Jóladagatal 2017 | Jósi, Katla og jólasveinarnir

Jósi, Katla og jólasveinarnir var saga jóladagatals Borgarbókasafnsins árið 2018. Höfundur er Þórarinn Leifsson.

 

1 – Þórkatla og Jósúa

„Veistu hvað er sérstakt við daginn í dag?“ spurði mamma Þórkötlu einn föstudagsmorgun.

„Já,“ ansaði Þórkatla og stökk fram úr rúminu. „Í dag er síðasti dagur vikunnar og þess vegna þarf ég ekki að fara í skólann á morgun.“

„Alveg rétt ansaði mamma. En aðal atriðið er samt að í dag eru einungis tuttugu og fjórir dagar til Jóla.“

„24 dagar þangað til að pabbi gefur mér Playstation tölvu?“

„Ég sagði það aldrei,“ galaði í pabba hennar inni í eldhúsi.

„Þú sagðir það víst!“

„Hvenær?“

„Upp úr svefni!“

„Nei heyrðu mig nú …“

Pabbi náði ekki að klára það sem hann var að segja því nú hringdi dyrabjallan. 

„Þetta er örugglega hann Jósúa litli,“ sagði pabbi og gleymdi því um leið að hann ætlaði að verða argur út af jólagjöfum.

„Æ já hann Jósúa,“ hló mamma. Því öllum líkaði þeim vel við nágrannan af hæðinni fyrir neðan. Dökkhærði drengurinn með brúnu augun var þannig gerður að fólki leið sjálfkrafa vel innan í hjartanu þegar það hitti hann. Jósúa kom frá landi langt í burtu þar sem aldrei sást snjór en hann var búinn að læra næstum fullkomna íslensku á því hálfa ári sem hann hafði búið í Reykjavík.

Þórkatla hélt því fram að hún ein hefði kennt Jósua íslensku um sumarið og það var í raun ekki fjarri lagi því börnin léku sér saman öllum stundum og voru núna samferða í og úr skóla á hverjum degi.

„Sæll, Jósúa minn,“ sagði mamma. „Ertu bara búinn að borða morgunmat og komin af stað í skólann?“

„Já,“ sagði Jósúa. „Mamma leifði mér að fara upp að sækja Þórkötlu. Ef við leggjum af stað núna þá verðum við komin niður í skóla akkúrat klukkan átta.“

2 – Þórkatla segir Jósúa frá jólunum

„Nú eru bara 23 dagar til jóla!“ sagði Þórkatla við Jósúa litla þar sem þau sátu við eldhúsborðið heima hjá honum. Mamma Jósúa hafði sett framandi kökur á borðið. Þær voru frá landinu þeirra. Þessar kökur voru það sætasta sem Þórkatla hafði nokkurn tímann smakkað og þau drukku kókómalt með.

„Til Jóla?“ sagði Jósúa litli. „Þangað til að ég á afmæli meinarðu?

„Nei, kjáninn þinn! Þangað til að það koma jól! Þekkirðu ekki jólin? Þá fá allir krakkar rosalega margar gjafir.“

„En ég á samt afmæli tuttugugustaogfjórða desember!“ sagði Jósúa litli ákafur.

„Það var skrítið,“ ansaði Þórkatla og hrukkaði ennið lítið eitt. „Eða eins og afi minn segir stundum: Mjög skrítin tilviljun. Ef þú átt í alvöru afmæli á jólunum þá færðu örugglega ennþá fleiri pakka.

Börnin litu bæði spyrjandi upp á mömmu Jósúa sem brosti bara tilbaka um leið og hún benti á kökurnar og sagði: „Viltu meira?“ 

„Viltu meira“ var ein af örfáum setningum sem hún hafði tileinkað sér á íslensku. Fullorðnir eru nefnilega svo miklu lengur að læra tungumál heldur en börn.

„Þekkirðu ekki jólin, Jósúa?“ spurði Þórkatla. „Íslensk börn hlakka til jólanna næstum því allt árið.“

„Jú jú,“ ansaði Jósúa litli. „Það var líka haldið upp á jólin hjá okkur. En við vorum svo ósköp fátæk á þessum stað sem við vorum. Ég man samt eftir einhverjum mönnum að spila á sekkjapípur og að fólkið var með falleg ljós út um allt.“

„Sekkjapípur!“ hló Þórkatla. „Hvað er nú það?“

„Svona poki með pípum,“ ansaði Jósúa. „Kemur ægilega skrítið hljóð úr honum.“

„Það eru til allskonar jólasiðir í heiminum,“ sagði mamma Þórkötlu sem var komin til að ná í dóttur sína. „Landinu sem Jósúa fæddist í var einu sinni stjórnað af englendingum og þeir komu með þessar sekkjapípur.“

„Eins og okkur var stjórnað af danska kónginum?“

„Já, einmitt!“ ansaði mamma og var svolítið montin af dóttur sinni.

Sekkjapípa

3 – Aðventa byrjar

„Nú er aðventan byrjuð!“ hrópaði Þórkatla um leið og hún kom hlaupandi inn til Jósúa.

