Jóladagatal 2021 | Stúlkan sem skemmdi (næstum því) jólin

Jóladagatal Borgarbókasafnsins og Reykjavíkur Bókmenntaborgar árið 2021 var sagan Stúlkan sem skemmdi (næstum því) jólin, en hún er skrifuð af Heiðu Vigdísi Sigfúsdóttur og Joav Gomez Valdez teiknar myndirnar. 

Hér má lesa viðtal við þetta hæfileikaríka tvíeyki.

Jóladagatalið má finna á öllum helstu hlaðvarpsveitum. Hlustið hér á Spotify.

1. kafli: Kósí kisuhorn

Einu sinni var átta ára stelpa sem hét Guðrún. Hún bjó ásamt foreldrum sínum á efstu hæð í þrettán hæða blokk í Reykjavík. Pabbi hennar sagði alltaf að heimilið væri staðsett í fjöllum höfuðborgarinnar. Það var alveg satt því þau bjuggu í Fjallahverfi. Heimilið var líka svo hátt uppi að Guðrún var með útsýni yfir allt hverfið af svölunum í stofunni. Hún sá yfir hvert einasta hús og alla leið að rótum fjallsins sem hverfið var kennt við. Guðrún elskaði að hangsa úti á svölum og fylgjast með fólkinu í hverfinu. Hún elskaði líka að dansa og teikna, en mest af öllu í heiminum elskaði hún kisur.

 Einn blíðviðrisdag í byrjun desember skottaðist Guðrún út á svalir áður en hún fór í skólann. Hún fylgdist með Gurrý gömlu á leiðinni í sund, hún sá Hall hjúkrunarfræðing koma heim eftir næturvakt og horfði á fuglana kroppa brauðmola af svölunum í blokkinni við hliðina á. Þegar fuglarnir flugu á brott starði Guðrún á svalirnar. Hún trúði ekki sínum eigin augum. Hún vissi að herra Vilhelm sem bjó í íbúðinni á móti ætti undurfagra læðu. En þennan fallega morgun í byrjun desember var læðan ekki lengur ein. Þarna var ekki einn, heldur tveir kettlingar. Tveir pinkulitlir kettlingar sem kúrðu upp við magann á móður sinni. Herra Vilhelm kom auga á Guðrúnu úti á svölum og vinkaði henni. Svo kallaði hann:

„Kettlingarnir eru að leita sér að góðu heimili fyrir jólin.“
„Er það?“ hrópaði Guðrún til baka.
„Þú gætir ættleitt einn þeirra.“

Guðrún varð spennt. Alla tíð hafði hana dreymt um að eignast kött. Hún hafði meira að segja útbúið Kósí kisuhorn í herberginu sínu. Þar hafði hún komið fyrir kattarbæli sem hún saumað í textílmennt og hengt upp teikningu af bröndóttum skógarketti sem hún teiknað í myndmennt. Á hverju kvöldi lokaði Guðrún augunum og óskaði þess að einn góðan veðurdag myndi fagur köttur flytja í Kósí kisuhornið.

Seinna þennan sama dag kallaði Guðrún foreldra sína á fjölskyldufund. Hún var búin að klæða sig upp og var tilbúin til að ræða málin.

„Kæru foreldrar,“ sagði Guðrún, „eins og þið vitið þá elska ég kisur meira en allt í heiminum.“
„Já, elskan.“ Mamma brosti til Guðrúnar.
„Þess vegna vil ég biðja ykkur um kettling í jólagjöf.“
Það kom fát á pabba. „Kemur ekki til mála!“ urraði hann.
„En, en,“ Guðrún starði vonsvikin á föður sinn, „kettlingarnir í næstu blokk þurfa gott heimili og ég get hugsað um einn þeirra alveg sjálf.“

Mamma og pabbi hristu höfuðið í takt.

„Konan í kjallaranum er skíthrædd við kisur,“ útskýrði pabbi.
„Einmitt,“ ítrekaði mamma og bætti við: „Hann pabbi þinn er líka skíthræddur við konuna í kjallaranum.“
„Ha?“ Guðrún starði á pabba sinn. „Af hverju ert þú hræddur við gamla konu?“

2. kafli: Óhljóð í kjallaranum

Tennurnar í pabba glömruðu.

„Uuu, konan í kjallaranum er... hún er dálítið hræðileg, finnst þér ekki?“ umlaði pabbi.
„Hún er bara ósköp eðlileg eldri kona.“ Guðrún horfði hissa á föður sinn. „Ég get talað við hana og beðið um leyfi fyrir kettlingnum.“
„Góð hugmynd,“ ansaði mamma.
„Ó, nei!“ hrópaði pabbi. Hann leit flóttalega í kringum sig og hvíslaði: „Hún má allavegana ekki vita að ég er heima!“

Guðrún skildi ekkert í pabba sínum. Pabbi hennar var eiginlega ekki hræddur við neitt. Hann var ekki hræddur við eitraðar köngulær í útlöndum, ekki hræddur við rottuna sem bjó í þarnæsta húsi og hann var heldur ekki hræddur við geitungana sem fluttu alltaf á svalirnar þeirra á sumrin. Það eina sem hann var hræddur við var konan í kjallaranum.

Guðrún lét hræðslu föður síns ekkert á sig fá, gekk niður stigaganginn og bankaði ákveðið á hurðina í kjallaranum. Stuttu seinna birtist konan í dyragættinni.

„Sæl, unga dama,“ sagði konan rámri röddu.
„Sæl, eldri kona,“ ansaði Guðrún.
„Hví bankarðu hér?“
„Ég ætlaði að spyrja þig að dálitlu.“
„Lát heyra vesalingurinn minn!“
„Er allt í lagi ef ég ættleiði lítinn sætan kettling?“
„Kisu? Ertu algjörlega gengin af göflunum?!“ hvæsti kerlingin.
„Nee... ég...,“ stamaði Guðrún.
„Nei!“ Konan greip fram í og hrópaði, „svarið er nei! Engin dýr í mínum hús...!“

En konan náði ekki að klára, ógurlegt óhljóð yfirgnæfði hróp hennar, það hljómaði eins og einhver hefði sett tígrisdýr í þvottavél.

„Hv-hv-hvaða hljóð var þetta?“ spurði Guðrún full grunsemda.

Guðrún starði stjörf á konuna og tók skref aftur á bak.

„Þetta var ekkert!“ æpti konan.
„En...“
„Þetta var bara karlræfillinn hann maðurinn minn,“ tautaði konan og bætti við: „Hann er nú líkari skepnu en karlmanni.“ Konan hló.
„Hvað er skepna?“
„Skepna er dýr auðvitað. Auðvitað! Hvers konar spurningaflóð er þetta STELPU...?“ Aftur náði konan ekki að klára. Óhljóðið var hærra en áður nú hljómaði það eins og að inni í íbúðinni væru alvöru ófreskjur að spúa eldi. Guðrún gapti. Það fór ekkert á milli mála að óhljóðið kom ekki frá manneskju.

3. kafli: „Karlandskotinn hann faðir þinn!“

Konan í kjallaranum sendi Guðrúnu stingandi augnaráð. Hún rétti úr sér. Guðrún tók í fyrsta sinn eftir hversu gríðarlega hávaxin konan var í raun og veru, hún var örlítið ógnvænleg.

„Snautaðu heim til þín krakkaskratti!“ hrópaði konan.

Guðrún steinþagnaði. Hún vildi ekki ergja konuna enn frekar. Kannski myndi konan gera eitthvað hræðilegt við Guðrúnu ef hún yrði reiðari. Þess vegna forðaði Guðrún sér í átt að stiganum. Þegar hún steig upp fyrsta þrepið var þögnin rofin að nýju.

„HALTU KJAFTINUM Á ÞÉR LOKUÐUM!“ kallaði konan inn í íbúðina.

Guðrún sneri sér við í stiganum og horfði spurnaraugum á konuna.

„Hunskastu! Þú veist hvað kemur fyrir óþekktaranga í desember!“

Guðrún vissi það vel. Árið áður höfðu hún og Sunna sessunautur hennar nefnilega gert dyraat hjá Unu umsjónarkennara. Bekkjarsysturnar höfðu hlegið dátt að prakkarastrikinu en séð eftir því næsta dag þegar þær fengu hvor sína kafloðnu kartöfluna í skóinn. Guðrún sagði ekkert við konuna í kjallaranum en sneri sér við og gekk rösklega upp tröppurnar. 

Konan kallaði á eftir Guðrúnu: „Segðu karlandskotanum honum föður þínum að ég biðji að heilsa!“ Svo skellti hún aftur dyrunum svo fast að það bergmálaði um alla blokkina.

Guðrún tók á sprett. Hún spretti upp allar þrettán hæðirnar eins og hún ætti lífið að leysa. Þegar hún staðnæmdist á stigapallinum á þrettándu hæð náði Guðrún varla andanum. Hún opnaði dyrnar, gekk inn og læsti á eftir sér. 

„Sæl, elskan mín,“ sagði pabbi yfirvegaður þegar Guðrún gekk inn í íbúðina.
„Ég ætla ekki að ættleiða kettling,“ hvíslaði Guðrún stjörf.
„Bannaði konan þér að ættleiða kettling?“
„Já,“ hvíslaði Guðrún, „og ég held hún sé að fela eitthvað hræðilegt leyndarmál í kjallaranum.“
„Heldurðu það?“ spurði pabbi taugaóstyrkri röddu.
„Já, kannski er konan norn eða kannski fangar hún litla krakka og breytir þeim í skratta!“

Pabbi leit alvarlegum augum á Guðrúnu og sagði: „Ef þú heldur einhvern tímann að konan ætli að gera þér mein, þá skaltu segja mér og engum öðrum.“
„En, er þú ekki skíthræddur við hana?“
„Jú,“ viðurkenndi pabbi, „ en þú ert barnið mitt og ég geri hvað sem er til að passa upp á þig!“

Mamma kom út úr eldhúsinu og starði á feðginin: „Hvað eru þið að ræða svona alvarleg á svip?“ spurði hún.
„Við erum að pæla í því hvort konan í kjallaranum sé norn, “ muldraði Guðrún.
Mamma hristi höfuðið og sagði: „Þið eruð nú meiri bullukollarnir bæði tvö.“ Svo skellihló hún og fór aftur inn í eldhús.

Pabbi leit alvarlegum augum á Guðrúnu og hvíslaði: „Þú ert of ung til að skilja þetta.“ Guðrún starði á föður sinn. Hann leit undan.
„Pabbi, veistu hvað konan í kjallaranum er að fela?“
„Eitt get ég sagt þér mannsbarnið mitt,“ hvíslaði pabbi, „þú mátt ekki segja nokkrum lifandi manni frá því sem þú heyrðir eða sást.“

Guðrún starði stjörf á föður sinn og kinkaði kolli.

„Ef þú segir frá, gæti konan gert eitthvað hroðalegt!“

4. kafli: Skrímslaplantan

„Ég er með hugmynd,“ sagði mamma, „hugmynd um hvernig þú getur hætt að hugsa um kisur daginn út og inn!“ 

Guðrún hafði sagt mömmu að gamla konan hefði neitað því að fá kettling í húsið. Guðrún sagði henni hins vegar ekki frá furðulegu óhljóðunum sem höfðu heyrst úr íbúðinni. Pabbi hafði nefnilega bannað henni að segja nokkrum lifandi manni frá öllu því sem hún hafði séð eða heyrt.

 Mamma gekk inn í stofu og kom aftur skömmu síðar skælbrosandi. „Ég ætla að gefa þér þessa skrímslaplöntu,“ útskýrði hún. Mamma var með risastóra pottaplöntu í fanginu með þykkum og fallega grænum blöðum.

„Takk, mamma mín,“ ansaði Guðrún

„Skrímslaplantan þarf mikla umhyggju. Eiginlega eins og kisa.“

„Ha? Er plantan eins og kisa?“ 

„Já. Það þarf að gefa plöntunni að drekka. Það þarf líka að gefa kisum að drekka.“

Guðrún lofaði að hugsa vel um skrímslaplöntuna. Mamma hjálpaði henni að umbreyta Kósí kisuhorninu í herberginu sínu í Glæsilega gróðurhornið. Hún tók niður teikninguna af bröndótta skógarkettinum og notaði kattarbælið sem kodda. Guðrún reyndi eins og hún gat að vera þakklát fyrir skrímslaplöntuna en þótt hún væri falleg jafnaðist hún alls ekki á við kisu. Plantan var ekki loðin, hún var ekki með klær og hún gat alls, alls ekki mjálmað. Guðrún horfði á pottaplöntuna og óskaði þess að hún myndi breytast í sprelllifandi kött sem myndi kúra með henni öll kvöld.

Mamma gekk inn í herbergið og virti fyrir sér Glæsilega gróðurhornið. 

„Mikið er skrímslaplantan glöð hjá þér,“ sagði mamma.

„Geta plöntur verið glaðar?“ svaraði Guðrún.

