Skólinn er að byrja.“

Pétur safnaði kjarki með því að draga djúpt að sér andann, svo greip hann um ólarnar á skólatöskunni og gekk ákveðnum skrefum af stað. Hann var kominn út í myrkrið þegar hann heyrði annað hljóð fyrir aftan sig.

Fótatak.

Án þess að líta um öxl tók Pétur á sprett að næsta ljósastaur. Hjartað hamaðist í brjóstinu. Á næsta andartaki þaut gríðarstór, loðin vera framhjá honum og hvarf svo út í myrkrið. Pétur rak upp skelfingaróp og greip dauðahaldi í staurinn.

Ófreskja, hugsaði hann skelfingu lostinn.

Hann skimaði örvæntingarfullur í kringum sig en hvergi bólaði á verunni. Hvernig átti hann nú að komast í skólann? Það var ekki möguleiki á að hann yfirgæfi skjólið sem birtan frá staurnum veitti honum. Hvað ef ófreskjan biði eftir honum í næsta runna? Þó að það væri slæmt að koma of seint í skólann var tilhugsunin um að vera étinn lifandi miklu verri.

Þá sá hann glitra á augu úti í myrkrinu. Þau færðust nær og nær. Hægt en örugglega.

Stefanía og Pétur

2. kafli: Bjargvætturinn

Það heyrðist skellur og ljósastaurinn sem Pétur hélt í lék á reiðiskjálfi og snjó rigndi yfir hann. Áður en honum tókst að átta sig á því hvað hafði gerst þeyttist snjóbolti utan úr myrkrinu og hæfði hann beint í magann.
„Á!“ missti hann út úr sér.

Glitrandi augun námu sem snöggvast staðar en tóku svo á rás í átt til hans.

Pétur æpti aftur upp yfir sig en ópið var varla komið fram á varirnar þegar hann sá að þetta voru alls engin augu. Þetta voru endurskinsmerki og þau voru svo sannarlega ekki hluti af neinni ófreskju. Í það minnsta ekki ófreskju af mannætugerðinni.

„Ó, fyrirgefðu,“ sagði eigandi endurskinsmerkjanna og kraup hjá Pétri. „Ég hélt að þú værir ruslatunna. Ég ætlaði sko alls ekki að kasta í þig. Það var alveg óvart.“

Snjóboltakastarinn var stelpa. Pétur kannaðist eitthvað við hana. Jú, alveg rétt. Þetta var stelpan sem hafði byrjaði í bekknum fyrir ofan hann í haust þó að þau væru jafngömul. Pabbi hafði sagt að það væri vegna þess að hún hefði alist upp í útlöndum þar sem skólinn væri aðeins öðruvísi.

„Hei, búum við ekki í sömu götu?“ spurði stelpan. Pétur umlaði eitthvað ofan í hálsmálið á úlpunni sinni.

„Ha?“

„Jú,“ muldraði hann án þess að líta upp.

„Hvað heitirðu eiginlega? Ég er Stefanía.“

„Ókei,“ muldraði hann.

„Talaðu hærra,“ skipaði hún.

„Pétur,“ sagði Pétur og áræddi loksins að líta upp. „Við þurfum að koma okkur í burtu,“ bætti hann skjálfraddaður við. „Það er ófreskja hérna einhvers staðar í felum.“

„Það eru ekki til neinar ófreskjur,“ sagði Stefanía stuttaralega.

„Ekki það?“ Pétur klöngraðist á fætur. „Hvað réðst þá á mig rétt áðan, ha?“

„Ég.“ Stefanía hnoðaði annan snjóbolta og Pétur brá hendi fyrir höfuðið. Hún stundi „Slappaðu af,“ sagði hún pirruð. „Ég er búin að segja þér það. Ég ætlaði ekkert að kasta í þig, ég hélt bara að þú værir ruslatunna. Skólataskan þín lítur alveg eins út.“

„Hún gerir það ekki,“ sagði Pétur reiðilega.

„Sami litur,“ sagði Stefanía og þrumaði snjóboltanum í næsta tré þar sem hann sprakk í þúsund mola. „Ertu ekki annars að koma? Þú veist að skólinn er að byrja.“

Pétur var við það að hreyta einhverju í hana þegar honum varð hugsað til ófreskjunnar.

„Jú,“ sagði hann fýlulega og staulaðist af stað á eftir Stefaníu. Ruslatunna? Þvílík móðgun.

Pétur reimar skóna sína

3. kafli: Samferða í skólann

„Pétur minn, ef þú ferð ekki að drífa þig verðurðu of seinn.“ Pabbi stóð yfir Pétri í anddyrinu og fylgdist með honum basla við skóreimarnar. Þær vildu bara ekki hnýtast rétt. „Á ég að gera þetta fyrir þig?“

Pétur hristi höfðið. Það varð bara að hafa það þó slaufurnar væru svolítið skakkar „Sjáumst,“ sagði hann við pabba.

„Ertu ekki að gleyma einhverju?“

Pétur leit við og sá að pabbi hélt á skólatöskunni.

„Hvað er að, kallinn minn?“ spurði pabbi. „Vandræði í skólanum?“

Pétur hristi höfuðið en pabbi sá alltaf í gegnum hann. Hann stundi. „Málið er bara ...“ Pétur hikaði. „Það réðst ísbjörn á mig í gær.“

„Ísbjörn?“

Pétur kinkaði kolli. „Á leiðinni í skólann. Hann var risastór.“ Hann hafði farið á bókasafnið og flett í gegnum nokkrar bækur um algeng skrímsli og mannætudýr. Í einni þeirra hafði hann fundið mynd af blóðugum ísbirni sem var í þann veginn að háma í sig hval. Pétur var reyndar ekki viss um að veran sem ráðist hafði á hann hafi verið hvít á litinn en það var erfitt að taka eftir svoleiðis hlutum þegar maður óttaðist um sitt eigið líf.

„Hmm, það hljómar frekar eins og þú hafir rekist á hund.“

„Heldurðu það?“

„Já. Manstu ekki eftir strokuhundinum sem við hittum í haust? Hann býr hérna í næstu götu. Við erum orðnir ágætis félagar. Heyrðu,“ bætti pabbi við. „Við verðum bara samferða í skólann í dag. Hvað segirðu um það?“

Kannski var það besta lausnin. Ófreskjan var hræðileg og pabbi var alls ekki sem verstur. Í sömu mund var bankað á dyrnar. Pabbi opnaði.

„Ö, á Pétur heima hérna?“ sagði rödd Stefaníu.

„Já, hann býr hér,“ sagði Pétur og gægðist framhjá pabba.

„Viltu verða samferða í skólann?“ spurði hún.

Pétur hafði reyndar ákveðið að tala aldrei aftur við Stefaníu. Ekki eftir að hún hafði sagt að skólataskan hans liti út eins og ruslatunna.

En stundum var allt í lagi að skipta um skoðun.

„Ókei,“ sagði hann.

„Ég get enn fylgt ykkur ef þið viljið,“ sagði pabbi vongóður.

Pétur leit á Stefaníu sem yppti öxlum. „Því fleiri því betra,“ sagði hún.

Þau gengu niður stíginn sem lá að skólanum og í þetta skiptið bólaði ekkert á ófreskjunni. Pabbi kvaddi þegar þau komu inn á skólalóðina.

„Heyrðu,“ sagði Stefanía þegar pabbi var horfinn úr augsýn. „Ertu nokkuð að fara að gera eitthvað eftir skóla?“

„Ég held ekki.“ Pétur velti fyrir sér hvort kvöldmaturinn teldist með.

„Snilld. Hittu mig þá hérna eftir síðasta tímann. Ókei? Ég þarf að sýna þér svolítið ótrúlegt.“

Í sömu mund hringdi skólabjallan og þau hröðuðu sér inn.

Stefanía og Pétur í snjókomunni

4. kafli: Yfirgefna lóðin

Pétur þurfti að bíða lengi eftir Stefaníu. Allir öðrubekkingarnir voru löngu farnir þegar hún loksins lét sjá sig.

„Íþróttir,“ sagði hún án þess að gefa nánari útskýringar. Hún þurfti þess heldur ekki. Pétur vissi nákvæmlega hversu ævintýralegar sturtuferðirnar að loknum íþróttatímum gátu verið. Í rétta félagsskapnum voru þær beinlínis stórhættulegar. Sem betur fer virtist Stefanía hafa sloppið ósködduð í þetta sinn.

„Hvað ætlarðu eiginlega að sýna mér?“ spurði Pétur. „Við megum ekki vera of lengi. Ég á sko að koma beint heim eftir skóla.“

„Þetta tekur enga stund,“ sagði Stefanía. „Þetta er eiginlega í leiðinni. Þannig rakst ég á það í gær.“

„Rakst á hvað?“

„Komdu.“

Þau höfðu ekki farið langt þegar Stefanía sveigði út af stígnum. Það var á svipuðum stað og Pétur hafði lent í ófreskjunni daginn áður. Hún leit flóttalega í kringum sig og stakk sér svo inn í þétt limgerði.

„Ertu ekki að koma?“ hvíslaði hún til hans.

Þá rann upp ljós fyrir Pétri. „Ég veit hvert þú ert að fara,“ sagði hann æstur. „Á yfirgefnu lóðina. Hún er hættuleg. Við getum ekki farið þangað. Sérstaklega ekki í gegnum einhverja runna.“ Svona áttu hlutirnir ekki að ganga fyrir sig.

