Lesum saman frá fyrstu tíð
Lestur fyrir börn strax frá unga aldri eflir orðaforða og málþroska og stuðlar að góðum lesskilningi þeirra síðar meir. Hér koma nokkur góð ráð frá Bergrúnu Írisi hvernig við getum hlúð að lestraruppeldinu.
Fyrsta bókin
Um leið og litla krílið heldur höfði er tímabært að byrja að lesa fyrir það bækur. Barnið vill snerta og jafnvel bragða á bókinni og því gott að um sé að ræða tau- eða harðspjaldabækur. Bendibækur með einföldum og skýrum myndum henta vel.
Hér er listi yfir bækur fyrir þau allra yngstu.
Kvöldsagan
Málrómur okkar breytist við lestur, það hægist á hjartslætti fullorðins og barns, öndun róast og vöðvar slakna. Kvöldlestur verður notaleg gæðastund sem skapar góðar svefnvenjur og bætir nætursvefn allra á heimilinu.
Hér er listi yfir bækur sem eru tilvaldar kvöldsögur.
Tal og tjáning
Með því að lesa bækur notar sá fullorðni fleiri og fjölbreyttari orð en ella og stækkar þannig orðaforða barnsins. Lestur kennir barninu því að tala og tjá sig í lengri setningum. Nefnið það sem þið sjáið á síðunni og kennið barninu að tengja saman orð og myndir.
Hér er listi fyrir bækur með fjölbreyttum orðum og myndum.
Sama bókin aftur og aftur
Einfaldar sögur vekja áhuga og barnið vill jafnvel lesa sömu bókina aftur og aftur. Kannski kann barnið söguna utanbókar og leiðréttir hiklaust ef sá fullorðni endursegir með eigin orðum.
Hér er listi yfir nokkrar uppáhaldsbækur ungra bókaorma.
Myndir og texti: Bergrún Íris Sævarsdóttir