„Auðvitað, plöntur eru á lífi, alveg eins og kettir. Skrímslaplantan verður glöð ef þú talar við hana og ef þú klappar henni og ef þú gefur henni að borða. Eiginlega eins og kisa.“

„En mamma, ef skrímslaplantan væri kisa myndi hún mala þegar hún væri glöð og mjálma á morgnana. Þess vegna er hún ekkert eins og kisa.“

„Guðrún mín, þú verður að læra að vera þakklát fyrir það sem þú hefur.“

„Mamma, eina sem ég vil er að ættleiða kettling fyrir jólin?“

„Hættu þessu suði elskan...“

„Við þurfum ekki að segja konunni í kjallaranum frá kisunni, mamma plís! Kisan verður bara hérna inni og fer ekkert út!“

Mamma hristi höfuðið og fór inn í eldhús þar sem pabbi var að elda steinbít í kvöldmat. Kettlingurinn hefði elskað kvöldmatinn, hugsaði Guðrún sem sat ein eftir í herberginu sínu. Hún starði á skrímslaplöntuna í Glæsilega gróðurhorninu. Hún þoldi ekki plöntuna. Hvaða krakki sem var, sá alveg að skrímslaplantan var ekkert eins og kisa. Guðrún varð svo pirruð að hún gekk að plöntunni. Hún tók í hana og reif risastórt laufblað af henni. Því næst henti hún því út um opinn gluggann. Samstundis skrapp plantan saman eins og til að sýna að hún væri leið. „Fyrirgefðu,“ kjökraði Guðrún full eftirsjár. Svo leit hún út um gluggann og horfði á eftir fagurgrænu laufblaðinu svífa niður í samfloti við snjókornin sem féllu frá himnum. 

En þegar laufblaðið nálgaðist jörðina sá hún glitta í hreyfingu í snjóskaflinum fyrir framan íbúðina í kjallaranum. Loðinn skuggi dansaði um í blaðhvítum snjónum. Guðrún sótti kíki sem hún geymdi í gluggakistunni og starði niður. Konan í kjallaranum mjakaði sér út um svalardyrnar sem lágu að garðinum og haltraði í átt að skugganum. Hún muldraði eitthvað í barm sér og Guðrún sperrti eyrun.

„Komdu hérna kisan mín,“ söng konan í kjallaranum. Hún faðmaði skuggann að sér en hrökk í kút þegar laufblaðið af skrímslaplöntunni lenti á höfði hennar. Konan tók laufið af hausnum og leit upp.

„Hver er þar?“ hrópaði konan.

Guðrún tók andköf og flýtti sér frá glugganum.

5. kafli: Ný flík fyrir jól

Guðrún gat ekki sofnað um kvöldið. Hún gat ekki hætt að hugsa um það sem hún hafði séð út um gluggann. Hvers vegna hafði konan í kjallaranum faðmað kisu ef hún var skíthrædd við kisur? Ef konan var ekki hrædd við kisur þá gat hún ekki bannað Guðrúnu að ættleiða lítinn sætan kettling.

Morguninn eftir settist Guðrún með mömmu sinni inn í eldhús til að borða hafragraut.

„Mamma, ég þarf að segja þér dálítið,“ sagði Guðrún.

„Já vinan,“ ansaði mamma.

„Konan í kjallaranum er ekki hrædd við kisur. Í gær faðmaði hún dökkan loðinn skugga og sagði komdu hérna kisan mín. Hún sagði kisan mín!“

„Þér hlýtur að hafa misheyrst. Séð eitthvað annað. Það getur ekki annað verið.“

„En ég er viss!“ hrópaði Guðrún.

„Kannski var hún að fara út með ruslið.“

„En mamma, hvað ef við gægjumst inn um gluggann hjá konunni í kjallaranum og athugum hvort hún eigi kisu?“

„Kemur ekki til mála!“ ansaði mamma. „Það er dónaskapur að njósna um fólk, þú veist það? Þú verður að hætta að fylgjast með nágrönnunum og einbeittu þér nú að því að borða hafragrautinn þinn, elskan.“

Guðrún lofaði. Hún lofaði að borða hafragrautinn sinn. Hún gat ekki lofað að hætta að njósna. Pabbi hefði ekki bannað henni að njósna, hann elskaði að fara í göngutúra og gægjast örlítið inn um gluggana hjá fólkinu í Fjallahverfi. Hann sagði að það væri eðlilegt að vera forvitinn en Guðrúnu fannst þessi hegðun föður síns ögn undarleg.

En kannski þyrfti Guðrún ekki að njósna, kannski gæti hún spurt karlinn í kjallaranum um köttinn. Karlinn bjó með konunni í kjallaranum. Þau voru hjón. Þó að Guðrún væri ögn hrædd við konuna fannst henni karlinn frekar vingjarnlegur. Hún þekkti hann ágætlega. Hann var afalegur karl sem bankaði uppá hjá fjölskyldunni á þrettándu hæð á hverju ári í desember. Karlinn fór iðulega úr skónum og sokkunum þegar hann gekk inn í íbúðina og spurði svo eftir Guðrúnu. Þegar hún birtist gladdist karlinn ávallt og rétti fram pakka í fagurrauðum gjafapappír með grænni slaufu. Alltaf var pakkinn eins, og alltaf innihélt hann það sama: eldrauða handprjónaða ullarsokka. Og í hvert einasta skipti trítlaði Guðrún niður í kjallara á jóladag og þakkaði fyrir sig. Þá brosti karlinn út að eyrum og hvíslaði að Guðrúnu: „Barna-ba-barnið mitt, ö-ö-öll börn þurfa nýj-n-nýja flík fyrir jólin.“

Guðrún hrökk upp úr hugsunum sínum þegar mamma sagði henni að flýta sér af stað í skólann. „Klukkan er orðin átta,“ sagði hún. Þar sem Guðrún bjó vil hliðina á Fjallaskóla mátti hún alltaf ganga ein í skólann því mamma gat fylgst með henni út um stofugluggann.

„Mamma,“ sagði Guðrún áður en hún fór af stað í skólann.

„Já, gullið mitt,“ svaraði hún.

„Hvers vegna þurfa öll börn flík fyrir jólin?“

„Það er sagt að jólakötturinn éti öll börn sem fá ekki nýja flík fyrir jólin.“

„Er það satt?“ Guðrún varð hissa.

„Sagan segir að ein jól fyrir óralöngu hafi börn á Íslandi verið ofboðslega þæg og öll fengið nýja flík fyrir jólin. Þá fékk Grýla engin börn að borða. Ekki jólakötturinn heldur. Svo þau eiga að hafa dáið úr hungri. Karlræfillinn hann Leppalúði varð svo leiður að hann lést við rúmstokkinn hennar Grýlu.“

„Karlræfillinn?“ Guðrún hafði heyrt þetta orð einhversstaðar áður.

„Já, Leppalúði á að hafa látist úr sorg. En í þjóðsögunni segir samt að ef íslensk börn verði einn daginn aftur rosalega óþekk geti gömlu hjónin og jólakötturinn lifnað aftur við.“

Guðrún horfði skelkuð á mömmu sína.

„Áttu við að Grýla geti snúið aftur til mannheima til að borða óþekk börn?“

Mamma kinkaði kolli.

6. kafli: Lipur læða

Guðrún hugsaði um konuna í kjallaranum allan daginn í skólanum. Í frímínútum settist hún niður á bekk á skólalóðinni og hugsaði um hvað hún gæti gert til að komast að sannleikanum. Sannleikanum um hvort konan ætti kisu. Þá komu gangaverðirnir Leppur og Skreppur skokkandi til hennar. Fæstir krakkar í skólanum þekktu muninn á Lepp og Skrepp sem voru spegilmynd hvor annars, enda tvíburabræður. Yfirleitt voru þeir góðlátlegir gangaverðir en á hverju ári í desember breyttust þeir í hrekkjótta stríðnispúka. Una umsjónarkennari sagði að það væri vegna þess að þeir væru svo spenntir fyrir jólunum. Bræðurnir sögðu hins vegar að þótt þeir væru gangaverðir í Fjallaskóla langaði þá mest af öllu að verða alvöru jólasveinar, og þess vegna höguðu þeir sér eins og jólasveinar í desember.

„Guðrún,“ kallaði Leppur.

„Já, Leppur,“ ansaði Guðrún. Einu sinni hafði Guðrún spurt bræðurna hvort Leppur og Skreppur væru útlensk nöfn því hún hafði aldrei heyrt þau áður. Bræðurnir höfðu sprungið úr hlátri og útskýrt að það væri fjölskylduhefð að heita undarlegum nöfnum, þeir sögðu að bróðir sinn héti til dæmis Faldafeykir.

„Viltu ekki leika við krakkana?“ æpti Skreppur.

„Nei takk,“ ansaði Guðrún. „Ég þarf aðeins að vera ein og hugsa minn gang.“

„Ekki vera með leiðindi Guðrún,“ sagði Leppur. Svo flissaði hann og tautaði í barm sér: „Leiðindaskjóðan þín.“

„Guðrún er sko ekki Leiðindaskjóða, Leppur,“ tautaði Skreppur og tók í hnakkadrambið á bróður sínum. Leppur baðGuðrúnu afsökunar og gangaverðirnir skakklöppuðust í burtu í átt að körfuboltavellinum.

Guðrún gekk að leikvellinum og settist í eina róluna til að hugsa málið. Guðrún hugsaði og hugsaði. Svo hugsaði hún aðeins meira. En það eina sem henni datt í hug var að njósna um konuna en mamma hafði bannað henni að njósna um nágrannana. Guðrún varð að óhlýðnast, bara í þetta eina skipti. Ef hún fengi kafloðna kartöflu yrði hún bara að sætta sig við það. Hún myndi bara sjóða hana í potti og borða með bráðnuðu smjöri. Namm, Guðrún elskaði stappaðar kartöflur með smjörsósu.

Þegar skólinn var búinn hljóp Guðrún eins hratt og fætur toguðu heim til sín. En í staðinn fyrir að ganga inn í húsið og fara í íbúðina á þrettándu hæð, gekk Guðrún á bak við blokkina. Hún fór á fjórar fætur, læddist eins og lipur læða í snjónum. Hún læddist fram hjá innganginum og í átt að gluggunum á íbúðinni í kjallaranum.

Guðrún var eins og alvöru njósnari. Hún var vel klædd svo henni yrði ekki kalt, í snjógalla, kuldaskóm og rauðu handprjónuðu ullarsokkunum frá karlinum í kjallaranum. Þegar hún nálgaðist gluggana á kjallaraíbúðinni kom hún auga á lítið furutré sem var staðsett beint fyrir framan eldhúsgluggann. Þetta var fullkominn felustaður. Guðrún settist bakvið furutréð svo enginn gæti komið auga á hana og starði inn um gluggann.

En konan var hvergi sjáanleg. Guðrún sat lengi, örugglega margar mínútur og beið. Og hún beið og beið. Skyndilega sá hún að eitthvað var á hreyfingu. Hávaxna konan gekk inn í herbergið og fór að stússast í eldhúsinu. Nú hlyti að koma í ljós hvort kisa byggi á heimilinu. Konan varð sposk á svip og Guðrún fylgdist agndofa með þegar hún leit í kringum sig og teygði hendurnar upp í eldhúshillu. Var hún að sækja köttinn sinn?

Nei.

Konan teygði sig í rauðan ullarhnykil. Svo tók hún upp tvo prjóna og hófst handa við að prjóna eldrauða ullarsokka. Guðrún varð vonsvikin. Það voru engin ummerki um kött og því engin leið fyrir hana að sanna fyrir foreldrum sínum hvað hún hafði raunverulega séð í fyrradag.

Það var dimmt úti og Guðrún vissi að mamma og pabbi yrðu bráðum hrædd um hana. Guðrún var líka orðin svöng svo hún ákvað að koma sér heim í kvöldmat. Í þann mund sem hún ætlaði að standa upp og læðast í burtu frá felustaðnum sá hún konuna nálgast gluggann með trésleif á lofti. Guðrún beygði sig svo konan kæmi ekki auga á hana og starði inn um gluggann. Þá sá hún óljósa hreyfingu inni í eldhúsi konunnar, eitthvað lítið og loðið stóð fyrir aftan konuna. Það fór ekkert á milli mála hvað þetta var.

7. kafli: Ba-ba-barnakjöt?

Guðrún starði inn um gluggann. Þetta var eins og að horfa á sjónvarpsþátt. Það var byrjað að kvölda og Guðrún átti að vera löngu komin heim. Mamma og pabbi voru örugglega orðin skíthrædd um hana. Guðrún gat bara ekki farið heim. Ekki alveg strax.

  Guðrún starði. Hún starði á ógnarstórt og kafloðið kvikindið sem hjúfraði sig upp að konunni. Það fór ekkert á milli mála að þetta var köttur. Konan brosti út að eyrum og hvíslaði eitthvað í eyra kattarins. Guðrún heyrði ekki hvað það var. Glugginn var nefnilega lokaður. Konan haltraði í átt að risastórum potti sem stóð í eldstæði í miðju eldhúsinu og hrærði í honum með ógnarstórri trésleif.

Konan þefaði af innihaldi pottsins og umlaði eitthvað á borð við:

„Ummm.... “ eða „nammm....“.

Kötturinn þefaði og sleikti út um. Það gat ekki verið að konan væri skíthrædd við ketti eins og mamma hafði sagt. Annað hvort var konan að plata eða mamma. En mamma sagði alltaf satt svo konan hlaut að vera sú sem laug.

