Jóladagatal 2018 – Ullarsokkar í jólasnjó

Zeta er glæný lítil bókavera sem býr á bókasafninu og hefur aldrei upplifað jólin áður. Zeta er afskaplega forvitin og fróðleiksfús vera sem nýtur þess að lesa liðlangan daginn og oft fram á nótt. 

Hún felur sig í bókahillum og fylgist með fólkinu sem kemur á bókasafnið og er þeim töfrum gædd að geta farið inn í bækur og getur þannig hitt sögupersónur og upplifað sögurnar sjálf. 

Zeta heitir eftir bókstafnum Z, sem var einu sinni hluti af íslenska stafrófinu.

Höfundur Eva Rún Þorgeirsdóttir. Teiknari Ninna Þórarinsdóttir

1.kafli - Ljós í myrkri!

Við stóra gluggann í horni bókasafnsins, innan um barnabækurnar, lá litla bókaveran Zeta steinsofandi ofan á bók. Hún hafði verið að lesa spennandi sögu langt fram á nótt, alveg þangað til hún gat ekki haldið augunum opnum lengur. Hún hraut lágt. 

Skyndilega opnaðist útidyrahurð bókasafnsins og háværar raddir vöktu Zetu upp af ljúfum draumi. Hún opnaði augun rólega, settist upp og geispaði. Litlu eyrun hennar hristust dálítið. Raddirnar nálguðust og nú heyrði Zeta að þetta var hópur af krökkum sem kom gangandi inn í barnadeild safnsins. Zeta leit út um gluggann. Það voru ljós úti um allt. Ljósaseríur voru strengdar á milli húsa og fyrir utan bókasafnið stóð lítið grenitré alsett hvítum og leiftrandi fallegum ljósum. Zeta stökk á fætur og klessti andlitið upp að rúðunni. Hvað var að gerast? Hvers vegna var búið að lýsa upp myrkrið? 

Nokkrir krakkar komu hlaupandi inn í barnadeildina og hófust handa við að leita sér að bókum í bókahillunum. Fleiri krakkar bættust í hópinn og loks kennarinn þeirra. Sumir töluðu hátt. Tvær stelpur komu valhoppandi og söngluðu lag hlæjandi. Zeta fylgdist með þessu öllu úr öruggri fjarlægð. 

„Kennari, hvar finn ég bækur um jólin?“ spurði stelpa með tvær fléttur og kennarinn benti henni á bókahillu undir stóra glugganum.  

Zeta faldi sig á bak við bókina sína. Jólin? Hvað eru jól? hugsaði hún.

Nú kom konan sem vann á bókasafninu gangandi inn í barnadeildina. Hún teygði sig í bók í stóru bókahillunni og gekk síðan að krakkahópnum. Hún fékk sér sæti á litlum stól.

„Velkomin á bókasafnið. Fáið ykkur sæti,“ sagði hún og benti krakkahópnum að setjast á teppið fyrir framan sig. Það tók smá tíma fyrir krakkana að koma sér fyrir. Það var greinilega mikil spenna í loftinu. 

„Við ætlum að syngja nokkur jólalög saman og byrjum á Bráðum koma blessuð jólin,“ sagði hún og allir krakkarnir tóku undir og sungu fullum hálsi: Bráðum koma blessuð jólin, börnin fara að hlakka til. Allir fá þá eitthvað fallegt, í það minnsta kerti og spil.

Zeta fylgdist agndofa með söng barnanna. Hún lygndi aftur augunum og hlustaði á þetta fallega lag. Ef jólin hljóma svona þá hljóta þau að vera dásamleg, hugsaði Zeta með sér og varð að komast að því hvernig þessi jól litu út. 

Zeta og jólatré

2. Eru jólin geimvera?

Eftir sönginn las konan sögu fyrir krakkana sem fjallaði um jólasveina sem búa í fjöllunum og fara með pakka til krakka. Zeta skemmti sér svo vel og hló og rúllaði sér um af kæti. Loks stóð kennarinn upp og sagði krökkunum að klæða sig í útifötin því nú þyrftu þau að fara. Það tók smá stund að safna hópnum saman en stuttu seinna var allt orðið hljótt aftur á safninu. 

Ég verð að lesa meira um þessi jól, hugsaði Zeta forvitin. Hvernig eru þessi blessuðu jól eiginlega? Eru þau kannski glitrandi og glansandi? Ef blessuð jólin koma bráðum, eins segir í laginu, eru þau kannski einhver mannvera eða jafnvel geimvera? Eða eru jólin bara gjöf í pakka? 

Zeta stökk niður á gólf og gekk rakleitt í áttina að bókahillunni þar sem konan hafði lagt bókina frá sér. Hún stökk upp á bókahilluna og fikraði sig meðfram bókunum. Hún las á bókakilina. Jólasveinarnir í fjöllunum. Jólavísur og kvæði. Skreytum jólatré... Loksins fann hún bók sem á stóð: Stóra jólabókin. Allt sem þú vilt vita um jólin. 

„Aha! Þetta er bókin sem ég er að leita að!“ sagði Zeta og dró bókina út úr hillunni. Bókin var stór og dálítið þung og það tók hana smá tíma að ná henni út úr bókahillunni. Það heyrðist hávær skellur þegar bókin skall í gólfið. 

Zeta hallaði sér fram af brún bókahillunnar og kíkti niður. Framan á bókinni var mynd af brosandi snjókarli og fagurlega skreyttu grenitré. 

En falleg mynd, hugsaði Zeta og stökk niður á gólf. Hún opnaði bókina og fletti síðunum en inni í bókinni voru engar myndir. Þar voru bara hvítar síður. Zeta varð undrandi yfir þessari sýn. Hún fletti nokkrum blaðsíðum og hvergi var mynd að finna. Og það sem meira var: Allir bókstafirnir höfðu ruglast! Zeta klóraði sér í hausnum. Hverskonar bók var þetta eiginlega? Þetta hafði Zeta aldrei séð áður. Hafði eitthvað undarlegt komið fyrir bókina? 

Stóra jólabókin

3. Ofan í bókina

Zeta fletti blaðsíðunum fram og aftur og alls staðar var sama sagan: Hvítar síður og stafarugl. 

Hún var svo djúpt hugsi að litlu eyrun stóðu beint upp í loftið. Þetta þarf ég að kanna betur, hugsaði hún með sér.  

Hún fletti aftur á fyrstu blaðsíðuna og gekk nokkur skref aftur á bak. Hátt og snjallt þuldi hún upp bókaþuluna sína: 

Bók, skrudda, skræða,
nú mun ég þig lífi gæða.
Bókaormur, lestrarhestur
lifandi verður þessi lestur.

Bókin byrjaði að hristast á gólfinu og skært ljós umlukti hana svo að hvítar blaðsíðurnar ljómuðu. Zeta hljóp af stað, tók undir sig stökk og lenti ofan á bókinni, þar sem hún sogaðist samstundis ofan í hvítar blaðsíðurnar. 

Zeta hringsnerist um sjálfa sig í marga hringi og þeyttist til og frá. Loks lenti hún á bólakafi ofan í afskaplega mjúkri en ískaldri hrúgu. Með erfiðismunum kom hún sér upp úr og leit í kringum sig. Allt var hvítt! Hún hafði lent ofan í snjóskafli. 

Zeta stóð á fætur, lagaði eyrun, dustaði snjókornin af fötunum sínum og hristi sig dálítið. Hún leit í kringum sig og sá ekkert nema hvítar fannbreiður eins langt og augað eygði. Þarna var snjór alls staðar! Í fjarska sá hún stór fjöll með hvítum toppum gnæfa yfir og sólin skein á himninum. Allt var svo afskaplega friðsælt. 

Hún kom auga á skilti sem stóð upp úr snjónum en var svo þakið snjó að það sást ekki hvað á því stóð. Zeta gekk að skiltinu. Hún dustaði og blés af því snjóinn. Á því stóð: Jólaland - þar sem jólin eru svakalega frábær! 

Zeta leit í kringum sig en sá engan. Hvorki hús né lifandi verur. Sögupersónur bókanna voru vanar að koma strax og taka á móti henni þegar hún heimsótti nýja bók. Hvers vegna gerðist það ekki núna? Býr enginn hér? 

