Jóladagatal 2016 | Varúð! Varúð! Jólin eru á leiðinni!
Varúð! Varúð! Jólin eru á leiðinni! er jólasaga sem Sigrún Eldjárn samdi og myndskreytti fyrir jóladagatal Borgarbókasafnsins árið 2016.
Í sögunni fá lesendur að fylgjast með skrautlegum jólaundirbúningi þeirra Muggs og Möllu. Sagan birtist upphaflega í 24 hlutum, frá 1. til 24. desember. Hér fyrir neðan má lesa söguna í heild og skoða myndirnar sem fylgja hverjum kafla.
1
„Muggur, komdu STRAX!“ kallar Malla æst og ákveðin þegar hún æðir inn í herbergið hans. „Það er kominn DESEMBER! Við verðum að fara að undirbúa jólin!“
„JÓLIN! Jaá, ókei! Ég kem!“ svarar Muggur. „En hvernig undirbúum við þau?“
„Við þurfum auðvitað að kaupa jólagjafir og pakka þeim inn. Binda svo slaufur og setja merkimiða á. Fyrr geta jólin ekki komið!“ Malla er alveg með þetta á hreinu. „Hvað áttu mikið af peningum?“
Muggur seilist í brúna, krumpaða umslagið sem er falið neðst í nærbuxnaskúffunni og kíkir í það. „Æ, þetta er nú ekki mikið, bara nokkrir smápeningar,“ segir hann dapur og sýnir Möllu. „Hvað ætli sé hægt að fá margar jólagjafir fyrir þetta?“
„Mjög, mjög fáar, kannski enga,“ svarar Malla hugsi. „Og ég á ekki nema eitthvað pínulítið í viðbót. Nú vandast málið!“
„Hvað gerum við þá?“ Muggur fær illt í magann við tilhugsunina um að kannski takist þeim ekki að redda neinum gjöfum. „Koma þá engin jól?“
Malla veltir fyrir sér hvaða möguleikar séu í stöðunni.
„Við verðum líklega sjálf að búa til jólagjafirnar! Þú veist, prjóna og smíða og eitthvað svoleiðis!“ stingur hún upp á.
„Ég er alveg rosalega lengi að prjóna,“ segir Muggur vondaufur. „Ég verð áreiðanlega heilt ár með hverja gjöf. Og svo lem ég alltaf á puttana þegar ég smíða. Það er alveg hrikalega sárt! Er ekki eitthvað annað sem við getum gert?“
„Hmmm! Við verðum alla vega að finna einhver ráð til að bjarga jólunum!“ svarar Malla.
En hvað í ósköpunum er hægt að gera?
2
„Hvað þurfum við eiginlega að gefa margar jólagjafir?“ spyr Muggur áhyggjufullur. Hann er orðinn dauðhræddur um að það komi engin jól þetta árið.
Malla hugsar sig vel um.
„Sko, okkur vantar gjafir fyrir mömmu og pabba, báða afa og báðar ömmur, þrjár langömmur og einn langafa, Gunnu systur og Nonna bróður, Lóu, Dúfu, Erlu og Svölu frænkur, Þröst, Svan, Örn og Hrafn frændur og svo Dísu og Dúllu, vinkonur okkar og vinina Dodda og Danna! Þetta eru alveg svakalega margar gjafir!“
Malla lítur fyrst á dagatalið og svo á klukkuna. Þau mega engan tíma missa!
„Komdu, við skulum fara upp á háaloft og athuga hvort við finnum ekki eitthvað þar sem við getum notað í jólagjafir!“ segir hún um leið og hún flýtir sér að örmjóa stiganum sem liggur upp á loft.
Malla leggur af stað upp með Mugg á hælunum. Þegar hún er komin hálf upp um loftsgatið, og hann sér ekkert af henni nema fótleggi og rass, stansar hún.
„Nei, sko! Þetta er GEGGJAÐ!“ hrópar Malla.
3
„Algjörlega ÆÐISLEGT!“ segir Malla, því á háaloftinu sér hún strax ýmislegt sem nota má í jólagjafir.
Þar ægir saman alls konar skringilegu dóti. Þarna eru gömul leikföng, slitin föt og húsgögn, undarleg eldhúsáhöld, biluð rafmagnstæki, fornfáleg verkfæri, furðuleg hljóðfæri og ótal margt fleira.
„Farðu frá! Leyfðu mér líka að sjá!“ segir Muggur óþolinmóður og ýtir fast á rassinn á henni. Malla klifrar þá alla leiðina upp og Muggur klöngrast á eftir henni. En hann verður fyrir vonbrigðum.
„Já, en þetta er nú bara eintómt gamalt drasl!“ segir hann hneykslaður. „Það vill enginn fá svona jólagjafir.“
„Hvað meinarðu? Hér eru alls konar dýrgripir!“ svarar Malla og baðar út handleggjunum.