„Hún er ekki yfirgefin lengur,“ sagði Stefanía og stakk höfðinu út á milli greinanna. „Þar að auki hef ég oft farið þangað og aldrei lent í neinu slæmu. Bara njólum. Svona, drífðu þig áður en einhver sér til okkar.“

Innra með Pétri toguðust á löngunin til að sjá það sem Stefanía hafði uppgötvað og röddin sem benti honum á hversu hræðilega rangt það var að troða sér í gegnum runna sem vildi örugglega bara fá að vera í friði. En að lokum sigraði löngunin.

„Jæja þá,“ sagði hann svolítið önugur. „En við verðum að fara varlega.“

„Ég fer alltaf varlega,“ svaraði Stefanía.

Pétur hnussaði og skreið á eftir henni inn í limgerðið. „Ekki þegar þú kastaðir í mig ...“ Röddin dó út í miðri setningu.

Stefanía hafði verið að segja satt. Yfirgefna lóðin var alls ekki yfirgefin lengur. Á henni miðri stóð skrítnasta hús sem Pétur hafði nokkru sinni augum litið.

Skrítna húsið

5. kafli: Dularfulli kofinn

Þetta var kofi. Hann var umkringdur sölnuðum njólum og grjóthnullungum og leit afskaplega undarlega út. Járnabindingin stakkst út úr veggjunum skökk og skæld svo það var eins og kofinn væri þyrnóttur. Hann hallaði líka ískyggilega, eins og honum hefði verið tyllt niður til bráðabirgða. Jörðin í kring var hvít en á kofanum sjálfum sat ekki svo mikið sem eitt einasta snjókorn.

„Hvaðan kom þetta eiginlega?“ hvíslaði Pétur undrandi.

„Ekki hugmynd,“ sagði Stefanía. „Lóðin var alveg auð í síðustu viku og svo – púff – nýtt hús.“

„Heldurðu að einhver eigi heima þarna?“ spurði Pétur. Hann átti bágt með að trúa því, kofinn var allt of hrörlegur. Hann leit út fyrir að geta fallið saman á hverri stundu.

„Ég hef ekki séð neinn,“ sagði Stefanía. „Viltu fara og gá?“

„Eiginlega ekki.“ Pétur langaði ekkert að hætta sér nær kofanum. Hvað ef eitthvað hræðilegt byggi þar? Eitthvað á borð við ófreskjuna? Á móti kom að hann dauðlangaði að vita meira um þennan kofa. Hvers vegna var hann til dæmis svona skakkur? Og hvers vegna var hann þyrnóttur? Það hlutu að vera góðar ástæður fyrir því.

„Ég skal standa vörð á meðan þú ferð og athugar,“ sagði Stefanía og hnoðaði snjóbolta.

„Ég veit ekki með það,“ muldraði Pétur.

„Kíktu inn um gluggann.“

„Gerð þú það bara sjálf.“

Stefanía hikaði. „Förum bæði,“ sagði hún svo.

Hún kreisti snjóboltann og saman fikruðu þau sig inn á lóðina. Þau voru ekki komin langt þegar rámt gelt gall við. Þau hrukku bæði í kút og Stefanía fleygði snjóboltanum af öllu afli í átt að kofanum. Hann skall með miklum látum á glugganum sem þau höfðu ætlað að líta inn um og geltið varð enn ofsafengnara.

Pétur stirðnaði upp. Ófreskjan bjó þá þarna í raun og veru.

Svo gerðist svolítið sem fékk bæði Pétur og Stefaníu til að taka andköf. Í glugganum birtist andlit.

Stefanía er dregin í burtu

6. kafli: Stefanía numin á brott

Það liðu margir dagar áður en Pétur og Stefanía hættu sér aftur nálægt kofanum. Andlitið í glugganum hafði séð til þess.

Úff, þetta andlit. Pétur hryllti sig við tilhugsunina. Það hafði verið grátt og hrukkótt eins og krumpaður bréfpoki. En það hafði verið augnaráðið sem vakti hjá honum mestan óhug. Hann hafði fundið það borast inn í ennið á sér og meira að segja Stefanía varð að viðurkenna að hún hafði fundið hroll skríða niður eftir bakinu. Þau höfðu ákveðið í sameiningu að það væri ekkert spennandi við þessa yfirgefnu lóð. Það væri alveg tilgangslaust að fara þangað aftur. En svo gerðist svolítið sem setti allar þeirra áætlanir úr skorðum.

Á einni viku gerðu þrjár lægðir innrás í borgina. Þær stífluðu hvert einasta niðurfall, feyktu trampólínum á haf út og veltu meira að segja einum flutningabíl um koll. Það var í miðju svona óveðri einn seinnipartinn sem Pétur og Stefanía klæddu sig í stormfötin og héldu af stað heim úr skólanum.

Vindurinn var svo mikill að þau hreyfðust varla úr sporunum og slyddan svo þétt að þau voru bæði orðin gegnvot áður en þau komust út af skólalóðinni. Ekki bætti hálkan á göngustígnum úr skák og krakkarnir þurftu að styðja hvort annað til að fljúga ekki á hausinn.

Á leiðinni var brött brekka. Hún var ekki löng, varla meira en tíu skref, en þennan daginn var hún hulin þykkum klakabunka og niður hana streymdi slyddufljót. Hún hafði eiginlega breyst í jökulkalda vatnsrennibraut. Hvernig sem Pétur og Stefanía reyndu hleypti brekkan þeim ekki upp. Hún kippti undan þeim fótunum og sendi þau holdvot aftur á upphafsreit.

„Við verðum að finna aðra leið,“ hrópaði Stefanía í gegnum veðrið.

Pétur leit á hana. Það var bara um eina aðra leið að velja. Leiðina sem lá um yfirgefnu lóðina. En hann var farinn að skjálfa úr kulda og vildi ekkert frekar en komast sem fyrst heim í þurr föt. Ef það þýddi að þau þyrftu að laumast framhjá þessum hræðilega kofa þá varð bara að hafa það. Hann kinkaði kolli.

Þau settu undir sig hausana og brutu sér leið í gegnum storminn að limgerðinu sem umlukti lóðina. Þegar þau voru komin í gegnum það varð ferðin strax auðveldari. Runnarnir skýldu þeim fyrir mesta vindinum en þétt slyddan birgði þeim ennþá sýn. Pétur öslaði áfram með húfuna dregna niður fyrir augun. Grjóthnullungarnir á lóðinni hreyfðust þegar hann steig á þá og hálkublettir skutu upp kollinum þar sem þeirra var síst von.

Skyndilega heyrði Pétur óp. Hann sneri sér við og sá Stefaníu liggja á jörðinni. Yfir henni gnæfðu tvær verur. Pétur þekkti aðra þeirra undir eins. Það var ófreskjan sem ráðist hafði á hann nokkrum dögum áður. Hin veran var hávaxnari. Pétur fylgdist með í örvæntingu þegar hún þreif í Stefaníu og dró hana með sér inn í slyddukófið.

Hundurinn Lubbi

7. kafli: Inn í kofann

Loksins kom Pétur aftur til sjálfs sín. Hann gat ekki bara staðið hjá og horft upp á vinkonu sína vera numda á brott. Hann varð að gera eitthvað! Hann vissi ekki alveg hvað, bara eitthvað.

Hann lagðist upp í vindinn með skólatöskuna á bakinu og klöngraðist yfir ógreiðfæra lóðina í humátt á eftir verunum. Hann missti fljótt sjónar á þeim en ekki leið á löngu þar til hann kom að kofanum. Drungalegir veggirnir gnæfðu yfir, alsettir stálþyrnum.

Hjartað í Pétri hamaðist. Hann vissi ekki hvort það væri vegna áreynslunnar við að berjast gegn veðrinu eða ótta við það sem leyndist framundan. Hann skreið meðfram veggnum þar til hann kom að stórri hurð. Þetta var ekki venjuleg útidyrahurð, í það minnsta var hún ekki eins og þær sem hann átti að venjast. Hún var hvít og glansandi og minnti helst á ísskáp. Pétur kom hvergi auga á bréfalúgu til að gægjast inn um svo hann lagði eyrað upp að hurðinni og hlustaði.

Ekkert. Ekkert nema ýlfrið í vindinum.

Eða hvað?

Þetta ýlfur hljómaði eitthvað undarlega. Það hækkaði jafnt og þétt þar til það varð að skerandi spangóli.

Skrímslið, hugsaði Pétur skelfingu lostinn. En áður en honum gafst ráðrúm til að svo mikið sem snúa sér undan var hurðinni hrundið upp. Beinaber krumla læstist um handlegginn á honum og dró hann inn. Svo stökk skrímslið á hann.

Pétur æpti og faldi andlitið í höndum sér. Blautur feldur lagðist yfir hann og Pétur bjóst við því að finna fyrir hvössum tönnum á hverri stundu. En það gerðist ekki. Í stað þeirra birtist eitthvað mjúkt og bleikt og sleikti hann af miklum ákafa.

„Hættu þessum ópum, drengur,“ sagði rám rödd. „Og Lubbi, láttu hann í friði.“

Skrímslið sleppti Pétri. Hann andaði ótt og títt en áræddi að lokum að gægjast á milli fingranna. Fyrir framan hann stóð risavaxinn hundur. Út úr munninum hékk löng tunga og niður úr henni lak sleftaumur. Hann dillaði skottinu af miklum ákafa. Við hliðina á honum stóð eldgömul kona í svartri loðkápu og með hræðilega grettu á andlitinu.

Pétur sá undir eins að hún gat ekki verið neitt annað en norn.