Mikinn reyk lagði frá pottinum. Konan haltraði í átt að eldhúsglugganum og opnaði hann upp á gátt til að hleypa reyknum út. Nú gat hún heyrt allt sem konan sagði svo hún lagði við hlustir:

„Komið hingað börnin mín,“ söng konan hástöfum.

„Komið hingað öll til mín, ykkur vil ég bjóða,“ hélt hún áfram rámri röddu.

 „Leppur, Skreppur, Lápur, Skrápur, Langleggur og Skjóða...“.

Skyndilega heyrðist stór hvellur og það sauð upp úr pottinum.

Reykurinn frá pottinum umkringdi Guðrúnu. Ilmurinn af honum var unaðslegur, hann minnti Guðrún helst á piparkökur eða jólatré.

„Ansans ári!“ hrópaði konan og kallaði í átt að stofunni: „Komdu hérna lúðinn þinn!“

Karlinn í kjallaranum silaðist inn í eldhúsið, agndofa á svipinn.

„Hva-hva-hvað?,“ muldraði hann og bætti við: „Ge-get ég aðstoðað þig elsku krúsidúllan mín?“

„Ekki standa þarna eins og eldgömul þvara,“ hreytti konan í karlinn.

„Af-af-afsakið.“

„Réttu mér tusku karlræfill! Leggðu bolla nú á borð!“

„Skal gert frú mín góð. Hvað á ég að leggja marga bolla?“

„Fimm auðvitað, Leppur, Skreppur og Leiðindaskjóða eru á leiðinni að prufa andann.“

Guðrún varð hissa. Hún þekkti Lepp og Skrepp vel. Þeir voru gangaverðir í Fjallaskóla, skólanum hennar. Hvers vegna ætluðu Leppur og Skreppur að heimsækja undarlegu konuna í kjallaranum?

Karlinn teygði sig varlega í fimm bolla sem allir voru skreyttir með máluðum myndum af fjöllum. Því næst lagði hann bollana snyrtilega á eldhúsborðið og nam staðar fyrir framan konuna sína. Hann horfði á hana skelkaður á svip.

„E-e-elskan,“ muldraði hann.

„Hvað ert þú að glápa eins og eldgömul sápa?“ hvæsti konan.

„E- e-er nokkuð ba-ba-barnakjöt í pottinum?“

Guðrún hrópaði upp yfir sig af hræðslu. Hún greip fyrir munninn. Guðrún vonaði að konan hefði ekki heyrt í sér. En konunni varð bilt við. Hún sneri sér snögglega í átt að glugganum, í átt að Guðrúnu. Hún haltraði nær, starði í átt að furutrénu. Í átt að felustaðnum. Guðrún lagðist kylliflöt í jökulkalda fönnina. Hún hélt inni í sér andanum og vonaði að konan kæmi ekki auga á hana.

8. kafli: Glorhungruð og gleymin

Guðrún fann kuldann læsa sig í líkamanum þar sem hún lá í snjónum. Hún hélt niðri í sér andanum og vonaði að konan kæmi ekki auga á hana.

„Var þetta óp?“ tautaði konan út í myrkrið.

„Óp? Nóp, va-va-vantar þig kannski síróp?“ ansaði karlinn.

„Nei, ansans aulinn þinn! Ég heyrði hróp!“

„Ne-ne-nei, það var e-ekkert.“

„Ertu viss?“

„Ne-ne-nei, það er ég e-ekki.“

„Auðvitað ert þú ekki viss. Þú veist ekkert í þinn haus!“ fnæsti konan á karlinn og lamdi hann í höfuðið með trésleif. Svo gekk hún aftur að pottinum og hélt áfram að hræra.

„Eftir áratugi af tilraunum,“ muldraði konan mjúklega, „held ég að þetta sé loksins hin fullkomna uppskrift! Ekkert getur stöðvað okkur núna!“ sagði hún hlæjandi og starði ofan í pottinn.

Guðrún nýtti tækifærið til að koma sér í burtu. Hún lyfti líkamanum upp frá snjónum og skreið rólega af felustaðnum. Þegar hún var komin úr augsýn stóð hún upp og hljóp eins og fætur toguðu. Guðrún varð að vera fljót. Hún var hrædd um að ef hún væri lengi á leiðinni myndi konan veiða hana og setja í súpuna sína. Guðrún hraðaði sér inn um aðalinngang hússins og dinglaði á bjöllunni að íbúðinni sinni á þrettándu hæð, alveg þangað til að pabbi ansaði. Guðrún hljóp upp tröppurnar. Hún reyndi að láta lítið á sér bera svo konan myndi ekki heyra tramp frá stigaganginum. Guðrún vildi ekki að konan kæmi út úr íbúðinni sinni, gripi sig og setti í pottinn sinn. Guðrún gat andað léttar þegar hún kom loks inn í íbúðina sína á þrettándu hæð.

„Hvar hefur þú verið Guðrún mín?“ sagði pabbi áhyggjufullur.

„Konan í kjallaranum borðar börn! Fyrst veiðir hún börn í pokann sinn og svo setur hún þau í súpu!“ hrópaði Guðrún og hvíslaði: „Við verðum að læsa hurðinni. Við verðum að vara alla við og við verðum að flytja burt. Og-og konan á líka risa-risastóran kött!“

„Hvaða bull er þetta Guðrún?“ svaraði mamma.

„Hvað varstu að gera barn!“ hrópaði pabbi.

„Ég var bara aðeins að njósna,“ kjökraði Guðrún.

„Þún, þer, þsórhættuþleg,“ tautaði pabbi sem virtist vera við það að missa málið af hræðslu. „Þsá þún þig?“ hvíslaði hann.

 „Nei pabbi, ég held hún hafi ekki séð mig.“

„Hjúkk,“ sagði pabbi, „ þar skall hurð nærri hælum!“

„Mikið ertu lík honum pabba þínum, Guðrún mín,“ sagði mamma áhyggjufull á svip og bætti við: „Ég var búin að banna þér að njósna um nágrannakonuna. Ég er búin að hafa svo miklar áhyggjur af þér.“

Guðrún steinþagði. Hún vissi upp á sig sökina. Hún hafði óhlýðnast.

„Fyrirgefðu, ég gægðist inn um gluggann hjá konunni í kjallaranum,“ viðurkenndi Guðrún, skömmustuleg á svip, „en hún borðar börn.“

Mamma andvarpaði. Pabbi æpti  af hræðslu.

„Þú hefur horft of mikið á sjónvarpið,“ tautaði mamma, „nú skalt þú þvo þér um hendurnar því kvöldmaturinn er tilbúinn.“

Þegar Guðrún var búin að þvo hendurnar gekk hún inn í borðstofu. Pabbi var búinn að leggja þrjá diska á borð.

„Komdu hingað barnið mitt,“ muldraði pabbi mjúklega, „komdu hingað beint til mín,“ söng hann.

Guðrún settist fegin niður við matarborðið. Hún var orðin glorhungruð eftir daginn. Hún hámaði lasanjað hans pabba í sig af bestu list. En þegar hún kyngdi seinasta bitanum leið henni skyndilega eins og eitthvað væri ekki eins og það ætti að vera.

„Fékkstu nýja lestrarbók í skólanum í dag?“ sagði pabbi.

„Ha, u já?“ Guðrún fann óttann læðast að sér. Hún hafði fengið bók í skólanum og sett hana í skólatöskuna sína og svo...

„Viltu þá ekki ná í bókina og lesa snöggvast?“ spurði pabbi.

Guðrún starði agndofa á föður sinn. Hún var ekki með skólatöskuna. Hafði hún gleymt henni hjá furutrénu fyrir utan gluggann hjá konunni í kjallaranum?

9. kafli: Ráma röddin í dyragættinni

Guðrún fékk ekki tíma til að útskýra fyrir pabba og mömmu hvar skólataskan hennar væri því einhver bankaði á dyrnar. Mamma fór til dyra og bauð einhverjum gott kvöld.

„Gott kvöld,“ ansaði rám rödd sem Guðrún kannaðist við. Hún sá pabba sinn læðast undir borð. „Er Guðrún heima?“ bætti ráma röddin í dyragættinni við.

„Já,“ svaraði mamma án þess að hika og kallaði inn í íbúðina: „Guðrún mín, það er verið að spyrja eftir þér.“ Guðrún gekk hægum skrefum að dyrunum. Henni til mikillar skelfingar þekkti hún konuna sem stóð í gættinni.

Guðrún fraus í sporunum. Hún greip í peysu mömmu sinnar með öllum krafti, „ekki fara,“ hvíslaði hún að mömmu sinni „ekki skilja mig eftir eina með henni.“

„Ekki þessa vitleysu,“ tautaði mamma, hún leysti grip Guðrúnar á peysunni og rölti inn í íbúðina.

Guðrún var alveg að fara að pissa í sig af hræðslu.

„Mikið ertu föl í framan.“ Konan hló dátt.

„Ha-ha-hæææ,“ stamaði Guðrún. Hvað vildi konan? Vildi hún kannski fleiri börn í pottinn sinn? Guðrún kyngdi óttanum og ræskti sig: „Sæl, eldri kona góð,“ sagði hún.

„Þú gleymdir dálitlu, skinnið mitt.“ Konan otaði skólatöskunni að Guðrúnu.

„Ó,“ sagði Guðrún og tók við töskunni sinni.

„Þú gleymdir þessu í litla leiðangrinum þínum,“ fnæsti konan milli samanbitinna tanna.

„E-e-e, f-f-f-fyrirgefðu.“ Guðrún titraði af hræðslu.

„Jæja, mannsbarnið mitt! Nú ætla ég að fara niður í kjallara og gæða mér á kartöflustöppu,“ sagði konan.

„Ka-ka-kartöflustöppu?“ stamaði Guðrún

„Já, auðvitað krakkaskratti! Hvað hélstu eiginlega að ég ætlaði að borða?!“ Konan gaf Guðrúnu ekki tíma til að svara heldur færði ógnarstóran munn sinn upp að smávöxnu höfði Guðrúnar: „Í þínum sporum,“ hvíslaði konan, „myndi ég ekki segja neinum frá því sem þú sást.“

„É-é-ég lofa, ég lofa, ég lofa,“ muldraði Guðrún skelfingu lostin.

Konan virti Guðrúnu fyrir sér.

„Afar girnileg,“ sagði konan.

„Hv-hv-hvað?“ Guðrún fann hjartað slá á ógnarhraða í brjósti sér.

„Máltíðin auðvitað.“

„Máltíðin?“ endurtók Guðrún. Hún leit á fingurna sína, svo á fæturna. Guðrún var núna alveg viss um að hún myndi enda lífið sem kvöldmatur gamallar konu.

„Já, lasanjað auðvitað!“

„Ó, ég hélt...ég hélt, að þú værir að tala um mi-mi-mig.“

„Ha-ha-ha!“ konan hló illkvittnislegum hlátri og hvíslaði: „Þú ert nú reyndar með mjög girnilega tröllafingur.“

Guðrún starði á fingurna sína.

„Þú veist,“ sagði konan, „ef þú hagar þér ekki vel fyrir jólin gætir þú endað í barnasúpu.“

„En, en Grýla og Leppalúði eru dauð.“

Konan rétti úr búk sínum og starði ógnandi niður á Guðrúnu: „Ég myndi nú ekki vera svo viss um það.“

10. kafli: „HVÆÆÆSS! MJÁÁ!“

Nóttina eftir dreymdi Guðrúnu að konan í kjallaranum stæði við rúmstokkinn sinn. Guðrún hrökk upp. Til allrar hamingju var hún ein inni í herberginu sínu. Ein með skrímslaplöntunni. Guðrún var staðráðin í því að haga sér vel. Hún vildi ekki vekja Grýlu upp frá dauðum. Hún vildi alls ekki verða hráefni í barnasúpu. Þess vegna klæddi hún sig alveg sjálf og greiddi á sér hárið. Svo faðmaði hún pabba sinn bless og sagði hátt og skýrt:

„Þú verður stoltur af mér í dag. Ég ætla að hlýða öllu sem þú og mamma segið. Já, og ég ætla líka að hlýða öllu sem Una umsjónarkennari segir.“

„Þú ert nú meiri jólasveinninn, Guðrún mín,“ svaraði pabbi.

„En pabbi, geta stelpur orðið jólasveinar?“

„Þú veist að jólasveinarnir eiga eina systur, hana Leiðindaskjóðu. Hún er ekki jólasveinn sem gefur börnum í skóinn en hún er samt alvöru jólasveinn eins og...,“ pabbi þagnaði og sagði svo, „eins og hinir jólasveinarnir.“

Pabbi kyssti Guðrúnu á ennið, „við sjáumst á eftir, það er foreldradagur í dag, manstu?“ Á hverju ári bauð bekkurinn foreldrunum í heitt kakó með rjóma og piparkökur fyrir jólin. Stundum komu meira að segja jólasveinar og gáfu börnunum kerti eða spil.

„Já, elsku pabbi minn.“ Guðrún brosti til pabba síns og hélt af stað í skólann. En þegar hún steig inn á skólalóðina sá hún eitthvað kunnuglegt bak við rennibrautina. Þetta var kötturinn úr kjallaranum, ógnarstór og kafloðinn. Þar sem hún starði á hann sá hún að kötturinn var líka undurfagur og ofboðslega sætur.

