Saga og markmið - Menningarmót

Menningarmót

Sagan

Menningarmótsverkefnið, sem er líka þekkt undir nafninu “Fljúgandi teppi”, er þverfagleg aðferð í starfi með börnum og fullorðnum, hugsuð til þess að varpa ljósi á styrkleika og fjölbreytta menningarheima þátttakenda. Kristín R. Vilhjálmsdóttir, sem er kennari og verkefnastjóri fjölmenningar hjá Borgarbókasafni, er hugmyndasmiður verkefnisins sem varð til í kennslustofu hennar  í Danmörku árið 2000. Hún hefur mótað og notað Menningarmótin með góðum árangri í kennslu á Íslandi síðan 2008 og leiðbeint við að innleiða verkefnið í fjölmörgum skólum í Reykjavík á vegum Borgarbókasafns.

Markmið

  • Að skapa hvetjandi umhverfi þar sem nemendur, foreldrar og starfsfólk geta hist og kynnst menningu hvers annars.

  • Að stuðla að gagnkvæmri virðingu og skilningi.

  • Að skapa vettvang þar sem við getum undrast og hrifist af því sem er líkt og ólíkt í menningu okkar.

  • Að allir mætist í tónlist, dansi, myndlist, bókmenntum, kvikmyndum, matargerð, ævintýrum og goðsögnum, frásagnarlist, leiklist, leik og hreyfingu.

  • Að nemendur veiti öðrum hlutdeild í því stolti og þeirri gleði sem fylgir því að miðla eigin menningu á skapandi hátt.

  • Að einstaklingar verði meðvitaðir um gildi eigin menningar og mikilvægi þess fyrir mótun sjálfsmyndar við að veita öðrum innsýn í sinn heim.

  • Að þátttakendur geri sér ljóst að fjölbreytileiki og ólík tungumál mynda menningarlegt litróf í samfélaginu sem opnar augu okkar gagnvart heiminum.

Allar nánari upplýsingar er að finna á vef verkefnisins: www.menningarmot.is.

Nánari upplýsingar veitir

Guðrún Dís Jónatansdóttir
Deildarstjóri – Miðlun og nýsköpun
gudrun.dis.jonatansdottir@reykjavik.is