Hún var djúpt hugsi þegar henni fannst hún allt í einu heyra eitthvað undarlegt hljóð.

Zeta og bókin

4. Þú ert of sein!

Zeta heyrði lágt tíst. Það hljómaði samt ekki eins og það væri fugl og var svo lágt að það heyrðist varla. 

„Halló,“ sagði Zeta og skimaði í kringum sig. „Er einhver hérna?“ 

Enginn svaraði. Zeta hlustaði. Tístið heyrðist enn. Nú fannst henni hljóðið berast frá litlum snjóskafli rétt hjá og hún fikraði sig rólega í áttina að honum. Snjóskaflinn hristist og skalf. 

Skrýtið. Það er eins og snjórinn sé lifandi, hugsaði Zeta. Nú þegar hún var komin nær heyrði hún að tístið var ekki tíst, heldur grátur. Einhver var að gráta. 

„Halló,“ sagði Zeta aftur. „Ég heiti Zeta.“ Ekkert svar. Zeta færði sig nær, dálítið óörugg og hikandi. „Ég er bókavera og ég er í heimsókn í þessari bók til að kynnast jólunum.“ 

Skyndilega hætti gráturinn og snjóskaflinn rétti úr sér. Nú sá Zeta að þetta var ekki bara hrúga af snjó, heldur lítill snjókarl sem hafði hniprað sig saman og hágrét. Hann sat í snjónum og sneri bakinu í Zetu. 

„Þú ert of sein,“ sagði snjókarlinn titrandi röddu án þess að snúa sér við. 

„Hvað áttu við? Er ég of sein?“ spurði Zeta hissa og talaði vingjarnlegum rómi til að reyna að róa snjókarlinn. 

„Já, of sein. Það var það sem ég sagði. Jólin eru horfin. Þau fuku burt í óveðrinu,“ bætti snjókarlinn við og andvarpaði djúpt. 

„Eru jólin alveg horfin?“ spurði Zeta hissa sem vissi alls ekki hvað snjókarlinn átti við. Hvað var horfið?

„Já, alveg horfin. Allt sem ég átti er fokið í burtu,“ sagði snjókarlinn og röddin skalf. „Það kom öflugur snjóbylur og feykti burt jólatrénu mínu sem stóð fyrir utan húsið. Síðan kom annar snjóbylur og feykti snjóhúsinu mínu í burtu og öllu sem var inni í því. Nú er allt sem minnir á jólin horfið og það í sjálfu Jólalandinu!“ bætti hann við og hrópaði næstum síðustu orðin. 

En hvað það var leitt, hugsaði Zeta sem langaði til að hugga þennan raunamædda snjókarl. Ég hlýt að geta hjálpað.... En hvernig? hugsaði hún og ákvað samstundis að gera allt sem hún gæti til að hjálpa snjókarlinum að finna jólin sín aftur. 

Zeta í snjó

5. Leysum ráðgátuna!

„Hvað heitir þú?“ spurði Zeta og færði sig rólega nær snjókarlinum. 

„Ég heiti Klaki og ég er...“ snjókarlinn hikaði og nú sneri hann sér loks við, „... eða öllu heldur, ég VAR snjókarl,“ sagði hann og döpur augun litu beint í augun á Zetu. „Eins og þú sérð þá hef ég týnt nefinu mínu, öðrum handleggnum og fína hattinum mínum. Ég líkist varla snjókarli lengur,“ bætti hann við og brast í grát aftur og nú hrundu tárin eins og regndropar sem falla af himnum. Zeta fann til með snjókarlinum. 

„Ég get örugglega hjálpað þér að finna allt sem þig vantar, kæri Klaki,“ sagði Zeta bjartsýn. „Ég er mjög góð í að leita og finna hina ýmsu hluti.“ 

„Þú? Hvernig í ósköpunum getur ÞÚ hjálpað?“ spurði snjókarlinn og horfði efins á Zetu. „Hefur þú lent í svakalegri snjóhríð?“

„Nei, reyndar ekki,“ sagði Zeta og hugsaði sig dálítið um. „En ég leita til dæmis oft að bókum á bókasafninu og finn þær alltaf.“

„Hefur þú leyst dularfullar ráðgátur?“ spurði snjókarlinn ákveðinn. 

„Nei, reyndar ekki...,“ svaraði Zeta hugsi. „En ég hef lesið MARGAR bækur sem fjalla um ráðgátur! Það eru uppáhaldsbækurnar mínar!“

Snjókarlinn andvarpaði og settist aftur snjóinn. „Þú fyrirgefur, en það hljómar ekki eins og það verði mikil hjálp í þér.“ 

Zeta lét þessa neikvæðni ekki trufla sig. Hún klifraði upp á snjóskafl, skimaði í kringum sig og rótaði í snjónum. „Segðu mér frekar að hverju ég á að leita,“ sagði hún spennt. Eyrun á henni stóðu beint upp í loftið og hringsnérust eins og loftnet í leit að sendingu.

Klaki hugsaði sig um. „Hvar á ég að byrja? Jólatréð fauk og allt fallega jólaskrautið mitt. Allar gjafirnar fuku í burtu og fallegu jólaljósin sem ég var búinn að hengja upp. Nú og auðvitað hatturinn, nefið og hendin mín! Ég er vanur að halda jólin mín í snjóhúsinu mínu, með piparkökum, jólatré og fallegum pökkum.“

Zeta horfði í kringum sig. Hvítur snjórinn lá eins og stórt teppi yfir landinu og hvergi sáust merki um hlutina sem höfðu horfið. 

„Hefur þetta gerst áður?“ spurði Zeta rannsakandi. 

„Nei. Það hefur aldrei áður komið snjóbylur í Jólalandi. Hér er allt svo friðsælt og jólalegt,“ sagði hann hnugginn. „Þessi bók fjallar einmitt um það hvernig maður undirbýr jólin með jólaskrauti, jólagjöfum og piparkökum.“ 

„Þá hlýtur að vera einhver mjög dularfull ástæða fyrir þessu óveðri,“ sagði Zeta sem var nú orðin spennt að leysa þessa ráðgátu. „Leitum að fyrstu vísbendingu!“ 

Zeta

6. Lagt af stað

„Af stað!“ hrópaði Zeta af æsingi. „Við ætlum að finna jólin þín og leysa ráðgátuna um óveðrið.“

„Jæja, ég hef svo sem ekki neinn annan til að hjálpa mér,“ sagði Klaki.

„Það var lagið! Ég ætla að byrja á að hjálpa þér á fætur,“ sagði Zeta og greip í hönd snjókarlsins og togaði hann til sín. 

„Þakka þér fyrir,“ sagði snjókarlinn sem var dálítið valtur og ringlaður þegar hann stóð á fætur. Hann þreifaði með hendinni sinni eftir andlitinu þar sem nefið hafði verið og hatturinn. 

„Æ, ég hlýt að líta alveg hræðilega út,“ sagði hann vandræðalegur. 

„Nei alls ekki. Ég var einmitt að hugsa um hvað þú ert með falleg augu,“ sagði Zeta og ljómaði öll af hlýju. 

„Nú verð ég vandræðalegur,“ sagði Klaki sem roðnaði alveg niður í tær.

Skyndilega kom dálítil vindhviða og þyrlaði upp snjónum í kringum þau. Klaki leit flóttalega í kringum sig. „Það er best að við drífum okkur af stað. Það gæti komið annar stormur.“ 

Klaki benti í áttina að fjöllunum. „Við skulum fara þessa leið. Rétt hjá fjöllunum býr vitur, gamall refur sem ég þekki. Hann gæti gefið okkur vísbendingu um hvers vegna snjóbylur geisar í Jólalandi.“

„Stórkostleg hugmynd!“ sagði Zeta, til í slaginn.  

Og þar með voru þau lögð af stað. Agnarsmáir fætur þeirra örkuðu með erfiðismunum í gegnum snjóinn sem var sums staðar mjög djúpur.

„Það er vegur hérna einhvers staðar undir snjónum,“ sagði Klaki og horfði rannsakandi niður fyrir sig. Öðru hverju rótaði hann í snjónum til að gá hvort þar væri eitthvað að finna. 