„Aðventa?“ hváði Jósúa. „Ferlega er það nú skrýtið orð.“

„Mamma segir að það komi úr latínu. Tungumálinu sem rómverjarnir töluðu. Þú veist hverjir rómverjarnir voru, er það ekki? Gæjarnir í Ástríks bókunum?“

„Jú, auðvitað,“ ansaði Jósúa. „Rómverjar voru líka í landinu mínu í fornöld. Þeir skildu eftir sig alveg fullt af  húsum og vegum sem er ennþá hægt að skoða þótt þeir hafi dáið fyrir mörg þúsund árum!“

„Bíddu,“ spurði Þórkatla og hrukkaði ennið. „Bjuggu þá Ástríkur og Steinríkur í landinu þínu líka?“

„Nei, þeir bjuggu í Frakklandi. Rómverjar voru svo duglegir að fara út um allt. Þeir voru líka í frakklandi. Og einu sinni sigldi einn rómverji meira að segja alla leið til Íslands!“

„Þið gleymið ykkur alveg í þessum rómverjum,“ hló pabbi Þórkötlu sem var á leið niður stigaganginn að ná í dagblað. „Ætlaðirðu ekki að segja Jósúa frá Aðventunni, Þórkatla?“

„Jú! Sko Jósua! Aðventa kemur af rómverska orðinu Advent sem þýðir að einhver sé að koma.“

„Jólasveinninn?“

„Já eða jólin. Komdu núna með mér upp Jósúa! Mamma er búin að búa til ofsalega fallegan aðventukrans með kertum. Við megum kveikja á einu kerti núna og svo einu á hverjum sunnudegi fram að jólum!“

Þórkatla taldi á fingrunum því hún hafði svo gaman að tölum.

„Í dag er þriðji desember,“ sagði hún. „Þá eru þrír sunnudagar eftir og þrjú kerti.“

„Alveg rétt!“ staðfesti pabbi hennar sem kom aftur upp stigan rétt í þessu.

4 – Skór út í glugga

Það var mjög gaman í skólanum á mánudegi. Og strax eftir skóla léku Þórkatla og Jósúa og fleiri börn sér við að búa til eldfjöll í stórum sandkassa beint fyrir utan skólann. Jósúa bjó til eldfjallið Kötlu og þegar Þórkatla var að klára að moka upp heilann Eyjafjallajökul hjá stóru rólunni mundi hún eftir svolitlu skemmtilegu.

„Jósúa! Hvað fékstu í skóinn í morgun?“

„Í skóinn,“ hváði Jósúa og horfði niður á nýju stígvélin sín.

„Veistu ekki hvað er að fá í skóinn?“

Jósúa hristi hausinn.

„Öll börn setja annan skóinn sinn út í glugga og þá kemur Jólasveinninn og setur eitthvað fallegt í hann. Einhverja smágjöf. En bara ef við erum þæg. Ef við erum óþekk þá fáum við kartöflu í staðinn.“

„Jólasveinninn?“ spurði Jósúa og virtist örlítið ringlaður.

„Já þekkirðu hann ekki? Hann er með mikið hvítt skegg og í rauðum fötum með hvítum ermum og kraga. Rosalega stór með hreindýr og segir hohhoho …“

„Hvernig kemst hann inn?“

„Hvað meinarðu?“

„Þú segir að hann setji smágjafir í skóinn. Hvernig getur hann það? Er hann með lykla?“

„Nei, alveg örugglega ekki. Jólasveinninn fer á þúsund heimili og getur varla verið með lykla að þeim öllum. Þá væri lyklakyppan á stærð við fótbolta.“

„Hvernig kemst hann þá? Svona stór og feitur!?“

„Ég hef bara ekkert pælt í því. Gegnum gluggann kannski?“

„Já, en gluggarnir í húsinu okkar eru svo mjóir! Að minnsta kosti þeir sem hægt er að opna.“

„Þórkatla yppti öxlum. Hann kom allvega í nótt. Sjáðu, hann gaf mér þennan spilastokk!“

Leikjatölva í skó

5 – Vondir karlar

Þennan þriðjudagsmorgun kom Jósúa ekki eins og venjulega að ná í Þórkötlu. Þegar hún lagði ein af staði skólann mætti hún honum neðst í stigaganginum. Hann sat með hönd undir kinn og virtist mjög áhyggjufullur. 

„Hæ, Josúa! Af hverju ertu svona dapur á svipinn?“

„Af því að mér líður illa  í hjartanu,“ sagði Jósúa litli.

„Af hverju þá?“

„Það á að senda mig og mömmu og pabba og litla bróður tilbaka í land þar sem er stríð. Kannski munu mamma mín og pabbi deyja. Hvað verður þá um mig og litla bróður?“

„Um hvað ertu að tala?“ spurði Þórkatla. „Svona gerist nú bara í bíómyndum!“

„Þetta er alveg dagsatt,“ ansaði Jósúa. „Í gær þegar mamma var búin að segja góða nótt þá gat ég ekki sofnað alveg strax. Ég velti mér bara í rúminu og varð á endanum mjög þyrstur. Þess vegna læddist ég fram á bað til að fá mér vatn að drekka. Þegar ég var á leiðinni tilbaka sá ég að mamma og pabbi sátu við eldhúsborðið. Mamma grét og sagði eitthvað um að hún skildi ekki af hverju það ætti að senda okkur tilbaka. Pabbi væri með svo góða vinnu og henni hlakkaði til að fara að vinna líka. Svo grét hún bara og pabbi var að hugga hana alveg heil lengi.“

„Og hverjir eru að fara að senda ykkur hvert?“

„Ég veit það ekki,“ sagði Josúa. „Kannski einhverjir vondir karlar? Svona glæpamenn?“

„Þetta hlýtur að vera einhver misskilningur,“ sagði Þórkatla eftir stutta umhugsun. „Ég skal spyrja mömmu og pabba, þau geta kannski útskýrt þetta. Pabbi minn er í lögreglunni, hann mun aldrei leifa glæpamönnum að senda ykkur úr landi!“

6 – Hælisleitendur

„Hvert ætla vondu karlarnir að senda Jósua?“ spurði Þórkatla við morgunverðarborðið.

Pabba hennar brá svo mikið að honum svelgdist á kaffinu: „Hvað ertu að segja barn!?“ hóstaði hann.

