Velkomin á bókasafnið!
Borgarbókasafnið er kraumandi menningarmiðja í þínu hverfi. Hér finnur þú allt í senn, bækur, viðburði, þekkingu, tónlist, fróðleik og fyndni, kvikmyndir og myndlist. Hjá okkur getur þú upplifað eitthvað nýtt, mælt þér mót við vini, gluggað í blöð og tímarit eða slappað af í rólegu horni. Hér er einnig auðvelt að finna pláss til að læra, halda fundi eða taka þátt í klúbbum. Bókasafnið er opið rými allra. Komdu í heimsókn!
Ertu að koma í fyrsta sinn?
Ekki þarf bókasafnskort til að heimsækja söfnin og blaða í gögnum eða til að mæta á viðburði. Ef þú vilt hins vegar fá lánuð gögn, nýta þér sjálfsafgreiðslu á vefnum eða rafbókasafnið, þarftu að eiga skírteini.
Bókasafnskortið þitt
Þú getur keypt eða endurnýjað bókasafnskort hér á vefnum. Til þess þarftu að skrá þig inn með veflykli eða rafrænum skilríkjum, og greiða árgjald með kreditkorti. Sem stendur er ekki hægt að afgreiða ókeypis bókasafnskort á vefnum heldur verður að koma í afgreiðslu safnanna. Það á einnig við ef virkja þarf kort frá Bókasafni Seltjarnarness eða Bókasafni Mosfellsbæjar.
Hægt er að nota kortið í öllum söfnum Borgarbókasafnsins og bókabílnum, einnig í Bókasafni Seltjarnarness og Bókasafni Mosfellsbæjar. Þú getur tekið að láni og skilað á hverjum þessara staða sem er. Kortið gildir í 1 ár en þá þarf að endurnýja. Ekki henda kortinu, við virkjum það gamla að sjálfsögðu. Greiða þarf fyrir glatað kort. Handhafi kortsins er sá eini sem má nota það.
Með kortinu fæst aðgangur að bókum, tímaritum, hljóðbókum, myndasögum, tónlist á geisladiskum eða vínyl, kvikmyndum, raf- og hljóðbókum á Rafbókasafninu og aðgangur að Naxos streymisveitunum þar sem nálgast má tónlist og færðsluefni.
Kortið er ókeypis fyrir 17 ára og yngri, 67 ára og eldri, öryrkja og einstaklinga á endurhæfingarlífeyri. Aðrir greiða hóflegt árgjald. Sjá nánar í gjaldskrá. Handhafar Menningarkorta fá frí bókasafnskort, sjá nánar um Menningarkort.
Getum við aðstoðað?
Nú getur þú leitað í öllum safnkostinum okkar hér á vefnum og tekið frá þau eintök sem þú vilt fá að láni. Starfsfólk okkar aðstoðar þig með glöðu geði við að læra á leitarvélina og "Mínar síður", við að finna bækur og skrá þig inn á Rafbókasafnið og Naxos tónlistarveiturnar. Á leitir.is getur þú síðan leitað í öllum bókasöfnum landsins.
Í öllum söfnum eru sjálfsafgreiðsluvélar og það er auðvelt að læra á þær með aðstoð okkar. Ef efnið sem þig vantar er ekki til á þínu safni er ekkert mál að panta og fá sent frá öðrum söfnum. Þér er alltaf velkomið að leita til okkar og fá persónulega þjónustu á næsta safni, en þú getur einnig haft samband með því að skrifa okkur skilaboð á Facebook eða á borgarbokasafn@borgarbokasafn.is.
Vantar þig hugmyndir að lesefni?
Starfsfólkið okkar hefur óbilandi áhuga á bókum og er alltaf tilbúið að gefa góð ráð. Á söfnunum eru margvíslegar útstillingar með áhugaverðu efni og þú finnur sömuleiðis alls kyns bókalista undir innblæstri og bókmenntum á vefnum okkar. Lærðu að nota "Mínar síður" og búa til bókalista.
Fjölbreytt þjónusta og aðstaða á söfnunum
Vantar þig aðgang að tölvu, prentara eða skanna? Ekkert mál, á öllum söfnunum eru tölvur og hægt er að prenta gegn vægu gjaldi.
Er próf framundan? Hjá okkur er fín aðstaða til að læra undir próf fyrir einstaklinga eða hópa.
Í öllum söfnunum er fjölbreytt menningardagskrá fyrir börn og fullorðna og alltaf eitthvað að gerast. Auðvelt er að fylgjast með viðburðardagatalinu, fylgja okkur á Facebook, Instagram eða fréttabréfinu okkar.
Áskrift að menningu?
Ef þú átt menningarkort færðu bókasafnskort hjá Borgarbókasafninu og frían aðgang að öllum söfnum Listasafns Reykjavíkur og Borgarsögusafns Reykjavíkur. Meira um menningarkortið, tilboð og afslætti, á menningarkort.is.
Langar þig í myndlistarverk?
Artótekið í Grófinni býður upp á leigu og kaup á listaverkum eftir íslenska myndlistarmenn. Kíktu í heimsókn eða skoðaðu hjá okkur úrvalið á artotek.is.