Höfundar Jóladagatalsins 2021 | Stúlkan sem skemmdi (næstum því) jólin

20 umsóknir bárust í samkeppni um Jóladagatal Borgarbókasafnsins og Bókmenntaborgarinnar 2021. Sagan Stúlkan sem skemmdi (næstum því) jólin varð fyrir valinu, en hún er skrifuð af Heiðu Vigdísi Sigfúsdóttur og Joav Gomez Valdez teiknar myndirnar. 

Við skulum kynnast þeim Heiðu og Joav aðeins betur. 

Hver eru Heiða og Joav? 

Heiða Vigdís er meistaranemi við ritlist í Háskóla Íslands. Þegar hún var lítil ætlaði hún að verða tannlæknir, hagfræðingur, rithöfundur og forseti. Þess vegna lauk hún BA námi í hagfræði með sagnfræði sem aukafag frá HÍ. Svo skipti hún um skoðun og ákvað að láta pennann taka stjórn á lífi sínu í ritlistinni. 

Hún nýtur þess að skrifa fyrir yngstu lesendurna sem veita henni mikinn innblástur. Heiða elskar að hanga með börnum en hún hefur til dæmis starfað við kennslu í Fellaskóla og í Mexíkóborg þar sem hún vann í dægradvöl fyrir heimilislausa drengi.

Joav er húðflúrari og teiknari búsettur í Reykjavík. Hann er fæddur og uppalinn í Mexíkóborg en flutti til Íslands árið 2019. Joav er menntaður lögfræðingur í heimalandinu en lagði fljótt lagabækurnar í hilluna og hóf nám við grafíska hönnun í Veracruz. Þaðan fýkur einmitt golfstraumurinn sem heldur Íslendingum á lífi en í Veracruz er sólin svo heit að strigaskórnir bráðna næstum því á gangstéttinni (honum finnst dálítið kalt á Íslandi, sérstaklega núna).

Joav hefur starfað sem húðflúrari í átta ár. Í teikningum sínum sækir hann innblástur í dulspeki, tarot og trú frumbyggja í mið-Ameríku á borð við Azteka og Maya. Í Jóladagatalinu sækir hann einnig innblástur í teikningar Tryggva Magnússonar úr hinni klassísku ljóðabók Jóhannesar úr Kötlum; Jólin koma.

Hvernig kynntust þið?

Heiða: Ég flutti með Helgu vinkonu minni í risastóra kommúnu í Mexíkóborg á Cerrada Torreón 19. Þar bjó ungt fólk hvaðanæva að úr heiminum og líka húsfreyja sem átti heima í kjallaranum. Allir voru skíthræddir við húsfreyjuna sem vildi viðhalda herstjórn á heimilinu, svolítið eins og konan í kjallaranum í Jóladagatalinu. Ég bjó í herbergi tólf og Joav bjó í herbergi sex. 

Joav:  Ég ætlaði að flytja í aðra íbúð með heitum potti á þakinu í fínasta hverfi Mexíkóborgar. En eftir að ég greiddi leigusalanum staðfestingargjald hvarf hann af yfirborði jarðar og lokaði fyrir símanúmerið sitt. Ég vona að hann hafi ekki týnt símanum, ég man nefnilega að þetta var mjög fínn sími. Ég fékk staðfestingargjaldið aldrei endurgreitt og skreið til húsfreyjunnar með skottið á milli lappanna og spurði hvort ég mætti leiga herbergi númer sex á Cerrada Torreón 19. Þar kynntist ég Heiðu.

Hver er boðskapur sögunnar Stúlkan sem skemmdi (næstum því) jólin?

Heiða: Ég held að börn eigi yfirleitt auðveldara með að skilja sögur en fullorðnir svo ég hlakka til að heyra hvað þeim finnist vera boðskapurinn. Sagan fjallar um átta ára forvitna stelpu sem fer óvænt af stað í háskaför bara vegna þess að hana langar svo ofboðslega mikið í lítinn sætann kettling. Í staðinn kynnist hún ýmsum persónum sem flestir Íslendingar héldu að byggju ekki í mannheimum. Sagan snýst auðvitað líka um hinn sanna jólaanda, eða um það sem skiptir raunverulega máli á jólunum. Stúlkan sem skemmdi (næstum því) jólin fjallar líka um ketti í fjölbýlishúsum og hve undarlegt fullorðið fólk getur verið.

Joav: Kannski snýst boðskapurinn um að hvetja börn til að vera forvitin og spyrja spurninga. Kannski snýst boðskapurinn um að láta drauma sína rætast eða kannski snýst boðskapurinn bara um hvað kettir séu frábærir! Það sem er líka skemmtilegt við söguna er að hún leitast við að endurvekja gamlar sögur og gefa þeim glænýjan boðskap. Það mætti túlka það þannig að það sé alltaf hægt að endurskapa sögur, líka sína eigin sögu. 