Svo dregur hún ryðgað hlaupahjól og blúnduskreyttan lampaskerm út úr hrúgunni. „Sjáðu bara!“ Hún leitar meira og finnur gamlan skífusíma með snúru og vekjaraklukku sem þarf að trekkja upp.
„Líttu á! Þetta eru flottir fornmunir!“
4
En Muggur hefur ekki áhuga á þessu gamla dóti því nú hefur hann komið auga á spennandi kistu sem stendur í dimmu skoti innst á háaloftinu. Í henni gæti leynst fjársjóður! Hann ryður sér leið gegnum dót og drasl svo rykið þyrlast upp í kringum hann.
Hann skoðar kistuna í krók og kring og tekst svo með erfiðismunum að lyfta lokinu. Hann kíkir spenntur ofan í en sér strax að það er ekki mikið í henni. Kistan er nánast tóm. Þarna er bara gulnað pappírsrusl á víð og dreif og nokkrar kóngulær sem hlaupa dauðhræddar í allar áttir. Ekkert fleira. Og þó!
Hvað er þetta sem glittir í þarna á botninum úti í skoti? Eitthvað sem glampar á! Það gæti verið dýrmætt! Kannski þetta sé ofboðslega verðmætur GULLMOLI!
Muggur teygir sig eftir gripnum … en nær honum ekki. Hann skríður ofan í kistuna og teygir höndina enn lengra.
Þá heyrist hár SKELLUR og allt verður koldimmt í kringum hann!
„Muggur! Hvar ertu?“ hrópar Malla skelkuð.
5
Malla skimar í kringum sig á háaloftinu, hún kemur hvergi auga á Mugg. En hún heyrir heilmikinn hávaða og læti. Hvaðan kemur hljóðið?
Muggur er skelfingu lostinn, innilokaður í viðbjóðslegri draugakistu á andstyggilegu háalofti. Svo man hann eftir kóngulónum sem gætu farið að skríða um hann allan og þá verður þetta enn verra! Hann æpir af öllum lífs og sálar kröftum, sparkar í hliðar kistunnar og lemur með hnefunum í lokið!
„Malla! HJÁLP! Bjargaðu mér! STRAX! Ég er að drepast!“
Malla gengur á hljóðið en áttar sig ekki á hvar Muggur getur verið niðurkominn. Hún sér hins vegar ýmislegt sem vel getur nýst í jólagjafir. Þarna er til dæmis mjög fallegt fuglabúr, rósóttar, risastórar pokabuxur með gat á rassinum og pípuhattur. En öskrin í Muggi verða æ hærri og örvæntingarfyllri og reka hana til að leita betur að honum. Hvar í ósköpunum getur drengurinn verið? Að lokum kemur hún auga á kistuna og áttar sig þá loks á hvaðan hávaðinn kemur.
„Nei sko! Ertu þá þarna ofan í?“ segir hún skellihlæjandi. „Kemstu ekki sjálfur upp úr, bjáninn þinn?“ Þetta finnst Möllu alveg bráðfyndið.
Hún flýtir sér samt að kistunni til að hleypa Muggi út. En þegar hún ætlar að lyfta kistulokinu haggast það ekki. Kistan er harðlæst og það sem meira er:
Það er enginn lykill í skránni!
6
„Bíðum við, hvað geri ég núna?“ segir Malla skelkuð. Þetta er ekki neitt fyndið lengur. Hún litast um eftir verkfæri til að brjóta gat á kistulokið. Hún sér ekki neitt sem gæti dugað til þess. Aftur á móti sér hún litla harmónikku sem henni líst vel á. Hún gæti til dæmis verið góð jólagjöf fyrir tónelskustu langömmuna! Og þarna er gamla klarínettið hans pabba! Hann yrði nú glaður að fá það.
En óhljóðin í Muggi halda áfram! Hversu lengi er hægt að lifa lokaður ofan í svona kistu? Vonandi að hún breytist ekki í líkkistu! Malla fær hroll við þá tilhugsun. Hún hringsnýst í kringum sjálfa sig og reynir að finna lausn. Þá man hún allt í einu eftir skúffu niðri í eldhúsi sem er full af alls konar lyklum. Einhver þeirra hlýtur að ganga að þessari skrá!
„Vertu alveg rólegur, Muggur, ég ætla bara að skreppa aðeins niður í eldhús og finna lykilinn að kistunni!“ segir hún. „Ekki vera hræddur! Ég kem strax aftur!“
Malla hraðar sér aftur að loftsgatinu. En þegar hún teygir fótinn niður, til að tylla honum í efsta þrepið svo hún geti fikrað sig niður mjóa stigann, bregður henni í brún!
Fótur hennar grípur í tómt!