„Það eru að koma rosa vondir karlar að ná í Jósúa og mömmu hans og pabba og litla broður. „Þau verða kannski sótt um miðja nótt og send úr landi.“

„Ekki á minni vakt,“ sagði pabbi nú rólegri og leit í áttina að mömmu Þórkötlu eins og hann vonaðist til að hún útskýrði hlutina eins og venjulega.“

„Æ, Þórkatla mín,“ sagði mamma. „Þau verða aldrei send í burtu svona rétt fyrir jól.“

„Það er þá satt!“ kallaði Þórkatla. „Þau verða í alvöru send í burtu? Þau verða send eitthvert langt langt í burtu og þau munu deyja!“

„Róleg Þórkatla mín! Það er enginn að fara að deyja hérna!“ sagði pabbi hennar. „Pabbi þinn reddar þessu.“

„Hvernig ætlarðu að gera það?“ hváði mamma Þórkötlu.

„Ég skrifa bréf,“ sagði pabbi og varð um leið hálf lúpulegur því að í raun vissi hann ekkert hvað hann átti að gera.

„Þannig að þetta er þá alveg satt!?“ hrópaði Þórkatla.

„Já og nei,“ ansaði mamma hennar. „Jósúa og fjölskylda eru hælisleitendur, Þórkatla mín. Þau eru að sækja um hæli á Íslandi vegna þess að í landinu sem þau koma frá er alltaf eitthvað stríð og þau vilja bara vera örugg eins og við hin.“

„En þau eru alveg örugg á Íslandi?“

„Já, auðvitað eru þau örugg hér!“

„En af hverju á þá að senda þau í burtu?“

„Æ, sumt er mjög flókið að útskýra fyrir börnum, Þórkatla mín.“

Grímuklæddur byssumaður

7 – Föndur í skólanum

Á fimmtudeginum var eins og allir væru allt í einu komnir í  hátíðarskap þótt ennþá væru tvær vikur til jóla. Allir bekkir í skólanum kepptust við að föndra músastiga og allskonar jólaskraut. 

„Hvað sögðu foreldrar þínir,“ spurði Jósúa litli Þórkötlu þegar engin af hinum krökkunum heyrðu til.

„Það var nú mest lítið,“ dæsti Þórkatla. „Þau voru að reyna að ljúga því að mér að það væri allt í lagi og að ekkert muni gerast fyrir jól. Svo þetta venjulega með að það sé erfitt að útskýra hlutum fyrir börnum. En það er sko alveg klárt að það eru að koma vondir karlar og ná í ykkur mjög fljótlega.“

„Æi,“ kveinaði Jósúa litli. „Af hverju eru til vondir karlar? Hvað get ég gert?“

Þórkatla ætlaði að svara strax og róa besta vin sinn. En aldrei þessu vant vafðist henni tunga um tönn. Hún varð bara ægilega leið og varð að hafa sig alla við að halda aftur á tárum sem vildu riðjast út um augun.

„Sitjið þið hér ennþá krakkar mínir!?“ kallaði kennarinn allt í einu. „Allir hinir krakkarnir eru farnir niður í anddyri að fá sér djús og smákökur. Eruð þið ekkert svöng?“

„Jú,“ ansaði Jósúa. „Við erum ósköp svöng!“

Við þetta brosti kennarinn út af eyrum því Jósúa var í miklu uppáhaldi. Aldrei hafði útlenskt barn lært íslensku jafn hratt. 

„Annars á Jósúa á að fara í þjóðminjasafnið með sínum bekk í dag meðan Þórkatla ver í sundtíma. Ég held að þið verðið að fara að haska ykkur, krakkar mínir!“

Og þannig gleymdu börnin um stund að þau voru bæði hrædd og döpur.

8 – Íslenskir jólasveinar

„Ég var að hugsa um þetta sem þú varst að segja mér um jólasveininn sem kemur með pakkana,“ sagði Jósúa litli við Þórkötlu á föstudegi þegar þau voru komin heim úr skólanum.

„Já …“ ansaði Þórkatla svolítið annars hugar. Hún var nýbúin að finna rosalega skemmtilegan leik í Ipaddinum.

„Sagðirðu ekki að hann væri í svona rauðum búning með hvítt skegg?“

„Jahá!“ sagði Þórkatla og henti frá sér ipaddinum. „Og með breitt belti og hreindýr og með stórann poka fullan af gjöfum!“

„Það er heilagur Nikkúlás!“ sagði Jósúa litli og varð alvarlegur á svipinn. „Hann er líka kallaður kóka kóla jólasveinninn. Hann er sko ekkert íslenskur jólasveinn.“

„Hvaða vitleysa!“ hló Þórkatla. „Hann kemur alveg og heimsækir okkur líka á jólunum!“

„Nei,“ ansaði Jósúa litli ákveðinn. „Ég fór á bókasafnið í gær og veistu það er enginn svona rauðklæddir jólasveinar á Íslandi. Hingað koma bara íslensku jólasveinarnir. Og þeir eru ekki bara einn og ekki bara tveir. Þeir eru þrettán! 

Og allir mjög vondir. “

„Þvílík vitleysa!,“ hló Þórkatla.

„Alveg dagsatt,“ sagði Jósúa litli alvarlegur í bragði. 

„Hvernig geturðu verið svona viss um þetta?“

„Ég fór í þjóðminjasafnið í gær. Og þar var maður að segja okkur frá þessu. Íslensku jólasveinarnir heita hræðilegum nöfnum eins og Stekkjastaur og Giljagaur og …“

Allt í einu þögnuðu börnin því þeim datt það sama í hug á sama tíma. Þórkatla horfði lengi á Jósúa litla áður en hún spurði hvort hann héldi að það væru íslensku jólasveinarnir sem ætluðu að ná í Jósúa og foreldra hans og senda þau öll langt í burtu frá Íslandi. Jósúa ansaði svo lágt að Þórkatla varð að lesa svarið af vörum hans: „Já, ég held það.“

9 – Piparkökubakstur

Þennan laugardag voru fjölskyldurnar tvær að baka piparkökur. 