„Ég er viss um að vegurinn liggur í þessa átt því ég kannast við þessi tré fram undan,“ sagði hann síðan og benti á lítinn skóg rétt fyrir framan þau, fyrir neðan stóra brekku.  

Snjórinn dýpkaði og það varð enn erfiðara að ganga. Fæturnir og maginn á Zetu voru komin á bólakaf ofan í snjóinn en hún lét það ekki stoppa sig. 

„Passaðu þig á brekkunni!“ kallaði Klaki en það var of seint. Zeta gáði ekki að hvar hún steig og flaug af stað niður stóru brekkuna. 

Zeta og klaki

7. Ullarsokkur í snjónum

Zeta rann stjórnlaust á maganum niður stóra brekku. Henni brá svo mikið við fallið að hún gólaði alla leiðina niður. Fjörutíu fiðrildi flögruðu um inni í maganum hennar, eða þannig leið henni allavega, fiðringurinn var svo mikill. Snjórinn frussaðist framan í hana. 

Loks nam hún staðar og lenti á einhverju mjúku - sem var ekki snjór. Hún stóð á fætur, dálítið vönkuð eftir salibununa, og þá sá hún að hún hafði lent ofan á stórum, gráum ullarsokki sem lá hálfgrafinn ofan í snjónum. Þetta er skrýtið, hugsaði hún og leit síðan upp fyrir sig. Á brúninni fyrir ofan sá hún glitta í hausinn á Klaka sem hrópaði: „Er allt í lagi með þig?“ 

Zeta veifaði til merkis um að allt væri í lagi. 

„Ég kem niður,“ hrópaði Klaki hátt og renndi sér listilega á bakinu niður brekkuna og lenti við hlið Zetu. Hann stóð á fætur. 

„Er þetta ullarsokkur?“ spurði Klaki hissa þegar hann sá hvað lá á jörðinni. 

„Já, mér sýnist það. Kannski er ÞETTA fyrsta vísbendingin okkar,“ svaraði Zeta og lyfti upp sokknum sem var næstum jafn stór og hún sjálf. Þau skimuðu bæði í kringum sig eftir mögulegum eiganda sokksins en enginn var sjáanlegur. 

„Þetta er MJÖG stór sokkur, þannig að það er líklegt að eigandinn sé MJÖG stór. Þekkir þú einhvern hér í Jólalandi sem gæti passað í hann?“ spurði Zeta.  

„Mér dettur enginn í hug,“ sagði Klaki eftir smá umhugsun. Hann skoðaði sokkinn betur. „Hann gæti verið af einhverju skrímsli,“ sagði hann síðan og horfði alvarlegum augum á Zetu. 

„Það eru örugglega ekki til skrímsli í Jólalandi. Skrímsli búa oftast á skrímslalegri stöðum. Kannski er það bara stór og vinaleg kýr sem á þennan sokk,“ sagði Zeta hughreystandi. 

„Það held ég ekki. Ég er handviss um að þetta sé sokkur af skrímsli,“ sagði Klaki alvarlegur í bragði. 

Zeta og Klaki hrukku bæði í kút þegar þau heyrðu einhvern mása og blása fyrir aftan þau. 

Renna niður brekkuna

8. Maddamma mús

Þegar Zeta og Klaki litu við, sáu þau að það var ekkert að óttast. Þetta var bara lítil mús sem var að klöngrast upp úr holu upp við stóran stein. Músin stóð upp og dustaði snjóinn af kjólnum sínum. Þá tók hún eftir Zetu og Klaka. 

„Góðan daginn,“ sagði hún snögglega og stakk síðan hausnum aftur ofan í holuna sína. 
Zeta og Klaki litu hvort á annað. Músin dró stóran bandhnykil og prjóna upp úr holunni sinni. Hún fékk sér sæti í snjónum og hófst handa við að prjóna. Hún starði niður á prjónana sem hreyfðust leiftursnöggt og spunnu garnið saman. 

„Góðan daginn,“ sagði Zeta og brosti kurteisislega til músarinnar. „Ég heiti Zeta og þetta er vinur minn Klaki.“ 

„Ég heiti Maddamma mús,“ sagði músin án þess að líta upp frá prjónunum. 

„Við erum að leita að ýmsum hlutum sem hann Klaki týndi í storminum,“ útskýrði Zeta og færði sig nær músinni. 

„Gangi ykkur vel með það,“ hnussaði í músinni sem prjónaði ákaft. Zeta hafði aldrei séð neinn prjóna svona hratt.

„Hvað áttu við?“ spurði Klaki. 

„Ég á bara við að allir í Jólalandi eru að leita að einhverju sem þeir týndu í snjóbylnum og enginn finnur neitt. Stormurinn feykti burt stóru sænginni okkar svo nú þarf ég að prjóna nýja áður en börnunum mínum verður kalt,“ bætti músin við, dálítið pirruð. Neðan úr prjónunum hennar hékk langur renningur sem líktist stórum trefli. „Ég var næstum búin að týna öllum músarungunum mínum í rokinu.“

Klaka varð starsýnt á annan prjóninn. Honum fannst hann eitthvað kunnuglegur. 

„Hverskonar prjón ertu með þarna?“ spurði hann hugsi.  

„Annar prjónninn minn fauk í burtu í storminum svo ég varð að bjarga mér með þessari gulrót sem ég fann fyrir utan holuna mína,“ svaraði Maddamma mús án þess að svo mikið sem líta upp frá prjónaskapnum.

„Bíddu nú við! Þetta er nefið mitt!“ hrópaði Klaki upp yfir sig þegar hann áttaði sig á því að músin var að nota nefið hans fyrir prjón!

Maddamma mús prjónar

9. Ilmur af jólum

Maddamma mús leit nú loks upp frá prjónaskapnum og horfði furðu lostin á andlitið á Klaka og svo á prjónana sína til skiptis. 

„Jæja, það er líklega rétt hjá þér. Ég biðst afsökunar en margra músa móðir þarf stundum bara að bjarga sér. Ef þú gætir bara beðið augnablik,“ sagði hún síðan og prjónaði eins hratt og hún gat síðustu umferðina á teppinu sínu. Því næst losaði hún gulrótina úr garninu og rétti Klaka.

„Gjörðu svo vel og þakka þér fyrir afnotin. Nefið þitt kom sér vel.“

Klaki tók við gulrótinni og tróð henni inn í snjóhausinn sinn. Hann dró djúpt andann. „Ahhh, “ andvarpaði hann. „Þetta er miklu betra. Nú get ég fundið lykt aftur! Ég get fundið ilminn af jólunum.“ Klaki hikaði aðeins. „Ef það verða nokkur jól, það er að segja.“

„Hvernig er ilmurinn af jólunum?“ spurði Zeta.

Klaki lét sig dreyma. „Jólin ilma eins og smákökur með súkkulaði og piparkökur. Já og mandarínur,“ sagði hann og lygndi aftur augunum og þefaði út í loftið. 

„En hvað það hljómar dásamlega,“ sagði Zeta og hló góðlátlega að því hvernig Klaki lét.  
Allt í einu kom sterk vindhviða sem þyrlaði upp snjónum í kringum þau. 

„Jæja, ég ætla að forða mér áður en það skellur á annar stormur,“ sagði Maddamma mús og gekk rösklega með teppið sitt í átt að holunni. 

„En áður en þú ferð kæra Maddamma mús, langar mig að spyrja hvort þú kannast nokkuð við þennan ullarsokk,“ sagði Zeta og dró fram stóra ullarsokkinn.

Maddamma mús tók andköf. 

„Hvar funduð þið þennan sokk?“ spurði hún undrandi. 

„Við fundum hann hér í snjónum,“ útskýrði Zeta. „Þekkir þú einhvern sem er nógu stór til að eiga þennan sokk?“

Maddamma mús leit flóttalega í kringum sig. Snjórinn fauk til í kringum þau. 

„Nú, auðvitað snjótröllið,“ sagði Maddamma mús afar lágt, grafalvarleg á svipinn.