7
„Ég trúi þessu ekki!“ segir Malla þegar hún gægist niður um háaloftsopið. Hún sér að stiginn hefur dottið og liggur nú marflatur á gólfinu langt fyrir neðan. Hræðileg vandræði! Þetta verður verra og verra! Nú eru þau Muggur bæði föst hérna uppi á loftinu og komast ekki niður. Þar að auki er hann læstur ofan í kistu og liggur þar og gargar eins og brjálaður maður! Það er sko ekki neitt jólalegt við þetta!
Malla verður að finna ráð til að komast niður og finna lykilinn að kistunni.
Ef hún stekkur niður um loftsgatið er hætt við að það brotni á henni báðar lappirnar og ef til vill fleiri bein í líkamanum, hver veit? Ekki vill hún vera mölbrotin á jólunum! En hvað er þá til ráða? Hún svipast í örvæntingu um eftir einhverju sem getur hjálpað. Þarna er fornfáleg jólaljósasería sem kannski er hægt að kveikja á. En það er auðvitað ekki neitt gagn í því á þessari stundu!
Þá kemur hún auga á svartan úttroðinn ruslapoka. Hvað skyldi leynast í honum? Þegar hún kíkir ofan í sér hún marga röndótta trefla í einni bendu. Þetta eru treflarnir sem Gústi afi prjónaði handa fjölskyldunni þegar hann lá á spítala í fyrravetur. Allir fengu svona trefil í jólagjöf. En þeir voru lítið notaðir því hann hafði prjónað þá úr andstyggilegu stingugarni sem enginn þoldi að hafa um hálsinn.
En kannski er hægt að nota þessa ljótu trefla í annað, hugsar Malla og sturtar öllu úr pokanum. Hún greiðir úr flækjunni og bindur svo alla treflana saman í eina lengju. Skyldu þeir vera nógu sterkir til að hægt sé að nota þá til að komast ofan af háaloftinu?
Það er spennandi að vita!
8
Á meðan Malla bindur treflana saman heldur Muggur áfram að æpa ofan í kistunni.
„Bíddu, Muggur! Ég flýti mér eins og ég get!“ segir hún og svipast svo um eftir einhverju traustu til að binda enda treflalengjunnar við. Það er ekki neitt nálægt opinu sem hægt er að nota en við gluggann er miðstöðvarofn sem gæti dugað.
Malla opnar gluggann og kíkir niður. Fyrir neðan er snjóskafl svo það verður kannski ekki mjög sárt að lenda ef hún skyldi nú detta. Hún bindur trefilinn fastan við ofninn með góðum rembihnút. Því næst kastar hún hinum endanum út um gluggann. Já, lengjan nær næstum alla leið niður á jörð.
Malla virðir fyrir sér alla hlutina sem hún var búin að finna til jólagjafa og ákveður svo að henda þeim líka út um gluggann hverjum á fætur öðrum. Að því búnu prílar hún sjálf út og þokar sér varlega niður eftir stingutreflunum. Þetta er hættuspil sem gengur bara þó nokkuð vel!
En á miðri leið stansar hún. Í snjónum beint fyrir neðan sér hún nokkuð sem fær hárin til að rísa á höfði hennar!
9
„Ég hlýt að deyja,“ volar Muggur ofan í kistunni. „En ég náði þó gullmolanum og dey því ríkur! Ef þetta er þá gullmoli. Kannski er þetta bara einhver nauðaómerkilegur steinn!“
Hann vorkennir sjálfum sér meira og meira. Hann hniprar sig saman, aleinn og yfirgefinn og heyrir ekkert í Möllu lengur. Kannski er hún búin að gleyma honum! Það verða örugglega allir mjög sorgmæddir þessi jól ef ég finnst ekki, hugsar hann. Kannski verða þau hágrátandi ofan í jólamatinn svo hann verður alltof, alltof saltur! Við tilhugsunina um alla þessa sorg verður Muggur svo hryggur að hann fer sjálfur að gráta. Tárin falla ótt og títt á hendur hans í myrkrinu. Þau falla líka á gullmolann sem hann hefur í lófanum.
En um leið og tárin detta á gullmolann gerist dálítið ótrúlegt! Hann fer að lýsa! Fyrst kemur örlítil ljóstýra en svo verður hún smám saman sterkari. Brátt getur Muggur auðveldlega séð vel í kringum sig þarna ofan í kistunni. Hann sér gulnuðu pappírsblöðin og hann sér kóngulærnar sem reyna að fela sig fyrir honum. Hann kemur líka auga á eldgamalt Andrésblað sem hann hefur ekki séð áður og langar til að skoða. En þegar hann tekur það upp sér hann að undir því er rautt handfang!
Hann togar í handfangið. Um leið opnast hleri á botni kistunnar og Muggur hrapar niður!