„Kisss, kisss,“ sagði Guðrún, „komdu hérna litli sæti kisi.“

„HVÆÆÆSS! MJÁÁ!“ svaraði kötturinn

„Mikið ertu krúttlegur lítill kisulingur.“ Guðrún teygði hendina í átt að kettinum.

Hann svaraði með ógurlegu hvæsi og klóraði Guðrúnu í bæði lærin.

„Ái!“ Guðrún æpti yfir sig. Í sömu andrá hlupu gangaverðirnir Leppur og Skreppur í átt til hennar.

„E-e-ekki!“ hrópaði Skeppur.

„H-h-hættu,“ æpti Leppur.

Kötturinn hljóp á brott.

„Hann klóraði mig!“ kjökraði Guðrún.

„Já, kettinum finnst afskaplega leiðinlegt þegar einhver segir að hann sé lítill,“ ansaði Skreppur, „hann er mjög stór.“

„Já, Guðrún,“ ítrekaði Leppur. Þú sagðir við hann mikið ertu krúttlegur lítill kisulingur. En hann er ógnarstór og ofboðslega flottur!“

„En, ég vildi bara vera elskuleg við hann,“ útskýrði Guðrún og þerraði tárin.

„Ó, við skiljum,“ sögðu Leppur og Skreppur í kór. Skreppur leit á Guðrúnu og spurði: „En er allt í lagi með þig?“

„Já, já,“ svaraði Guðrún.

„Hjúkk,“ sagði Leppur.

„Sjúkk,“ tók Skreppur undir.

Þeir litu hvor á annan, fegnir á svip. Svo tók Leppur andtök og sagði: „Hún er að koma, Leiðindaskjóða er að koma.“

„Ó nei,“ æpti Skreppur og gerði sig líklegan til að hlaupa á brott.

Guðrún leit aftur fyrir sig og sá Lenu, bókasafnsvörð í Fjallaskóla. Hún hafði komið auga á bræðurna og kallaði: „Eru þið nokkuð að hræða vesalings stúlkubarnið?“

„Nei, við erum engin hrekkjusvín,“ hrópaði Leppur.

„Einmitt,“ sagði Skreppur.

„Akkúrat!“ ítrekaði Leppur.

„Eins gott!“ ansaði Lena. Í sömu andrá hringdi skólabjallan. Lepp og Skrepp brá í brún.

„Ansans, við megum ekki verða of seinir,“ tautaði Leppur.

„Ég verð sko ekki of seinn,“ muldraði Skreppur og spratt af stað.

„Ég verð sko fyrstur!“ hrópaði Leppur og hljóp á eftir bróður sínum.

Guðrún stóð eftir og starði spurnaraugum á Lenu.

„Hvers vegna kölluðu þeir þig Leiðindaskjóðu?“ spurði Guðrún.

„Ég heiti það: Lena Leiðindaskjóða. Bræður mínir kalla mig alltaf bara Leiðindaskjóðu.“

„En,“ Guðrún hikaði. „Ert þú þá systir jólasveinanna?“

„Þú verður að flýta þér,“ sagði Lena Leiðindaskjóða. „Þú mátt ekki verða of sein í skólann.“

11. kafli: „Skrambinn Skreppur!“

Þegar Guðrún fór í frímínútur sama dag leitaði hún uppi Lepp og Skrepp.

„Hvernig þekkið þið köttinn í kjallaranum?“ spurði Guðrún ákveðin.

„Löng saga,“ ansaði Leppur.

„Lengsta saga í heimi,“ muldraði Skreppur.

„Lengsta saga sem nokkur maður hefur nokkurn tímann heyrt,“ ítrekaði Leppur.

 „Ég vil endilega heyra söguna,“ sagði Guðrún, „ég veit líka að þið þekkið konuna í kjallaranum.“ Hún mundi að konan hafði talað um Lepp og Skrepp. Hún hafði líka talað um Leiðindaskjóðu. Þeir þekktu konuna í kjallaranum greinilega. Ætli þeir hafi líka borðað barnasúpu? Guðrún átti erfitt með að trúa því að Leppur og Skreppur borðuðu börn. Hún átti enn erfiðara með að hugsa sér að Lena Leiðindaskjóða gæti borðað börn. Lena var svo vingjarnleg og bræðurnir voru svo letilegir að sjá að það hvarflaði ekki að Guðrúnu að þeir gætu gert flugu mein.

„Jaaa, sko konan, hún heitir Grý-grý-grý…“ sagði Skreppur.

„Hún heitir Gríma,“ Leppur greip fram í, „hún heitir Gríma.“

„Gríma, Gríma, Gríma!“ endurtók Skreppur.

„A, einmitt, ó, opposíattan,“ tautuðu Skreppur og Leppur hvorn ofan í annan.

„En á þessi Gríma þennan stóra flotta kött?“ spurði Guðrún.

„Já, eða nei, hann á sig sjálfur, er það ekki?“ muldruðu þeir.

„Konan í kjallaranum segist vera skíthrædd við ketti.“

„Einmitt. Hún er mjög hrædd við kisur,“ ansaði Leppur.

„En ef hún á kött sjálf?“ Guðrún horfði á bræðurna til skiptis.

„Varstu ekki að hlusta?,“ fnæsti Skrekkur, „kötturinn á sig sjálfur!!“

„Hún Gríma verður líka logandi hrædd þegar stóri ógnarlegi kötturinn er heima hjá henni! Hún lýgur ekki!“

„Ég skil,“ sagði Guðrún, „ef hún er hrædd við köttinn, ætti ég kannski að bjóða honum að eiga heima hjá mér í staðinn. “

„Nei!“ ansaði Leppur og hristi hausinn.

„Það er mjög slæm hugmynd,“ svaraði Skreppur.

„Það er versta hugmynd í heimi,“ muldraði Leppur.

„Það er versta hugmynd sem nokkur maður hefur nokkurn tímann heyrt!“ ítrekaði Skreppur og bætti við: „Kötturinn má alls ekki búa með barni!“

„Alls, alls ekki!“ Bætti Leppur við .

„Af hverju ekki?“ spurði Guðrún.

„Nú honum finnst börn svo bragðgóð,“ tautaði Skreppur.

„Skrambinn Skreppur, haltu munninum á þér lokuðum!“ Leppur varð reiður.

„Sko,“ skvaldraði Skreppur, „kötturinn borðar ekki alltaf börn, aðallega bara í desember, sko ef þau eru í gasalega gömlum fötum.“

„Skrambinn Skreppur! Þú mátt ekki segja henni!“ argaði Leppur.

„Áttu við,“ sagði Guðrún. „Áttu við að kötturinn sem býr í kjallaranum í húsinu mínu borði börn sem fái ekki nýja flík fyrir jólin?“

12. kafli: „Dö-dö-dauður.“

Guðrún starði á Lepp og Skrepp sem töluðu hvor ofan í annan.

„Þetta hljómar dálítið eins köttur úr ævintýri.“ Guðrún leit til skiptis á bræðurna.

„Ævintýri? Ert þú nú ekki búin að horfa of mikið á sjónvarp Guðrún?“ spurði Skreppur og skellti upp úr.

„Þetta hljómar dálítið eins og jólakötturinn,“ sagði Guðrún.

„Hann er dö-dö-dauður,“ muldraði Leppur.

„Steindauður!“ tuldraði Skreppur.

„Þegar manneskjur deyja fara þær alla leið til himna,“ útskýrði Leppur.

„Eða helvítis,“ skaut Skreppur inn í.

Guðrún varð hugsi.

„En hvert fara kisur þegar þær deyja?“ spurði Guðrún.

„Kannski til mannheima?“ skríkti Skreppur. Hann veltist um af hlátri. Leppur sló í hnakkann á bróður sínum og öskraði á hann: „Hættu þessu bulli!“ Svo róaði hann sig niður og sagði hátt og skýrt: „Hvernig eigum við að vita hvert kisur fara þegar þær deyja? Við höfum aldrei dáið. Aldrei! Auk þess erum við ekki kettir. Síst af öllu jólakettir!“

Skreppur kinkaði kolli og útskýrði: „Sagan segir  auðvitað...,“ hann hikaði, starði á bróður sinn og hélt svo áfram: „Hún segir auðvitað að Leppalúði, Grýla og jólakötturinn séu öll dáin, en...“

„Uuuuss!!“ Leppur sló bróður sinn í hnakkann.

„En eitt get ég sagt þér,“ hvíslaði Skreppur og bætti við: „Þau myndu aldrei borða tröllabarn eins og þig.“

Guðrún leit á fingur sína. Þeir voru kannski örlítið stærri en á öðrum börnum, dálítið tröllvaxnir. Guðrún vissi samt að það væri bara eðlilegt, mamma sagði það alla vega. Mamma sagði að öll börn væru ólík og margir ættu enn eftir að stækka.

„Ég er ekki tröllabarn!“ sagði Guðrún ákveðin.

„Allt í lagi þá,“ svaraði Leppur, „bless, bless litla mannsbarn.“

„En ekki hafa áhyggjur!“ hrópaði Skreppur og bætti við: „Jólakötturinn étur heldur ekki mannsbörn, ekki lengur.“

„Ekki lengur?“ spurði Guðrún taugaóstyrkri röddu.

„Nei, kartöflukássa er núna uppáhaldið hans...,“ sagði Skreppur en hann náði ekki að klára. Leppur togaði í bróður sinn og tók fyrir munninn á honum. „MMmaamaapabbrdddrrr,“ heyrðist í Skrepp í gegnum fingurna á Lepp.

„Skrambinn Skreppur!“ hvæsti Leppur. „Þú mátt ekki segja henni! Þú mátt ekki segja neinum!“

„Segja mér hvað?“ spurði Guðrún æst.

„Obb, bobobb,“ söng Leppur, „við þurfum að þjóta.“

Því næst greip Leppur í höndina á bróður sínum og dró hann í burtu. Bræðurnir hlupu af stað á ísilagðri gangstéttinni. Guðrún kallaði á eftir þeim: „Það er hættulegt að hlaupa í hálku!“

Hún hafði varla sleppt orðinu þegar Skreppur rann um bróður sinn. Hann skall kylliflatur á gangstéttina og togaði Lepp með sér.

„Skrambinn Skreppur!“ heyrðist í Lepp.

„Áts, Leppur!“ hrópaði Skreppur.

Bræðurnir stóðu upp og skakklöppuðust saman að aðalinngangi skólans.

Guðrún var ringluð. Hvað áttu bræðurnir við þegar þeir sögðu að jólakötturinn æti ekki lengur börn?

13. kafli: Hernaðarleyndarmál!

Guðrún vissi að eina leiðin til að komast að sannleikanum væri að ræða við Lenu bókasafnsvörð. Lenu Leiðindaskjóðu. Lena hafði lesið óteljandi bækur og kunni trúlegustu sögur sem til voru. Ef einhver vissi hina sönnu sögu af Jólakettinum væri það Lena. Áður en bjallan hringdi hraðaði Guðrún sér á skólabókasafnið. Þar sat Lena í makindum sínum og gluggaði í bækur um jólasveina.

„Afsakið, má ég spyrja þig að einu?“ spurði Guðrún.

„Já vinan.“ Lena leit upp úr bókinni.

„Ég var aðeins að spá.“

„Lát heyra, gullið mitt.“

„Getur verið?“ Guðrún hikaði. Hún lækkaði róminn og hélt áfram: „Getur verið að jólakötturinn hafi ekki drepist úr barnahungri?“

„Látum okkur nú sjá,“ ansaði Lena. Hún kom gleraugum kyrfilega fyrir á nefinu á sér.

„Allar sögur segja nú að hann sé löngu dauður,“ útskýrði Lena.

„Heldurðu að það sé alveg satt?“

Lena leit í kringum sig. Hún benti Guðrúnu að koma nær og sagði ofurlágt: „Aðrar upplýsingar benda til þess að hann sé sprelllifandi.“

„Sprelllifandi?!“ endurtók Guðrún og gapti.

Lena stóð upp og lokaði dyrunum á bókasafninu. Hún ræskti sig sagði ofurlágt:

„Í mörg ár hefur sú flökkusaga gengið manna á milli að Grýla, Leppalúði og jólakötturinn hafi alls ekki drepist úr barnahungri. Þvert á móti hafi þau gert samning við forseta Íslands um að fá að lifa í mannheimum. Í samningnum segir að lofi Grýla, Leppalúði og jólakötturinn að borða aldrei framar barnakjöt, fái þau frelsi til að lifa í sátt og samlyndi við mannfólkið í landinu.“

„Þannig að það getur verið að þau búi í mannheim...“

„Suss vinan, ekki grípa fram í.“ Lena hélt áfram: „Samningur þessi er hernaðarleyndarmál. Mannfólkið í landinu má alls ekki komast að því hvar tröllskessan Grýla, karlræfillinn hann Leppalúði og jólakötturinn búa. Ef leyndarmálið kemst upp verður það ekki lengur hernaðarleyndarmál. Og ef það er ekki hernaðarleyndarmál er hætta á því að einhver skemmi jólin! Ef mannfólkið kemst að því hvar tröllahjúin eru niðurkomin gæti fólkið líka komist að því hvar jólasveinarnir eiga heima, þeir eiga auðvitað alltaf heima nálægt foreldrum sínum.“

„Eiga jólasveinarnir líka heima í mannheimum?“ spurði Guðrún.

