Allt um fjölmenningarstarfið
Borgarbókasafnið stendur fyrir fjölda fjölmenningarlegra verkefna með það að markmiði að stuðla að menningarnæmi og -færni í samfélaginu gegnum list, sköpun, gagnvirkar samræður og fjölbreytt tungumál.
Almenningsbókasöfn eru mikilvæg gátt inn í samfélagið en fjölmenningarstarf Borgarbókasafnsins nær langt út fyrir veggi þess. Við störfum með alls konar fólki, félagasamtökum og stofnunum þvert á samfélagið. Má þar nefna mennta- og menningarstofnanir, þjónustumiðstöðvar, grasrótarsamtök, listafólk og einstaklinga sem koma hvaðanæva af úr heiminum.
Allir eiga sér sína sögu hvaðan sem þeir koma. Í fjölmenningarlegu samfélagi er það sameiginlegt verkefni að flétta þessar sögur saman og búa til nýjar í sameiningu. Það er lykilatriði í starfinu að líta á fjölmenningu sem eitthvað sem tengist öllum borgarbúum og að einstaklingar séu ekki álitnir fulltrúar ákveðinna þjóða. Bókasöfn eru miðstöðvar mannlífs og menningar og þess vegna augljós vettvangur fyrir starfsemi sem sameinar fólk.
Markmið
- Að stuðla að gagnkvæmum skilningi og virðingu og þátttöku í samfélaginu.
- Að skapa vettvang fyrir menningar- og tungumálamiðlun.
- Að auka færni innflytjenda í íslensku gegnum raunveruleg og hagnýt samskipti.
- Að efla tengsl milli allra Reykvíkinga gegnum menningu og listir.
- Að búa til upplýsandi og fræðandi samráðsvettvang fyrir fjölbreytta hópa í samfélaginu.
- Að heimsókn í menningarhús Borgarbókasafnsins verði þáttur í daglegu lífi innflytjenda líkt og annarra borgarbúa.
- Að rjúfa einangrun og efla samhygð með náunganum.
Borgarbókasafnið hefur yfirlýsingu UNESCO/IFLA umfjölmenningarlegt bókasafn að leiðarljósi í starfsemi sinni.
Sjá stefnu menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar um fjölbreytta menningu í borginni 2017-2020 „Rætur og vængir“.
Nánari upplýsingar:
Martyna Karolina Daniel
Sérfræðingur – Fjölmenningarmál
martyna.karolina.daniel@reykjavik.is | 411 6109