Nornin

8. kafli: Nornin í eldhúsinu

Pétur hrökk undan og skreið í átt að dyrunum. Þá kom hann auga á Stefaníu. Hún sat á stól fyrir aftan nornina og stóra hundinn, vafin inn í bakarasvuntu og glotti.

„Hvað – hvað er eiginlega í gangi?“ stamaði Pétur.

„Róaðu þig nú, vinurinn,“ sagði nornin og grettan hvarf úr andliti hennar. Hún var alls ekki jafn ógnvænleg og Pétri hafði sýnst í fyrstu. Hún var kannski ekki vingjarnleg en hún leit í það minnsta ekki lengur út fyrir að vilja éta hann. „Farðu nú úr þessum blautu fötum. Annars gætirðu kvefast.“

„É-ég?“ spurði Pétur. Stefanía hló.

„Já, ekki getur Lubbi farið úr feldinum,“ sagði nornin og klappaði hundinum á höfuðið. Hann hristi sig svo slefdropar flugu um allt. Nokkrir lentu á Pétri. „Hérna er svunta sem þú getur sveipað um þig á meðan fötin þorna. Svona, drífðu þig nú.“

„Fyrir framan alla?“ muldraði Pétur.

„Ef þú finnur skiptiklefa er þér velkomið að nota hann,“ sagði nornin.

Pétur leit í kringum sig. Kofinn leit ekki út fyrir að innihalda neitt svoleiðis. Raunar virtist hann vera lítið annað en eitt stórt eldhús sem lýst var upp með nokkrum kertum. Í einu horninu stóð tómur ísskápur sem á vantaði hurðina. Á veggjunum héngu pottar og pönnur á nöglum og á miðju gólfinu var borð sem á stóðu staflar af óhreinum diskum, brúnum banönum og tómum mjólkurfernum. Það undarlegasta af öllu var samt vaskurinn við gluggann. Í honum brann varðeldur. Logarnir dönsuðu letilega og sendu frá sér gráar reykjarslæður. Sumar þeirra rötuðu út um rifu á glugganum en aðrar hópuðust saman uppi við loftið og lituðu það svart. Í grind við hliðina á vaskinum héngu föt Stefaníu.

„Engan pempíuskap,“ sagði nornin.

Pétur fór á bakvið stól (sem veitti honum reyndar lítið skjól) og skipti yfir í svuntuna. Hún var allt of stór svo hann varð að vefja henni utan um sig eins og kufli. Nornin tók fötin hans og hengdi þau til þerris við hliðina á fötum Stefaníu.

„Jæja þá.“ Nornin sneri sér aftur að Pétri og Stefaníu. „Nú þurfið þið að gera grein fyrir ykkar málum. Hvað voruð þið eiginlega að laumast í kringum kofann minn?“ Hún sendi þeim stingandi augnaráð af þeirri gerðinni sem einungis nornir búa yfir.

Teketillinn í vaskinum

9. kafli: Nornin býður í te

„Þurrkaðu þennan hræðslusvip framan úr þér,“ hreytti nornin í Pétur. „Ég er engin tröllskessa ef þú heldur það.“

Pétur kyngdi og heyrði Stefaníu flissa við hlið sér.

„Hvað voruð þið eiginlega að laumast þarna úti?“ endurtók nornin hvasst. „Krakkar eins og þið eigið ekki að vera að flækjast um í svona veðri. Það getur verið stórhættulegt.“

„Við vorum bara á leiðinni heim úr skólanum,“ sagði Stefanía.

„Hvers vegna kom enginn og sótti ykkur?“

„Mamma og pabbi eru í vinnunni,“ sagði Stefanía.

Nornin hnussaði.

„Þá verðið þið bara að bíða hér þar til lægir,“ sagði hún afundin. „Viljið þið ekki fá eitthvað heitt að drekka?“ Án þess að bíða eftir svari dró hún út skúffu og fór að gramsa í henni. „Kaffi, búið,“ tautaði hún. „Kakó, búið. Te. Drekkið þið te? Mangó og engifer?“

„Jájá,“ svaraði Stefanía.

Pétur sagði ekkert. Honum fannst alltaf óþægilegt að hitta nýtt fólk. Þá vissi hann ekkert hvernig hann átti að hegða sér og fannst hann ekki hafa stjórn á neinu. Hann kunni heldur ekki vel við þennan furðulega skakka kofa og til að bæta gráu ofan á svart þá fékk hann ekki einu sinni að vera í sínum eigin fötum. Sem betur fer var Stefanía með honum.

Nornin tók ketil af nagla á veggnum og dýfði honum ofan í fullan pott af vatni sem stóð á gólfinu. Svo kom hún katlinum fyrir yfir eldinum í vaskinum.

„Hvers vegna notarðu ekki kranann?“ spurði Stefanía.

„Hann virkar ekki,“ sagði nornin. „Ég er svo nýflutt inn skilurðu.“ Stefanía kinkaði spekingslega kolli.

Pétur skildi ekki. Þegar hann hafði flutt inn í húsið sitt höfðu allir kranar virkað fullkomlega.

„Rafmagnið er heldur ekki komið á,“ sagði nornin. „En það skiptir engu, ég kann betur við kertaljós hvort eð er.“ Ketillinn fór að blístra og nornin skellti nokkrum tepokum ofan í hann. Pétur fylgdist með henni gramsa í hrúgunni á borðinu í leit að hreinum bollum og tók varla eftir því þegar Lubbi nálgaðist. Það var ekki fyrr en hann lagði höfuðið í kjöltu Péturs að hann varð hundsins var.

„Prófaðu að klóra honum á bak við eyrun,“ sagði nornin og rétti Pétri bolla með mynd af Elísabetu Englandsdrottningu.

Pétur gerði það, mjög varlega, og Lubbi gaf frá sér vellíðunarstunu. Pétur saup á teinu og klappaði Lubba á meðan Stefanía og nornin töluðu saman. Fljótlega stytti upp og krakkarnir skiptu aftur í sín eigin föt. Þau voru enn rök og lyktuðu af reyk.

„Sjáumst,“ kallaði Stefanía til nornarinnar þegar þau gengu í burtu.

Pétur gaut augunum yfir öxlina og veifaði til Lubba sem dillaði skottinu á móti. Þessi hundur var sko engin ófreskja. Pétur gat ekki beðið eftir því að þeir hittust aftur.

Pétur og Stefanía í búðarferð

10. kafli: Búðarferðin

„Ég á að fara beint heim,“ sagði Pétur.

„En búðin er næstum í leiðinni,“ sagði Stefanía. „Sjáðu.“ Hún dró fullan poka af klinki upp úr skólatöskunni sinni. „Konan í kofanum lét okkur meira að segja fá peninga.“

„Þú veist að hún er norn, er það ekki?“ sagði Pétur. „Við ættum ekki að koma nálægt henni aftur.“

„Þvílík vitleysa.“ Stefanía ranghvolfdi í sér augunum. „Hún lítur alveg eins út og amma mín og amma er engin norn. Sko, ef fólk sem bjargar manni úr lífsháska biður mann um að gera eitthvað fyrir sig þá gerir maður það. Og konan í kofanum – sem er ekki norn – bað okkur um að kaupa í matinn.“

„Hún bað mig ekki um neitt,“ muldraði Pétur.

„Ætlarðu þá að láta mig eina um þetta?“ spurði Stefanía hneyksluð.

„Ég – sko, nei, ég skal alveg koma með þér,“ stamaði Pétur. „En mér finnst þetta samt slæm hugmynd,“ bætti hann við. „Ef það kemur eitthvað upp á þá er það þér að kenna.“

„Ókei,“ sagði Stefanía og hnussaði. „Komdu þá.“

Þau tóku stefnuna á litlu búðina við endimörk skólalóðarinnar, þangað sem unglingarnir fóru alltaf í frímínútunum. Búðardyrnar opnuðust sjálfkrafa þegar Pétur og Stefanía nálguðust. Pétur dró djúpt andann. Það sem hann lét hafa sig út í.

„Hvað ættum við að kaupa?“ spurði Stefanía þar sem þau Pétur stóðu á botni mikils hillugljúfurs. Á báðar hendur teygðu staflar af dósamat sig alla leið upp í loft.

„Ég veit ekki,“ svaraði Pétur svolítið fúll. „Þú sagðist eiga ömmu sem ...“

„Hún býr í útlöndum,“ greip Stefanía fram í fyrir honum. „Þar er öðruvísi matur en hér.“

Pétur hugsaði sig um. Hann átti reyndar líka ömmu en hún var heldur alls engin norn. Það gat samt vel verið að nornir borðuðu það sama og venjulegt fólk.

„Hvað með bjúgu?“ stakk hann upp á.

„Hvað er það?“

„Svolítið eins og stórar pulsur.“

„Góð hugmynd. Eitthvað meira?“

Þau röltu um búðina með stóra innkaupakerru og tíndu ofan í hana allt sem þeim fannst líklegt að gamla konan í kofanum gæti þarfnast. Mjólkurkex, kartöflumús í pakka, haframjöl, kakóduft, kaffi, skyrdollu, nokkrar örbylgjumáltíðir (jafnvel þó að Pétur benti á að í kofanum væri ekkert rafmagn, hvað þá örbylgjuofn) og eitt súkkulaðidagatal þar sem það voru að koma jól.

Afgreiðsluunglingurinn við kassann stundi þegar Stefanía rétti honum klinkpokann.

„Þetta er ekki nóg,“ sagði hann þegar talningunni var lokið.