Mamma Þórkötlu var að sýna  mömmu Jósúa hvernig maður býr til piparkökudeig. Mamma Jósúa kenndi henni á móti að gera allskonar framandi kökkur með hnetum og súkkulaði. Meðan börnin biðu eftir að deigið yrði tilbúið skemmtu þau sér konunglega við að hlusta á  Dýrin í Hálsaskógi af grammafón. Þau sungu með og hermdu eftir Lilla klifurmús og Mikka ref.  Jósúa hló svo mikið þegar Mikki refur var að hnerra að hann datt niður af stólnum. Pabbar Þórkötlu og Jósúa hömuðust við að fletja út piparkökudegið þangað til að það varð næstum jafn þunnt og grammafónplata.

Þá var hægt að skera út myndir í deigið. Krakkarnir notuðu piparkökustensla og mótuðu þannig kökur sem voru í laginu eins og stjörnur og hjörtu og litlir karlar. Útskornar kökurnar lögðu þau varlega ofan á stóra ofnplötu sem var löðrandi í smjöri svo þær festust ekki við botnin.

Pabbarnir tóku  deigið sem gekk af jafn óðum og flöttu það út aftur svo þau gátu búið til fleiri kökur. Svona fóru þau að lengi vel þangað til að allt deigið var loksins búið.

Þá stóðu pabbarnir upp frá borðinu og fór með plötuna inn í eldhús til að baka kökurnar. Börnin horfðu á eina bíómynd í sjónvarpinu meðan þau buðu eftir bakstrinum og eftir því að kökurnar hefðu kælst nóg til að hægt var að skreyta þær.

Seinni part dags var piparkökunum raðað ofan á smjörpappír á stofuborðinu. Pabbi Jósúa var líka búinn að blanda liti ofan í súpuskálar og nú gátu krakkarnir skreytt kökurnar með gulum, bláum, rauðum og hvítum litum. Þau voru að þessu langt fram á kvöld.

Piparkökur

10 – Jólamarkaður

„Hvert erum við annars að fara?“ spurði Þórkatla þar sem hún sat aftur í og hjúfraði sig upp að Jósúa, því henni var ósköp kalt.

„Á jólamarkaðinn!“ hló mamma úr framsætinu. „Varstu ekkert að hlusta á okkur áðan?“

„Neibb,“ svaraði Þorkatla hálf skömmustuleg.

„Við vorum að halda sameiginleg jól í ár. Jósúa og fjölskylda munu borða uppi hjá okkur og þess vegna kemur Jósúa með okkur á jólamarkaðinn …“

„Vá en gaman!“ kallaði Þórkatla. „Erum við kannski að fara að kaupa jólatréð í dag?“

„Nema hvað!“ ansaði pabbi og þá réði Þórkatla sér ekki fyrir kæti. Hún lamdi svo fast í rúðuna að mamma hennar bað hana að hafa sig aðeins hæga.

„Hvað er jólatré annars?“ spurði Jósúa.

„Veistu það ekki?!“ ansaði Þórkatla. „Jólatré er það yndislegasta í heimi! Það er grænt! Það er hærra en hæsti maður sem þú hefur séð og það er hægt að skreyta það með allskonar föndri og ljósaseríum. Og á jólunum eru síðan fullt af pökkum undir því! Pökkum handa þér og mér!“

Bíllinn keyrði út fyrir Reykjavík og beygði inn eftir sveitavegi. Jósúa glennti upp augun því á því hálfa ári sem hann hafði búið á íslandi hafði hann ekki farið oft út fyrir Reykjavík. Honum fannst mosagróið hraunið svo ósköp fallegt. Fljótlega sáu þau glitta í tjörn og reisulegt steinhús umkringt sölubásum og jólatrjám.

„Nú verðið þið að sammælast um tréð,“ krakkar mínir, sagði pabbi. „Það má þó ekki vera hærra en tveir metrar. Annars komum við því ekki með góðu móti inn í bílinn.“

11 – Grýla og Leppalúði

„Fyrsti íslenski jólasveinninn kemur á morgun,“ sagði Jósúa þegar börnin hittust á mánudagsmorgni á leið í skólann. „Það er nefnilega tólfti desember.“

„Engar áhyggjur,“ ansaði Þórkatla róleg. „Segðu mér nú allt sem þú ert búinn að komast að á bókasafninu.“

„Okei,“ sagði Jósúa og dró þykka bók upp úr skólatöskunni. „Ég náði í þessa í gær. Íslensku jólasveinarnir eru allir alveg ömurlegir náungar og foreldrar þeirra eru sko ekkert skárri. Þau heita Grýla og …“

„Grýla!“ kallaði Þórkatla svo hátt að fólk leit upp því það hélt að hún hefði meitt sig.

„Sagðirðu Grýla?!“ 

„Já!“

„Ég veit alveg hver Grýla er! Ógeðsleg kerling sem mamma er alltaf að hóta að komi ef ég er óþekk. Hún er alveg mjög leiðinleg!“

„Leiðinlegri en Glúmur stærðfræðikennari?“

„Miklu, miklu leiðinlegri en Glúmur gamli! Og svo er hún rosalega vond líka. Veistu hvað hún gerir?“

Jósúa hristi hausinn.

„Hún borðar börn!“ hló Þórkatla.

„Þú hlærð! Ertu ekki hrædd?“

„Nei nei. Íslenskar stelpur eru aldrei hræddar við neitt. Við verðum bara voðalega reiðar. Það eru nefnilega kvenréttindi á Íslandi! Og svo er Grýla pottþétt ekkert að borða börn í dag.  Pabbi segir að hún sé örugglega að vinna í einhverju húsi sem hann kallar innheimtustofnun. Mamma segir reyndar að það sé bara bull í pabba.  Svo á hún mann sem heitir Leppalúði. Þú veist … Leppa … Lúði.  Hann er sko fyrsti lúðinn skilirðu.“

Jósúa litli fór að hlæja. 