„Snjótröllið!“ hrópaði Klaki. „Býr snjótröll í Jólalandi?“ Hann var skelfingu lostinn. Zetu brá dálítið.

„USS!“ sagði Maddamma mús. „Ekki svona hátt! Ég heyrði hinar mýsnar tala um að það sé snjótröllið sem valdi þessum stormi.“

Klaki hnipraði sig saman eins og hann væri að reyna að fela sig.  

„Hvar býr þetta snjótröll?“ spurði Zeta og ákvað að láta óttann ekki ná tökum á sér.

„Nú, þarna! Í Mikilfenglega fjalli auðvitað,“ sagði Maddamma mús og benti á stóru fjöllin fram undan. „Snjótröllið er stórt og luralegt og getur auðveldlega traðkað niður litla mús eins og mig. Þess vegna held ég mig í hæfilegri fjarlægð,“ sagði Maddamma mús og gjóaði augunum til stóru fjallanna. „Jæja, veriði sæl. Og ég vona að snjótröllið éti ykkur ekki,“ sagði Maddamma mús og hvarf ofan í holuna sína.

Zeta með sokk

10. Vindarnir blása

Vindurinn blés kröftuglega og nú byrjaði að snjóa. 

„Ég vil ekki eiga á hættu að hitta þetta snjótröll. Förum aftur heim,“ sagði Klaki áhyggjufullur. 

„En þú átt hvergi heima. Auk þess vitum við ekki hvort snjótröllið sé í alvörunni til,“ sagði Zeta. „Góðu fréttirnar eru að þú ert búinn að finna nefið þitt aftur! Við finnum örugglega eitthvað fleira sem þú hefur týnt,“ sagði Zeta bjartsýn og arkaði af stað. 

„Jæja, já það er rétt hjá þér,“ sagði Klaki. Hann leit til himins. Það var byrjað að snjóa meira og vindurinn jókst. „Leitum skjóls hjá trjánum þarna,“ sagði hann og benti á nokkur stór tré sem stóðu í hnapp rétt hjá. 

„Góð hugmynd hjá þér. Ég tek ullarsokkinn með. Hann gæti komið að góðum notum,“ sagði Zeta og dröslaði ullarsokknum á eftir sér í snjónum.  

Vindurinn blés og blés og snjókoman jókst og það varð sífellt erfiðara að sjá fram fyrir sig. Zeta og Klaki börðust í gegnum hríðina til að komast í skjól hjá trjánum. 

„Ég sé ekki hvert við eigum að fara,“ sagði Klaki þegar snjóhríðin var orðin að blindbyl. Zeta greip í höndina hans. 

„Við pössum hvort annað. Þetta verður allt í lagi,“ sagði hún hughreystandi, þrátt fyrir að vera sjálf orðin dálítið hrædd. Þessi leit að jólunum var að breytast í háskalegt ferðalag.

Allt í einu heyrðist tíst í fugli og þau sáu móta fyrir litlum, bláum fugli mitt í snjóhríðinni. 

„Þessa leið,“ sagði litli fuglinn og flögraði við hliðina á þeim. Zetu fannst aðdáunarvert að fuglinn gæti haldið flugi í þessu brjálaða veðri. 

Fuglinn leiddi þau að stóru tré. Þar settust þau niður, kúrðu sig saman og vöfðu ullarsokknum utan um sig til að fá skjól. Fuglinn hvarf sjónum þeirra og þarna sátu þau alveg kyrr og pössuðu upp á hvort annað. 

„Æ þetta er allt of mikill snjór! Við förum á kaf,“ sagði Klaki áhyggjufullur og lokaði augunum. „Ég vil bara fá jólin mín aftur.“

Zeta og Klaki

11. Bíbí glókollur 

Loks lægði vindinn, snjókoman hætti og það sást aftur í sólina. 

„Ah, þetta er betra,“ sagði Klaki og kíkti undan ullarsokknum, feginn að hríðinni hafði slotað. 

„Ég vissi að sólin mundi koma fljótt aftur,“ sagði Zeta og var líka fegin. „Sólin kemur alltaf aftur.“

Fyrir ofan þau heyrðist fuglasöngur. Zeta leit upp. Hópur blárra fugla sat hátt uppi í lauflausum trjánum og söng svo fallega. Fleiri fuglar flögruðu í kringum trén. Zeta dáðist að fuglahópnum og horfði dáleidd á þá sýna listir sínar, flögra um og fljúga lágt yfir snævi þakinni jörðinni. 

„Halló!“ sagði mjóróma rödd. Fuglinn sem hafði vísað þeim veginn sat á grein fyrir ofan þau. Nú sá Zeta að hann var með gula rönd á höfðinu. „Er allt í lagi með ykkur?“ 

„Já,“ svaraði Zeta. „Þakka þér fyrir hjálpina.“

„Mín var ánægjan. Ég heiti Bíbí glókollur,“ sagði fuglinn og dillaði stélinu. „Nú vantar okkur hjálp frá ykkur.“ Fuglinn flögraði í nokkra hringi. „Við vorum búin að safna litlu jólaeplunum okkar saman í körfu en eplin duttu í snjóinn þegar karfan fauk í storminum. Getið þið hjálpað okkur að finna eplin og setja í körfu? Þið hafið hendur og eruð fljótari en við,“ sagði Bíbí. 

Klaki horfði leiður á höndina sína. „Ég er reyndar bara með eina hendi,“ sagði hann leiður. Zeta klappaði á bakið á Klaka til hughreystingar. „Já auðvitað hjálpum við til,“ kallaði hún til fuglanna. Síðan hófust þau handa.

Allir hjálpuðust að og brátt voru Zeta og Klaki búin að safna öllum eplunum saman í eina hrúgu í snjónum.  

„Hvað eigum við að gera við eplin?“ hrópaði Klaki til fuglanna.  

Bíbí kom samstundis flögrandi til þeirra. „Setjið þau í svörtu körfuna við tréð,“ svaraði hún. 

Zeta og Klaki klöngruðust með eplin að svörtu körfunni. Þegar þau nálguðust stansaði Klaki og gapti fram fyrir sig. „Heyrðu, þetta er ekki karfa. Þetta er fíni hatturinn minn!“ hrópaði hann upp yfir sig. 

Klaki sér hattinn

12. Flottur hattur

Klaki þreif til sín hattinn, sturtaði eplunum úr og setti hann á hausinn. Hann horfði reiðilega á Bíbí sem kom flögrandi til þeirra. Bíbí settist í snjóinn. Hún bar vænginn fyrir gogginn og flissaði dálítið. 

„Ó, afsakaðu. Ég sé það núna að þetta er hattur. Mér fannst karfan líka eitthvað skrýtin,“ sagði hún og brosti afsakandi til Klaka. 

„Mikið ertu fínn núna,“ sagði Zeta og virti litla snjókarlinn fyrir sér. 

Við hrósið hætti Klaki samstundis að vera reiður og brosti út að eyrum. 

„Já, þetta er líka uppáhalds hatturinn minn!“ Hann dansaði um í snjónum. „Jólahatturinn minn! Nú verð ég fínn um jólin - það er að segja - ef það verða einhver jól.“ Hann andvarpaði og settist niður. 

„Eigið þið nokkuð körfu sem við getum fengið lánaða?“ spurði Bíbí. 

„Nei, við erum bara með þennan stóra ullarsokk sem við vitum ekki hver á,“ sagði Zeta. Hún dró ullarsokkinn upp úr snjónum og sýndi Bíbí. 

Fuglinn tók andköf. „Snjótröllið!“ tísti Bíbí og flögraði aðeins til baka. „Enginn nema snjótröllið getur átt svona stóran sokk. Það er með svo ógnarstóra fætur og ógurlega stórt nef.“ 

Zeta og Klaki horfðu á hvort annað, ullarsokkinn og á fjöllin stóru. Þau fengu bæði kaldan hroll niður bakið. Bíbí flögraði aftur upp í tréð. 

„Hvert eruð þið að fara? Þið eruð þó ekki að fara í áttina að Mikilfenglega fjalli?“ spurði Bíbí. 