Stefanía leit á Pétur sem hristi höfuðið örvæntingarfullur.

„Við – við skilum þessu þá bara,“ stamaði Stefanía og rétti unglingnum nokkrar örbylgjumáltíðir. Svo flýttu þau sér út með fullan poka af mat og hlupu í einum spretti í felur á bakvið næstu blokk. Þar skellti Stefanía upp úr. Pétur skyldi ekki hvað var svona fyndið en hláturinn var svo smitandi að hann gat ekki annað en tekið undir.

„Jæja,“ sagði Stefanía og þurrkaði hláturtár úr augnkrókunum. „Förum nú með þetta til nornarinnar – ég meina konunnar í kofanum.“

Nornin tekur loforð af krökkunum

11. kafli: Nornin tekur af þeim loforð

Pétur stóð í skjóli Stefaníu þegar hún bankaði á ísskápshurðina á kofa nornarinnar. Dyrnar opnuðust til hálfs en þegar nornin sá hver stóðu fyrir utan flýtti hún sér að sópa krökkunum inn. Þar tók Lubbi á móti þeim með fagnaðarlátum.

„Hérna er maturinn,“ sagði Stefanía og lagði pokann úr búðinni á gólfið. Lubbi stakk trýninu á bólakaf ofan í hann en nornin stuggaði við honum.

„Jahérna,“ sagði hún. „Ég bað ykkur bara um að kaupa svolítið kaffi, ekki hálfa búðina.“

„En þú átt engan mat,“ sagði Stefanía. „Ísskápurinn er alveg tómur.“ Hún benti á hurðarlausa ísskápinn í horninu.

„Ég á hundamat,“ sagði nornin. „Hann og kaffi eru nóg fyrir okkur Lubba.“

„Jæja þá,“ sagði Stefanía. „En ef þú færð gesti geturðu allavega gefið þeim kakó og ljúgu.“

„Bjúgu,“ skaut Pétur inn í.

„Já, það,“ sagði Stefanía.

„Þið hafið hugsað fyrir öllu,“ sagði nornin. „Var einhver afgangur?“

Stefanía dró fram peningapokann. Í honum voru fjórir tíkallar.

„Eigið restina,“ sagði nornin. „Nú svelt ég í það minnsta ekki fram að jólum,“ bætti hún við.

„Heyrðu,“ sagði Stefanía. „Pétur sagði að þú værir norn.“

Pétur, sem hafði verið að klóra Lubba á bakvið eyrun, hrökk við.

„Ég meinti bara ...“ Hann eldroðnaði.

„Norn?“ sagði nornin í eldhúsinu undrandi. „Auðvitað er ég ...“ Hún hikaði. „Auðvitað er ég norn. Hvað gæti ég annað verið? Gullfiskur?“ Hún rak upp ósvikinn nornarhlátur. „Var það þess vegna sem þú varst svona hræddur við mig?“ skaut hún að Pétri. „Hræddur um að ég myndi éta þig?“ Hún hló ennþá hærra og Pétur fann hroll skríða niður bakið. „Svoleiðis hefur engin norn gert síðan á tímum langömmu minnar.“ Pétri létti stórum. „En þið megið ekki segja neinum frá,“ bætti nornin við.

„Að nornir borði ekki fólk?“ spurði Pétur undrandi.

„Nei, að ég búi hérna,“ sagði nornin.

„En það er magnað að þekkja norn,“ hrópaði Stefanía.

Nornin hugsaði sig um í svolitla stund. „Ég er í miðju kafi í leynilegu verkefni og það má enginn vita af mér. Skiljiði hvað ég er að fara?“

Krakkarnir kinkuðu bæði kolli. Pétur skildi alveg hvernig það var að vilja fela sig.

„Ágætt,“ sagði nornin. „Jæja, farið nú að koma ykkur heim. Ekki viljum við að foreldrar ykkar haldi að þið hafið verið étin af úlfum eða breytt í froska, er það nokkuð?“

Pétur heyrði hláturinn bergmála löngu eftir að dyrnar á kofanum lokuðust á eftir þeim Stefaníu, en í þetta skipti fylgdi honum enginn hrollur. Hann hafði það á tilfinningunni að ævintýri þeirra með norninni væru bara rétt að byrja.

Pétur og Stefanía í gönguferð með Lubba

12. kafli: Göngutúr með Lubba

Pétur og Stefanía heimsóttu nornina reglulega næstu daga. Pétur var enn svolítið óöruggur í kringum hana en nærvera Lubba bætti upp fyrir það.

„Ég held að þú sért orðinn jafnhrifinn af hundinum og hann af þér,“ sagði nornin dag einn þegar þau sátu þrjú saman við eldhúsborðið og borðuðu kaldan örbylgjugrjónagraut með kakói.

„Lubbi er fínn,“ muldraði Pétur.

„En hann er svo stór,“ sagði Stefanía.

„Þannig eru Sankti-Bernharðshundar,“ sagði nornin og klóraði Lubba á bakvið eyrun.

„Risavaxnir. Ég þori varla með hann í göngutúr núorðið. Hann gæti tekið upp á því að draga mig eins og snjósleða ef þannig lægi á honum.“

„Við gætum farið með hann út fyrir þig,“ stakk Stefanía upp á.

„Ég veit það nú ekki,“ sagði nornin efins.

„Ég æfi handbolta og er sterkust í liðinu. Og svo eru Pétur og Lubbi bestu vinir.“ Stefanía var svo spennt að hún hlustaði ekki á nein mótmæli. Pétur langaði líka mikið að fara út að ganga með Lubba svo hann sat bara hljóður og kláraði grautinn sinn á meðan Stefanía sannfærði nornina.

„Hann er orðinn svolítið þreyttur á því að ganga í hringi hérna á lóðinni,“ sagði nornin að lokum. „Eflaust hefði hann gott af því að fá meiri hreyfingu.“

„Þá förum við með hann út eftir skóla á morgun,“ sagði Stefanía og þar með var það ákveðið.

„Farið varlega,“ kallaði nornin á eftir krökkunum þegar þau skunduðu af stað með Lubba daginn eftir. „Og ekki vera of lengi.“

„Jájá,“ kallaði Stefanía á móti.

Krakkarnir héldu bæði í tauminn en það var varla nóg. Lubbi var svo sterkur að hann hefði auðveldlega getað dregið þau hvert sem hann vildi. Sem betur fer var hann svo göfugur að hann reyndi ekkert slíkt. Ekki nema einu sinni þegar hann dró þau bæði upp flughála brekku eins og þau væru ekki þyngri en snjókorn. Einu vandræðin sem komu upp var þegar Lubbi fann sér þúfu til að kúka á. Skíturinn var svo mikill að það þurfti tvo plastpoka til að fjarlægja hann. Það var erfitt verk því fýlan var óbærileg. Þegar Stefanía og Pétur sögðu norninni frá þessum hörmungum hló hún svo innilega að hrafn sem sat í nálægri ösp og ræddi við sjálfan sig hrökk í kút og datt niður af greininni sinni.

Svona er að eiga norn sem nágranna.

Pétur fær hugmynd um póstkassa

13. kafli: Póstkassinn

„Færðu engin jólakort?“ spurði Pétur nornina nokkrum dögum eftir göngutúrinn með Lubba. Hann talaði ekki mjög hátt því hann var enn örlítið smeykur.

„Það veit ég ekkert um.“

„Þú hlýtur að vita það,“ sagði Stefanía.

„Ég er í felum,“ sagði nornin. „Svo jafnvel þótt einhver vildi skrifa mér jólakort þá vissi sú indæla manneskja ekki hvert hún ætti að senda það.“

„Hvað ertu eiginlega að gera sem er svona merkilegt?“ spurði Stefanía. „Jólin eru bara einu sinni á ári.“

„Var ég ekki búin að segja ykkur að það er leyndarmál?“ sagði nornin hvassri röddu.

„Þú ert heldur heldur ekki með neina bréfalúgu,“ sagði Pétur. „Eða póstkassa.“

„Ég þarf ekki á svoleiðis að halda,“ sagði nornin önug.

Stefanía greip andann á lofti. „Notarðu kannski uglur?“

„Uglur til að senda bréf?“ Nornin hnussaði. „Þvílík vitleysa. Þær eru afleitir bréfberar. Hafa ekki áhuga á neinu nema veiða mýs.“

„En ég hef lesið að galdrafólk ...“

„Það er bara skáldskapur. Allar nornir sem ég þekki nota póstkassa. Það eru reyndar göldróttir póstkassar en það kemur út á eitt. Engar uglur.“

„Ég gæti búið til póstkassa handa þér,“ muldraði Pétur og roðnaði. „Það er einn smíðatími eftir í skólanum fyrir jól.“

„Það er fallega hugsað en algjör óþarfi.“

„Þú veist ekkert um það,“ sagði Stefanía. „Kannski er fullt af bréfum á leiðinni til þín sem vita ekkert hvert þau eiga að fara.“

„Jæja, þá það, smíðaðu handa mér póstkassa,“ sagði nornin í uppgjafartón. „Kannski fær Lubbi bréf. Hann er svo vinsæll.“

Lubbi dillaði skottinu glaður á svip og slefaði á buxurnar hans Péturs.

„Hvaða nafn á að vera á kassanum?“ spurði Pétur. Honum fannst ómögulegt að þar stæði bara Nornin í eldhúsinu. Það var eins og heima hjá honum stæði Nemandinn í svefnherberginu. Það gengi engan veginn upp.