„Þú ert svo fyndin stundum Þórkatla! Og þú ert ekkert hrædd við íslensku Jólasveinana?“

„Ó, nei. Við sko rúllum þeim upp.“

„Hvað meinarðu?“

„Afi segir þetta alltaf. Við rúllum þessu upp. Það þýðir að maður er duglegur að klára eitthvað.“

Samtal

12 – Stekkjastaur stelur bensíni

„Þarna er sá fyrsti,“ sagði Jósúa og benti ofan í bókina. „Stekkjastaur.“

„Skrítið nafn!“ ansaði Þórkatla.

„Það stendur hérna að hann sjúgi mjólk úr sauðkindum en það búa bara engar sauðkindur í Reykjavík.“

„Kannski í húsdýragarðinum?“ skaut Þórkatla inn í.

„En kannski þýðir þetta eitthvað annað,“ sagði Jósúa og hrukkaði ennið því hann þurfti að hugsa svo mikið.

„Hvað áttu við?“

„Stundum tákna hlutir eitthvað allt annað en manni sýnist fyrst.“

„Getur sauðkind táknað annað en sauðkind?

„Það þarf ekki að vera en það getur samt vel verið. Það sem fullorðna fólkið kallaði sauðkind í gamla daga getur verið eitthvað allt annað í nútímanum.“

Þórkatla horfði í kringum sig. Fyrst á skólabygginguna og síðan út fyrir skólalóðina og loks á umferðina í fjarska.

„Bílar!“ kallaði hún allt í einu. „Stekkjastaur er ekkert að fara að stela mjólk frá kindunum, hann er að fara að stela bensíni úr bílunum. Hann er bensínþjófur!“

„Og hvað gerum við þá?“ hváði Jósúa.

„Við hringjum í pabba auðvitað,“ansaði Þórkatla kokhraust. „Stekkjastaur kemur örugglega fyrst við niðri á bensínstöð og þar getur pabbi mjög auðveldlega handtekið hann.“

Þórkatla dró upp farsíma sem hún hafði fengið gefins um haustið og hringdi í pabba sinn. Fyrst varð pabbi svolítið reiður af því að Þórkatla átti víst bara að hringja í hann þegar eitthvað mikið var að. En henni tókst smám saman að sannfæra hann um alvarleika málsins. Svo þegar börnin hittu pabba Þórkötlu um kvöldmatarleytið tilkynnti hann þeim að að Stekkjastaur hefði verið handtekin á bensínstöð einmitt þegar hann var búinn að dæla bílinn sinn fullann og ætlaði að stinga af án þess að borga.

13 – Giljagaur þambar gosið

„Hvað heitir næsti jólasveinn,“ spurði Þórkatla æst á miðvikudegi eftir skóla.

„Giljagaur,“ ansaði Jósúa og sýndi henni jólasveinabókina.

„Giljagaur? Skrýtið að heita eitthvað með gaur! Hvað gerir svona gaur?“

„Það stendur hérna að hann feli sig í fjósinu.“

„Fjósinu?“

„Í gamla daga voru kýrnar geymdar í húsi sem var kallað fjós.“

„En hér eru engar kýr. Hvað getur þetta verið?“

Jósúa las áfram.

„Giljagaur fleytir froðu ofan af mjólkurfötum.“

„Hér eru sko engar mjólkurfötur heldur.“ 

„Kannski fer hann bara í ískápinn og …“

„Nei nú veit ég!“ hrópaði Þórkatla. „Hann fer pottþétt inn í eldhús og drekkur gosið hans pabba. Pabbi er sko gosfýkill segir mamma. Drekkur tvo lítra af gosi á dag þegar hann er ekki á vakt.“

„Er hann svona alkóhólisti?“

„Ha hvað er það?“

„Maður sem drekkur stundum of mikið vín og verður veikur?“

„Nei, pabbi drekkur bara gos.“

„Drekkur hann eldgos?“

„Nei Jósúa,“ ansaði Þórkatla þolinmóð. „Á Íslandi notum við sama orðið yfir gos og gos. Gos í flösku og svo eldgos … bíddu ég var að fá hugmynd! Ég veit hvernig við stoppum Giljagaur af!“

Börnin flýttu sér nú fram í eldhús og hristu duglega allar gosflöskur sem þau komust yfir. Jósúa fann upp á því að setja eina flösku í plastpoka og sveifla henni í hringi fyrir ofan hausinn á sér. Börnin hættu ekki fyrr en þau heyrðu einhvern opna dyrnar inni í forstofu. Þá flýttu þau sér að fela sig undir sófanum inni í stofu. Þau héldu niðri í sér andanum þegar Giljagaur læddist inn í búr til að drekka gosið. Þegar hann opnaði fyrstu flöskuna heyrðist hátt hvæs, síðan ægilegt garg og loks hröð fótatök þegar Giljagaur ruddist grenjandi í gegnum stofuna og út úr íbúðinni.

Grátandi

14 – Stúfur dulbýr sig sem barn

„Hvaða jólasveinn kemur er í dag?“ spurði Jósúa. „Nennirðu að líta í bókina?“

„Hann heitir stúfur,“ ansaði Þórkatla. „Hann er ósköp lítill, jafnvel dvergur. Í gamla daga stal hann pönnum og borðaði innan úr þeim.“

„Hvað getur Stúfur verið í nútímanum?“ spurði Jósúa. „Lítill karl sem rænir matnum frá okkur?“

„Kannski hefur hann dulbúið sig sem barn,“ sagði Þórkatla.

