Jólalag Borgarbókasafnsins 2022 er einstök jólaballaða!

Borgarbókasafnið efndi í ár í fyrsta sinn til jólalagakeppni og bauð safnið í Úlfarsárdal að því tilefni þeim notendum sem vildu, að koma í hljóðver safnsins, taka upp lag og senda í keppnina.

Nokkur skemmtileg lög bárust en að lokum valdi dómnefnd eitt lag sem þótti skara framúr. Er það lagið Christmas is my Favourite Time of the Year eftir hina 17 ára Ximenu Díaz sem búsett er í Madrid!


Lagið er einstaklega hugljúft „indie“ jólalag og er fólk samróma um að það sé mikil jólaballaða. Ximena tók lagið upp á símann sinn en hún bæði semur og syngur sjálf. Þegar lagið var tilbúið ákvað hún að leita að jólalagakeppnum á Alnetinu og kom þá Jólalagakeppni Borgarbókasafnsins fljótlega upp, þar sem flest efni á heimasíðu safnsins er aðgengilegt á ensku. 

Ximena hefur samið tónlist frá 10 ára aldri og stundar nú tónlistarnám í háskóla í Madrid. Hún hefur gefið út eitt lag á Spotify sem má hlýða á hér.
 

Um hvað fjallar lagið?

„Lagið Christmas is my Favourite Time of the Year er heimagert og mér finnst það túlka það sem jólin eru fyrir mér persónulega, að vera heima hjá sér með fólkinu sínu og njóta hlýjunnar og gleðinnar sem því fylgir. Þetta er mjög friðsælt lag svo ég vona að þau sem hlusta á lagið upplifi frið og ró innra með sér.“ 

Við óskum Ximenu innilega til hamingju með sigurinn. Lagið hefur slegið í gegn hjá starfsfólki bókasafnsins og vonum við að þið hin njótið líka!


Edda Margrét fékk sérstaka viðurkenningu fyrir frumsamið lag

Hin 8 ára gamla Edda Margrét Jonasdóttir fékk sérstaka viðurkenningu fyrir lagið Jólaró sem hún samdi og sendi inn í keppnina. Edda og fjölskylda hennar mættu i Hljóðverið í Úlfarsárdal með hljóðfæri sín og fengu aðstoð við að taka upp fullbúið jólalag. 

Á myndinni er Edda Margrét, sem lék á klarinett í laginu, ásamt foreldrum sínum Guðrúnu Rútsdóttur básúnukeikara og Jonas Haraldsson sem leikur á þverflautu. Bróðir Eddu, Emil Huldar spilaði á píanó og frænka þeirra, Rakel Elaisa lék á trompet.

Má með sanni segja að hér er einstaklega hæfileikarík og músíkölsk fjölskylda á ferð.