„Lubbi.“

„En ef einhver ætlar að senda þér jólakort?“ sagði Stefanía.

„Aðalheiður Jónsdóttir, svoleiðis er ég uppnefnd af fólki sem veit ekki að ég er norn.“

Um varir Stefaníu lék sigurglott.

„Ég hélt að hún ætlaði aldrei að segja okkur hvað hún héti,“ sagði hún við Pétur á leiðinni heim. „Ég bjó sko til jólakort handa henni í skólanum en mig vantaði nafn til að setja á umslagið.“

„Hvers vegna spurðirðu hana ekki bara beint?“ spurði Pétur ringlaður.

„Það væri allt of augljóst,“ svaraði Stefanía. „Jólakort eiga að koma á óvart.“

Dularfullur pottur

14. kafli: Klósettneyðartilvik

„Förum bara til nornarinnar – ég meina Aðalheiðar,“ sagði Stefanía.

„Ég nota ekki ókunnug klósett,“ stundi Pétur. Hann var í spreng.

„Pissaðu þá úti í runna.“

„Aldrei.“

„Hvers vegna gerðirðu það ekki í skólanum?“

„Ég sagði þér að ég notaði ekki ókunnug klósett.“ Pétri leið ekki vel. Einungis fólk sem einhvern tímann hefur drukkið heila vatnskönnu með hádegismatnum getur ímyndað sér hvernig ástandið á honum var.

„Hvað ætlarðu þá að gera? Hlaupa heim?“

„Get. Það. Ekki.“

„Nei.“ Stefanía stansaði. „Ekki segja mér að þú ætlir að pissa á þig. Viljandi. Þá er ég

farin.“

„Auðvitað ekki,“ hvæsti hann.

Stefanía hnussaði. „Við förum til Aðalheiðar. Útrætt mál.“ Hún ætlaði að taka um handlegg Péturs og draga hann af stað en hann vék sér undan.

„Slæm hugmynd,“ muldraði hann. „Gæti misst eitthvað.“

En hann lét til leiðast og fylgdi Stefaníu í gegnum limgerðið sem umkringdi yfirgefnu lóðina. Hún bankaði og nornin kom til dyra.

„Á slaginu,“ sagði hún. „Eins og venjulega. Hvað er nú að sjá þig?“ Hún leit á Pétur.

„Klósettneyðartilvik,“ útskýrði Stefanía.

Nornin hleypti þeim inn og hófst svo handa við að gramsa í einni eldhússkúffunni.

„Hérna,“ sagði hún og rétti Pétri rauðan pott með blómamynstri og tveimur handföngum.

„Hvað á ég að gera við þetta?“ stundi Pétur og dansaði til og frá.

„Nú, míga í hann auðvitað.“

„En ...“

Nornin otaði pottinum að honum. „Mér sýnist þú ekki hafa um neitt að velja. Það eru annaðhvort buxurnar eða potturinn.“

Pétur þreif pottinn til sín með vanþóknun og fór með hann út í horn. Sem betur fer var potturinn stór því Pétri var mikið mál. Þegar hann var búinn lagði hann pottinn á eldhúsborðið.

„Ekki skilja þetta eftir hér.“ Nornin bandaði frá sér hendinni. „Farðu út og helltu úr honum.“

„Hvert?“

„Hvert sem er.“

„En ...“

„Teldu bara tuttugu skref og snúðu honum svo á hvolf.“

Þetta er allt saman kolvitlaust, hugsaði Pétur þegar hann gekk tuttugu skrefin aftur heim að kofanum. Snældugalið. Hann varð þó að viðurkenna að það var góð tilfinning að vera ekki lengur í spreng.

„Þú ættir að fá þér klósett,“ sagði hann við nornina þegar hann steig aftur inn í eldhúsið. „Þetta gengur ekki svona.“

„Gengur vel fyrir mig,“ sagði nornin. „Þar að auki er ekkert vatn í húsinu eins og þú veist vel og ég kæri mig ekki um að hafa kamar undir vaskinum. Fnykurinn er nógu slæmur fyrir.“

Pétur var sammála. Lyktin inni í kofanum varð verri með hverri heimsókninni. Sambland af blautum hundi, reyk og skemmdum mat.

„Það þarf að kippa þessu í lag,“ sagði Pétur ákveðinn. „Og ef þú gerir það ekki þá geri ég það.“

Í bílskúrnum hjá ömmu

15. kafli: Pétur finnur frábæra lausn

Það var ekki fyrr en mörgum dögum síðar að Pétur fann loksins lausn á klósettvandamálinu. Hann hafði byrjað á póstkassanum handa norninni í smíði í skólanum en ekki náð að klára áður en tímanum lauk. Sem betur fer tókst honum að sannfæra smíðakennarann um að leyfa sér að taka ókláraðan póstkassann með sér heim með því að segjast eiga ömmu sem gæti hjálpað. Ömmu sem einu sinni hefði byggt heilt hús. Svo þyrfti póstkassinn líka lífsnauðsynlega að vera tilbúinn fyrir jól.

Þess vegna sleppti Pétur því að heimsækja nornina og Lubba eftir skóla þennan daginn. Hann þurfti að sinna mikilvægari verkefnum. Þegar hann kom heim skrifaði hann miða og skildi eftir á eldhúsborðinu. Á honum stóð:

Ágæti pabbi,
ég er að fara til ömmu. Það er mjög nauðsynlegt. Ég kem aftur.
Virðingarfyllst, Pétur.

Hann hafði lært hvernig átti að skrifa bréf í skólanum og var stoltur af útkomunni.

„Nei, ertu kominn, Pétur minn,“ sagði amma og ljómaði þegar hún opnaði útidyrnar.

Pétur kinkaði kolli. Svo sagði hann ömmu frá póstkassanum sem yrði að vera tilbúinn sem allra fyrst. Hann sleppti því hins vegar að minnast á nornina.

„Póstkassinn er sko fyrir, hérna, vinkonu mína,“ sagði hann.

„Ég skil.“ Amma brosti.

Pétur var alls ekki viss um að það væri satt en sagði ekkert. Amma leiddi hann niður í bílskúr þar sem þau settust við gamlan hefilbekk og tóku til við smíðarnar. Þær gengu mjög vel því amma var sérstaklega handlagin. Enda ekki við öðru að búast af konu sem reist hafði sitt eigið hús.

„Áttu nokkuð brennipenna sem ég get notað til að skrifa nafnið á norn – ö – vinkonu minni?“

„Nei, en ég á málningu.“ Amma klöngraðist upp á hefilbekkinn og rótaði í dóti á einni hillunni.

Það var þá sem Pétur kom auga garðslönguna. Hún lá upphringuð úti í horni og beið þess að verða notuð. Og við hliðina á henni lá önnur löng slanga sem, ef Pétri skjátlaðist ekki hrapalega, var rafmagnssnúra. Á því augnabliki þaut hugmynd upp í höfuðið á Pétri af svo miklum krafti að hann missti næstum jafnvægið.

„Amma,“ sagði hann eftir að hafa jafnað sig. „Mætti ég kannski fá þessar tvær lánaðar?“

Pétur felur garðslöngu

16. kafli: Pípulagnir ...

Pétur var svo spenntur fyrir verkinu sem framundan var að honum tókst ekki að sofna fyrr en löngu eftir miðnætti. Þegar Stefanía bankaði upp á morguninn eftir var hann löngu tilbúinn og kominn í útifötin. Á leiðinni í skólann sagði hann henni frá hugmyndinni.

„Þetta er hrein og klár snilld,“ sagði Stefanía.

Pétur var upp með sér. Eftir skóla hlupu þau að kofa nornarinnar. Það var svolítið erfitt þar sem þau þurftu að dröslast með tvo slönguhnykla á bakinu. Aldrei þessu vant var það Pétur sem bankaði.

„Við erum búin að finna lausn á öllum þínum vandamálum,“ tilkynnti hann hátíðlega þegar nornin hleypti þeim inn.

„Það er naumast.“

„Eða allavega þeim verstu.“

„Lát heyra.“

Pétur og Stefanía útskýrðu í smáatriðum hvernig þau ætluðu að tengja eldhúsið hennar við vatn og rafmagn.

„Þá geturðu fengið þér almennilegt klósett,“ sagði Pétur.

„Og bakað smákökur,“ bætti Stefanía við.

„Þið virðist vera með þetta allt á hreinu,“ sagði nornin.

„Heldur betur,“ sagði Pétur.

Nornin stundi.

„Ég get víst ekki fengið ykkur ofan af þessu.“ Krakkarnir hristu höfuðin. „Jæja, en farið varlega. Og reynið að láta engan sjá ykkur. Munið að ég er í felum.“

Þau lofuðu því. Svo hófust þau handa. Planið sem Pétur hafði útbúið var ekki mjög flókið þó að það væri frábært. Til að byrja með þyrftu þau bara að finna krana sem hægt væri að tengja við garðslönguna. Það hlutu að vera einhverjir þannig í görðunum í kring. Hvernig vökvaði fólk annars jarðarberjaplönturnar sínar á sumrin?

Þau þurftu ekki að leita lengi. Út úr vegg næsta húss stakkst lítill, hvítur krani. Stefanía læddist að honum með garðslönguna í hendinni á meðan Pétur beið inni í runna með öndina í hálsinum.

„Ég veit ekki hvernig á að gera þetta,“ hvæsti Stefanía yfir öxlina á sér og bisaði við að koma slöngunni fyrir.

„Þú þarft bara að smella …“ Það heyrðist klikk.