„Þá er hann er kannski í leikskólanum hans litla bróður?“

„Já og þá þurfum við bara að spyrja hvort það séu einhver ný börn í skólanum.“

Og nú nuðuðu börnin um að fá að fara með mömmu Jósúa að sækja litla bróður í leikskólann. Mamman var meira en lítið hissa því þetta var í fyrsta sinn sem Jósúa sýndi leikskóla litla bróður einhvern áhuga. Jósúa var vanur að hverfa upp til Þórkötlu eftir skóla. Hann leit naumast við litla bróður fyrr en eftir kvöldmat.

En nú stóðu Jósúa og Þórkatla og góndu á litlu börnin meðan mamma Jósúa reyndi að klæða litla bróður í kuldagalla. Það var alls ekki auðvelt því bæði var mamman ekki vön svona flík og litli bróður mjög fjörugur.

Ein fóstran tók fljótlega eftir þessum tveim forvitnu skólakrökkum sem stóðu í gættinni. Fóstra þessi var það sem fullorðna fólkið kallar að vera barnahvíslari. Hún gat látið krakka kjafta frá öllu á augabragði og var því ekki lengi að veiða erindið upp úr Þórkötlu.

En þegar Þórkatla sagði fóstrúnni frá því að Stúfur jólasveinn væri að öllum líkindum að fela sig í leikskólanum dulbúinn sem barn fékk fóstran svo heiftarlegt hláturskast að hún fékk illt í magann og varð að fara heim til sín. Fullorðið fólk trúir nefnilega alls ekki að jólasveinar séu til í alvöru. Hvað þá dvergvaxnir jólasveinar.

15 – Þvörusleikir á ballinu

„Hvað sagðirðu að jólasveinn dagsins heiti?“ spurði Þórkatla þegar börnin voru á leiðinni inn í íþróttasal eftir hádegi. Það var nefnilega búið að auglýsa jólaball með Pál Óskar og hljómsveit eftir hádegi og öll börnin hlökkuðu svo ósköp mikið til.

„Jólasveinn dagsins er Þvörusleikir,“ ansaði Jósúa.

„Hann sleikir þvörur. Þvara er gamalt orð yfir sleifar.“

„Þannig að í nútímanum gæti hann allt eins heitið Sleifasleikir?“

„Akkúrat!“ ansaði Jósúa og staðnæmdist fyrir framan risastórt jólatré í miðjum íþróttasalnum. Aldrei höfðu börnin litið neitt jafn fallegt. Jólatréð var svo stórt að það náði næstum því alveg upp í loft á íþróttasalnum. Ein lítil grein hafði dottið af trénu. Þórkatla tóka hana upp úr gólfinu og hélt henni upp að vörunum líkt og hún væri Páll Óskar að syngja inn í hljóðnema. Hún steig meir að segja nokkur dansspor alveg eins og hún væri Palli. Jósúa fór að hlæja. 

„Gæti sleif ekki táknað svona hljóðnema í dag?“ hváði Jósúa.

„Jú einmitt!“

„Og Páll Óskar er þá Sleifasleikir?“

„Nei, auðvitað ekki! Grýla og Leppalúði eru örugglega búin að ræna Pál Óskar og fara með hann upp í fjöll. Svo eru þau búin að senda Þvöruleikir í staðinn og hann þykist bara vera Páll Óskar en bara við tvö vitum að hann er Þvörusleikir.“

Jósúa kinkaði kolli og börnin vissu upp á hár hvað þau áttu til bragðs að taka.

Og þannig gerðist það að þegar Þvörusleikir kom og ætlaði að byrja að spila og syngja á ballinu þá voru krakkarnir búnir að hella handsápu yfir sviðið þannig að jólasveinninn og allir hljóðfæraleikararnir runnu á rassinn og niður af sviðinu.

 

16 – Pottaskefill reynir að vaska upp

„Hvað gerðist eiginlega á þessu jólaballi í gær?“ spurði pabbi furðu lostinn við morgunverðarborðið.

„Það stendur í blaðinu að einhver hrekkjusvín hafi hellt sápu yfir sviðið og að vesalings Páll Óskar þurfti að hætta við að spila af því að söngkerfið bilaði. Að fólki skuli detta í huga að hrekkja börnin svona!“

„En þetta var ekki alvöru Páll Óskar,“ sagði Þórkatla. „Þetta var íslenskjur jólasveinn.“

„Hvað meinarðu?“ hló pabbi. „Auðvitað var þetta Páll Óskar. Það er mynd af honum í blaðinu!“

Þórkatla hafði engan áhuga á að skoða blaðið en spurði pabba sinn í staðinn hvort hann vissi hver jólasveinn dagsins væri.

„Hvaða rosa áhugi er þetta allt í einu á jólasveinum?“ sagði pabbi og hrukkaði ennið því hann mundi ekki strax nafnið þótt hann hefði kunnað sveinana utan að þegar hann var barn og trúði því ennþá að þeir væru til. 

„Pottaskefill!“ sagði hann loks og var svolítið hreykinn af því að muna nafnið. „Enn einn svangilíusinn!“ hreytti Þórhildur út úr sér um leið og hún opnaði fyrir Jósúa sem var kominn til að sækja hana. Þau áttu bæði að hjálpa til á kaffihúsi þar sem mamma Þórkötlu vann á vöktum. Eða kannski vildu hún bara hafa þau hjá sér.

„Aftur svona matargat?“ hváði Jósúa og vonbrigðin leyndu sér ekki.

„Þessi skefur innan úr pottum.“

„Kannski er hann í eldhúsinu á kaffihúsi mömmu þinnar?“ 

Og alveg rétt. Pottaskefill var að vinna í afleysingum sem uppvaskari þennan dag. Hann þóttist vera þýskur skiptinemi en börnin voru auðvitað ekki lengi að sjá við Pottaskefil.