„Ég er bara að segja þér söguna sem ég heyrði. En ef fólk fattar hvar jólasveinarnir eiga heima, munu þjófar örugglega stela gjöfunum sem eiga að fara í skóna hjá öllum börnunum í landinu.“

„Ó, nei! Fá börnin þá ekki neitt í skóinn?“

„Nei, þá fær ekkert mannsbarn í skóinn.“

Guðrún varð stjörf og hvíslaði: „Ef ekkert mannsbarn fær í skóinn, verða jólin ónýt, er það ekki?.“

„Jú, ef einhver segir fólkinu í landinu frá hernaðarleyndarmálinu getur sá hinn sami skemmt jólin!“

Lena sendi Guðrúnu alvarlegt augnaráð.

„En Lena, ég he-he-held,“ stamaði Guðrún svo lágt að hún var ekki viss hvort Lena heyrði í henni. „Ég held að ég hafi kannski hitt jólaköttinn.“

„Ef svo er…,“ Lena setti vísifingur á varir sínar og lækkaði róminn, „… ef svo er þá hefur þú komist að hernaðarleyndarmálinu. Þú mátt ekki segja nokkrum lifandi manni frá verustað þeirra, ef þú segir fólki frá getur þú skemmt jólin. Guðrún ætlar þú nokkuð skemma jólin?“

14. kafli: „Litli Stúfsskratti!!“

Guðrún læddist náföl út af bókasafninu. Hafði hana verið að dreyma? Ef hana hafði verið að dreyma var engin spurning um að þetta væri martröð. Hún gekk hægum skrefum í átt að heimastofunni sinni og fékk sér sæti við hliðina á Sunnu sessunaut sínum. Þó svo að bjallan væri ekki búin að hringja setti Guðrún hendur undir borð og sagði ekki orð.

„Er allt í lagi Guðrún mín,“ spurði Una umsjónarkennari sem var að skrifa dagskrá dagsins á töfluna með rauðum tússi.

„Já, allt í lagi,“ laug Guðrún. Ekki gat hún sagt Unu umsjónarkennara að Jólakötturinn sjálfur hefði klórað hana. Ef hún myndi segja frá, væri það ekki lengur hernaðarleyndarmál. Og ef það væri ekki lengur hernaðarleyndarmál myndi Guðrún skemma jólin. Ekki vildi Guðrún það. Nei, hún vildi sko ekki skemma jólin.

„Ertu ekki spennt vinan?“ spurði Una umsjónarkennari

„Jú, jú,“ svaraði Guðrún annars hugar. Svo horfði hún á Unu og spurði: „Spennt fyrir hverju?“

„Foreldradeginum auðvitað! Ætla mamma og pabbi ekki að koma?“

„Uuuu... ég held að pabbi komi.“

Guðrún hafði steingleymt að í dag væri foreldradagur í skólanum. 3. UHJ, bekkurinn hennar Guðrúnar, hóf daginn í heimilisfræði. Þar máluðu þau piparkökur fyrir foreldra sína, hituðu kakó og þeyttu nóg af rjóma. Guðrún vissi að mamma væri að vinna svo hún málaði bara tvær piparkökur. Hún málaði glugga á aðra þeirra af því að pabbi elskaði að gægjast inn um glugga og svo teiknaði hún kisu á piparkökuna sem ætluð var henni sjálfri. Þetta var ekki mynd af litla sæta kettlingnum sem bjó í næstu blokk. Nei, þetta var teikning af stóra, flotta kettinum sem bjó í kjallaranum: jólakettinum.

Eftir heimilisfræði fóru krakkarnir í 3. UHJ aftur í heimastofuna sína og biðu eftir gestunum. Stuttu seinna örkuðu foreldrarnir inn, sumir á útiskónum þótt það væri stranglega bannað að vera inni á skónum. Una umsjónarkennarinn sagði samt ekki neitt við foreldrana, því eins og flestir var hún dálítið hrædd við fullorðið fólk. Guðrún leit í kringum sig, allir foreldrarnir voru komnir, allir nema pabbi hennar. Hafði hann gleymt foreldradeginum?

Una bað um þögn í stofunni.

„Kæru foreldrar og börn,“ sagði hún en komst ekki lengra. Einhver var að rífast á ganginum fyrir utan stofuna. Guðrún lagði við hlustir:

„Vilt þú ekki bara reyna að stækka þarna litli Stúfsskratti?!“ heyrðist í reiðilegri rödd sem Guðrún þekkti of vel.

„Ef að það kemst upp um okkur er það þér að kenna!“ var öskrað á móti.

Guðrún var stjörf. Hún læddist út úr stofunni. Þarna var hann, pabbi hennar Guðrúnar. Hann var öskureiður og stóð með kreppta hnefa á móti lágvöxnum karli með skotthúfu.

„Pabbi!?“ argaði Guðrún. Hún fann tár leka niður kinnar sínar.

„Ó-ó engillinn minn,“ svaraði pabbi taugaóstyrkur, „é-é-ég var bara að bjóða Stúf góðan daginn.“

„Góðan daginn,“ sagði lágvaxni karlinn með skotthúfuna.

15. kafli: Afsakið, afsakið

Guðrún starði á lágvaxna karlinn. „Ert þú Stúfur? Jólasveinninn Stúfur?“

„Laukrétt,“ svaraði hann sigri hrósandi.

„Hvað voru þið að rífast um?“ spurði Guðrún. Hún starði stjörf á föður sinn.

„Guð, það var ekkert merkilegt,“ tautaði pabbi.

„Ekki það nei?“ muldraði Stúfur og horfði illilega á pabba Guðrúnar.

„Við verðum að drífa okkur,“ sagði pabbi við Guðrúnu og bætti við: „ Ég er allt of seinn.“

„Já, pabbi, þú ert mjög seinn.“ Guðrún var öskureið.

Stúfur rétti Guðrúnu spilastokk og hvíslaði: „Þetta er aukagjöf handa þér, ekki segja neinum. Engum. Þetta er leyndarmál.“ Hann setti vísifingurinn á varirnar, „ussss... engum… það er bannað að segja fólkinu í landinu frá leyndarmálum... ussss... sérsaklega frá hernaðarleyndarmálum.“ Stúfur skellti upp úr.

Guðrún fékk kökk í hálsinn. Vissi Stúfur að Guðrún vissi hernaðarleyndarmálið?

„Alla malla, hvað eru þeir að gera hér?!“ hrópaði Stúfur og starði út ganginn.

Guðrún sneri sér við. Leppur kom hlaupandi í átt til þeirra. Skreppur gekk rösklega á eftir og hvæsti: „Leppur! Það er harðbannað hlaupa á ganginum!“

Pabbi tók í höndina á Guðrúnu, óttasleginn á svip.

„Við skulum fara inn í stofu, elskan mín. Núna.“

Pabbi togaði  Guðrúnu inn í heimastofuna, lokaði dyrunum á eftir þeim og skellti í lás.

„Afsakið,“ hvíslaði pabbi skömmustulegur.

Una umsjónarkennari starði ákveðin á pabba og tók til máls.

„Kæru foreldrar og börn, eins og ég sagði áðan vil ég bjóða ykkur velkomin í...,“ hún komst ekki lengra.

„AFSAKIÐ!“ hrópaði Leppur hinum megin við lokaðar dyrnar á heimastofunni. „AFSAKIÐ, AFSAKIÐ!“ öskraði Skreppur.

Gangaverðirnir bönkuðu á dyrnar. Þeir bönkuðu og bönkuðu.

Krakkarnir störðu hver á annan, foreldrarnir göptu.

Una gekk hægum skrefum að dyrunum og tók í húninn.

Í sama mund og hún opnaði dyrnar féllu Leppur og Skreppur um þröskuldinn og duttu inn í heimastofuna.

„Var einhver að spyrja eftir jólasveininum?“ tautaði Leppur og stóð upp.

„Jólasveinninn er kominn!“ skrækti Skreppur þar sem hann lá enn kylliflatur á gólfinu.

„Nú, jæja,“ svaraði Una, „hvar er hann?“

„Nú, hérna auðvitað!“ útskýrði Leppur. „Beint fyrir framan nefið á þér,“ ítrekaði Skreppur.

„Afsakið,“ muldruðu bræðurnir, „afsakið, afsakið, AFSAKIÐ!“ Þeir flissuðu í sífellu.

„Já, er það já?“ Una sendi gangavörðunum illt augnaráð. Svona augnaráð eins og hún sendi Guðrúnu alltaf þega hún og Sunna, sessunautur, mösuðu of mikið.

Skreppur stökk á fætur og tók sér stöðu fyrir framan töfluna.

„Krakkar, krakkar, krakkar! Á ég að benda á jólasveininn?“ sagði hann.

„Já,“ sögðu krakkarnir í kór, „já, já, já!“

Í sama mund arkaði Stúfur inn í stofuna.

„Hó, hó, hó ! Ég er jólasveininn,“ sagði hann og horfði reiðilega á Lepp og Skrepp. „Bara ég, enginn annar!“

Á eftir Stúf gekk Leiðindaskjóða. Hún stefndi rakleiðis í átt að bræðrunum.

„O-Ó,“ sagði Leppur.

„Ansans,“ muldraði Skreppur.

Leiðindaskjóða breiddi út faðminn. Hún kleip Lepp í eyrnasnepilinn og Skrepp í nefið. „Áts, ái, ó!“ ómaði í þeim þegar Leiðindaskjóða dró þá út úr stofunni.

Foreldrarnir horfðu niður á tærnar sínar. Sumir tóku upp snjallsímana sína jafnvel þó svo símar væru bannaðir í skólanum og enn aðrir létu sem ekkert undarlegt hefði átt sér stað.

„Afsakið þetta,“ sagði pabbi við Unu umsjónarkennara, „afsakið, afsakið, afsakið!“

„Þú þarft ekkert að afsaka,“ svaraði Una stuttorð.

„Þeir kunna sig ekki, vesalings ræflarnir,“ útskýrði pabbi.

„Nei, greinilega ekki,“ svaraði Una, svo leit hún sposk á pabba og bætti við: „Hvernig þekkir þú Lepp og Skrepp?“

Guðrún starði á föður sinn. „Pabbi, þekkir þú Lepp og Skrepp?“

16. kafli: Lok, lok og læs!

Pabbi sagði ekki stakt orð á leiðinni heim. Hann útskýrði ekki fyrir Guðrúnu hvernig hann þekkti Lepp og Skrepp. Hann útskýrði ekki heldur hvers vegna hann hafi rifist við Stúf. Rifist við jólasvein. Þegar feðginin staðnæmdust fyrir framan íbúðina þeirra á þrettándu hæð kraup hann á kné og hvíslaði:

„Ekkert undarlegt gerðist í dag.“

„Jú, pabbi, mjög margt undarlegt gerðist í dag.“

„Nei, allt var eðlilegt.“

Pabbi hristi höfuðið og opnaði hann dyrnar á íbúðinni. Það kom á hann skelfingarsvipur. Heimilið var allt á rúi og stúi.

„Þetta er ekki heldur eðlilegt,“ sagði Guðrún undrandi.

„Þið verðið að loka augunum,“ kallaði mamma.

Eldrauður gjafapappír lá rifinn í tætlum um allt gólf, afskornar trjágreinar voru á borðunum og pappírsskraut hafði dreifst um íbúðina endilanga.

„Hvað gekk á?“ spurði pabbi óstyrkri röddu.

„U,u,u“ stamaði mamma, “ko-ko-konan í kjallaranum var í heimsókn, hún var að leita að jó-jó-jólaandanum.“

„Jólaandanum?“ endurtók Guðrún.

Pabbi veinaði: „Við verðum að læsa hurðinni! Við verðum að vara alla við og við verðum að flytja burt. Og-og passa að mann-manneskjan komist ekki inn.“ Hann skellti dyrunum og arkaði inn í stofu. Hann tók undir sófann öðru megin og hvæsti: „Ætlarðu ekki að hjálpa mér?“ Mamma hraðaði sér í átt til hans. Þau báru sófann inn í anddyri og komu honum fyrir á gólfinu fyrir framan útidyrnar.

„Nú flytjum við til Balí,“ sagði pabbi ákveðinn. Því næst rauk hann inn í svefnherbergi, tók stærðarinnar ferðatösku og risastóran brúnan strigapoka undan rúminu.

Pabba krossbrá þegar hann kom auga á Guðrúnu í dyragættinni. Hann ýtti strigapokanum aftur undir rúmið og gólaði:

„Þú verður að loka augunum.“

„Ég vil ekki flytja í bala,“ kjökraði Guðrún, „ég vil búa á heimili.“

„Við pökkum bara því sem við getum ekki lifað án!“ Pabbi tók njósnakíkinn sinn úr náttborðsskúffunni og setti í ferðatöskuna. Hann tók lesgleraugun líka og myndavélina sína.

„En?“

„Ekkert en! Flýttu þér að pakka!“

Guðrún hlýddi. Hún fór inn í herbergið sitt og starði á leikföngin, svo á skrímslaplöntuna. Guðrún gat alveg lifað án skrímslaplöntunnar. Hún gat líka lifað án leikfanganna sinna. Það var bara eitt sem hún gat ekki lifað án. Hún gat ekki lifað án kisu.