„Komið.“ Stefanía þaut aftur í felur.

„Skrúfaðirðu frá?“ spurði Pétur.

„Þarf að gera það?“

„Auðvitað.“

Stefanía yggldi sig en laumaðist samt aftur að krananum.

„Svona, ánægður?“

„Það þarf að fela slönguna.“ Pétur benti Stefaníu á hrúgu af visnum laufblöðum sem hann hafði safnað saman.

„Nei, nú er komið að þér.“ Stefanía setti hendur á mjaðmir.

„En ...“

Hún leit skipandi á hann.

Pétur lét undan. Hann laumaðist inn í garðinn og huldi slönguna með laufblöðunum. Hjartað hamaðist þegar hann hentist aftur inn í runnann. Þetta hafði verið hættulegt. Og spennandi. En verkið var bara hálfnað.

Stefanía tengir rafmagn

17. kafli: ... og rafvirkjun

„Nú er bara rafmagnið eftir,“ sagði Stefanía.

„Við verðum að finna seríur,“ sagði Pétur.

Það var ekki mikið mál þar sem einungis var vika til jóla. Í næsta garði var hver einasti runni þakinn litlum ljósaperum sem blikuðu í skammdegisrökkrinu og á milli þeirra hlykkjuðust rafmagnssnúrur eins og langir, svartir ánamaðkar. Því miður hurfu þær allar inn um hálflokaðan kjallaraglugga.

„Við getum ekki brotist inn,“ hvíslaði Pétur. Það væri einum of langt gengið.

„Prófum næsta garð,“ stakk Stefanía upp á.

Þar fundu þau akkúrat það sem þau leituðu að. Í skjóli undir húsvegg lá fjöltengi og, það sem meira var, í því voru nokkrar lausar innstungur. Spennan var alveg að fara með Pétur svo Stefanía fékk aftur það hlutverk að laumast inn í garðinn. Klóin smaug auðveldlega í innstunguna og Stefanía hraðaði sér til baka.

„Ég held að við þurfum ekki að fela neitt í þetta skiptið,“ sagði hún móð. „Það eru svo margar aðrar snúrur að okkar fellur alveg í hópinn.“

Pétur var sammála.

Á yfirgefnu lóðinni beið garðslangan eftir þeim og sprautaði vatni í allar áttir. Stefanía lagði til atlögu og tókst að hemja slönguna eftir mikil átök. Vatnið sprautaðist út um allt en sem betur fer var Stefanía í regnkápu svo það gerði ekkert til.

„Komið,“ kallaði hún.

Nornin birtist í glugganum.

„Vatn og rafmagn,“ tilkynnti Stefanía hátíðlega.

„Bara kalt vatn samt,“ hvíslaði Pétur að henni.

„En bara kalt vatn,“ bergmálaði Stefanía.

Í nokkur andartök starði nornin á þau.

„Réttið mér þetta,“ sagði hún svo og teygði handleggina út um gluggann. Krakkarnir réttu henni leiðslurnar.

„Er þetta ekki magnað?“ sagði Stefanía þegar þau Pétur voru komin inn í kofann.

„Alveg hreint ótrúlegt,“ tautaði nornin.

Garðslangan bunaði vatni af miklum krafti ofan í vaskinn þar sem varðeldurinn hafði logað svo eldhúsið fylltist af klið. Það var eins og þar væri lítill foss. Nornin hafði tengt rafmagnssnúruna við loftljósið sem baðaði eldhúsið hvítri birtu.

„Mig grunaði ekki að það væri orðið svona skítugt hérna.“ Nornin strauk sótarskán af eldavélinni. „Kannski er best að halda sig bara við kertin. Þau gefa fallegri birtu hvort eð er.“ Hún tók ljósið úr sambandi og eldhúsið myrkvaðist. „Ég veit um miklu betri not fyrir þessa snúru.“ Hún grúfði sig yfir ofninn og skömmu síðar barst lágur dynur frá honum þegar viftan fór af stað og gult ljós barst út um sótuga rúðuna. „Nú skal sko bakað!“

Piparköku-Hallgrímskirkja

18. kafli: Jólaskreytingar

Pétur og Stefanía komust að því að nornin var ekki alveg jafn fátæk og þau höfðu haldið. Nornir eru það sjaldnast. Innan úr skáp dró hún olíuflösku, hveiti, síróp og margar tegundir af kryddum. Hún blandaði þessu saman í potti yfir heitri hellu og eftir skamma stund fylltist eldhúsið af jólailmi. Upp úr skúffu dró hún tvö kökukefli og piparkökuform og sagði Pétri og Stefaníu að láta hendur standa fram úr ermum. Þau flöttu deig og skáru það út af miklum móð og áður en langt um leið var eldhúsið þakið heitum piparkökum sem biðu þess að verða borðaðar.

Nornin sat með hníf í hendi við eldhúsborðið og skar út flókin mynstur.

„Þetta er Hallgrímskirkja,“ sagði hún þegar Stefanía spurði hvað hún væri eiginlega að gera. „Ég er að vinna í því að breyta öllum húsunum hans Guðjóns Samúelssonar í piparkökuhús.“ Hún leit á krakkana. „Guðjón Samúelsson. Þekkið þið hann ekki? Hann var frægur arkitekt og teiknaði mörg falleg hús.“

„Greinilega ekki húsið þitt,“ muldraði Pétur og roðnaði.

„Það er nú bara ekkert að því, góði minn,“ sagði nornin og grúfði sig aftur yfir útskurðinn. „Kofinn minn hlýðir engum reglum og gerir nákvæmlega það sem honum sýnist. Ég held til dæmis ekki að okkar kæri Guðjón hafi nokkurn tímann teiknað leyniherbergi í sín hús.“

„Er leyniherbergi hérna?“ spurði Stefanía áköf og leit í kringum sig „Hvar?“ Hún stökk á fætur og grandskoðaði veggina.

„Þarna.“ Nornin benti beint upp í loft með útskurðarhnífnum.

Krakkarnir litu upp og sáu móta fyrir hlera.

„Það þarf stiga til að komast þangað,“ sagði Pétur.

„Stiga?“ Nornin hnussaði. „Við þurfum ekkert svoleiðis í þessu húsi. Eruð þið ekki spræk, krakkar?“

Pétri leist ekkert á tóninn í rödd nornarinnar en Stefanía spratt á fætur, greinilega tilbúin í hvað sem var.

„Heldur betur.“

Nornin sópaði mesta ruslinu af eldhúsborðinu. Svo hlóð hún ofan á það pottum og pönnum þar til úr varð mikill turn sem teygði sig alla leið upp í loft. Nokkrar piparkökur reyndu að flýja hamaganginn með því að stökkva niður á gólf en þar beið Lubbi þeirra og gleypti þær hæstánægður í sig.

„Svona, upp með ykkur,“ sagði nornin og þurrkaði svita af enninu.

Krakkarnir klöngruðust upp turninn. Þegar þau opnuðu hlerann rigndi yfir þau hvítu ryki svo Pétur fékk hóstakast. Svo smeygðu þau sér inn. Leyniherbergið var fullt af kössum af öllum stærðum og gerðum. Stóran hluta þaksins vantaði svo sumir þeirra voru huldir snjó.

„Réttið mér þann sem á stendur jól,“ kallaði nornin upp til þeirra.

Stefanía fann kassann og þau slökuðu honum varlega niður í eldhúsið. Nornin dró langan brauðhníf upp úr skúffu, skar á límbandið sem hélt kassanum saman og opnaði. Við blöstu glitrandi jólakúlur og heill haugur af hálfbrunnum dagatalskertum. Þar var meira að segja aðventukrans úr grenigreinum sem molnaði þegar nornin snerti hann.

„Ég veit ekki með ykkur,“ sagði hún og leit upp til krakkanna. „En mér finnst vera kominn tími á svolítið jólaskraut.“

Pétur er þrumu lostinn

19. kafli: Síðasti skóladagurinn

Síðasti kennsludagurinn fyrir jól var runninn upp og Pétur gat ekki beðið eftir því að honum lyki. Eftir jólabaksturinn og skreytingarnar hjá norninni hafði hann farið heim og bakað enn meira með pabba. Hafrasamlokur, súkkulaðibitakökur, kókostoppa, engiferkökur og möndlutvíbökur. Þeir höfðu ætlað að gera fleiri sortir en urðu að gefa þær upp á bátinn þegar gamla klukkan í stofunni tilkynnti þeim að háttatími Péturs væri runninn upp.

„Við höldum bara áfram seinna,“ hafði pabbi sagt og þetta seinna var einmitt í kvöld. Þeir ætluðu að baka brúnar lagkökur (sem voru það besta sem Pétur vissi) og helling af sörum. Pétur hlakkaði mikið til. Hann fékk nefnilega alltaf að dýfa sörunum í súkkulaðið. Sem betur fer var bara einn tími eftir í skólanum og það var uppáhaldstími Péturs, tölvufræði.

Kennarinn sýndi bekknum síðu á netinu þar sem hægt var að finna afrit af gömlum dagblöðum. Sum voru meira en tvöhundruð ára. Þau voru skrifuð með svo skrítnu letri að það var ómögulegt að vita hvaða fréttir þau hefðu eiginlega að segja. Sem betur fer setti kennarinn bekknum fyrir auðveldara verkefni. Þau áttu að finna hvað hafði verið á forsíðum blaðanna daginn sem hvert og eitt þeirra fæddist.

