Steinun Jóns og Ragga Holm

Um þennan viðburð

Tími
10:00
Verð
Frítt
Hópur
Börn
Aldur
9-12
Börn

Sumarsmiðja | Rappsmiðja

Mánudagur 12. júní 2023 - Föstudagur 16. júní 2023

Dreymir þig um að semja þitt eigið rapplag? Ragga Hólm og Steinunn Jóns úr Reykjavíkurdætrum gefa þátttakendum innsýn inn í sögu og eðli rapp tónlistar og kenna hvernig á að að semja og flytja sinn eigin texta. Lögð er áhersla á hugtökin inntak, flæði og flutningur.  Þátttakendur fá einnig að spreyta sig á að búa til takta og taka upp í hljóðveri. 

Smiðjan fer fram dagana 12.-16. júní frá kl. 10-12 og er fyrir krakka á aldrinum 9-12 ára. Takmarkað pláss er á námskeiðinu og skráning er nauðsynleg. Smiðjan er ókeypis.

Ragga Hólm er menntaður tómstunda- og félagsmálafræðingur og starfaði bæði sem aðstoðar forstöðumaður á frístundaheimili og félagsmiðstöð og hefur haldið margskonar námskeið fyrir grunnskólabörn, unglingadeildir og menntaskóla. Hún starfar nú sem útvarpskona, plötusnúður og rappari. Árið 2018 gaf Ragga einnig út sólóplötuna Bipolar sem fékk góðar undirtektir. 

Steinunn hefur starfað sem tónlistarkona og danskennari síðan 2011. Hún er einn af forsprökkum hljómsveitanna Reykjavíkurdætur og Amabadama. Fyrir texta sína á plötunni Heyrðu mig nú var hún tilnefnd textahöfundur ársins á íslensku tónlistarverðlaununum. Hún starfar nú einnig sem listgreina kennari í hinum ýmsu grunnskólum þar sem hún kennir bæði dans og textasmíð.  Hún hefur því mikla reynslu af því að vinna með börnum. 

Hljómsveitin Reykjavíkurdætur kom eins og stormsveipur inn í íslenskt menningarlíf fyrir um áratug og vakti strax mikla athygli fyrir hispurslausa texta, óheflaða framkomu og sérstöðu sína sem hópur kvenna í íslenskri rappsenu. Frá árinu 2013 hefur hljómsveitin komið fram í yfir 20 löndum, spilað á öllum helstu hátíðum og viðburðum hérlendis og unnið til virtra verðlauna á borð við MME verðlaunin sem Evrópusambandið veitir og viðurkenningu Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu. 

Hljómsveitin hefur síðustu misserin stefnt fleyi sínu á erlend mið en stimplaði sig rækilega inn að nýju í íslenskt tónlistarlíf með þátttöku sinni í Söngvakeppninni 2022. 

Dæturnar hafa á sínum starfsferli, gefið út þrjár plötur og fjölda smáskífa auk þess sem þær hafa staðið fyrir námskeiðum í textasmíð og rappi fyrir börn og haldið fyrirlestra bæði hérlendis og erlendis. 

Skráning er hafin á sumar.vala.is.

Nánari upplýsingar veitir:
Vala Björg Valsdóttir
vala.bjorg.valsdottir@reykjavik.is | 411-6270