Borgarbókasafn og Rauði krossinn skrifa undir samstarfssamning
Kristín Vilhjálmsdóttir, Pálína Magnúsdóttir og María Rut Beck

Heilahristingur verður Krakkanám!

Rauði krossinn í Reykjavík og Borgarbókasafnið hafa endurnýjað samstarfssamning sinn um heimanámsaðstoð fyrir börn og ber verkefnið nú heitið Krakkanám sem áður var kallað Heilahristingur. 

Samstarfið á sér langa og farsæla sögu en það var árið 2008 sem boðið var í fyrsta skipti upp á heimanámsaðstoð á Borgarbókasafninu þar sem sjálfboðaliðar Rauða krossins mættu og aðstoðuðu börn og fullorðna. 

Markmið Krakkanáms er að styðja og styrkja nemendur í námi sínu en samhliða því kynnast þeir þeirri þjónustu sem bókasöfnin bjóða upp á í tengslum við nám, áhugamál og tómstundir. Krakkanám er fyrir alla krakka, en býður fjöltyngd börn sérstaklega velkomin.  Markmið verkefnisins er að jafna tækifæri allra barna á Íslandi óháð uppruna til aðstoðar við nám.

Á síðasta skólaári voru um 170 börn sem mættu í hverri viku í námsaðstoðina og þáðu aðstoð frá um 30 sjálfboðaliðum. Krakkanám er í stöðugum vexti og við hlökkum til að taka á móti bæði krökkum og sjálfboðaliðum næsta haust. 

Boðið verðu upp á Krakkanám í fjórum söfnum um alla Reykjavík í haust, í Gerðubergi, í Árbæ, í Kringlunni og í Spönginni. Þá hitta nemendur sjálfboðaliða Rauða krossins á bókasafninu einu sinni í viku og hjálpast þar að við nám og lestur.  Rauði krossinn heldur úti öðrum námsaðstoðarverkefnum að fyrirmynd Krakkanáms út um allt land, t.d. í Kópavogi, Hafnarfirði og í Reykjanesbæ. 

 

Vilt þú gerast sjálfboðaliði í Krakkanámi? 

Þú ert velkomin/n í hópinn! Þú getur skráð þig með því að hafa samband við Maríu Rut Beck, verkefnastjóra Krakkanáms: mariabeck@redcross.is