Það reyndist aftur á móti erfiðara fyrir Pétur en flest bekkjarsystkina hans. Hann var nefnilega fæddur 1. janúar og hvernig sem hann leitaði tókst honum ekki að finna eitt einasta dagblað sem gefið hafði verið út þann daginn. Hvorki árið sem hann fæddist né nokkur önnur. Hann skrifaði þess vegna eftirfarandi skýrslu:

Þegar ég fæddist gerðist ekkert.

Pétur hallaði sér aftur í stólnum. Þetta var frekar glatað. Hann hafði verið að vona að eitthvað ótrúlegt hefði gerst þegar hann fæddist. Svo fékk hann hugmynd. Gæti verið að einhver hefði skrifað frétt um hann?

Pétur sló nafnið sitt inn.

Nei. Hann hafði greinilega ekki afrekað nógu mikið ennþá. Hann prófaði Stefaníu en hún skilaði heldur engum niðurstöðum. Svo datt honum í hug að leita að norninni. Hún hlaut að hafa gert eitthvað svakalegt á sínum yngri árum. Eitthvað sem hlaut að hafa ratað í fréttirnar.

Aðalheiður Jónsdóttir, skrifaði hann.

Niðurstöðurnar hrönnuðust upp. Þær voru flestar dagsettar í byrjun desember í ár. Áhugavert. Pétur smellti á fyrstu niðurstöðuna og stautaði sig í gegnum fyrirsögnina. Hann varð meira undrandi með hverju orðinu sem hann las. Þarna stóð:

Lögreglan lýsir eftir Aðalheiði Jónsdóttur.

Stefanía les tilkynninguna

20. kafli: Eftirlýst

Pétur beið eftir Stefaníu fyrir utan skólann þegar hún kom út. Hann hélt á samanbrotnu blaði í hendinni og velti því órólegur á milli fingranna. Það var fréttin um nornina sem hann hafði prentað út.

„Hvað er að þér?“ spurði Stefanía. „Sástu draug?“

Pétur rétti henni blaðagreinina orðalaust.

„Á ég að lesa þetta eða?“

Pétur kinkaði kolli og Stefanía stundi. Hún sléttaði úr blaðinu og hóf lesturinn.

Lögreglan lýsir eftir Aðalheiði Jónsdóttur, 79 ára. Aðalheiður hefur ekki sést síðan 1. desember síðastliðinn þegar íbúð hennar að Holtastræti 37 sprakk í loft upp. Aðalheiður er lágvaxin, með grátt hár og líklega svartklædd. Þau sem hafa upplýsingar um ferðir hennar eða vita hvar hún er niðurkomin eru beðin um að hafa samband við lögregluna í síma 112.

Augabrúnir Stefaníu lyftust sífellt hærra upp á ennið eftir því sem leið á lesturinn þar til þær hurfu upp undir eyrnabandið.

„Er þetta Aðalheiður okkar?“ spurði hún undrandi. „Aðalheiður norn?“

„Ég held það,“ sagði Pétur angistarfullur. „Þarna stendur að við eigum að hafa samband við lögguna,“ bætti hann við. Hann langaði ekkert að gera það. Hvað ef norninni yrði nú stungið í fangelsi? Eða brennd á báli?

„Við gerum það ekki,“ sagði Stefanía snöggt. „Manstu ekki hverju við lofuðum henni?“

Pétur kinkaði kolli.

„Þess vegna getum við ekki sagt neinum. Ekki einu sinni löggunni,“ sagði Stefanía.

Pétur varpaði öndinni léttar. Stefanía hafði rétt fyrir sér.

„En hvað eigum við að gera?“ Pétur var miður sín. „Kannski er hún glæpakona.“

„Það getur ekki verið,“ sagði Stefanía. „Ég meina, við bökuðum piparkökur með henni. Þetta hlýtur að vera einhver misskilningur.“ Hún þagnaði og settist í rólu skammt frá. Pétur settist við hliðina á henni. Hann var alveg ráðalaus. Nornin var orðin svo góð vinkona þeirra. Hún átti líka Lubba sem var besti hundur í heimi. En nú var hún eftirlýst og það stóð skýrum stöfum í fréttinni að allir sem vissu eitthvað um hana ættu að hafa samband við lögguna. En þau höfðu lofað að segja engum frá. Þetta var allt saman öfugsnúið.

„Við verðum að fara og spyrja hana hvað sé eiginlega í gangi,“ sagði Pétur að lokum. „Það er engin önnur leið.“

Stefanía kinkaði alvarleg kolli. Svo héldu þau af stað í átt að kofa nornarinnar.

Krakkarnir sýna norninni tilkynninguna

21. kafli: Allt kemst upp

Pétur stóð í skjóli fyrir aftan Stefaníu þegar nornin opnaði dyrnar á kofanum sínum.

„Þið eruð sein í dag,“ sagði hún og bauð þeim inn. Krakkarnir stóðu hins vegar sem fastast fyrir utan. „Hvað gengur nú að ykkur?“

„Við vitum að þú ert eftirlýst,“ sagði Stefanía strangri röddu og hélt útprentuðu fréttinni fyrir framan sig.

Nornin hnyklaði brýrnar svo hrukkurnar á andlitinu dýpkuðu allar og tók við blaðinu. Svo hörfaði hún nokkur skref og seig niður í stól eins og blaðra sem allt loftið hefur lekið úr.

„Þetta komst þá allt saman upp,“ sagði hún niðurlút. „Ég hefði svo sem mátt vita það.“

Hún leit svo meinleysislega út að Pétur trúði því ekki að hún væri glæpakona. Augu þeirra Stefaníu mættust og þau stigu inn í kofann. Lubbi tók á móti þeim með miklum fagnaðarlátum.

„Rændirðu banka eða eitthvað svoleiðis?“ spurði Stefanía.

„Nei, ég týndist,“ sagði nornin. „Það gerðist fyrir mörgum árum en það tók bara enginn eftir því fyrr en núna.“

Krakkarnir horfðu spurnaraugum á hana.

„Er-er ólöglegt að týnast?“ spurði Pétur varfærnislega.

„Það held ég nú ekki.“

„Hvers vegna ertu þá eftirlýst?“

„Tja, ætli það sé ekki vegna þess að ég tók eldhúsið með mér. Það sem ég held að nágrannarnir hafi orðið hissa.“ Það hlakkaði í norninni. „Ekki að ég hafi nokkurn tímann hitt þá,“ bætti hún við.

„En þú sagðist ekki hafa rænt neinu,“ sagði Stefanía.

„Ég veit ekki betur en svo að ég eigi mitt eigið eldhús sjálf.“ Nornin krosslagði hendurnar og setti upp þvermóðskusvip. „Ég hlýt að mega nota það eins og mig lystir.“ Svo seig hún aftur saman. „Nei, ætli þú hafir ekki rétt fyrir þér. Ég gekk kannski of langt. Ég óskaði þess bara svo heitt að ég kæmist í burtu að þegar það loksins gerðist flæktust Lubbi og eldhúsið með. Ég var að vona að ég endaði á einhverjum spennandi stað, kannski Máritíus, en með heilt eldhús í eftirdragi dugði óskin bara hingað. Það verður nú samt að segjast eins og er að ég er afskaplega ánægð með að hafa lent á þessari yfirgefnu lóð. Annars hefði ég aldrei kynnst ykkur krökkunum. En allt tekur enda, bæði það góða og það slæma. Það er kominn tími til að ég geri hreint fyrir mínum dyrum. Það gengur ekki að virðuleg norn húki í felum og hnupli rafmagni frá nágrönnunum. Ég er orðin þreytt á þessu laumuspili.“ Hún stóð á fætur með óvæntum krafti. Svo sveipaði hún um sig svörtu loðkápunni.

„Komdu, Lubbi,“ sagði nornin og opnaði dyrnar út í desemberskammdegið. „Við þurfum að líta í heimsókn niður á lögreglustöð.“

Nornin á lögreglustöðinni

22. kafli: Nornin gefur sig fram

Nornin stikaði yfir hæðina sem lá milli kofans og lögreglustöðvarinnar. Lubbi tölti við hlið hennar hinn ánægðasti með göngutúrinn og dillaði skottinu. Pétur og Stefanía fylgdu fast í kjölfarið. Nornin hafði reynt að senda þau heim en bæði höfðu harðneitað.

„Ég er komin!“ tilkynnti hún hárri röddu um leið og hún hrinti upp dyrunum á lögreglustöðinni

Allra augu beindust að norninni.

„Hvað heldurðu að þú sért að gera?“ Einkennisklædd lögreglukona flýtti sér til hennar.

„Nú, gefa mig fram auðvitað,“ sagði nornin hranalega

„Hér eru hundar bannaðir,“ sagði lögreglukonan. „Vinsamlegast skildu hann eftir úti. Annars verð ég að biðja ykkur öll um að fara.“ Hún hljómaði ekki vitund vinsamlega.

