Hlutverk, leiðarljós og markmið

Þið eruð öll velkomin á bókasafnið!

Bókasöfn eru mikilvæg gátt inn í samfélagið og þess vegna tökum við vel á móti öllum. Í menningarhúsunum okkar er fjöldi viðburða í hverri viku og góður safnkostur; bókmenntir, kvikmyndir, tónlist, dagblöð og tímarit. Í safninu eru nú um 500.000 bækur og tímarit auk geisladiska, myndbanda og margmiðlunarefnis svo eitthvað sé nefnt. Bókasafnið er staður fyrir einstaklinga að mæla sér mót og hópa að koma saman. Í öllum menningarhúsunum eru svokallaðir heitir reitir fyrir þá sem vilja koma með eigin tölvur og vinna á Netinu. Við viljum stuðla að því að fólk geti myndað ný félagsleg tengsl og byggt brú á milli menningarheima og þekkingarsviða.

Hlutverk

Borgarbókasafn Reykjavíkur er alhliða upplýsinga- og menningarstofnun og meginhlutverk þess er að jafna aðgengi að menningu og þekkingu. Lögð er áhersla á gott aðgengi borgarbúa á öllum aldri að þjónustu, fræðslu og viðburðum á sviði menningar og lista. 

Leiðarljós

Borgarbókasafn Reykjavíkur standi, í alþjóðlegu umhverfi, jafnfætis bestu almenningsbókasöfnum og menningarhúsum hvað varðar þjónustu, búnað og viðburðahald. Starfsemin beri vott um fagmennsku, virðingu, víðsýni og sköpunarkraft.

Meginmarkmið

Lýðræði: Borgarbókasafn eflir lýðræði og jöfnuð. Þjónusta safnsins skal ná til allra borgaranna án tillits til aldurs, kyns, kynþáttar, stjórnmálaskoðana, trúar, þjóðernis eða þjóðfélagsstöðu. Þannig eflir það lýðræði, jafnrétti, athafnafrelsi og velferð borgaranna.

Menning: Borgarbókasafn er miðstöð mannlífs og menningar. Borgarbókasafn Reykjavíkur er menningarstofnun í víðustu merkingu þess orðs. Þar mætast ólíkir hópar sem gefa raunsanna mynd af hinni margvíslegu menningu samfélagsins. 

Menntun: Borgarbókasafn er vettvangur barna, ungmenna og fullorðinna til að uppgötva og rannsaka heiminn og þróa þannig hæfileika sína og tækifæri. Menntun, líkt og menning, er liður í þroska og þróun hvers einstaklings, óháð því hvernig hennar er aflað.

Uppspretta: Borgarbókasafn er vettvangur hugmynda, sköpunar og upplifunar. Einstaklingar og hópar hafa tækifæri til að örva andann og sköpunarkraftinn, hvort sem það er í gegnum samskipti við aðra, þátttöku, menningu og listir.

Fyrirmynd: Borgarbókasafn Reykjavíkur er upplýsinga- og menningarmiðstöð sem gegnir forystuhlutverki meðal almenningsbókasafna landsins og sækir fyrirmynd sína til fremstu safna heims. 

Safnið var stofnað 1919 en hóf starfsemi 19. apríl 1923. Í dag eru útlánsstaðir safnsins sex en auk þeirra rekur safnið bókabíl með viðkomustaði víðs vegar um borgina og sögubílinn Æringja sem heimsækir leikskóla. Bókasafnið í Mosfellsbæ og Bókasafn Seltjarnarness eru samstarfssöfn Borgarbókasafnsins. Í því felst að einungis þarf að eiga skírteini í einu þessara safna til að nýta sér þjónustu hinna. Börn undir 18 ára, öryrkjar og ellilífeyrisþegar fá frítt bókasafnsskírteini en aðrir borga lítið gjald fyrir. Kort Borgarbókasafnsins veita einnig aðgang að Rafbókasafninu þar sem hægt er að fá lánaðar raf- og hljóðbækur.

Borgarbókasafnið er rekið af Reykjavíkurborg og heyrir undir Menningar- og ferðamálasvið sem gefur út starfsáætlun ár hvert. Það starfar samkvæmt bókasafnalögum nr. 150 frá 2012yfirlýsingu Menningar- og vísindastofnunar Sameinuðu þjóðanna (Unesco) um almenningsbókasöfn frá 1994, menningarstefnu Reykjavíkurborgar og samþykkt fyrir Borgarbókasafn frá 2015.

 

Borgarbókasafn Reykjavíkur
Tryggvagötu 15
IS-101 Reykjavík
Kennitala: 530269-7609

Sími: 411 6100
Fax: 411 6159

Skrifstofan er opin mánudaga til föstudaga frá kl. 10-16.

Borgarbókavörður: Pálína Magnúsdóttir