„Ja, við erum að leita að ýmsum hlutum sem Klaki hefur týnt og viljum komast að því hvers vegna það hefur snjóað og vindurinn blásið svona mikið. Þess vegna ætlum við að hitta gamla refinn,“ útskýrði Zeta.  

Bíbí hugsaði sig um í smá stund. „Við fuglarnir förum aldrei nálægt Mikilfenglega fjalli, en ég vil gjarnan launa ykkur hjálpina fyrir eplatínsluna. Ef þið lendið í vandræðum skuluð þið kalla á mig og ég reyni að bregðast við. Gangi ykkur vel.“ Síðan var hún flogin í burtu. 

Klaki og Zeta horfðu á hvort annað og voru bæði djúpt hugsi. Þetta var þá satt sem Maddamma mús sagði um snjótröllið. Það var þá til í alvörunni!

Bíbí flýgur í burtu

13. Undarlegt jólatré

„Við verðum að flýta okkur til gamla refsins,“ sagði Klaki. „Hvað ef Snjótröllið er á ferli að leita að sokknum sínum?“ Hann strauk hendi yfir andlit sitt. Zeta jánkaði. Þau gætu verið í stórhættu. Hún greip sokkinn og þau Klaki hjálpuðust að við að draga hann með sér. Þau flýttu sér eins og þau gátu. 

Eftir nokkra stund komu þau að dálitlum hóli, sem var snævi þakinn og á honum var lítil hurð og tveir litlir gluggar.

„Hér býr gamli refurinn,“ sagði Klaki feginn því að vera kominn og bankaði á hurðina. 

„Kom inn,“ heyrðist kallað fyrir innan. 

Klaki tók í handfangið og tókst með herkjum að opna hurðina. Fyrir innan var rökkur og kveikt á einu kerti. 

„Hver er þar?“ heyrðist sagt í rökkrinu. 

„Þetta er ég, Klaki snjókarl og Zeta vinkona mín. Þekkirðu mig ekki, gamli vinur?“

Ert þetta þú? Vertu velkominn. Ég er víst búinn að týna gleraugunum mínum og sé ekki mjög vel.“ Gamli refurinn gekk hægum skrefum við staf í áttina að Zetu og Klaka sem stóðu enn í dyragættinni.

„Jæja, komið inn fyrir. Ég er aðeins að reyna að snurfusa hérna,“ sagði gamli refurinn. Hann hélt á körfu fullri af könglum. „Ég er að skreyta jólatréð mitt með þessum könglum.“ 

„En hvað þetta er fallegt heimili sem þú átt,“ sagði Zeta og litaðist um. Þarna var lítið rúm og borð með fallegum kertastjaka og spilastokk. 

Klaki andvarpaði. „Þú ert heppinn að eiga jólatré. Mitt tré fauk út í buskann í snjóbylnum.“ 

„Ja, jólatréð mitt stóð fagurlega skreytt fyrir utan húsið mitt en það fauk reyndar líka, ásamt gleraugunum mínum. Ég fann þetta ágæta litla tré hérna rétt hjá heimilinu mínu,“ sagði gamli refurinn og benti í áttina að ræfilslegu litlu tré sem stóð úti í horni og búið var að hengja nokkra köngla á. 

Klaki horfði á tréð. Eitthvað var það kunnuglegt. 

„Bíddu nú við, gamli refur! Þetta er ekki tré. Þetta er höndin mín!“ hrópaði Klaki. 

Refur

14. Handsamið tröllið

Klaki gekk rakleitt að höndinni sinni og hrifsaði hana til sín svo könglarnir duttu í gólfið. Hann stakk hendinni á kaf í litla snjóbúkinn sinn. Þvílíkur léttir!

Gamli refurinn var miður sín. „Æ, kæri vinur. Mér þykir leitt að hafa óvart notað höndina þína sem jólatré. Ég sé bara svo agalega illa án gleraugnanna.“ Gamli refurinn klappaði Klaka á bakið.

„Allt í lagi,“ andvarpaði Klaki, „Þetta er miklu betra.“ Hann teygði úr sér. „Nú er ég orðinn heill aftur. Nú gengur betur að faðma vini mína um jólin og baka piparkökur þegar ég hef tvær hendur -  það er að segja - ef það verða einhver jól,“ bætti hann við og varð aftur hnugginn. 

„Er þá mikilvægt að faðma aðra á jólunum?“ spurði Zeta. 

„Ó já. Það er svo gaman að vera með vinum og fjölskyldu á jólunum og faðmast og hlæja saman,“ sagði Klaki dreyminn. Zeta varð hugsi. Jólin eru þá tími sem maður á með vinum sínum og fjölskyldu. Jólin eru tími sem maður faðmast. Þetta var allt að skýrast í kollinum á henni.

„En af hverju heldurðu að það verði ekki jól?“ spurði gamli refurinn Klaka. 

„Af því að allt sem minnir á jólin fauk burt í storminum,“ sagði Klaki. „Húsið mitt, jólatréð og gjafirnar. Það eina sem ég er með er þetta,“ bætti hann við og dró fram stóra ullarsokkinn og sýndi gamla refnum. Refurinn andvarpaði djúpt. 

„Já, þetta er eins og mig grunaði,“ sagði gamli refurinn. Hann gekk að borðinu og fékk sér sæti. „Svona snjóhríð hefur ekki sést í Jólalandi í mörg ár og það er bara ein ástæða fyrir því: Snjótröllið ógurlega í fjöllunum. Eigandi ullarsokksins.“ Klaki var byrjaður að skjálfa. Zeta var farin að efast stórlega um að þessi ferð hennar til Jólalandsins hefði verið góð hugmynd og langaði bara heim í hlýjuna á bókasafninu. „Snjótröllið er ófrýnilegt í útliti, með lafandi eyru og stóran fót. Eða, svo er sagt. Ég hef reyndar aldrei séð Snjótröll,“ bætti gamli refurinn og gerði smá hlé á máli sínu. „En ég hef heyrt margar sögur af því síðan ég var lítill yrðlingur. Snjótröll geta búið til ægilega snjóbylji sem feykja öllu í burtu. Eina leiðin til að stoppa storminn er að handsama tröllið.“ Refurinn horfði djúpt í augun á Zetu og Klaka. „Eruð þið nógu hugrökk til að handsama snjótröllið?“ 

Klaki fraus eitt andartak. „Ég veit það nú ekki alveg,“ svaraði hann skjálfandi röddu. „Getur þú ekki bara farið?“ 

„Ég er orðinn allt of gamall til að leggja í svona ævintýraferð. Jólaland þarf á hjálp ykkar að halda,“ bætti gamli refurinn við og horfði vongóður á Klaka og Zetu. 

„Já!“ svaraði Zeta. „Saman getum við Klaki handsamað tröllið og bjargað Jólalandi frá storminum.“ Hún dró djúpt andann og setti upp bros. Hún hafði oft lesið bækur um hetjur. Þær láta óttann ekki stoppa sig.

„Gott! Mikilfenglega fjall er ekki langt héðan. Þar er hellirinn,“ svaraði gamli refurinn. Hann benti með stafnum sínum í áttina að glugganum.

„Æ, æ, æ,“ sagði Klaki og hristi hausinn og greip fyrir augun en Zeta bara brosti. „Áttu nokkuð reipi?“ 

Refur segir frá tröllinu

15. Upp á fjall

Stuttu seinna voru Zeta og Klaki komin að rótum Mikilfenglega fjalls. Zeta var búin að binda ullarsokkinn á bakið á sér með reipi gamla refsins. 

„Ég trúi því ekki að þú hafir sannfært mig um að koma með þér að handsama tröll,“ sagði Klaki og skalf allur af stressi og kvíða. 

„Við verðum að vera tvö ef við ætlum að handsama hann og koma aftur á ró í Jólalandi,“ sagði Zeta og bisaði við að klífa upp brattann. 

„Hvers vegna geta ekki bara verið venjuleg jól? Ég er engin ofurhetja. Ég er bara lítill snjókarl sem vill halda jólin sín,“ röflaði Klaki á meðan hann fikraði sig áfram á eftir Zetu. 

„Allir geta verið hugrakkir og breytt heiminum. Sama þótt þeir séu bara litlir snjókarlar,“ sagði Zeta sem átti fullt í fangi með að halda jafnvægi í bröttum klettunum. 