Guðrún horfði út um gluggann sinn og inn um gluggann hjá nágrannanum. Hún sá herra Vilhelm í næstu blokk með kettlingana tvo í fanginu. Kettlingarnir  voru enn agnarsmáir og undurfagrir en höfðu þó stækkað örlítið. Guðrún opnaði gluggann og kallaði: „Herra Vilhelm!“

Hann heyrði ekki í henni. Það var bara eitt sem hún gæti gert. Hún varð að læðast út án þess að mamma og pabbi tækju eftir því. Hún varð að fara í leynilegan leiðangur yfir í blokkina til herra Vilhelms og sækja annan kettlinginn. Kannski myndi Guðrún aftur fá kafloðna kartöflu í skóinn, fyrir vikið. Já, Hhún myndi örugglega fá kafloðna kartöflu í skóinn. Það yrði bara að hafa það. Hún vissi hvort sem er ekki hvort Þvörusleikir gæfi börnum sem byggju í bala í skóinn.

Guðrún varð að komast heim til herra Vilhelms óséð. Hún varð að sannfæra mömmu og pabba um að hún væri farin að sofa. Guðrún fór í náttföt og kallaði fram: „Góða nótt, elsku mamma og pabbi.“

Guðrún setti njósnakíkinn, sem pabbi hafði gefið henni í átta ára afmælisgjöf, í vasann og beið þess að foreldrar sínir hyrfu inn í hjónaherbergi.

17. kafli: Ein nótt til stefnu

Guðrún varð að komast heim til herra Vilhelms óséð. Þegar hún ætlaði að læðast út úr herberginu sínu heyrði hún fótatak á ganginum. Pabbi gekk hröðum skrefum inn í herbergið hennar Guðrúnar.

„Á ég að segja þér sögu?“ spurði pabbi.

„Nei!“ svaraði Guðrún.

„Á ég ekki að segja þér sögu um Gluggagægi?“

„Nei, elsku pabbi ég er svo þreytt. Ég verð að fara að sofa núna.“

„Ég vona að þú takir ekki nærri þér hvað ég er búinn að vera stressaður, gullið mitt. Það er bara svo mikið að gera í vinnunni hjá mér fyrir jól og ég þarf að fara á seinustu næturvaktina mína áður en við flytjum til Balí.“

Guðrún kinkaði kolli. Hún vissi fullvel að pabbi varð dálítið stressaður fyrir jólin. Á hverju ári, fjórum dögum fyrir jól, þurfti hann nefnilega að taka næturvakt í vinnunni. Guðrún vissi ekki alveg hvað hann gerði á þessum næturvöktum en eitt sinn sagði pabbi að hann þyrfti að ganga yfir landið endilangt á einni nóttu. Hann var líka yfirleitt mjög lúinn þegar hann kom heim af næturvaktinni og svaf þá iðulega í tvo daga samfleytt.

„En pabbi, ég vil ekki flytja í bala.“

„Við verðum að flytja til Balí, elskan mín,“ svaraði pabbi.

„En, en má ég taka með kettling?“ hvíslaði Guðrún.

„Nei elskan, kettlingar mega ekki fara í flugvél.“

„Gerðu það, gerðu það!“

„Elskan, ég skil að það sé erfitt að þurfa að flytja svona í flýti. Ég er bara svo hræddur um að ef við förum ekki þá gætum við skemmt jólin. Við gætum skemmt jólin fyrir öllum mannsbörnum á Íslandi, ekki viljum við það, er það nokkuð?“

„Nei, það viljum við ekki.“ Guðrún skildi ekki hvers vegna pabbi hélt að þau gætu skemmt jólin.

„Pabbi,“ tuldraði Guðrún, „veist þú um hernaðarleyndarmálið í kjallaranum?“

Pabbi gapti.

„Guðrún, þú ert allt of ung til að skilja þetta.“

„En, ég veit...“ Pabbi greip fram í:

„Það er best að þú gleymir öllu. Gleymir öllu sem þú heldur að þú vitir. Gleymir konunni í kjallaranum, gleymir kettinum og gleymir manninum hennar. Gleymir hvað ég get verið grályndur fyrir jólin og gleymir því sem þú sást í skólanum.“

„En...“

„Ekkert en, Guðrún mín. Góða nótt,“ hvíslaði pabbi og kyssti Guðrúnu á hvirfilinn.

Guðrún fékk hnút í magann. Hún leit út um gluggann, starði á agnarsmáu kettlingana í íbúðinni á móti. Tíminn var naumur. Eftir eina nótt myndu mamma og pabbi flytja í bala. En ekki Guðrún. Hún ætlaði ekki að flytja. Hún ætlaði að fela sig. Fela sig með kettlingnum og flytja ein með kisunni inn í íbúðina á þrettándu hæð. Guðrún var líka fúl út í mömmu og pabba. Þau voru að leyna einhverju fyrir henni. Leyna því hvernig þau vissu hernaðarleyndarmálið og hvernig þau vissu um jólaköttinn.

Þegar Guðrún heyrði að pabbi var komin inn í hjónaherbergi fór Guðrún á fjóra fætur. Hún opnaði svefnherbergisdyrnar og skreið eins og lipur læða fram á gang. Hún skreið undir sófann sem stóð fyrir framan dyrnar. Skyndilega varð hún skíthrædd, henni leið eins og einhver óboðinn hættulegur gestur væri inni í íbúðinni. Hún lét hræðsluna ekkert á sig fá, opnaði dyrnar og laumaðist út á stigaganginn.

18. kafli: Lífið að leysa

Guðrún lokaði dyrunum varlega á eftir sér. Hún vonaði að mamma og pabbi hefðu ekki heyrt í sér. Guðrún hraðaði sér niður stigann. Niður allar þrettán hæðirnar en áður en hún opnaði útidyrnar leit hún út um gluggann. Guðrúnu brá í brún þegar hún sá konuna í kjallaranum  arka í átt að blokkinni með jólakötturinn í fylgd á eftir sér. Guðrún tók andköf. Án þess að hugsa sig um flýtti Guðrún sér niður í kjallara. Hún læddist inn í þvottahúsið og faldi sig bak við þvottakörfu í horninu á herberginu. Hún varð að bíða þess að konan færi heim til sín og jólakötturinn líka.

Útidyrunum á blokkinni var skellt aftur. Þungt fótatak heyrðist frá stigaganginum. Konan gekk niður í kjallara. Hún nam staðar milli íbúðarinnar sinnar og þvottahússins þar sem Guðrún faldi sig.

„Komdu hérna kisan mín,“ sagði konan rámri röddu.

„Mjá, mjá, mjá!“ svaraði jólakötturinn.

„Brátt munu mannsbörnin finna…“

„Mjá.“

„Brátt munu börnin finna hinn sanna jólaanda!“ Hún skellihló dimmum hlátri.

„Prrrrr...,“ jólakötturinn malaði af unaði.

Skyndilega fann Guðrún hreyfingu við hælinn á sér. „Tíst, tíst.“ Agnarsmá mús skreið eftir gólfinu. Guðrún veinaði af hræðslu en greip jafnskyndilega fyrir munninn með báðum höndum. „HALLÓ!!“ hrópaði konan. Það bergmálaði um blokkina.

Guðrún fékk kökk í hálsinn.

„Var þetta óp??“ Konan leit í kring um sig, steig í átt að þvottaherberginu og öskraði: „HALLÓ!!“

Jólakötturinn liðaðist áfram inn í þvottaherbergið og gekk að þurrkaranum sem Guðrún faldi sig bakvið. Guðrún fékk hroll. Kannski vildi kötturinn veiða músina. Auðvitað vildi hann það ekki, hugsaði Guðrún, allir vissu að jólakötturinn veiddi menn og vildi ekki mýs.

Fótatak konunnar nálgaðist felustað Guðrúnar.

„Bévítis bavíani!“ æpti konan „NÁÐU HENNI!“

Guðrún fékk kökk í hálsinn. Hún leit á tröllvaxna og gildna fingur sína og ímyndaði sér þá sem hráefni í barnasúpu.

Jólakötturinn hljóp í átt að þvottakörfunni. Hann hvæsti. Guðrún setti hendurnar fyrir andlitið. Hún vildi að hún hefði ekki strokið frá mömmu og pabba. Hún vildi að hún hefði flutt til bala með foreldrum sínum. „Tíst, tís, tí...“ tístið frá músinni þagnaði.

„Duglegur kisi.“ Tónn konunnar varð glaðlegri.

Guðrún leit undan þvottakörfunni og sá lítið skott hverfa inn um kjaftinn á jólakettinum. Hann hafði étið músina. Hann hafði ekki borðað Guðrúnu.

„Jæja kisan mín, brátt munu börnin finna andann.“

„Mjá.“

Guðrún sá konuna opna þurrkara í hinum enda herbergisins og taka sokk út. Eldrauðan ullarsokk og brjóta saman. Svo tók hún annan sokk og braut saman. Loks annan og enn annan. Þurrkarinn var stútfullur af eldrauðum ullarsokkum í öllum stærðum. Það myndi taka hana heila eilífð að brjóta saman hvern einasta sokk. Guðrún leit yfir herbergið og sá aðra litla mús.

„Þú verður að fela þig músin mín,“ hvíslaði Guðrún eins lágt og hún gat. 

Guðrún fór á fjóra fætur og læddist eins hljóðlega og hún gat af stað. Hún læddist af stað út úr þvottaherberginu. Litla músin trítlaði á eftir.

„Bévítans börnin munu sjá,“ tuldraði kerlingin.

Guðrún hélt niðri í sér andanum á meðan hún skreið í átt að dyragættinni, ef hún gæfi frá sér hljóð myndi Grýla ef til vill éta hana í einum munnbita.

„Mjá,“ heyrðist í jólakettinum.

Guðrún skreið yfir þröskuldinn og fram á gang.

„Brátt munu börnin sjá að Grýla lifir enn!“

Guðrún fékk kökk í hálsinn.

„Prrrrr...,“ malaði jólakötturinn af ánægju. .

Guðrún stóð upp. Það heyrðist brak í gamla timburgólfinu í kjallaranum.

„HVER ER ÞAR?“ öskraði Grýla.

Guðrún spratt af stað upp stigann eins og hún ætti lífið að leysa.

„ÉG SKAL SKO SÝNA ÞESSU MANNSBARNI!!!“

19. kafli: Hrópið í myrkrinu

Guðrún hljóp upp stigann. Hljóp upp á jarðhæð. Konan stökk út úr þvottaherberginu. Arkaði að stiganum. Dyrunum að íbúðinni í kjallaranum var hrundið upp. Karlinn í kjallaranum tók sér stöðu fyrir framan stigann. Konan komst ekki fram hjá.

„Elsku sæta Grýla mín,“ sagði hann.

„Farðu frá bévítans Leppalúðinn þinn!“

„Ég er búinn að elda kartöflukássu.“

„Mér er andskotans sama! Hypjaðu þig!“ hrópaði hún.

Guðrún nam staðar fyrir framan útidyrnar. Hún leit út um gluggann. Það snjóaði. Það gjörsamlega kyngdi niður snjó. Guðrún horfði niður á tærnar sínar.

O,ó, hugsaði hún og starði á eldrauðu ullarsokkana. Í öllum hamaganginum hafði Guðrún gleymt að fara í skó.

„HVÆÆÆS!!!“ Jólakötturinn nálgaðist hana. Hvæsið frá honum líktist hljóði frá ljónahjörð. Guðrún opnaði útidyrnar upp á gátt.

„Ansans barnið!“ endurómaði um blokkina.

Guðrún steig út, snjórinn náði henni upp að hnjám. Hún óð af stað og stefndi í átt að blokkinni þar sem herra Vilhelm bjó með læðunni sinni og kettlingunum tveimur. Snjókoman var svo mikil að fönnin náði henni upp að hnjám. Hún átti erfitt með að ganga í sköflunum en staulaðist áfram eins hratt og hún gat á sínum stuttu fótum. Þrátt fyrir að snjórinn væri jökulkaldur varð Guðrúnu ekki kalt á táslunum. Hún fann hárið á höfðinu breytast í grýlukerti en varminn frá ullarsokkunum hélt á henni hita. Þegar Guðrún var komin hálfa leið að blokkinni heyrði hún hróp fyrir aftan sig:

„Komdu hérna litla mannsbarn!“

Grýla þrammaði út úr blokkinni, í átt að Guðrúnu. Á eftir henni kom jólakötturinn. „HHHVÆÆS!!“ Hann sleikti útum.

Guðrún reyndi að fara hraðar, hún vildi ekki enda í barnasúpu. En snjórinn var orðinn of hár. Guðrún var ekki ráðalaus, heldur stakk hún sér á bólakaf í jökulkalda fönnina. Hún rétti úr líkamanum og beygði hnén. Svo kreppti hún öklana og sparkaði sér áfram af öllum krafti. Beygja, kreppa, sundur, saman, hugsaði Guðrún og synti áfram í púðursnjónum. Hún fann líkamann hitna. Hún fann hvernig ullarsokkarnir hituðu líkama hennar eins og bakaraofn. Guðrún leit upp úr snjónum til að draga andann. Hún hafði beygt af leið. Hún hafði synt fram hjá blokkinni þar sem herra Vilhelm bjó.