Jósúa læddist inn í eldhús þegar enginn sá til og pottaskefill tók sér frímínútur fyrir aftan hús þar sem hann reykti ógeðslegar sígarettur. Jósúa tæmdi úr fjórum lýsisflöskum yfir uppvaskið þannig að allur borðbúnaður lyktaði af lýsi og aumingja Pottaskefill var látinn hætta.

Aðventukrans

17 – Askasleikir reynir að stela

„Æ ekki aftur!“ emjaði Þórkatla á sunnudagsmorgni.

„Nú?“ hváði Jósúa sem var satt að segja svolítið sifjaður því börnin höfðu fengið að vaka aðeins lengur kvöldið áður og horfa á bíómyndina Aulinn Ég.

„Þessir jólasveinar eru eiginlega allir eins. Alltaf einhverjir ljótir karlar að sleikja matarleifar.“

„Nú, jæja?“ ansaði Jósúa hálf áhugalaus. „Hver er þá jólasveinn dagsins?“ 

„Það er hann Askasleikir.“ 

„Aska? Sleikir hann þá öskubakka?“

„Nei, ekki ösku!“ hló Þórkatla. „Askasleikir sleikir Aska. Í gamla daga áttu allir sinn eigin Ask, sem var tréskál með loki, nokkurs konar og nestisbox. Enginn nema eigandinn sjálfur mátti borða úr Askinum.“

„En fólk á ekkert svoleiðis í dag,“ sagði Jósúa. 

„Einmitt,“ sagði Þórkatla. „Það eru ekki allir að labba niðri í bæ með einhver nestisbox á sér.“

„Hvað er fólk þá að labba með?“ spurði Jósúa.

„Ég veit það ekki. Kannski með síma?“

„Askasleikir er þá símasleikir í dag?“

„Nei ekki endilega,“ sagði Þórkatla. „Fólk á ennþá allskonar vasa og töskur og önnur ílát þótt það sé ekki með Ask eða nestisbox.“

„Ég veit!“ kallaði Jósúa. „Pabbi sagði mér einu sinni frá svona vondum körlum sem stela frá fólki. Þeir eru kallaðir vasaþjófar! Já, Askasleikir er örugglega vasaþjófur!“

„Nei, hættið nú!“ hrópaði pabbi Þórkötlu þegar börnin komu hlaupandi inn í stofu og báru upp erindið. „Vasaþjófur? Núna? Á sunnudegi á aðventu?“

En börnin gáfu sig ekki. Þau minntu pabbann á bensínþjófinn Stekkjastaur. Höfðu þau ekki haft rétt fyrir sér með hann? Og pabbinn varð hugsi lengi vel en greip svo símann og hringdi niður á löggustöð.

Og alveg rétt. Vinnufélagar pabba á stöðinni höfðu einmitt handtekið vasaþjóf í Kringlunni um morguninn. Og nú þegar pabbinn spurði sértaklega um þetta lögðu löggurnar sig sérstaklega fram þannig að í lok dagsins var búið að handtaka heilt vasaþjófagengi. Askasleiki varð ekki mikið ágengt þessi jól.

18 – Hurðaskellir í vanda

„Loksins einn sem hugsar ekki bara um mat!“ kallaði Jósua á mánudagsmorgni í skólanum.

„Hvað gerir hann þá?“

„Hurðaskellir? Nú hann skellir hurðum auðvitað.“

„Eins og pabbi? Hann skellir stundum hurðum þegar hann er búinn að vera mjög lengi á vakt og er í vondu skapi. En þá skammar mamma hann og segir að hann verði að róa sig.“

„Hurðaskellir er líka svona allmennt að trufla fólk,“ bætti Jósúa við og virtist nokkuð skemmt yfir þessum jólasvein. „Helst þegar það sefur.“ 

„Aha,“ sagði Þórkatla. „Kannski býr hann í kjallaranum?“

„Býr hann? Hvað áttu við?“

„Manstu ekki eftir fólkinu sem var alltaf með læti um helgar í vor? Einu sinni þurfti pabbi að hringja í lögguna.“

„Þurfti hann að hringja í sjálfan sig?“

„Nei, hann var ekki á vakt svo hann hringdi í vinnufélagana.“

„Þannig að við látum pabba þinn vita?“

„Nei, hættið nú alveg,“ hló pabbi þegar Þórkatla bar upp erindið. „Á ég að láta handtaka aumingja stúdentinn í kjallaranum af því að hann er … hvað sagðirðu að hann væri Þórkatla mín?“

„Hann er Hurðaskellir!“ sagði Þórkatla ákveðinn og krosslagði handleggina. „Þú verður að stoppa hann.“

„Hann er enginn hurðaskellir. Við þurftum að biðja hann um að lækka tónlist einu sinni í vor, það var allt of sumt.“

En börnin létu sér ekki segjast. Um kvöldið þegar foreldrarnir héldu að þau væru farin að sofa læddust þau niður og tróðu pappír í skráargatið hjá stúdentinum þannig að það urðu mikil læti daginn eftir þegar hann ætlaði að vakna og fara í skólann.

Að mála jólaskraut

19 – Skyrgámur verður ósköp þyrstur

„Annar skrýtinn jólasveinn,“ dæsti Jósúa litli þegar Þórkatla vildi vita nafn dagsins.

„Hvað heitir hann?“

„Skyrgámur! Honum finnst skyr alveg svakalega gott. Hann er eins og gámur fullur af skyri! “

„Er hann þá ekki rosa sterkur?“

„Alveg örugglega sterkur eins og naut!“

„Hann er pottþétt í lyftingum. Ég veit alveg hvar svoleiðis jólasveinar halda sig!“

Næst spurði Þórkatla hvort mamma Jósúa ætti ekki fullt af hvítum pipar. Hún átti nefnilega svo mikið af allskonar kryddi. Jósúa kinkaði ákafur kolli og þegar börnin komu heim úr skólanum læddist hann inn í eldhús og náði í hálft kíló af hvítum pipar.  

