Café Lingua

Heill heimur af tungumálum

Café Lingua er gátt inn í mismunandi menningarheima og er tilvalinn vettvangur fyrir þá sem vilja hitta aðra, efla tungumálakunnáttu sína og hafa áhuga á að spreyta sig á ýmsum tungumálum. Markmið Café Lingua er að virkja þau tungumál sem hafa ratað til Íslands og hafa auðgað mannlíf og menningu.

Fólk með íslensku sem annað mál fær tækifæri til þess að tjá sig á íslensku sem og að kynna móðurmál sitt fyrir öðrum. Viðburðirnir fara fram í menningarhúsum Borgarbókasafnsins, í Veröld – húsi Vigdísar og í Stúdentakjallara Háskóla Íslands. Stundum er eitt tungumál tekið fyrir og stundum er um að ræða svokallað stefnumót tungumála. Allir sem hafa áhuga á tungumálum og vilja leggja sitt af mörkum til tungumálalandslags Reykjavíkur eru velkomnir. Þátttaka ókeypis. 

Café Lingua er samstarfsverkefni Borgarbókasafnsins og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum sem hefur aðsetur í Veröld - Húsi Vigdísar. 

Aðrir samstarfsaðilar: Mála- og menningardeild, námsleiðin Íslenska sem annað mál, nemendafélögin „Huldumál“ og „Linguae" við Háskóla Íslands og Íslenskuþorpið.

Hægt er að fylgjast með í Facebookhópnum Café Lingua - lifandi tungumál.

Starfið er hluti af innleiðingu stefnu menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar um fjölbreytta menningu í borginni 2017-2020 „Rætur og vængir”.

Myndband: Kynning á verkefninu Café Lingua

Myndband: Zain Alden greip hljóðnemann á arabísku Café Lingua í Gerðubergi

Nánari upplýsingar veitir:

Martyna Karolina Daniel, sérfræðingur fjölmenningarmála
martyna.karolina.daniel@reykjavik.is