Um þennan viðburð

Tími
20:00 - 22:00
Verð
Frítt
Hópur
Fullorðnir
Fræðsla
Kaffistundir
Spjall og umræður

Heimspekikaffi | Hvers vegna skrifa rithöfundar?

Miðvikudagur 20. nóvember 2019

Að skrifa er athöfn þar sem rithöfundur gefur sér tíma til að koma hugsunum sínum, tilfinningum og aðstæðum á blað, formar efnið, brýtur það til mergjar, skapar myndir eða hugrif, velur og hafnar orðum og fær óvænta hugljómun.  Efnið  „Hvers vegna ég skrifa“  vekur vangaveltur um sannleika, undrun og hugsjónir. Sigurlín Bjarney Gísladóttir og Gunnar Hersveinn rithöfundar skrifast á í nóvember í leit að svörum og munu flytja hugleiðingar sínar 20. nóvember kl. 20 í Gerðubergi og leyfa gestum að taka þátt í umræðunni. 

George Orwell sagðist greina fjórar driffjaðrir sem knúðu hann til að skrifa: einskær egóismi, fagurfræðilegur eldmóður, söguleg hvöt og pólitískur tilgangur. Hann sagðist oftast taka upp pennann þegar hann skynjaði óréttlæti og fyndi til samstöðu. 

Sigurlín Bjarney Gísladóttir hefur vakið athygli fyrir skemmtileg og persónuleg efnistök í ljóðum sínum en bók hennar Tungusól og nokkrir dagar í maí var tilnefnd til Maístjörnunnar árið 2017. Ljóðabókin Undrarýmið er sjöunda bók hennar og kom út á þessu ári.

Gunnar Hersveinn rithöfundur og heimspekingur hefur umsjón með Heimspekikaffinu og leiðir gesti í lifandi umræðu um málefnin á aðgengilegan hátt. Hann hefur skrifað m.a. skrifað ljóðabækur og bækur um siðfræði eins og Gæfuspor -gildin í lífinu, Orðspor, Þjóðgildin og síðast Hugskot- skamm, fram- og víðsýni ásamt Friðbjörgu Ingimarsdóttur .

Verið öll velkomin, frítt inn meðan húsrúm leyfir og heitt á könnunni á kaffihúsinu. 

Bækur og annað efni