„Ég veit ekki..,“ sagði Klaki efins.

Allt í einu hrasaði Zeta um eitthvað sem lá hálfgrafið ofan í snjónum, og hún datt kylliflöt á magann. Klaki flýtti sér til hennar og hjálpaði henni á fætur. 

„Það er eitthvað hérna,“ sagði Zeta og gróf hendurnar í snjóinn. Klaki hjálpaði henni. Upp úr snjónum drógu þau annan ullarsokk sem var alveg eins og hinn. 

„Við erum greinilega á réttri leið,“ sagði Zeta alvarleg á svip. Á sömu stundu heyrðust ógurlegar drunur ofan úr fjallinu og allt hristist. Snjóskaflar hrundu yfir Zetu og Klaka svo þau urðu að beygja sig niður og hjúfra sig saman. 

„Æ, æ, æ,“ hljóðaði Klaki. „Væri ekki skynsamlegt að snúa við núna?“ spurði Klaki skjálfandi röddu. 

En Zeta lét sem hún heyrði ekki í Klaka og hélt einbeitt áfram að klífa fjallið og dró stóra ullarsokkinn með sér. Klaki staulaðist á eftir henni. Skyndilega blasti við þeim risastórt hellisop. Þau voru komin að helli snjótröllsins!

Hellirinn

16. Inni í hellinum

Zeta og Klaki gægðust inn um hellisopið. Þau voru greinilega á réttum stað. Hér bjó einhver. Einhver stór. Þarna var stórt borð og stór stóll og líka afskaplega stórt rúm. Innst í hellinum var líka stór skápur og hurðin var dálítið opin. Fyrir innan var allt hljótt. 

„Það er enginn heima,“ hvíslaði Zeta og settist aftur í snjóinn. Hún leysti af sér ullarsokkinn og skildi báða sokkana eftir við hellisopið. „Við skulum fara inn, fela okkur og bíða eftir því að snjótröllið komi heim. Þá læðumst við fram án þess að hann taki eftir og bindum fæturna á honum saman.“ Zeta var með áætlunina á hreinu. 

Klaki horfði hissa á Zetu og fannst hún full örugg með sig. „Ertu viss um að þú hafir ekki gert þetta áður?“ 

Zeta klifraði á undan inn í hellinn og greip í höndina á Klaka og togaði hann inn fyrir. Inni í hellinum var nokkuð dimmt og kalt. Zeta benti Klaka á að koma og fela sig undir borðinu. 

„Æ, hann sér okkur áreiðanlega hér. Kannski er betra að fela sig inni í þessum skáp,“ hvíslaði Klaki og færði rólega nær skápnum. 

„Vertu kyrr hér,“ sagði Zeta. „Við sjáum hann betur héðan þegar hann kemur inn.“

En Klaki var lagður af stað í áttina að skápnum. Ofurvarlega kíkti hann inn um opna hurðina á skápnum. Hann færði sig nær. Síðan stoppaði hann. Honum fannst hann sjá eitthvað þarna inni. Gat það verið...? Inni í myrkrinu sá hann móta fyrir öðrum augum - og risastóru nefi! Í nokkrar sekúndur var algjör þögn. Klaki áttaði sig loks á því að það væri einhver stór vera inni í skápnum og hann æpti upp yfir sig svo glumdi í öllum hellinum. Veran í skápnum öskraði á móti. Zeta hrökk svo í kút að hún datt um koll.

Klaki kom hlaupandi á hraðaspretti í áttina að Zetu. „Það er einhver inni í skápnum!“ öskraði hann. Síðan tók hann á rás út úr hellinum. Skáphurðin opnaðist og stórvaxin vera steig varlega út. Veran var með stór lafandi eyru og stórt nef og var skelkuð á svipinn. Hún hélt höndunum að sér og horfði til skiptis á Zetu og Klaka sem stóð við hellisopið. Zeta skalf inni í sér af ótta en var á sama tíma forvitin. Veran virtist jafn skellkuð og þau. Klaki var farinn að naga á sér fingurnar af stressi. „Komdu Zeta!“ hrópaði hann. En Zeta var allt of forvitin til að geta hlaupið í burtu. Þetta ógurlega snjótröll virtist einhvern veginn ekki vera mjög ógurlegt. 

Dyragættin

17. Er tröll hér?

„Hver eruð þið?“ spurði snjótröllið loks skjálfandi röddu. 

„Ég er bókaveran Zeta og þetta er snjókarlinn Klaki,“ sagði Zeta rólega. 

„Komdu!“ kallaði Klaki aftur órólegur. Hann horfði niður brekkuna og bjó sig undir að renna sér niður fjallshlíðina. 

„Bíddu aðeins,“ sagði Zeta og sneri sér að snjótröllinu: „Hvers vegna faldir ÞÚ þig inni í skápnum?“

„Ég heyrði einhver hljóð fyrir utan og varð hræddur. Heyrðuð þið þau líka?“ spurði snjótröllið og leit órólegt í kringum sig. 

„Það voru líklega hljóðin í okkur,“ sagði Zeta og leit hissa á Klaka.

„Eruð þið nokkuð... hættuleg?“ spurði snjótröllið dálítið skelkað á svip og hvíslaði næstum því síðasta orðið. Zeta kom ekki upp orði, hún var svo hissa. 

„Hvers vegna eruð þið hér? Hingað kemur aldrei neinn,“ bætti snjótröllið við.  

„Ja, við komum hingað til að handsama tröll,“ sagði Zeta og fannst þetta samtal orðið dálítið skrýtið. 

„Ha! Er tröll hér? Hvar? Hvar er það?“ spurði snjótröllið og hnipraði sig saman. 

Zeta og Klaki horfðu á hvort annað og voru greinilega að hugsa það sama. Var þessi stóra ófreskja þá ekki snjótröllið eftir allt saman?

„Eh, það ert þú sem ert tröllið, er það ekki? Snjótröllið? Ófreskjan í fjöllunum?“ spurði Zeta. Klaki færði sig nær henni. Þetta var allt svo undarlegt.

„Ha! Ég? Ég er engin ófreskja! Ég er bara lítið snjótröll. Ég heiti Tumi. Ég er ekki vondur,“ sagði snjótröllið sem var nú búinn að fá sér sæti á gólfinu. „Er einhver hræddur við mig?“ Hann horfði einlægum augum á Zetu og Klaka. 

„Ert það ekki þú sem býrð til snjóbylinn sem hefur geisað í Jólalandi? Vonda veðrið sem er búið að feykja öllu um koll? Jólatrénu mínu og sjálfu húsinu mínu?“ sagði Klaki sem var nú líka sestur á gólfið. 

„Snjóbylur sem feykir öllu um koll? Það hljómar hræðilega,“ sagði Tumi snjótröll sorgmæddur á svip. „Ég hef ekki séð neinn snjóbyl. Um hvað eruð þið að tala?“

Inni í hellinum

18. Atsjú!

Tumi snjótröll hélt áfram að tala. „Ég er bara búinn að vera inni í hellinum mínum í marga daga því mér er svo kalt. Ég er nefnilega búinn að týna hlýju ullarsokkunum mínum. Eldurinn minn slokknaði og nú er ég bara alveg að frjósa og kominn með kvef,“ sagði Tumi og saug dálítinn dropa af hori upp í nefið. Zeta stóð á fætur og náði í stóru ullarsokkana sem lágu fyrir utan hellinn. 

„Eru þetta kannski sokkarnir sem þú týndir?“ spurði Zeta og lagði ullarsokkana á gólfið fyrir framan snjótröllið. 

„Sokkarnir mínir!“ hrópaði Tumi og hoppaði um af gleði svo að hellirinn hristist. 

„Þeir eru reyndar dálítið blautir,“ sagði Zeta afsakandi. 

„Það er allt í...,“ Tumi hætti að tala og gretti sig ógurlega, „Ah ahh ahh, ATSJÚ!“ hnerraði hann síðan gríðarlega hátt svo að Zeta og Klaki þeyttust út í hinn enda hellisins. Tumi snjótröll var hálf vankaður eftir þennan kröftuga hnerra og það heyrðust miklar drunur í hellinum. Nú gerðist dálítið undarlegt. Út frá hnerranum myndaðist lítill hvirfilvindur inni í hellinum. Vindur sem blés í hringi og færðist rólega í áttina að hellisopinu. 

