Við matarborðið | Nemendur í FB ræða umhverfismál við listafólk

Við matarborðið er samvinnuverkefni Borgarbókasafnsins í Gerðubergi og nemenda í skapandi greinum í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti (FB). Borgarbókasafnið leitaði eftir samstarfi við nágranna sína í FB, með það að markmiði að styrkja tengslin við ungmennin í hverfinu og skapa nýjan vettvang þar sem umhverfismál væru í brennidepli og lausnamiðað samtal ætti sér stað. 

Skapandi fólki úr öllum áttum var boðið að leiða umræður við matarborðið en hist var mánaðarlega í Gerðubergi yfir sex mánaða tímabil. Starfsfólk bókasafnsins og nemendur settu sig í hlutverk gestgjafa og útbjuggu veitingar. Yfir kræsingunum var fjölmargt rætt tengt umhverfismálum, með áherslu á skapandi lausnir, samkennd og jarðtengingu

Stefnumótin urðu eins áhugaverð og innihaldsrík og þau voru mörg og er óhætt að segja að mikilvæg málefni hafi verið rædd, fræðsla hafi átt sér stað á báða bóga og lausnamiðuðuð samtöl farið fram.

Verkefnið hlaut styrk úr barnamenningarsjóði 2023. 

 

September 2023 | Við varðeldinn
Nemendur komu í heimsókn í Gerðuberg til að kynnast starfsfólkinu betur. Við settumst niður við varðeld, grilluðum brauð á trjágreinum og smurðum ýmsu góðgæti ofan á það. Við ræddum hvaða áherslur við vildum hafa á fyrri hluta verkefnisins og ákveðið var að vinna með þemað „líf í vatni“ þar sem það rímaði vel við áherslur í náminu. 

Þátttakendur sitja við varðeld

Október 2023 | Þaraveisla
Sólrún Arnarsdóttir, textílhönnuður, gerði skapandi rannsóknarvinnu með þara í verkefninu Þarahrat sem styrkt var af Rannís. Hún kom og sagði okkur frá nálgun sinni á þetta margþætta hráefni á meðan við snæddum þarasúpu. Hægt er að skoða ýmislegt tengt verkefninu á Instagramsíðu hennar Tharahrat.

Þarasúpa

Nóvember 2023 | Pizzan og hafið 
Arkitektinn og haffræðingurinn Sigrún Perla Gísladóttir kom í heimsókn, nýstigin upp úr sjónum, og sagði okkur frá forvitnilegum námsferli sínum. Sigrún stundar MA nám í Arkitektúr við LHÍ en áður lærði hún sjálfbærniarkitektúr í Árósum. Perla ræddi þær lífsákvarðanir sem ungt fólk stendur frammi fyrir í dag og lagði áherslu á að það væri í góðu lagi að skipta um stefnu á miðri leið. Einnig veitti hún okkur dýrmæta innsýn í hafið og lífríki þess. Á meðan bjuggum við til pizzur með ýmsu áleggi fengnu úr hafinu, svo sem þara og ansjósum. 


Janúar 2024 | Hreiðurgerð og fuglamatur
Við fengum til okkar Hlyn Steinsson, líffræðing sem einnig er með bakgrunn í listum. Hann hefur rannsakað fuglamállýskur undanfarið og gaf okkur innsýn í þá rannsókn. Auk þess skoðuðum við hreiður og það efni sem fuglar nota í hreiðurgerð. Við bjuggum til fuglamat, litlar kúlur úr fræjum og kókosolíu sem við smökkuðum á  og gáfum svo fuglunum. Umræðurnar fóru um víðan völl og við beindum athyglinni að fuglum í borgarlandinu og hvaða áhrif þeir hafa á okkur og við á þá. Til að mynda hafði fugl eins nemanda lært hringitóninn í símanum hennar og söng hann þegar hún birtist. Einnig ræddum við um gæludýrakirkjugarða og tengsl okkar við gæludýrin okkar.

Febrúar 2024 | Ýmislegt ofan á brauð og jarðtengingar
Edda Kristín Sigurjónsdóttir, hönnuður, garðyrkjunemi og myndlistarkona, heimsótti okkur og við snæddum saman ýmislegt ofan á brauð s.s. fjólubláar kartöflur. Við skoðuðum myndir af rafsegulbylgjum, fórum út í geim í huganum og heyrðum sögur af geimförum, veltum fyrir okkur draugum, hægra og vinstra heilahvelinu, ræddum áhrif lita á heilann og lærðum að gera símann okkar grátóna svo auðveldara sé að leggja hann frá sér. Við ræddum innsæið og hvernig við vitum stundum án þess að geta útskýrt með rökum. Við skoðuðum einnig prentaðar myndir af súrdeigsbrauði, kóralrifum, garðrækt, kisum, sólskini í Reykjavík og fleira.

Mars 2024 | Hafragrautur og út fyrir þægindarammann
Listakonan Dýrfinna Benita er úr Breiðholtinu og hefur unnið með það í verkum sínum en einnig tveggja heima sýn þar sem hún á líka ættir að rekja til Filippseyja og hefur unnið með hvoru tveggja í list sinni. Hún ræddi við okkur um tengslamyndum, að nýta þann efnivið sem er í nálægu umhverfi og eins hvernig hún vinnur með mat og matarhefðir í verkum sínum. Á meðan umræðum stóð snæddum við hafragraut með alskyns sáldri. Dýrfinna vinnur í mörgum miðlum og hvatti nemendur til að fara út fyrir þægindarammann og vera óhrædd við að tileinka sér tækni og nýjar aðferðir. 

Verkefninu Við matarborðið verður fram haldið haustið 2024. 
 

Nánari upplýsingar veitir: 
Ilmur Dögg Gísladóttir, deildarstjóri
ilmur.dogg.gisladottir@reykjavik.is | 411 6173

Flokkur
UppfærtMiðvikudagur, 15. maí, 2024 12:55