Rætur og vængir | Ráðstefna 2018

Rætur og vængir - Ráðstefna 2018

Ráðstefna um skapandi samstarf þvert á landamæri tungumála og menningar.
Veröld - hús Vigdísar 24. - 25. maí 2018 

Rætur og vængir - ráðstefna

Allir eiga sína sögu hvaðan sem þeir koma. Í fjölmenningarlegu samfélagi er það sameiginlegt verkefni okkar allra að flétta saman þessar sögur og skapa nýjar. 

Menningar- og menntastofnanir í samstarfi við ýmsa aðila í samfélaginu gegna lykilhlutverki þegar kemur að því að skapa samtal í fjölbreyttu landslagi tungumála og menningar. Frá árinu 2008 hefur Borgarbókasafnið þróað öflugt fjölmenningarstarf sem byggir á þverfaglegu samstarfi við félög, stofnanir og einstaklinga, innanlands sem utan. Fjöldi verkefna hefur orðið til á þessum árum sem einkennast öll af fjölbreyttu og skapandi starfi. 

Til að fagna þessum 10 ára áfanga og miðla reynslunni var haldin norræn ráðstefna í Veröld – húsi Vigdísar, 24. og 25. maí 2018. Auk fjölmenningarlegra verkefna Borgarbókasafnsins og samstarfsaðila voru þrjú norræn verkefni kynnt. 

Hugmyndin

Tilgangur ráðstefnunnar var að sýna fram á hversu miklum árangri má ná með fjölbreyttu skapandi samstarfi sem nær þvert yfir samfélagið allt. Hugmyndin var einnig að varpa ljósi á hlutverk bókasafna í fjölmenningarlegu samfélagi, skapa ný tengsl og hvetja til þróunar fleiri samstarfsverkefna á þessu sviði. 

Samstarfsaðilar

Ráðstefnan var haldin í samvinnu við Norrænu ráðherranefndina, Norska menningarráðið, Vigdísarstofnun, mennta- og menningarmálaráðuneytið og íslensku UNESCO nefndina og var hluti af samnorræna verkefninu “Inkluderende kulturliv i Norden”.

Meðal þeirra sem komu fram á ráðstefnunni voru Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti og velgjörðarsendiherra tungumála á vegum UNESCO- menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Eliza Reid, forsetafrú.

Í hlutverki ráðstefnustjóra var Eva María Jónsdóttir.

UPPTÖKUR FRÁ RÁÐSTEFNUNNI:

DAGUR 1 - smellið hér.

DAGUR 2  - smellið hér.