„ATSJÚ!“ hnerraði Tumi aftur og annar hvirfilvindur fór af stað inni í hellinum. 

„ATSJÚ!“ hnerraði hann í þriðja sinn og enn einn hvirfilvindurinn fór af stað. 

Zeta trúði ekki sínum eigin augum. Hvað var að gerast? Við hellismunnann sameinuðust hvirfilvindarnir og ferðuðust út úr hellinum og þyrluðu upp snjónum fyrir utan. Zeta og Klaki horfðu agndofa á þessa tröllahnerra sem breyttust hægt og rólega í snjóbyl  fyrir utan. Þau færðu sig öll að hellisopinu og horfðu á stormsveipinn stóra ferðast niður fjallshlíðina og feykja burt öllu sem á vegi hans varð í Jólalandi.  

Tumi snjótröll horfði á eftir hnerranum sínum og varð sorgmæddur. „Ó nei,“ sagði hann. „Þetta er allt mér að kenna. Allt er eyðilagt út af mér.“ Hann varð algjörlega miður sín. „Ég hef eyðilagt jólin!“

Tumi hnerrar

19. Það mikilvægasta við jólin

Zeta og Klaki færðu sig nær snjótröllinu, klöppuðu honum á bakið og hugguðu hann. 

„Þetta var greinilega aaaalveg óvart,“ sagði Zeta. Klaki andvarpaði. Hann var hvorki leiður yfir storminum og týndu jólunum, né hræddur við snjótröllið lengur. Þau sátu öll saman við hellismunnann, alveg ráðalaus. 

„Hvað gerum við nú þegar jólin eru fokin út í veður og vind?“ spurði Klaki. Zeta var djúpt hugsi. Eitthvað hlaut að vera hægt að gera til að gera jólin hátíðleg þó að allt væri breytt. 

„Hvað er mikilvægast á jólunum?“ spurði hún Klaka. Hann hugsaði málið. „Eru það piparkökurnar, jólatréð, skrautið eða gjafirnar?“ bætti hún við. 

Eftir smá stund svaraði Klaki. „Ja, þetta er allt mikilvægt en ekkert af þessu er skemmtilegt að hafa og gera nema maður hafi vini sína hjá sér.“ 

Þá var eins og eldingu hafi lostið ofan í kollinn á Zetu. „Ég veit! Við höldum jólagleði hér í hellinum hjá Tuma og bjóðum vinum okkar.“

„Vinir ykkar eru velkomnir til mín... en þorir einhver að koma ef allir eru hræddir við mig?“ spurði Tumi áhyggjufullur. 

Klaki og Zeta voru hugsi. 

„Við útskýrum fyrir þeim að þú sért ekkert ógurlegur,“ sagði Zeta ákveðin og Klaki kinkaði kolli.

Tumi klæddi sig í ullarsokkana og stóð á fætur. „Ég á nóg af mandarínum handa öllum og ég yrði hamingjusamasta snjótröll í heimi ef ég mundi eignast ykkur öll fyrir vini,“ bætti hann við og hoppaði um því hann var svo glaður. 

Zeta tók sér stöðu við hellisopið. „Hjálpið mér að kalla á Bíbí,“ sagði hún við Klaka og Tuma. „Bíbí glókollur!“ hrópaði hún eins hátt og hún gat. Klaki og Tumi snjótröll tóku undir. 

Eftir smá stund sást lítil doppa á himnum koma fljúgandi í áttina að Mikilfenglega fjalli. Þetta var Bíbí. 

„Vantar þig hjálp kæra Zeta?“ spurði Bíbí þegar hún var komin að hellisopinu. Hún hélt sig í hæfilegri fjarlægð þegar hún sá snjótröllið í gættinni. 

„Tumi snjótröll býður ykkur í jólaveislu og þú þarft að sækja Maddömmu mús og gamla ref,“ sagði Zeta. 

Bíbí horfði hissa á Zetu. Jólaveisla í helli snjótröllsins?

„Treystu mér,“ kallaði Zeta hughreystandi. „Þetta verður allt í lagi“. Bíbí blakaði vængjunum og þaut af stað. 

Á fjalli

20. Skreytt hátt og lágt

Þegar Bíbí var flogin af stað sneri Klaki sér að Tuma. „Áttu eitthvað jólaskraut?“ spurði hann. 

Tumi leit í kringum sig. „Nei því miður. Ég hef aldrei átt svoleiðis.“ 

„Ég er með hugmynd!“ sagði Zeta og gekk rakleitt að skápnum í hellinum. „Við búum bara til okkar eigið skraut! Ég las eitt sinn bók um hvernig hægt er að skreyta hús með bara ósköp venjulegum hlutum.“

Hún opnaði skápinn upp á gátt. Inni í honum voru alls konar pottar og pönnur, handklæði, þvottapokar, gafflar og skeiðar og fleira eldhúsdót. Hún tók reipið, sem hún hafði tekið með til að handsama snjótröllið, og benti Klaka og Tuma á að aðstoða sig við að binda snærið upp svo það héngi þvert yfir hellinn. Síðan sýndi hún þeim hvernig hægt var að hengja ýmsa ósköp venjulega hluti á reipið og nota þá fyrir skraut. Brátt var hellirinn orðinn vel skreyttur með búsáhöldum og efnistuskum. Zeta leit ánægð yfir hellinn. 

„Stórgóð hugmynd Zeta! Þetta lítur vel út hjá okkur,“ sagði Klaki ánægður.  
Tumi náði í stóra skál og fyllti hana af mandarínum. Skálina setti hann síðan á borðið. 

„Já, þetta er bara nokkuð gott,“ sagði Zeta stolt. 

„Þakka ykkur fyrir,“ sagði Tumi. „Ég hef aldrei fengið vini í heimsókn.“

Allt var tilbúið. Nú vantaði bara gestina. Klaki sneri sér að Zetu. „Ég vona bara að þau þori að mæta,“ hvíslaði hann. Zeta var einmitt að hugsa það sama. 

Hellirinn skreyttur

21.Fyrstu gestirnir

Þau voru búin að bíða í dágóða stund en engir gestir höfðu látið sjá sig. 

„Æ, það kemur örugglega enginn,“ sagði Tumi snjótröll. „Það þorir enginn að koma í heimsókn til mín.“ 

En einmitt þegar hann hafði sleppt orðinu heyrðist í einhverjum mása og blása fyrir utan hellinn. Þarna var Maddamma mús komin með börnin sín tíu í halarófu á eftir sér. Öll börnin héldu í garnspotta til að týnast ekki og á bakinu bar hún garnhnykil og prjónana sína.

Maddamma mús dustaði af sér snjóinn og dró öll börnin inn í hellinn. „Er þetta þá þetta ógurlega snjótröll,“ hnussaði hún. Börnin hennar röðuðu sér upp fyrir aftan hana, dálítið skelfd yfir stærð snjótröllsins. „Þú ert miklu minni en ég hélt,“ bætti hún við og fékk sér sæti. Hún byrjaði strax að prjóna. 

Tumi snjótröll stóð þarna með risa bros á vör. „Verið velkomin í hellinn minn.“ Hann hneigði sig. 

„Þú hefur fundið alvöru prjón sé ég,“ hvíslaði Klaki að henni með glott á vör. Maddamma mús hnussaði bara. „Já, ég fann hann loks eftir mikla leit,“ sagði hún án þess að líta upp frá prjónunum sínum.  

„Fáið ykkur endilega mandarínur,“ sagði Tumi. Litlu mýsnar sleiktu út um og létu ekki segja sér það tvisvar. Þær stungu sér á bólakaf ofan í ávaxtaskálina. 

„Hvar eru músasiðirnir krakkar? Ekki borða alla skálina,“ heyrðist í Maddömmu mús. Litlu mýsnar hámuðu í sig mandarínurnar. En eftir smá stund byrjuðu þær að skjálfa því það var svo kalt inni í hellinum. Zeta fann að henni var líka orðið dálítið kalt. Það vantaði eitthvað til að hlýja sér við. Bara ef þau væru nú með kertaljós til að geta haft þetta örlítið notalegra.  

