The Exorcism of Emily Rose

Hrekkjavaka | Sérðu ekki hvítan blett á hnakka mínum, Garún, Garún?

Í hinni þekktu þjóðsögu um Djáknann á Myrká vitjar framliðinn Guðrúnar og reynir að draga hana með sér í dauðann en verður ekki að ósk sinni er hann kallar þessi fleygu orð: Sérðu ekki hvítan blett í hnakka mínum, Garún, Garún?

Nú er tími uppvakninga, framliðinna, vampíra og tilvalið að grúska í gömlum þjóð- og draugasögum, eða taka upp nýrri vampírsögur og jafnvel glænýja hrollvekju. Dauðinn ríkir í bókmenntum og þar birtist hann á ólíkan hátt til að skemmta, hræða og minna okkur á mikilvæg tengsl fortíðar og framtíðar, á undur, yfirnáttúru og hverfulleika.

Hrekkjavaka, er haldin 31. október, sem er vakan fyrir Allraheilagramessu, 1. nóvember, og var áður kölluð allra heilagra kvöld en við þekkjum vökuna best undir nafninu hrekkjavaka. Allraheilagramessa er tileinkuð píslarvottum kirkjunnar en kirkjan tók yfir eldri heiðnar hátíðir á borð við Samhain og vetrarnætur, tíminn þegar kuldi og myrkur tekur við, jörð sofnar og dauðinn ríkir. Hrekkjavaka tengist einnig frægustu hátíð í Mexíkó sem er Dagur hinna dauðu, Día de los Muertos. Þá minnast hinir lifandi þeirra dauðu með mikilli gleði og fögnuði.

Ásamt gömlum þjóðsögum er vel hægt að mæla með vampírusögum frá 21. öldinni á hrekkjavöku og þá kemur sænska sagan Låt den rätte komma in eða Hleyptu þeim rétta inn, upp í hugann, eftur John Aivide Lindqvist. Sagan gerist í úthverfi Stokkhólms og fjallar um Óskar, einmana dreng sem verður fyrir miklu einelti í skóla. Sagan fjallar um vináttu hans og undarlegrar manneskju sem heitir Eli og er mjög minnisstæð skáldsagnapersóna, og gæti hafa fætt af sér persónuna Eleven í Netflix þáttunum Stranger Things, þar eru alla vega töluverð líkindi. Hleyptu þeim rétta inn er bæði falleg, óhugnanleg, tragísk og melankólísk þar sem persónur reyna að lifa af þungbær áföll, fyrir og eftir dauða. Kvikmynd var gerð eftir bókinni árið 2008 í leikstjórn Tomas Alfredson og einnig leikgerð sem farið hefur sigurför um heiminn

Borgarbókasafnið heldur upp á Hrekkjavöku með hrollvekjandi safnkosti sínum sem er að sjálfsögðu hægt að lána og einnig verða viðburðir fyrir börn og fullorðna:

Rithöfundurinn Emil Hjörvar Petersen mun flytja fyrirlestur um hrollvekjur og hryllingsskrif fyrir unga sem aldna, miðvikudaginn 27. október. Hann gaf nýlega frá sér skáldsöguna Hælið sem fjallar um dularfulla atburði sem tengjast gamla Kópavogshælinu, þar sem nútíminn fléttast saman við dularfulla og átakanlega fortíð svæðisins: 

„Hrollvekja gengur oft út á það að blanda hinu ankannalega og hinu óséða við venjulegt fólk og oftast er þetta fólk þá með einhverja erfiðleika sem það hefur ekki tekist á við, jafnvel tráma. Þegar óhugnaðurinn fer að læðast inn í söguna þá samhliða því fer það að takast á við þetta tráma og sjá sig og sitt líf í nýju ljósi,“ segir Emil í nýlegu viðtali.

Þá geta börn mætt í Glóandi glyrnur, hrekkjavökusmiðju og búið til ógnvekjandi kynjaverur og drauga með augu sem lýsa í myrkri á sjálfri hrekkjavökunni, sunnudaginn 31. október.

Að endingu má minna á Bókasafnsráðgátuna í Gerðubergi í vetur, sem býður upp á Hrollvekjuráðgátu!

Verið velkomin á Borgarbókasafnið í aðdraganda og á hrekkjavöku til að fræðast, hræðast og næra eilífan andann.

Flokkur
UppfærtÞriðjudagur, 28. febrúar, 2023 09:51
Materials