Um okkur

Kíktu í heimsókn!

Miðbæjarsafnið okkar er í Grófarhúsi við Tryggvagötu.  Þar ráðum við ríkjum á 1., 2. og 5. hæð, en í húsinu er einnig Borgarskjalasafn og Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Það er oft líflegt hjá okkur enda boðið upp á fjölmarga viðburði, smiðjur og sýningar. Á sama tíma er auðvelt að flýja eril miðborgarinnar, grúska á lessvæðinu okkar og týna sér í hillunum. Komdu og kynntu þér málið.

Aðstaða

Safnið er á þremur hæðum og er auðvelt að komast á milli hæða með lyftu eða stiga. Á öllum hæðum eru starfsmenn reiðubúnir að svara spurningum og aðstoða við leit að efni.

Á fyrstu hæð eru útstillingar með nýjum bókum og öðrum safnkosti á hinu bjarta Bókatorgi, en stundum færum við hillurnar til og bjóðum upp á tónleika eða aðrar uppákomur. Þar er einnig Artótekið, þar sem hægt er að leigja eða kaupa listaverk eftir samtímalistamenn eða bara njóta sýninga á verkum listamanna, setjast niður og lesa dagblöð, tímarit eða annað efni. 

Á annarri hæð er að finna íslensk og erlend skáldrit. Þar er góð aðstaða fyrir börn og unglinga, stór myndasögudeild, hlaðvarpsstúdíóið Kompan og Tilraunaverkstæðið okkar þar sem við leikum okkur með tónlist og tækni.

Á fimmtu hæð ríkir aðeins meiri ró og friður. Þar getur þú sökkt þér niður í fræðibækur og annað fræðiefni og fengið sérfræðiaðstoð hjá starfsfólkinu okkar. Í tón- og mynddeildinni er að finna mikið magn geisladiska, fjölmargar hljómplötur, nótur, myndbönd og mynddiska auk bóka og tímarita um tónlist og kvikmyndir. Þar er einnig notaleg aðstaða til að hlusta á tónlist. Á hæðinni er aðgangur að tölvum, prentara og ljósritunarvél gegn vægu gjaldi.

Staðsetning og samgöngur

Þið finnið okkur í Tryggvagötu 15. Auðvelt er að komast á safnið með því að taka strætó úr öllum hverfum borgarinnar, sem stoppa margir hverjir við Lækjartorg. Sjá nánar á vefsíðu Strætó. Bílastæði er m.a. að finna aftan við húsið á gjaldsvæði 1 og einnig er bílastæði á gjaldstæði 2 við höfnina, auk þess sem bílastæðahús er við Vesturgötu í Grjótaþorpinu. 

Barbara Guðnadóttir er safnstjóri í menningarhúsinu Grófinni og staðgengill borgarbókavarðar:
barbara.gudnadottir@reykjavik.is

Nánari upplýsingar:
grofin@borgarbokasafn.is
S. 411 6100