„Nei, hættu nú alveg! Hvað gerist nú?“
10
Malla er í meiri háttar vandræðum! Hún heldur sér dauðahaldi í stingutreflalengjuna sem lafir út um gluggann. Hún er komin hálfa leið niður á jörð en þorir alls ekki lengra. Í snjóskaflinum beint fyrir neðan er nefnilega stór og illúðlegur hundur. Hann sýnir hvassar tennurnar og urrar reiðilega! Malla sér ekki betur en augu hans skjóti gneistum. Hann virðist til alls vís!
„Farðu burt, Snati! Snáfaðu!“ skipar hún vesældarlega en hundurinn tekur ekkert mark á henni. Hann urrar bara ennþá meira og gnístir tönnum.
„Æ, hvað á ég að gera?“ kjökrar aumingja Malla. „Bráðum get ég ekki hangið hérna lengur. Handleggirnir á mér eru alveg að slitna af!“ Hún horfir upp í gluggann og er nokkuð viss um að hún hafi alls ekki krafta til að klifra aftur upp.
En á meðan hún dinglar þarna utan á húsinu og reynir að finna lausn á vandamálinu leysist það af sjálfu sér. Einn hnúturinn á treflalengjunni losnar svo hún slitnar í sundur og Malla hrapar beinustu leið niður!
Hún rekur upp skelfingaróp þegar hún hlunkast beint ofan á þennan reiða og úrilla hund!
„Nú hlýtur hann að bíta mig!“ hugsar Malla og klemmir aftur augun.
11
Hundurinn ýlfrar ámátlega en tekur svo á sprett. Hann hleypur eins og byssubrenndur og hverfur fyrir næsta horn.
„Sjúkk, þetta var nú meira vesenið!“
Malla stendur á fætur og dustar af sér snjóinn. Sem betur fer er hún í lopapeysu, annars myndi hún drepast úr kulda. En hún er aftur á móti ekki í neinum skóm. Hún er bara á sokkaleistunum og verður því að flýta sér inn. Hún horfir á jólagjafadótið sem hún kastaði út um gluggann. Þarna liggur það út um allt í snjónum.
„Ég þarf að safna þessu saman og setja það inn í bílskúr,“ hugsar hún. „En fyrst verð ég þó að fara í stígvél. Eða … á ég kannski að byrja á að finna lykilinn?“
Malla geysist að útidyrunum. Þær eru læstar! Auðvitað! Venjulega er hún með húslykilinn um hálsinn þegar hún fer út en ekki núna því hún hafði auðvitað ekkert ætlað sér út. Það er enginn heima nema Muggur sem er nú læstur ofan í kistu uppi á háalofti og getur alls ekki opnað fyrir henni!
Getur þetta orðið verra?
12
Þótt Möllu sé ískalt á tánum tiplar hún um í snjónum og tínir jólagjafirnar saman. Hún dröslar þeim inn í bílskúr því sem betur fer er hann ekki læstur. En nú ber vel í veiði! Þarna fyrir innan dyrnar standa stígvél af langafa. Hún skellir sér strax í þau því það er þó skömminni skárra að vera í risastórum langafastígvélum heldur en bara á sokkunum í ísköldum snjónum!
En hún sér fleira en stígvél í bílskúrnum því þarna stendur gömul dúkkukerra og í henni sitja tvær sköllóttar dúkkur og einn fótalaus bangsi.
„En frábært! Einhverjir eiga eftir að verða himinlifandi þegar þeir fá þessar jólagjafir!“ segir Malla ánægð og setur þetta í hrúguna með öllu hinu dótinu. Þetta er að verða hinn fínasti gjafahaugir. Hvað skyldu þær annars vera orðnar margar?
En Malla má ekki vera að því að telja. Hún verður að drífa sig að bjarga Muggi. Hún fer aftur út og nú ætlar hún að kanna hvort ekki sé einhvers staðar opinn kjallaragluggi sem hún getur smeygt sér inn um. Ef hún kemst inn í kjallarann þá getur hún farið upp kjallaratröppurnar og komist inn í eldhús til að kíkja í skúffuna með lyklunum. Aumingja Muggur hlýtur að vera orðinn mjög örvæntingarfullur í kistunni.
Vonandi er hann enn á lífi!
13
Þetta er stórfurðulegt! hugsar Muggur sem heldur enn dauðahaldi í gullmolann, ef þetta er þá gullmoli. Kannski er þetta frekar einhvers konar töfrasteinn fyrst hann fór að lýsa þegar tárin féllu á hann. Eru lýsandi töfrasteinar ekki ennþá verðmætari en gullmolar? Eða er þetta ef til vill súper-töfragullmoli?
En hvar í ósköpunum hefur Muggur lent? Hann er alla vega ekki lengur í kistunni, svo mikið er víst! Hann hrapaði niður um hlerann sem opnaðist þegar hann tók í rauða handfangið sem var undir Andrésblaðinu.