Mýsnar mættar

22. Refur á ferð og flugi

Nú heyrðist hávær fuglasöngur fyrir utan hellinn og þegar Zeta hljóp að hellismunnanum sá hún að Bíbí og allir glókollarnir komu fljúgandi að fjallinu. Hópur fugla hélt um gamla refinn og hjálpaði honum að klöngrast upp fjallið. Gamli refurinn gekk við staf.

„Ég er orðinn allt of gamall fyrir svona langferðalög,“ sagði gamli refurinn um leið og hann staulaðist inn um hellisopið með hjálp glókollanna. Hann var með gleraugun sín á sér og bar stóra tösku með sér. Hann reyndi að rétta vel úr sér og horfði upp eftir löngum líkama snjótröllsins. „Jæja, svo þetta er snjótröllið í Mikilfenglega fjalli. Loksins fæ ég að hitta þig eftir að hafa hlustað á sögur af þér síðan ég var lítill yrðlingur,“ sagði gamli refurinn og var djúpt hugsi. 

„Ég vissi ekki að ég væri svona frægur,“ sagði Tumi snjótröll og roðnaði pínulítið við alla þessa athygli sem hann hafði fengið frá íbúum Jólalands. 

„Ef þú bara vissir hvað sögurnar sem sagðar hafa verið af þér eru ógnvekjandi... Þær fá alla litla yrðlinga til að skjálfa á beinunum, þar á meðal sjálfan mig þegar ég var lítill,“ bætti gamli refurinn við og hristi hausinn. Síðan hló hann dálítið. 

„Ég er alls ekkert vondur. Þetta er allt bara mikill misskilningur,“ sagði snjótröllið síðan og bauð gamla refnum mandarínu. 

Gamli refurinn opnaði töskuna sína. Klaki kíkti ofan í töskuna. „Hvað ertu með?“ spurði hann forvitinn. 

„Nú það má segja að ég hafi komið með jólin með mér,“ sagði gamli refurinn leyndardómsfullur. 

Nú varð Klaki spenntur. „Komstu með stórar gjafir, jólatré og piparkökur?“ Hann hoppaði um á gólfinu fyrir framan hann. 

„Ekki alveg,“ sagði gamli refurinn og gægðist ofan í töskuna sína. 

„Þetta verður SVO gaman,“ sagði Klaki og klappaði saman höndunum.  
En gamli refurinn dró ekki gjafir og jólaskraut upp úr töskunni. Upp úr töskunni kom eitt kerti í litlum kertastjaka, eldspýtur og spilastokkur. 

Klaki horfði spurnaraugum á það sem fyrir augu bar. Hvernig gátu bara eitt lítið kerti og spilastokkur verið sjálf jólin?

Refirnir mættir

23. Kerti og spil

„Þetta eru ekki jólin,“ sagði Klaki vonsvikinn. „Þetta eru bara kerti og spilastokkur.“ Gamli refurinn sagði ekkert heldur kveikti á kertinu og dró spil út úr spilastokknum. Litlu mýsnar fylgdust með og jöpluðu á mandarínunum. Hann benti Tuma á að kveikja upp í arninum og það hlýnaði strax í hellinum.

„Jólin snúast fyrst og fremst um það að vera saman. Þess vegna ætlum að spila saman,“ sagði gamli refurinn. 

„Já eins og í jólakvæðinu!“ hrópaði Zeta hátt. „Ég skil þetta núna!“  Síðan söng hún hátt og snjallt: Bráðum koma blessuð jólin, börnin fara að hlakka til. Allir fá þá eitthvað fallegt, í það minnsta kerti og spil... 

Litlu mýsnar hoppuðu um af kæti. 

„Á jólunum föðmumst við,“ sagði Zeta hlæjandi og tók utan um Klaka. 

Klaki andvarpaði. „Jæja, já, ætli það ekki. Það er bara svo gaman að opna pakka.“

„Gjöf getur líka verið samvera með vinum og fjölskyldu,“ hélt gamli refurinn áfram og dreifði spilunum til hinna. 

„Er það? Það vissi ég bara alls ekki,“ sagði Tumi bæði hissa og ánægður.  

Maddamma mús potaði í Tuma snjótröll með prjóninum sínum. „Gjörðu svo vel,“ sagði hún rétti honum langan trefil sem hún var búin að prjóna handa honum. 

„Handa mér?“ sagði Tumi og ætlaði ekki að trúa sínum eigin augum. „Þetta er fallegasta gjöf sem ég hef nokkru sinni fengið. Eða, ég held að ég hafi bara aldrei fengið neina gjöf áður. Þakka þér fyrir,“ sagði hann og sveipaði treflinum um sig. „Nú verður mér ekki kalt!“

„Og það er nú heppilegt fyrir okkur hin,“ hvíslaði Klaki að Zetu og þau hlógu dátt. Klaka var farið að þykja verulega vænt um nýju vinkonu sína. 
 Vinirnir sátu saman og spiluðu á spil, hlógu og sungu langt fram á nótt. Þau skemmtu sér svo vel.

„Viltu ekki bara eiga heima hjá okkur í Jólalandi?“ spurði Klaki loks Zetu.  

Zeta horfði á þessa nýju vini sína og hugsaði sig um. Það væri nú ansi notalegt að geta verið áfram hjá þessum góðu vinum. Ætti hún kannski að kveðja bókasafnið og búa sér til heimili í Jólalandi? 

Tumi og Maddamma

24. Aftur heim - Blessuð jólin

Zetu varð hugsað um litla rúmið sitt inni í hlýja bókasafninu og  hún fann að nú var kominn tími til að halda heim á leið. Jólaland var góður staður en heimkynnin kölluðu á hana.  

„Ég þarf að kveðja ykkur núna til að halda jólin í mínum heimi. Ég sakna hlýjunnar á bókasafninu og allra bókanna, já og allra krakkanna sem koma í heimsókn á safnið. En ég hlakka til að heimsækja ykkur aftur síðar.“ 

„Þakka þér fyrir alla hjálpina,“ sagði Klaki með tárin í augunum. 

„Þú ert hugrakkasti snjókarl sem ég hef nokkurn tíma hitt,“ sagði Zeta og faðmaði Klaka. 

„Þakka þér fyrir að vera vinur minn,“ sagði Tumi, líka með tárin í augunum. 

„Og þú ert kærleiksríkasta snjótröll sem ég nokkurn tíma hitt,“ sagði hún og faðmaði Tuma að sér. Hún sneri sér að músunum, fuglunum og gamla ref.

„Þið eruð öll svo yndisleg,“ sagði Zeta og faðmaði hvern og einn. Síðan tók hún sér stöðu á miðju gólfinu og fór með bókaþuluna sína:

Bók, skrudda, skræða,
nú mun ég þig lífi gæða.
Bókaormur, lestrarhestur
lifandi verður þessi lestur.

Leiftursnöggt barst hún inn í töfravíddina og eftir nokkrar sekúndur var hún komin aftur á bókasafnið sitt. Hún rankaði við sér þar sem hún sat ofan á jólabókinni. Hún stóð upp og lokaði bókinni. Hún brosti þegar hún sá myndina af Klaka á bókakápunni. Þetta hafði verið ævintýraleg bókaferð og hún hafði lært svo mikið um jólin. Zeta geispaði stórum geispa og fann að hún var orðin ansi þreytt eftir að hafa klifið fjöll og arkað í gegnum snjóinn í heilan dag. 

„Svona eru þá blessuð jólin sem eru að koma,“ hugsaði Zeta með sér þegar hún lagðist til svefns. „Að vera með vinum við kertaljós og spil.“ Brátt var hún steinsofnuð eftir ferðalag dagsins. Úti lýstu jólaljósin upp vetrarmyrkrið. Allt var kyrrt og hljótt inni á bókasafninu fyrir utan litlar hrotur sem bárust frá lítilli bókaveru sem svaf vært og rótt. 

Öll saman

ENDIR