Þrammið í Grýlu varð sífellt fjarlægara. Hún hafði kannski ekki komist heim til herra Vilhelms og kettlinganna en hún hafði að minnsta kosti náð að forða sér frá Grýlu, forða sér frá því að enda í barnasúpu. Guðrún stóð upp og leit í kringum sig. Hún var stödd við hliðina á Fjallaskóla. Hún kom auga á lítinn kofa sem hún hafði aldrei tekið eftir áður. Guðrún þorði ekki að fara aftur heim í blokkina Hún var viss um að Grýla biði hennar þar.

Guðrún gekk upp að kofanum og bankaði á dyrnar. Enginn svaraði. Hún bankaði aftur. Ekkert svar. Hún kom auga á glugga á hlið kofans. Guðrún laumaðist að skjánum og leit inn um hann. Inni í kofanum voru tveir menn með skotthúfur. Hún sá ekki í andlit þeirra en þótti þeir þó kunnuglegir.

Skyndilega fraus Guðrún í sporunum. Hún heyrði þrusk beint fyrir aftan sig.

„AAAAA!“ heyrðist hrópað út úr myrkrinu.

20. kafli: Strigapokinn

„Óóó!!“ aftur var öskrað. Hendur gripu um axlir Guðrúnar. Hún fékk kökk í hálsinn. En hún var ekki tilbúin að verða að hráefni í barnasúpu. Ekki strax. Þess vegna galopnaði hún munninn og beit í fingurna sem héldu um axlirnar á henni. Og hún beit af öllu afli.

„ÁÁÁ!“ Hendurnar slepptu takinu. Guðrún sneri sér við. Hún trúði ekki sínum eigin augum.

„Pabbi?! hrópaði hún.

„Ertu komin með fullorðinstennur?“ Hann sleikti á sér særða puttana.

„Já, ég missti barnatennurnar í fyrra, manstu ekki?“

 „Auðvitað man ég það. Ég man líka þegar þú sagðir áðan að þú værir farin að sofa inni í herberginu þínu!“

„É-é-ég gat ekki sofnað,“ laug Guðrún. „En hvað ert þú að gera hér?!“

„Ó, ég er bara aðeins að stússast.“ Pabbi hló vandræðalega.

„Hvað ert þú að bralla ein úti í kuldanum? Eitthvað hræðilegt hefði getað gerst!“

„Fyrirgefðu pabbi.“ Guðrún gerði sig líklega til að faðma pabba sinn en hann hörfaði undan. Hann var að fela eitthvað fyrir Guðrúnu.

„Hvað ertu með fyrir aftan bak?“

„Hvað ert þú með fyrir aftan bak?“ spurði pabbi í Guðrúnu lymskulega.

 „Uuuu... ekki neitt.“

„ÓÓ!“ hrópaði pabbi skyndilega, „hvers vegna ertu ekki í skóm?!“

„Ég var svo hrædd við konuna í kjallaranum að ég þurfti að flýja út úr blokkinni.“ Guðrún leit í kringum sig og bætti við: „Ég var svo hrædd um að hún myndi borða mig!“

„Sá hún þig?“ hvíslaði hann óttasleginn.

„Já, hún elti mig.“

„Ó, nei.“ Pabbi var greinilega skelfingu lostinn.

„Pabbi, veist þú líka hernaðarleyndarmálið?“ Guðrún starði á föður sinn.

„Já, þess vegna verðum við að flytja. Ég vil ekki að Grýla borði barnið mitt,“ hvíslaði pabbi.

Skyndilega opnuðust dyrnar á kofanum. Leppur og Skreppur stóðu í dyragættinni. Í sömu mund stökk pabbi fram fyrir Guðrúnu til að bræðurnir sæju hana ekki. Þá kom hún loksins auga á það sem hann hafði verið að fela fyrir aftan bak. Pabbi var með risastóran brúnan strigapoka.

„Jólasveinn!“ hrópaði Skreppur.

„Ó, hvar?“ æpti pabbi.

„Átt þú ekki að vera að vinna?“ spurði Leppur.

„U, ó, jú einmitt,“ tuldraði pabbi.

„Þú kannt ekkert að vinna,“ tautaði Skreppur.

„Þú kannt ekki neitt,“ sagði Leppur stríðnislega.

„A-a-afsakið,“ muldraði pabbi.

„A-a-a-afsakið, afsakið afsakið,“ skríktu bræðurnir sitt á hvað.

Pabbi ræskti sig: „Er Lena Leiðindaskjóða heima?“

„NEI!“ öskraði Leppur.

„HVERS VEGNA SPYRJA ALLIR ALLTAF EFTIR HENNI?!“ hrópaði Skreppur.

„Hvers vegna spyr aldrei neinn eftir okkur?“ kjökraði Leppur.

„Allt í lagi,“ sagði pabbi. Hann færði sig frá Guðrúnu til að bræðurnir gætu séð hana.

„Þið verðið að bjarga henni frá mööömm... frá Grýlu,“ sagði pabbi óstyrkri röddu.

„Enginn möguleiki,“ ansaði Skreppur.

„Ekki séns,“ tautaði Leppur.

„Gerið það,“ grátbað pabbi.

Bræðurnir hristu báðir hausinn.

„Ég skal gera hvað sem er,“ kjökraði pabbi.

„Hvað sem er?“ spurði Leppur.

„Hvað sem er,“ ítrekaði pabbi.

„Allt í lagi,“ skríkti Skreppur.

„Minnsta mál í heimi,“ flissaði Leppur og hvíslaði: „Jólasveinninn þinn.“

„Hvað sagðir þú?“ spurði Guðrún.

Bræðurnir litu á hvor annan og svo á pabba. Þeir ræsktu sig og sögðu svo í kór:

„Ef þú gefur okkur pokana þína, björgum við barninu þínu.“

Pabbi faðmaði Guðrúnu að sér. „Þeir munu sjá vel um þig,“ sagði hann.

Pabbi kyssti dóttur sína á kinnina og faðmaði hana að sér. Því næst rétti hann Lepp og Skrepp strigapokana sína og hljóp á brott.

21. kafli: Jólasveinninn sem skemmdi jólin

Morguninn eftir vaknaði Guðrún við hlátrasköll í bræðrunum. Þeir stóðu í stofunni og dönsuðu í kringum strigapokana hans pabba.

„Einn handa mér.“ Skreppur tók fagurrauðan pakka úr einum strigapokanum.

„Tveir handa mér.“ Leppur teygði sig í tvo pakka úr sama poka.

„Þrír handa mér! Fjórir, fimm eða endalausir!“ hrópaði Skreppur og hvolfdi úr einum pokanum þannig að óteljandi pakkar lentu á gólfinu í kofanum þar sem bræðurnir bjuggu.

„Þetta eru bestu jól sem ég hef nokkurn tímann upplifað!“ hrópaði Leppur.

„Þetta eru bestu jólagjafir sem ég hef nokkurn tímann fengið!“ kallaði Skreppur.

Guðrún horfði hvöss á bræðurna. 

„Þið fenguð ekki þessar gjafir,“ sagði hún, „þær eru ekki handa ykkur!“

„Víst eru þær handa okkur!“ hvæsti Skreppur.

„Víst, víst víst, punktur og pasta bannað að breyta,“ ítrekaði Leppur.

 „Þe-þe-þetta,“ stamaði Guðrún, „þetta eru gjafirnar sem þið stáluð frá pabba mínum!“ 

„Ekki vera leið Guðrún,“ sagði Skreppur stríðnislega.

„Við erum líka með gjöf handa þér Guðrún,“ söng Leppur.

Skreppur rétti Guðrúnu mjúkan grænan pakka með rauðri slaufu utan um. Guðrún opnaði hann varlega og virti fyrir sér innihaldið: jólarauður heilgalli með belti í miðjunni og brún gúmmístígvél. Hún klæddi sig í fötin, setti á sig skotthúfuna og fór í eldrauðu ullarsokkana sem hún hafði hengt á ofninn daginn áður. 

„Takk fyrir,“ sagði Guðrún, „en nú þarf ég að fara í skólann.“

„Gangi þér vel í skólanum Guðrún,“ sögðu bræðurnir í kór, aftur og aftur, „gangi þér vel. Gangi þér ofboðslega vel.“ 

Guðrún kvaddi bræðurna og tók í húninn á útidyrunum.

„Bíddu!“ kallaði Leppur, „þú gleymdir nestinu þínu Guðrún!“ Hann rétti henni kringlótt kökubox. „Þú færð bara jólaköku, vegna þess að ég er besti frændi í heimi.“ Leppur skellti upp úr.

„Nei, ég er besti frændi í heimi!“ gólaði Skreppur og rétti Guðrúnu annað kökubox. „Þetta er bara nammi. Ískyggilega bragðgott og ótrúlega óhollt!“

„Takk,“ tuldraði Guðrún og bætti við: „Þið eruð samt ekki frændur mínir, þið eruð þjófar.“

„VÍST ERUM VIÐ FRÆNDUR ÞÍNIR!“ Leppur leit reiðilega á Guðrúnu.

„Víst, víst víst! Punktur og pasta bannað að breyta,“ ítrekaði Skreppur.

„Nei,“ sagði Guðrún ákveðin.

„Gluggagægir er bróðir okkar og hann er líka...,“ ískraði í Lepp.

„Usss! Þú mátt ekki koma upp um hernaðarleyndarmálið!“ fnæsti Skreppur.

Guðrún ranghvolfdi augunum og opnaði útidyrnar. Leppur ýtti Guðrúnu út úr kofanum og Skreppur skellti útidyrahurðinni á eftir henni. Þegar Guðrún leit á skólalóðina brá henni í brún. Skólabræður hennar voru rauðir af bræði og hlupu hver á eftir öðrum með snjóbolta á lofti. Stelpurnar stóðu ýmist uppi á hólum eða í rólum og miðuðu grjóthörðum snjóboltum á skólasystkini sín. 

Guðrún fann skyndilega fyrir höggi á hnakkanum. Ískaldur snjórinn lak inn á heilgallan hennar. Því næst var eins og einhver hefði sparkað í magann á henni þegar stór snjóbolti lenti á henni miðri. Loks var eins og hún væri slegin utan undir. Þriðji boltinn, sem var á stærð við körfubolta lenti framan í Guðrúnu. Hún féll til jarðar. 

„EKKI! ÞETTA ER GUÐRÚN“ hrópaði Sunna, sessunautur Guðrúnar.

„Áááá!!“ snökti Guðrún. Hún stóð upp.

„Við héldum að þú værir Gluggagægir,“ útskýrði Sunna.

„Nei, ég er bara Guðrún.“

„Við erum að leita að Gluggagægi,“ sagði Sunna ákveðin.

„Af hverju?“

„Vegna þess að hann skemmdi jólin,“ öskruðu öll börnin í kór.

„En, en, ha? Skemmdi hann jólin?“ Guðrún varð stjörf. 

„Gluggagægir gaf engu barni í skóinn í nótt,“ Sunna kreppti hnefana.

Guðrún starði hugsi á Sunnu. Hafði einhver komist að hernaðarleyndarmálinu? Hafði einhver stolið öllum gjöfunum af Gluggagægi? Guðrún leit í átt að kofanum. Í átt að kofanum þar sem Leppur og Skreppur voru í óða önn að opna allar gjafirnar sem höfðu komið úr brúnu strigapokunum sem pabbi var með. Gat verið að pabbi hafi stolið strigapokanum af Gluggagægi?

22. kafli: Töfrasokkarnir

„En, en, en,“ stamaði Guðrún. „Kannski kom eitthvað fyrir Gluggagægi og hann gat ekki gefið í skóinn.“

„Það getur ekki verið,“ sagði Sunna sessunautur. „Öll börn vita að eina hlutverk jólasveinanna er að gefa börnum gjafir. Jólasveinar. Eiga. Að. Gefa. Gjafir!“

„En kannski gerðist eitthvað hræðilegt,“ muldraði Guðrún, „kannski ætlaði Grýla að borða mannsbarn og kannski stal einhver gjöfunum hans Gluggagægis til að bjarga barninu. Kannski var Gluggagægir meira að segja sjálfur að reyna að bjarga barninu. Þess vegna gat hann kannski ekki gefið íslensku börnunum í skóinn þetta árið.“

Sunna hló. „Það vita allir að jólasveinarnir eru bara karlar sem búa uppi í fjöllum og koma til mannheima einu sinni á ári til að gefa börnum gjafir! Það er þeirra eina hlutverk. Svo ef þeir gefa ekki gjafir eiga þeir ekki skilið að vera til!“

„Mér finnst þú frekar frek,“ sagði Guðrún ákveðin og reyndi að halda tárunum inni. „Af hverju eiga saklausir karlar í fjöllunum að gefa öllum börnum gjafir á hverju einasta ári?“

„Þeir eru ekki saklausir, þeir eru þjófar.“

„Hefur Gluggagægir einhvern tíman stolið einhverju frá þér?“

„Nei. En mér alveg sama!“

„Hefur Gluggagægir ekki gefið þér gjöf á hverjum jólum í sjö ár?“

„Hættu að snúa út úr Guðrún! Ert þú kannski með jólasveinunum í liði?“

„Já, ég ætla sko ekki í stríð við jólasveinana!“ kjökraði Guðrún.

Sunna varð eldrauð í framan. Hún beygði sig að stórum snjóskafli, fyllti lúkurnar af fönn og byrjaði að hnoða bolta.