Muggur er ruglaður í kollinum og allur lurkum laminn eftir barsmíðarnar í kistunni og fallið niður. Þegar hann lítur svo í kringum sig finnst honum hann þó kannast eitthvað við sig. Þegar hann kemur auga á þvottavél og ofan á henni sokka og nærbuxur af honum sjálfum grunar hann hvar hann er staddur.
„Þetta er ótrúlegt! Mér sýnist að ég sé bara allt í einu kominn niður í kjallara!“
„HÆ, HÆ! segir þá hressileg rödd fyrir aftan hann. „Gaman að hitta þig! Hvað heitir þú, væni minn?“
Muggur hrekkur í kút og snarsnýr sér við. Þarna stendur furðuleg mannvera!
14
Í daufri skímunni, sem brýtur sér leið inn um kjallaragluggann, stendur glaðleg stelpa með eldrauða tíkarspena. Hún brosir breitt, alveg út að eyrum.
„Ég heiti Muggur,“ tautar Muggur. „E …en þú?“ Hann heldur áfram að stara á stelpuna og sér nú að hún er í furðulegum kjól sem saumaður er úr alls konar tuskubútum. Þar að auki er hún með skrítna skartgripi um hálsinn og í eyrunum. Hún heldur á fötu og Muggur sér ekki betur en að upp úr henni gægist fiskur!
„Leppatuska Grýludóttir er mætt á svæðið!“ segir stelpan hátt og snjallt. „Alveg nýkomin til byggða!“
„Sa … sagðirðu Grýludóttir?“ spyr Muggur hikandi. „Ertu þá kannski … jólasveinn?“
„Jólasveinn! Nei, hahahahaha!“ Leppatuska skellihlær. Hún virðist vera afskaplega hress og hláturmild manneskja. „Bræður mínir eru óttalegir jólasveinar en ég sjálf er tískuhönnuður. Ég bý til föt og skartgripi og ýmislegt fleira úr alls konar leppum og tuskum sem ég finn! Heyrðu! Ætti ég ekki að sauma ný jólaföt handa þér, ha? Hvað segirðu um það?“
„Eh … nei takk,“ svarar Muggur þegar hann sér fötin sem Leppatuska hefur saumað á sjálfa sig. Hann langar sko ekki baun í neitt sem líkist þessu!
Þá er allt í einu barið fast á kjallaragluggann!
15
„Frábært! Það eru komnir gestir!“ segir Leppatuska glöð og opnar gluggann. Inn klöngrast kunnugleg stúlka í lopapeysu og alltof stórum stígvélum.
„Velkomin í heimsókn!“ segir Leppatuska við Möllu sem starir undrandi á hana.
„Nei, heyrðu mig nú! Það erum við Malla sem eigum heima í þessu húsi en ekki þú!“ segir Muggur afundinn. „Það erum við sem eigum að segja velkomin!“ Það er ekki meira en svo að honum lítist á þessa brussu.
„Æ, þakka þér fyrir!“ svarar Leppatuska og brosir sínu blíðasta.
Þótt Malla sé hissa á að sjá svona furðulegu stelpu í kjallaranum heima hjá sér er hún jafnvel ennþá meira hissa að sjá Mugg hérna.
„En Muggur minn! Hvernig slappstu úr kistunni?“ spyr hún alveg undrandi. „Og hvernig komstu eiginlega niður af háaloftinu … og alla leið hingað ofan í kjallara?“
„Tja, það hef ég sko ekki hugmynd um!“ svarar hann. „En það voru sko tár og lýsandi súper-töfragullmoli og kóngulær og gamalt Andrésblað og rautt handfang … og svo var ég bara allt í einu kominn niður í kjallara!“
„Hahahahaha! En hvað þið eruð skemmtileg!“ segir Leppatuska himinlifandi. „Má ég leika við ykkur?“
16
Malla lítur tortryggin á stelpuna. Hún er alls ekki viss um að sig langi neitt til að leika við hana.
„Við erum nú eiginlega mjög upptekin,“ segir hún svo. „Við höfum engan tíma til að leika því við þurfum að redda jólagjöfum fyrir ótrúlega marga og jólin eru bara alveg að koma! Þau eru sko á leiðinni!“
„Heldurðu að ég viti það ekki?“ segir Leppatuska. „Ég er algjör sérfræðingur í jólunum! Ég skal hjálpa ykkur með jólagjafirnar. Sýnið mér hvað þið eruð komin með.“
Muggur og Malla líta hvort á annað. Þau langar ekki beinlínis að hafa hana með en það er ekki fallegt að skilja útundan. Sérstaklega ekki í desember þegar svona stutt er til jóla!
