Samkeppni | Jólalag Borgarbókasafnsins 2023
Síðastliðin jól 2022 efndi Borgarbókasafnið til jólalagakeppni í fyrsta sinn. Þar sem vel til tókst hefur verið ákveðið að gera jólalagakeppnina að árlegum viðburði þar sem öll geta tekið þátt.
Óskað er eftir frumsömdum lögum á stafrænu formi. Lögin mega vera með eða án texta, á íslensku eða hverju öðru tungumáli. Æskileg lagalengd er um það bil þrjár mínútur.
Við hvetjum öll sem langar að taka þátt til þess að bóka tíma í hljóðverinu okkar hér. Athugið að það er EKKI nauðsynlegt að taka upp í hljóðverinu okkar til þess að taka þátt.
Sem stendur er hægt að bóka tíma í hljóðverinu á mánudögum, þriðjudögum og miðvikudögum milli klukkan 15-17 og 17-19. Okkar dyggi hljóðmaður, Haraldur Ernir, er til staðar, ykkur til halds og trausts. Einnig er hægt að bóka rýmið til æfinga á fimmtudögum og föstudögum hér milli kl. 15-18.
Lokafrestur til að senda inn lag er föstudagurinn 1. desember kl. 23:59.
Lög sendist sem WeTransfer-hlekkur á netfangið: ulfarsa@borgarbokasafn.is ásamt upplýsingum um tengilið, þ.e. nafn, símanúmer og netfang.
Dómnefnd
Lögin verða lögð fyrir dómnefnd en í henni eru þrír vel valdir góðkunningjar bókasafnsins. Fyrst ber að nefna Hildi Björgvinsdóttur verkefnastjóra hjá hjá deild miðlunar og nýsköpunar hjá Borgarbókasafninu. Hildi er margt til lista lagt en hún lagði stund á klassískt píanó sem barn og unglingur og lét svo gamlan draum rætast og fór að læra á selló rúmlega tvítug. Hún hefur líka sungið í kórum og elskar að fara á góða tónleika.
Svo er það Þorgrímur Þorsteinsson, sérfræðingur á Borgarbókasafninu í Úlfarsárdal en hann er annar tveggja hljóðtæknimanna sem sjá um hljóðverið þar. Þorgrímur er menntaður tónlistarmaður og upptökustjóri og hefur sérhæft sig á sviði sígildrar tónlistar og jazztónlistar. Hann lauk námi við tónmeistaradeild Konunglega tónlistarháskólans í Kaupmannahöfn sumarið 2020 en lauk áður prófi í skapandi tónlistarmiðlun frá Listaháskóla Íslands (2015) og burtfararprófi í jazzgítarleik frá Tónlistarskóla FÍH (2017).
Síðast en ekki síst Jón Ólafsson, formaður dómnefndar, en hann er landsmönnum að góðu kunnur fyrir störf sín í tónlist og fjölmiðlum. Jón er meðlimur í hljómsveitinni Nýdönsk, hefur samið helling af lögum sem Íslendingar þekkja vel og er auk þess með útvarpsþætti á Rás 2 og í starfi sem framkvæmdastjóri Félags tónskálda og textahöfunda.
Úrslitin verða kynnt með hátíðlegri dagskrá föstudaginn 8. desember kl. 16:00 í salnum í Úlfarsárdal.
Höfundi Jólalags Borgarbókasafnsins 2023 býðst að fullvinna lagið með aðstoð hljóðmanns í hljóðveri Borgarbókasafnsins.
Takið þátt og látið jólaljós ykkar skína skært!
Úrslit - viðburður á heimasíðu.
Úrslit - viðburður á Facebook.
Jólalag Borgarbókasafnsins 2022
Sigurlagið í fyrra var einstaklega falleg jólaballaða, Christmas is my Favourite Time of the Year, en höfundur þess er hin 17 ára Ximena Díaz sem búsett er í Madrid!
Hægt er að lesa meira um Ximenu og nálgast lagið hennar hér.
Nánari upplýsingar veitir:
Stella Sif Jónsdóttir | Viðburðir
stella.sif.jonsdottir@reykjavik.is | 411 6270