„KRAKKAR!“ öskraði Sunna yfir skólalóðina endilanga. Öll sem eitt þögnuðu börnin og sneru sér að Sunnu. Hún rétti úr sér og hrópaði: „GUÐRÚN ER MEÐ SVIKULU JÓLASVEINUNUM Í LIÐI!“

Krakkarnir störðu á Guðrúnu. Hún starði til baka. Hún starði á óteljandi öskureið andlit. Hún fylgdist með krökkunum sem ýmist krepptu hnefana eða hófust handa við að hnoða snjóbolta. Það ríkti grafarþögn á skólalóðinni. Guðrúnu heyrði sinn eigin hjartslátt.

„ÁRÁS,“ hrópaði Sunna.

Snjóbolta var kastað í átt að Guðrúnu. Boltinn lenti á öxl hennar. Öðrum snjóbolta var kastað að henni, loks þriðja og fjórða og fimmta og sjötta. Allt þar til snjóboltum rigndi yfir hana eins og skotum úr hríðskotabyssu. Guðrún hljóp af stað, spretti út af skólalóðinni. Allir krakkarnir eltu hana.

Guðrún hljóp og hún hljóp. Af einhverjum ástæðum fann hún ekki fyrir þreytu. Hún þaut hraðar og hraðar. Það var eins og eitthvað ýtti henni áfram. Hún vissi ekki hvert hún stefndi en fann hvernig rauðu ullarsokkarnir vísuðu henni veginn. Hún lyftist upp frá jörðinni. Flaug á ógnarhraða í burtu frá krakkaskaranum. Hún trúði þessu ekki. Ullarsokkarnir flugu með hana yfir Fjallahverfi. Hún flaug svo hratt að smám saman hætti hún að heyra í stríðnisveitinni úr Fjallaskóla.

Guðrún lenti mjúklega á jörðinni í útjaðri Fjallahverfis, fyrir framan stóra fjallið í hverfinu. Fjallið sem hverfið var kennt við.

Mikinn reyk lagði frá fjallinu. Guðrún fór nær og fann unaðslega lykt af reyknum. Hún elti ilminn sem leiddi hana að litlu hellisopi á miðju fjallinu.

„Elsku mannsbarnið mitt,“ heyrðist í hásri rödd innan úr hellinum, „ullarsokkarnir hafa leitt þig til mín.“

„Halló,“ svaraði Guðrún, „hver er þar?“

„Hinn sanni jólaandi,“ svaraði röddin í reyknum.

23. kafli: Pabbi Gluggagægir

Reykmökkurinn mótaði nokkurs konar hlið fyrir hellisopinu. Guðrún gekk inn um hliðið en sá ekkert fyrir reyknum. Það eina sem hún skynjaði var lyktin. Hún fann ilm af jólatré, piparkökum og laufabrauði. Hún fann bragðið af brúnuðu kartöflunum sem pabbi gerði fyrir jólin, rauðkálinu hennar mömmu og rjómasósunni sem hún baðaði kartöflurnar í. Guðrún andaði að sér reyknum. Skyndilega var sem hún væri heima í stofunni á þrettándu hæð. Hún sá mömmu sem var klædd í eldrauðan kjól og pabba sem var í fallegri lopaskyrtu með skotthúfu. Henni fannst hún sökkva ofan í jólabaðið og heyra hlátrasköllin úr foreldrum sínum innan úr eldhúsinu. Guðrún fann fyrir eftirvæntingu, sömu spennu og hún fann fyrir hvern einasta aðfangadag. Hvern einasta aðfangadag í faðmi fjölskyldunnar.

„Finnurðu hinn sanna jólaanda?“ heyrðist sagt í hásri röddu sem barst innan úr reyknum.

Guðrún sá móta fyrir karli fyrir framan sig.

„Þetta er bara ég.“ Karlinn gekk nær.

Guðrún kannaðist við hann.

„Þetta er bara ég,“ sagði karlræfillinn í kjallaranum og bætti við: „Litli afi þinn.“

„En, þú ert Leppalúði,“ hvíslaði Guðrún skelfingu lostin.

„Einmitt. Þú hefur komist að hernaðarleyndarmálinu.“

„Já, ég veit hver þú ert og þú ert ekki afi minn.“

„Víst er ég það mannsbarnið mitt, þú ert sonardóttir mín.“

„Meinarðu að pabbi minn sé sonur þinn?“

„Mikið rétt, sá tíundi í röðinni.“

„Gluggagægir?“ Guðrún varð steinhissa.

„Mikið rétt.“

Guðrún missti andlitið. Pabbi hafði þá ekki rænt gjöfunum frá Gluggagægi. Hann var Gluggagægir. Pabbi hafði gefið gjafirnar til barnanna í landinu til að bjarga henni. Hann hafði fórnað gjöfunum fyrir Guðrúnu.

„Ó, nei!“ veinaði Guðrún. „Þetta þýðir að ég sé stúlkan sem skemmdi jólin.“

„Einmitt. Blessuð börnin eru brjáluð.“ Leppalúði hló dátt og kallaði: „Heyrirðu það krúsidúllan mín? Íslensku börnin eru bandbrjáluð vegna þess að þau fengu enga gjöf frá Gluggagægi.“

„Ha, ha, ha!!“ Rámur hlátur heyrðist innan úr hellinum. Hláturinn nálgaðist Guðrúnu. Hún hörfaði, læddist í áttina að útganginum.

„HVÆÆÆÆS!!!!“ Guðrún komst ekki út. Jólakötturinn stóð fyrir hellisopinu með klærnar á lofti.

„Sæl unga dama,“ sagði Grýla.

„Æ-æ-ætlarðu að éta ba-ba-barnabarnið þitt?“ stamaði Guðrún.

Guðrún skalf af ótta.

„O-ó.“ Tennurnar í Leppalúða glömruðu.

Guðrún vildi ekki enda í barnasúpu. Ekki þessi jól. Ekki heldur næstu jól. Ekki heldur þarnæstu jól. Hún vildi helst aldrei enda í barnasúpu.

„HA HA HA, borða þig?“ Grýla veltist um af hlátri, „mannsbarn með tröllablóð? Ullabjakk! Ekki et ég mitt eigið blóð, skinnið mitt.“

Guðrún leit á tröllvaxna fingur sína. Á tröllafingurna sem hún hafði erft frá ömmu sinni, frá ömmu sinni henni Grýlu.

„Jæja,“ sagði Guðrún fegin, „fyrst þú ætlar ekki að éta mig, þá ætla ég að fara heim til mín. Heim til mömmu og pabba til þess að segja þeim að við þurfum ekki að flytja í bala.“

Guðrún gekk í átt að jólakettinum sem stóð fyrir hellisopinu.

„MJÁ!“ sagði hann og glennti glyrnurnar.

„Ég er með tröllablóð manstu?“ svaraði Guðrún. Hún gekk fram hjá kettinum og í gegnum reykmökkinn. Þá kom snjóbolti fljúgandi í gegnum reykinn. Boltinn lenti á bringunni hennar Guðrúnar. Loks kom annar snjóbolti fljúgandi og enn annar. Alveg þar til boltum rigndi inn í hellinn eins og haglél. Öskurreiðu krakkarnir úr Fjallaskóla höfðu elt hana að hellinum.

„Ó, nei,“ kjökraði Guðrún, „börnin eru búin að ná mér.“

„Fullkomið!“ sagði Grýla.

„Fullkomið!“ tók Leppalúði undir með Grýlu sinni.

Guðrún sá móta fyrir krakkahernum í gegnum reykjarmökkinn sem hljóp í átt að hellisopinu. Hún starði á vini sína. Hún starði á Sunnu sessunaut og á öll bekkjarsystkini sín sem henni þótti svo vænt um.

Grýla rak upp gleðióp: „Nú fá blessuð börnin að finna hinn sanna jólaanda!“ hrópaði hún.

„Ekki!“ grátbað Guðrún, „ekki éta vini mína!“

24. kafli: Hinn sanni jólaandi

„Forðið ykkur,“ hrópaði Guðrún, „Grýla ætlar að éta ykkur!“

Sunna sessunautur stóð fremst í flokki fylkingarinnar. Hún lyfti hendi sinni á loft, benti í átt að Guðrúnu og kallaði: „ÁRÁS!“

Guðrún spretti af stað inn í hellinn, inn í reykmökkinn. Allir krakkarnir eltu.

„Komiði hingað börnin mín!“ söng Grýla.

Guðrún hafði hlaupið beint í flasið á Grýlu. Hún hafði leitt öll börnin í Fjallahverfi að barnétandi tröllskessunni.

Grýla stóð glettin á svip fyrir framan pottinn sinn, risastóra pottinn sem hafði áður verið í eldhúsinu í kjallaraíbúðinni. Grýla hrærði í pottinum með jólaköttinn malandi við fætur sér. Leppalúði faldi sig fyrir aftan pottinn og flissaði.

„Komiði hingað öll til mín,“ söng Grýla.

Guðrún byrjaði að kjökra. Hún hafði skemmt jólin. Hún hafði skemmt allt. Það var henni að kenna að öll börnin í Fjallahverfi yrðu brátt hráefni í barnasúpu.

Grýla hló. „Nú fáið þið að finna hinn sanna jólaanda!“ endurtók hún í sífellu.

Guðrún leit í átt að tröllahjúunum og svo á börnin. Hjúin tóku höndum saman og lyftu pottinum eins hátt og þau gátu. Hvað voru þau eiginlega að gera? Þau hvolfdu úr pottinum. Guðrún fann hlýjan straum leika um líkama sinn. Hin börnin veinuðu og öskruðu. Skyndilega fylltist hellirinn af vökva. Börnin þeyttust með straumnum. Guðrún fann fiðring í maganum. Hún fann spenning og byrjaði að hlæja. Henni fannst hún vera komin í jólabað með fína baðsaltinu hennar mömmu og góða fjólubláa sjampóinu. Straumurinn fleytti Guðrúnu áfram eins og í rennibraut. Fyrr en varði hafði vökvinn í pottinum umbreyst í eins konar sundlaug inni í hellinum. Öll börnin svömluðu þar um. Þau voru hætt að veina. Öskrin höfðu breyst í hlátrasköll. Guðrún trúði ekki sínum eigin eyrum. Börnin skríktu af gleði og skælbrostu.

„Þetta eru bestu jól sem ég hef nokkurn tímann upplifað!“ hrópaði Sunna sessunautur. Hún synti í átt að Guðrúnu, faðmaði hana og sagði: „Þú ert besta vinkona í heiminum!“

„En, hvað með stríðið gegn jólasveinunum?“

„Æ, ég er hætt við,“ útskýrði Sunna og bætti við: „Kannski kom eitthvað hræðilegt fyrir Gluggagægi og hann gat ekki gefið í skóinn.“

Guðrún horfði undrandi á skólafélaga sína. Bekkjarsystkini busluðu um og föðmuðust. Þau höfðu gleymt stríðinu gegn jólasveinunum. Gleymt reiðinni yfir því að Gluggagægir hafði ekki gefið þeim gjöf í skóinn.

Grýla og Leppalúði óðu fram hjá börnunum, þau námu staðar hjá Guðrúnu.

„Ætli þið núna að éta börnin?“

Hjúin skelltu upp úr.

„Nei, Guðrún mín,“ útskýrði Grýla, „við erum löngu hætt að borða mannsbörn.“

„Löngu, löngu, löngu!“ ítrekaði Leppalúði.

„Hvað var eiginlega í pottinum?“ spurði Guðrún.

„Ég sagði þér það margoft!“ Grýla leit stolt á Guðrúnu og sagði: „Elsku tröllabarnið mitt, í áratugi hef ég reynt að brugga þennan anda, þennan jólaanda sem bjargað gæti gjafasýki mannsbarnanna.“

„Nú hefur það tekist,“ sagði Leppalúði og bætti við: „Hlutverki okkar í mannheimum er lokið. Nú þurfum við að að fara aftur heim. Aftur heim til fjalla.“

„Ætlið þið þá að flytja úr kjallaranum?“

„Já, elskan, það er tími til kominn,“ sagði Grýla ,„ég þarf þó að biðja þig um einn greiða.“

„Hvað?“ spurði Guðrún taugaóstyrk.

„Jólakötturinn vill verða eftir í mannheimum. Getur hann búið með þér? Kannski í einhverskonar Kósí kisuhorni.“

„Það er besta jólagjöf sem nokkurt barn gæti hugsað sér,“ svaraði Guðrún.

Jólakötturinn synti í átt að Guðrúnu.

„Honum þykir jú best að búa með einhverjum með tröllablóð.“

„Sjáumst að sinni, skinnið mitt,“ sagði Leppalúði, „skilaðu kveðju til karlræfilsins hans pabba þíns. Segðu honum að hann þurfi ekki að flytja með fjölskylduna sína í bala.“

Hjúin vinkuðu bless og gengu á brott.

„En bíðið!“ hrópaði Guðrún, „hvað er hinn sanni jólaandi?“

„Það er andinn sem hjálpar mannsbörnunum að skilja,“ sagði Grýla, „hvað það er sem raunverulega skiptir máli á jólunum.“

Guðrún faðmaði jólaköttinn að sér og horfði á eftir hjúnum þar sem þau gengu hönd í hönd upp til fjalla.