„Jæja, allt í lagi þá,“ segir Malla loks. „Komið með mér út í bílskúr. Þar er allt sem við höfum sankað að okkur.“
Þau fara út úr kjallaraherberginu og á leiðinni grípur Malla gamla græna lopapeysu sem hangir á snaga og Muggur sér krukku með málningarpenslum. Þarna standa líka nokkrar beyglaðar og kámugar málningardósir.
En þegar þau stíga út í snjóinn bregður þeim í brún!
17
Nú er illt í efni! Hundurinn er kominn aftur! Hann er búinn að jafna sig á því að hafa fengið Möllu í hausinn og er nú helmingi reiðari en áður! Hann stendur fyrir utan bílskúrinn og urrar og geltir á fullu!
„Hvernig getum við komist framhjá þessum brjálaða hundi? Gjafirnar eru geymdar inni í bílskúrnum! Við verðum að komast þangað inn!“ Malla er áhyggjufull og dauðhrædd við bannsettan hundinn!
En Leppatuska Grýludóttir er ekki vitund hrædd.
„Komdu hérna, voffi minn!“ segir hún og dregur um leið fiskinn upp úr fötu sinni og kastar honum upp í loftið. Um leið hættir hundurinn að gelta. Hann stekkur upp og grípur fiskinn í kjaftinn. Því næst hleypur hann á harðaspretti með hann burt.
„Svona já! Þetta var auðvelt. Þessi voffi kemur örugglega ekki aftur fyrr en einhvern tímann löngu eftir jól!“ segir Leppatuska glöð. „En nú þarf ég hins vegar með einhverjum ráðum að útvega mér nýjan fisk í fötuna.“
Þau feta sig að bílskúrshurðinni og Malla opnar.
„Vá, hvað það er komið mikið af jólagjöfum!“ segir Muggur glaður þegar þau hafa kveikt ljósið. „En á þessi risastóri villiköttur að vera þarna líka?“
18
Þau horfa furðu lostin á svartan og ófrýnilega kött sem situr á miðjum jólagjafahaugnum. Hann hvæsir og starir á þau með grænglóandi glyrnum.
„Eeee … getur nokkuð verið að þetta sé JÓLAKÖTTURINN?“ spyr Malla óttaslegin og getur ekki slitið af honum augun.
„Já, einmitt! Það stemmir,“ segir Leppatuska hress. Hún tekur köttinn blíðlega í fangið. „Þetta er reyndar minn eigin persónulegi jólaköttur. Hann aðstoðar mig við að útvega viðskiptavini. Ef það er einhver sem ekki vill panta hjá mér nýjar flíkur fyrir jólin þá segi ég honum að kötturinn muni éta hann! Það virkar oftast vel.“
Muggur horfir hræddur til skiptis á Leppatusku og köttinn. Hann sem var einmitt fyrir stuttu að afþakka hjá henni jólaföt. Ætli hún láti köttinn þá éta mig? hugsar hann áhyggjufullur. Ég sem er rétt sloppinn úr lífshættunni í kistunni … og þá kemur þetta!
„Ekki hafa áhyggjur!“ segir Leppatuska róandi þegar hún sér svipinn á honum. Kisi er nýbúinn að éta heilan leikfimikennara sem vildi ekki að ég hannaði á sig föt og hann er því pakksaddur núna. Hann hefur alls enga lyst á þér … að minnsta kosti ekki í bili! En kannski seinna! Sjáum til!“
Það fer hrollur um Mugg. Hann ætlar aldeilis ekki að lenda í klónum á þessum andstyggðar jólaketti! Það er alveg á hreinu!
„Nei sko, sjáið þið!“ segir Malla þá allt í einu.
19
Malla bendir á kassa sem stendur uppi á efstu hillu. Út úr honum lafir litskrúðug og glitrandi lengja.
„Mér sýnist þetta vera kassinn með jólaskrautinu okkar. Mamma hefur verið að leita að honum út um allt hús í heila viku og svo er hann bara hérna í bílskúrnum!“
Muggur nær í stiga og reisir hann upp við hillurnar. Svo klifrar hann upp. Honum tekst að krækja í kassann og mjaka honum fram af hillunni. En hann er ekki alveg nógu sterkur til að lyfta honum. Hann missir kassann út úr höndunum á sér svo hann fellur niður, snýst í loftinu, opnast og allt hvolfist úr honum yfir Möllu!
Muggur stendur efst í stiganum og horfir ofan á systur sína sem nú er hlaðin jólaskrauti frá toppi til táar. Hún líkist engu öðru en ljómandi fallegu jólatré. Hann fer að skellihlæja.
„Maður kemst aldeilis í syngjandi, trallandi jólaskap við þetta!“ heyrist í Möllu innan úr hrúgunni.
Muggur prílar niður og hjálpar henni að tína af sér skrautið. Þegar því er lokið sjá þau að bæði Leppatuska Grýludóttir og jólakötturinn eru að tygja sig til ferðar.