Notið þið bókasöfn mikið á Íslandi eða í Mexikó? Hvað hugsið þið um þegar þið heyrið orðið bókasafn?

Heiða: Mér finnst bókasöfn dáldið dularfull, með óteljandi orðum, slúðri, sannleika og leyndarmálum sem ég þrái að komast að. Ég hef allaveganna deilt ansi mörgum leyndarmálum á bókasöfnum í gegnum tíðina og stundum sannleika. 

Ég elska líka að týnast á bókasöfnum, bæði í Mexíkó og á Íslandi. Besta minningin mín af bókasafni er þegar ég fór í náttfatapartý á gamla Borgarbókasafninu á Þingholtsstræti. Ég man að við sendum bangsana okkar milli hæða í bókalyftunni, bjuggum til hús úr lökum og renndum okkur niður viðarhandfangið á stiganum. Ég á líka góða minningu frá Mexíkóborg en einu sinni tók ég þátt í íslenskum ljóðaviðburði á stærsta og flottasta bókasafni sem ég hef nokkurn tímann séð: Biblioteca Vasconcelos.

Joav: Ég elska að fara á bókasöfn að glugga í gamlar bækur þar sem ég skoða aðallega teikningarnar. Uppáhalds bókasafnið mitt er Biblioteca Vasconcelos í Mexíkóborg. Þar fljóta bækurnar um risastórt rýmið eins og í Hogwarts skóla. Þar eru líka risastórir gluggar með útsýni yfir alla borgina. Í bókasafnsgarðinum eru óteljandi blómategundir og bekkir til setjast niður í amstri dagsins og lesa góða bók eða loka bara augunum og slaka á. 

Í Mexíkóborg, eins og á Íslandi, er mikil sagnahefð. Óteljandi þjóðsagnapersónur ganga kynslóða á milli sem ég ímynda mér að komi saman á nóttunni á Vasconcelos bókasafninu og lifna við. Þannig eru bókasöfn einmitt, uppfull af ævintýrum. Og það á einmitt við um jóladagatalið Stúlkan sem skemmdi (næstum því) jólin. Þar lifna allskonar gamlar þjóðsagnapersónur við og fá nýtt líf í Reykjavík nútímans.

Hvað finnst ykkur skemmtilegast að gera?

Heiða: Ég held að mér finnist skemmtilegast að skrifa. Mér finnst samt líka agalega gaman að hangsa, dagdreyma og spjalla. Þegar ég var í grunnskóla voru kennararnir stundum að skamma mig fyrir að hangsa, dagdreyma og spjalla en mér tókst aldrei að hlýða almennilega. Núna er ég orðin 29 ára og hef kannski lítið breyst. Mér finnst líka ofboðslega gaman að ganga fram og til baka, fara til Mexíkó, synda í sundi og spinna með spunahópnum mínum Eldklárar og eftirsóttar. Mér finnst líka næs að hanga í hengirúminu mínu.

Joav: Ég hef gaman að því að teikna, hlusta á tónlist og gera yoga. Ég elska samt mest af öllu að hanga með kisunum mínum en ég á eina kisu á Íslandi og aðra í Mexíkó. 

Ég eyði tímanum mínum mestmegnis í að teikna og stúdera bæði tarot og sálfræði samkvæmt listamanninum og þerapistanum Jodorowsky.

Er alveg hræðilegt að fara í jólaköttinn?

Joav: Já, það er hræðilegt að láta kött éta sig. Þið þurfið samt ekki að hafa áhyggjur, ég veit nefnilega að Jólakötturinn borðar ekki lengur menn því hann fær svo mikið af blautmat (konan á Kattakaffihúsinu sagði mér það). Þess vegna þarf man ekki að kaupa ný föt fyrir jólin, man þarf bara að hafa það notalegt og kannski fá sér kakó og piparkökur – eða mandarínur. Það er líka alveg hægt að kaupa notuð föt víða á Íslandi. 

Heiða: Ég held samt að Íslendingar séu agalega hræddir við jólaköttinn. Ég heyrði allaveganna að Akureyringar væru svo hræddir að þeir vilja ekki sjá neinn einasta kött á götum bæjarins! Ég skil það svo sem, Akureyri er svo nálægt fjöllunum og Jólakötturinn býr þar. Í morgun hringdi ég samt á bæjarskrifstofuna fyrir norðan til þess að segja þeim frá því að Jólakötturinn borði bara blautmat en ég fékk bara símsvara...

Við þökkum Heiðu og Joav fyrir skemmtilegt viðtal og hlökkum til að sýna ykkur söguna þeirra á hverjum degi í desember til jóla.

Hér má skoða jóladagatöl fyrir ára.

Flokkur
UppfærtMánudagur, 11. desember, 2023 11:46