„Ég held nú síður. Ég er eftirlýst. Pétur,“ nornin benti Pétri á að koma til sín, „réttu mér auglýsinguna.“ Hann gerði það en flýtti sér svo aftur í skjól á bakvið Lubba. „Sjáðu.“ Hún otaði blaðagreininni framan í lögreglukonuna. „Hérna stendur það skýrum stöfum: Lögreglan lýsir eftir Aðalheiði Jónsdóttur.“

„Aðalheiður Jónsdóttir. Ert það þú?“

„Það ætla ég rétt að vona.“

„Það getur ekki verið. Þessi grein er orðin þriggja vikna gömul og Aðalheiður Jónsdóttir er löngu komin í leitirnar. Hún...“ Konan hikaði. „Hún fannst látin. Eða réttara sagt þá fannst höfuðkúpan hennar í húsbrakinu sem sprengingin skildi eftir sig.“

„Það hefur verið Konráð,“ sagði nornin. „Hann var afi minn og dó löngu áður en þú fæddist. Ég ætla rétt að vona að þið hafið passað vel upp á hann.“

„En ...“

„Heyrðu mig nú. Ég er Aðalheiður Jónsdóttir og ekki orð um það meir. Ég bý í eldhúsi á yfirgefinni lóð hérna hinum megin við hæðina og hér er ég eftirlýst.“ Hún potaði svo harkalega í útprentuðu blaðagreinina að það kom gat á hana. Svoleiðis getur gerst þegar fólk er með langar nornarneglur.

„Býrðu í eldhúsi á yfirgefinni lóð?“ Konan hljómaði efins.

„Hvort ég geri.“

„Ég held að þið börnin ættuð að koma ykkur heim,“ sagði lögreglukonan.

Nornin reyndi að malda í móinn en allt kom fyrir ekki. Enginn á lögreglustöðinni vildi trúa því að hún væri sú sem hún segðist vera.

„Við erum að loka,“ sagði lögreglukonan ákveðin. „Verið þið sæl og gleðileg jól.“

Það var niðurlútur hópur sem sneri aftur í kofann. Einungis Lubbi var hæstánægður með þennan fína göngutúr.

„Ég er greinilega orðin svo týnd að ég get ekki einu sinni fundið sjálfa mig,“ sagði nornin.

Þau settust við eldhúsborðið og kveiktu á nokkrum kertum. Nornin opnaði smákökudósina og þau mauluðu síðustu piparkökurnar í hljóði.

Þá var skyndilega bankað á hurðina.

Aðalheiður og Petrína

23. kafli: Óvæntir endurfundir

Þau litu hvert á annað í daufu skyni kertaljósanna. Hafði lögreglan ákveðið að koma eftir allt saman? Nornin stóð upp og gekk hægt að dyrunum.

„Já,“ sagði hún og opnaði í hálfa gátt.

Pétur gægðist framhjá henni. Þar stóð lágvaxin vera.

„Gott kvöld.“ Röddin hljómaði eitthvað kunnuglega. „Ert þú Aðalheiður Jónsdóttir.“

„Það er ég, hvort sem þú trúir því eða ekki.“

„Alla?“ sagði röddin og hljómaði undrandi. „Alla úr Eyrarkoti?“

„Jaaá.“ Nornin dró seiminn.

„Manstu ekki eftir mér? Við vorum saman í Gufuskóla.“

„Petrína?“

„Amma,“ hrópaði Pétur og tróð sér framhjá norninni.

„Nei, þarna ertu, Pétur minn,“ sagði amma hans og faðmaði hann að sér. „Við erum búin að hafa svo miklar áhyggjur. Pabbi þinn er alveg að farast. Og þú hlýtur að vera Stefanía,“ bætti hún við þegar hún kom auga á Stefaníu. „Foreldrar þínir eru líka í öngum sínum. Best að ég hringi í þau og láti vita að þið séuð fundin.“ Hún dró upp síma með stórum tökkum og hringdi. „Þau eru á leiðinni,“ tilkynnti hún og lagði á. „Á ekkert að bjóða manni inn?“

„Jú, jújú, auðvitað,“ sagði nornin hvumsa og steig inn úr dyrunum. Lubbi veitti ömmu höfðinglegar móttökur með því að slefa hressilega yfir stígvélin hennar.

„Svo það er hérna sem þið hafið haldið ykkur,“ sagði amma og tyllti sér á eldhúskoll.

„Hvernig vissirðu hvar við vorum?“ spurði Pétur. Þau Stefanía höfðu passað vel upp á að segja ekki eitt einasta orð um nornina þegar aðrir heyrðu til.

„Nú, ég las bara heimilisfangið á póstkassanum sem þú varst að smíða hjá mér. Það var ekki flóknara.“ Hún bandaði Lubba frá sér. „En hvernig höfðuð þið eiginlega upp á henni Öllu?“

Pétur og Stefanía litu hvort á annað en svo sögðu þau ömmu allt. Hægt í fyrstu en fljótlega flæddu orðin út úr þeim eins og slefið út úr Lubba.

„Jahérna, þið segið nú ekki lítið,“ sagði amma þegar krakkarnir höfðu lokið við frásögnina. „Að þú skyldir hafa hírst hér allan þennan tíma, Alla. Í þessari svínastíu!“

„Heyrðu mig nú, vinkona,“ hreytti nornin í ömmu. „Ég veit ekki betur en pabbi þinn hafi verið svínabóndinn í sveitinni.“

Svo skelltu þær báðar upp úr.

„Að öllu gamni slepptu þá held ég ekki að þú ættir að búa hérna lengur,“ sagði amma þegar þær höfðu náð sér. Hún leit í kringum sig og fitjaði upp á nefið.

„Það fer bara ágætlega um mig, þakka þér fyrir.“

„Alla, þakið lekur og vindurinn blæs í gegnum veggina. Ég á ágætan bílskúr sem þú getur fengið. Þar geturðu framkvæmt allar þær nornakúnstir sem þér dettur í hug.“

Nornin hugsaði sig um. „Er eitthvert húsfélag með í spilinu?“ spurði hún svo.

„Ekki nema þú viljir stofna eitt slíkt.“

„Hreint ekki!“ hrópaði nornin. „Hvenær get ég flutt inn?“

„Strax í dag.“

Nornin stóð upp og náði í piparköku-Hallgrímskirkjuna sem tróndi ofan á ísskápnum.

„Nú skulum við fagna,“ sagði hún og braut kossinn ofan af turninum. Fljótlega var kirkjan rústir einar og þegar foreldrar krakkanna bönkuðu loksins upp á var ekki eitt mylsnukorn eftir.

Jólin í eldhúsinu

24. kafli: Jólaboð

Foreldrar Péturs og Stefaníu höfðu ekki orðið allskostar ánægðir með söguna sem krakkarnir höfðu sagt þeim um norn og fljúgandi eldhús. En þá hafði amma skorist í leikinn og bjargað málunum.

„Við Alla erum gamlar skólasystur og þó að hún sé norn þá er hún hið besta skinn. Það er ekki eins og við búum í Grimmsævintýri,“ sagði hún og skildi foreldrana eftir á gati.

Pétri fannst enn ótrúlegt að nornin og amma skyldu þekkjast. Hvað þá að þær hefðu verið saman í skóla fyrir langa löngu. Það hljómaði stórfurðulega en miðað við allt sem gerst hafði síðustu vikurnar gæti það svo sem vel verið.

Þegar aðfangadagur loksins rann upp biðu tvö umslög merkt Pétri á gólfinu fyrir neðan bréfalúguna. Jólakort! Hann varð himinlifandi. Hann hafði aldrei áður fengið jólakort sem ætluð voru honum einum og engum öðrum. Yfirleitt voru kortin merkt pabba og hann beðinn um að skila kveðju til Péturs.

Pétur sótti bréfahníf og opnaði umslögin varlega. Það fyrra var frá Stefaníu. Það innihélt glæsilega glimmerskreytt kort með listilega teiknaðri mynd af Lubba. Hann fylltist gleði og hengdi það upp á vegg við hliðina á rúminu sínu með kennaratyggjói. Seinna kortið var frá norninni. Það hljómaði svona:

Kæru krakkar,
Það verður jólaboð hjá mér í dag. Petrína mætir líka. Við ætlum að borða möndlugraut. Hann verður borinn á borð klukkan tólf og ekki verður skilinn eftir afgangur handa seinum gestum.
Kveðja,
nornin í bílskúrnum.

Pétur leit á klukkuna. Hana vantaði fimm mínútur í. Í sömu andrá var bankað á útidyrahurðina. Fyrir utan stóð Stefanía með hálfgreitt hárið og bisaði við að renna upp úlpunni.

„Fékkstu líka kort frá Aðalheiði?“ spurði hún óðamála.

Pétur kinkaði kolli.

„Hún er alveg að verða tólf. Drífðu þig!“

„Pabbi, ég er að fara til nornarinnar,“ kallaði Pétur um leið og hann hljóp út um dyrnar.

„Farðu varlega ...“ byrjaði pabbi en hurðarskellurinn yfirgnæfði rödd hans.

Svo hlupu þau Stefanía sem fætur toguðu og staðnæmdust ekki fyrr en þau stóðu fyrir framan bílskúr nornarinnar. Stefanía bankaði og dyrnar opnuðust hægt. Fyrir innan stóð nornin, nornarlegri en nokkru sinni, og framhjá henni liðaðist ilmur af glænýjum möndlugraut og kirsuberjasósu.

„Á slaginu,“ sagði hún og hleypti þeim inn. „Alveg eins og venjulega.“

Amma var þegar mætt og sat við hefilbekkinn og Lubbi fagnaði krökkunum eins og hann hefði ekki séð þau í mörg ár.

„Það er bara ein mandla í felum,“ sagði nornin þegar hún hafði skipt grautnum jafnt í fimm skálar. „Passið ykkur að gleypa hana ekki ef þið finnið hana. Annars verður engin möndludrottning þetta árið. Eruð þið tilbúin?“

Pétur og Stefanía kinkuðu ákaft kolli og Lubbi slefaði yfir skálina sína af miklum móð.

„Jæja, þá er komið að því. Þrír, tveir, einn, nú!“

- endir -