„Nú þarf ég að fara og hitta bræður mína þrettán. Þeir eru að tínast ofan úr fjöllunum einn á fætur öðrum. Ég verð að tékka á hvort jólafötin þeirra eru ekki örugglega í lagi. Kannski ætti ég að hanna nýja jólasveinabúninga fyrir þá!“
Jólakötturinn gjóar augunum á Mugg. Hann sleikir út um og slefar. Stuttu seinna eru þau bæði horfin á braut. Muggur andar léttar. Hann er sloppinn … í þetta sinn!
„Hey!“ segir Malla þegar jólaskrautið er komið aftur í kassann. „Sjáðu hvað hangir hérna!“
20
Á snaga á veggnum hanga tvær fallegar, rauðar skotthúfur sem Leppatuska hlýtur að hafa skilið eftir handa þeim. Þær eru að minnsta kosti saumaðar saman úr leppum og tuskum og svo er dálítil fisklykt af þeim.
„Við förum þá ekkert í jólaköttinn eftir allt saman!“ segir Muggur glaður og setur húfuna strax á sig. Malla lætur hina húfuna á sinn haus og reynir svo að spegla sig í brotnum og óhreinum spegli sem hún finnur á gólfinu. Þarna er líka dekk af reiðhjóli sem er örugglega hægt að nota sem jólagjöf handa einhverjum.
Á meðan er Muggur að skoða garðáhöldin. Þau hafa ekki verið notuð síðan í haust og eru sum hver orðin ansi ryðguð. Þarna er nú samt ein hrífa sem honum finnst hrífandi falleg. Muggur tekur hana og bætir henni í jólagjafahrúguna.
Muggur og Malla fara aftur út í snjóinn. Um leið kemur vörubíll, með stórt hlass að jólatrjám, á fleygiferð eftir götunni. Hann tekur krappa beygju svo það ískrar í hjólunum. Malla tekur fyrir eyrun og klemmir aftur augun. En þegar bíllinn er farinn framhjá og hún opnar augun aftur uppgötvar hún sér til mikillar furðu að Muggur er gjörsamlega horfinn!
Í staðinn liggur á gangstéttinni jólatré sem hefur flogið af vörubílnum.
21
Þótt Möllu finnist þetta fallegt jólatré hefur hún samt áhyggjur af Muggi. Hún er hrædd um að hann hafi sópast á brott með þessum óvarkára jólatrjáavörubílstjóra. En þá sér hún allt í einu að jólatréð á gangstéttinni hreyfist. En furðulegt! Er það virkilega svona sprelllifandi?
„Hjálpaðu mér, Malla!“ segir tréð vesældarlega.
Malla þokar sér nær. Hvernig veit þetta tré að hún heitir Malla? Hún hefur aldrei hitt það áður! En þegar hún sér að Muggur er fastur undir því reynir hún að tosa tréð ofan af honum.
„Hahaha! Þetta er fyndið!“ segir hún. „Og rosalega, rosalega jólalegt þar að auki!“
En Muggi finnst þetta hvorki fyndið né jólalegt. Hann er lurkum laminn en samt dauðfeginn að vörubíllinn skyldi ekki keyra á hann. Það er þó skárra að verða fyrir jólatré heldur en vörubíl!
„Við erum aldeilis ljónheppin!“ segir Malla ánægð. „Nú eigum við þetta fína jólatré!“
Muggur getur ekki annað en verið sammála þótt hann sé allur útataður í barrnálum sem stinga hann og þótt að hann finni til á ýmsum stöðum eftir að tréð réðst á hann.
„Hvað erum við eiginlega komin með margar gjafir. Malla?“ dæsir hann. „Fer þetta ekki bráðum að verða nóg?“ Muggur er orðinn ansi þreyttur á þessari jólagjafasöfnun. Þetta er heilmikil og stórhættuleg vinna sem hefur reynt verulega á þau!
22
„Já, þú segir nokkuð! Hvað skyldu nú vera komnar margar jólagjafir?“ segir Malla og fer að rifja upp. „Við erum komin með:
Ryðgað hlaupahjól, blúnduskreyttan lampaskerm, skífusíma með snúru og vekjaraklukku sem þarf að trekkja upp, súper-töfragullmola með tárum, fallegt fuglabúr, rósóttar, risastórar pokabuxur með gat á rassinum, pípuhatt, litla harmonikku, gamalt klarínett, forna jólaljósaseríu, treflalengju úr andstyggilegu stingugarni, gamalt Andrésblað, risastígvél af langafa, dúkkukerru með tveimur sköllóttum dúkkum og einum fótalausum bangsa, græna lopapeysu, málningarpensla í krukku, beyglaðar og kámugar málningadósir, kassa með jólaskrauti, brotinn og óhreinan spegil, dekk af reiðhjóli, ryðgaða hrífu og fallegt jólatré.
Þetta hlýtur að vera orðið nóg.
Við getum hætt að safna núna!“
23
„Hvaða rosalega fýla er hér alls staðar?“ spyr Muggur þegar þau Malla eru á leiðinni niður í bæ. Hann grettir sig ógurlega og tekur fyrir nefið. „Ég held ég æli!“
„Ekki æla! Það er Þorláksmessa í dag svo þetta hlýtur að vera skötulykt!“ svarar Malla og þenur út nasirnar. „Nú er verið að elda kæsta skötu út um allan bæ! Ég smakkaði smábita hjá ömmu í hádeginu. Lyktin var svo sterk og vond að ég fékk tár í augun. En bragðið er miklu skárra.“
„Ég skil ekki af hverju er fólk að borða svona ógeðslega vondan fisk rétt fyrir jólin!“ segir Muggur hneykslaður.
„Það er áreiðanlega til þess að finna betur hvað jólamaturinn er frábærlega góður á bragðið,“ stingur Malla upp á.
Muggur og Malla smeygja sér inn í mannfjöldann í bænum og taka við logandi blysum sem að þeim eru rétt. Fólkið gengur syngjandi með blysin niður götuna. Þau eru komin í FRIÐARGÖNGUNA. Þau sjá marga sem þau þekkja til dæmis mömmu og pabba, báðar ömmur og báða afa, þrjár langömmur og einn langafa, Gunnu systur og Nonna bróður, Lóu, Dúfu, Erlu og Svölu frænkur, Þröst, Svan, Örn og Hrafn frændur og svo Dísu og Dúllu, vinkonur sínar og vinina Dodda og Danna. Auk þess sjá þau grimman hund og svangan jólakött og Leppatusku Grýludóttur með skötu í fötu og halarófu af jólasveinum á eftir sér!
„Nú er allt að verða svo dásamlega jólalegt!“ segir Malla hátíðlega. Hún rekur út úr sér tunguna og fær nokkur ísköld jólasnjókorn upp í munninn. Hún passar vel upp á blysið sitt svo hún kveiki nú ekki í hárinu á konunni sem gengur á undan henni. Malla er nokkuð viss um að kona með logandi hár myndi alveg eyðileggja jólastemninguna.
„En Malla!“ segir Muggur. „Af hverju erum við eiginlega að eyða tímanum í þessari göngu? Við höfum alls ekki tíma til þess!“ Hann lítur áhyggjufullur á klukkuna.
„Sjáðu nú til, Muggur minn! Með því að fara í friðargöngu sýnum við að við viljum alls ekki stríð og ófrið í heiminum!“ segir Malla. „Við viljum auðvitað bara hafa frið!“
„Já, en við viljum líka frið til að klára jólaundirbúninginn!“ segir Muggur ákveðinn. „Við eigum eftir að pakka öllum jólagjöfunum inn og binda slaufur og setja merkimiða á þær! Við eigum meira að segja eftir að ákveða hver á að fá hvaða gjöf! Jólin eru alveg að koma! Þau eru á leiðinni! Þetta verður meiri háttar vesen!“
„Heyrðu, nú veit ég hvað við gerum!“ segir Malla og snarstansar.
24
Aðfangadagur er runninn upp. Allt er orðið hreint og fínt! Muggur og Malla hafa skreytt jólatréð, farið í jólabað og klætt sig í jólaföt. Þegar klukkan slær sex koma jólin. Þá knúsast allir og kyssast jólakossum, segja GLEÐILEG JÓL! og borða jólamat.
Svo er loksins komið að því allra besta. Það er að gefa jólagjafirnar!
Muggur og Malla fá mömmu og pabba, báða afa og báðar ömmur, þrjár langömmur og einn langafa, Gunnu systur og Nonna bróður, Lóu, Dúfu, Erlu og Svölu frænkur, Þröst, Svan, Örn og Hrafn frændur, Dísu og Dúllu, vinkonur og vinina Dodda og Danna til að koma með sér út.
Þau stansa öll fyrir framan bílskúrinn og bíða þar spennt.
„Takið eftir!“ segir Muggur hátíðlega og lítur á Möllu.
„Þessi jól ætlum við bara að gefa eina jólagjöf!“ segir hún íbyggin.
Fólkið verður dálítið hissa á þessu. Bara eina jólagjöf!
„Og hver á að fá hana?“ spyrja þau milli vonar og ótta.
„Auðvitað ALLIR!“ hrópa Muggur og Malla í kór um leið og þau opna bílskúrinn svo allir geti séð hið ægifagra og stórbrotna og fullkomna jólalistaverk sem þau bjuggu til og allir fá að eiga saman!
„Mikið rosalega er skemmtilegt að gefa jólagjafir!“ segir Muggur glaður.
„GLEÐILEG JÓL!“ segja allir í kór!