Seinnipartinn nuðuðu börnin um að fá að fara með pabba Þórkötlu í sund út á Seltjarnarnes en þar var einmitt stór líkamsræktarstöð. Börnin ærsluðust svo mikið í lauginni að sundvörðurinn varð fljótlega nokkuð taugaóstyrkur því  þau fóru líka ansi hratt yfir, stundum þvældust þau jafnvel fyrir fullorðnu fólki sem var að reyna að synda fram og tilbaka. Á endanum voru þau rekin í grunnu laugina og þá

læddist Jósua upp úr og niður í klefana sem lyftingarkarlarnir notuðu. Hann sá þar fljótlega stórar dollur með hvítu dufti og var ekki lengi að blanda hvíta piparnum saman við og hræra í með teskeið.

Þetta var auðvitað hugmynd sem Þórkatla hafði fengið eftir að hafa hlustað þúsund sinnum á Dýrin í Hálsaskógi.

Þegar Jósúa og Þórkatla voru farin upp úr lauginni og heim til sín þrammaði Skyrgámur niður í búningsklefann og fór að gæða sér á hvíta duftinu með piparnum.  Hann varð fljótlega alveg ægilega þyrstur af þessu og virtist aldrei fá nóg af vatni. Hann drakk allt kvöldið og hafði alls engin tíma til að hrekkja börnin í Reykjavík.

20 – Bjúgnakrækir fær óvænta hollustu

„Hvað sagðirðu aftur að væri uppáhaldsmaturinn þinn?“ spurði Jósúa litli á miðvikudegi, örfáum dögum fyrir jól.

„Þú veist það alveg!“ sagði Þórkatla. „Pulsur eru uppáhaldsmaturinn minn. Ég veit alveg að þið á neðri hæðinni borðið aldrei svínakjöt. En veistu hvað? Mamma var að segja mér að það er ekki endilega bara svínakjöt í pulsum. Pulsur eru úr allskonar, stundum eru þær meir að segja úr hænsnakjöti!“

„Oj!“ sagði Jósúa því honum fannst pulsur ógeðslegur, alveg sama hvernig kjöt var í þeim.

„En af hverju varstu annars að spyrja að þessu?“

„Af því að jólasveinn dagsins heitir Bjúgnakrækir.“

„Og hvað með það?“

„Hann krækir í og étur allar pylsurnar þínar.“

„Nei, nei. Bjúgnakrækir krækir bara í bjúgu. Bjúgur eru allt öðruvísi. Mér finnst bjúgu alveg ferlega ógeðsleg.“

„En Bjúgu er gamalt orð yfir pylsur!“

„Æ, auðvitað!“ hrópaði Þórkatla því nú mundi hún þetta líka. Bjúga var gamalt íslenskt orð yfir grófar pylsur. Bjúgnakrækir ætlaði örugglega að éta allar pulsur sem til voru í Reykjavík bara til að hrekkja íslenska krakka.

„Finnst þér bara pulsur góðar?“ spurði Jósúa.

„Nei, alls ekki. Ég borða allskonar mat.“

„Þú ert semsagt alæta. En ég held Bjúgnakrækir sé ekki eins og þú. Ég held að hann borði bara pulsur úr dýrakjöti og honum finnist allt sem er hollt örugglega mjög ógeðslegt á bragðið.“

„Það er áreiðanlega alveg rétt hjá þér.“

Og nú vissu börnin hvað þau áttu að gera. Þórkatla tæmdi sparibaukinn sinn og svo fóru þau og keyptu gulrætur fyrir allan peninginn. Undir kvöldið læddust þau inn í sjoppurnar í hverfinu og settu gulrætur í potta í staðin fyrir pulsur þegar enginn sá til.

Þegar Bjúgnakrækir kom svo og pantaði sér pulsu með öllu fékk hann mauksoðna gulrót með tómatsósu og remólaði og hráum lauk ofan í pulsubrauð.

Þetta þótti Bjúgnakræki svo ógeðslegur réttur að hann flúði til fjalla og sór að koma ekki aftur til Reykjavíkur þessi jólin.

21 – Gluggagægir vertu úti!

„Eigum við að athuga hver er jólasveinn dagsins?“ spurði Jósúa þegar börnin voru komin heim úr skólanum og voru að gæða sér á sætum kökum inni í eldhúsi hjá mömmu Jósúa.

Þórkatla flýtti sér að fletta upp í jólasveinabókinni.

„Það er Gluggagæir,“ las hún. „Hann horfir inn um glugga. Í nútímanum myndu það líklega vera tölvskjáir og svoleiðis er það ekki?“

„Það er nokkuð víst. Gluggagæir er örugglega tölvukarl í nútímanum. Eitthvað þannig.“

„Þá skulum við ekkert fara í tölvuleiki í dag.“

„Nei alls ekki.“

Nú var bankað og mamma Þórkötlu kom inn í eldhúsið. Mamma Jósúa bauð henni dísætt kaffi en mamma Þórkötlu útskýrði með handahreyfingum að hún væri svolítið stressuð. Hún hafði gleymt einhverju erindi í bankann og nú vantaði bara korter í lokun.

„Ég verð bara að hlaupa niður í banka strax, Þórkatla mín. Eruð þið nokkuð til í að vera uppi hjá okkur á meðan?“

„Af hverju þá?“ hrökk upp úr Þórkötlu sem langaði að gæða sér á annarri sætri köku.

„Æ, það er að koma maður að ná í tölvuna mína. Ótrúlega góð þjónusta hjá þeim. Tölvuþjónustan Gluggagátt. Þeir sækja allar tölvur og tæki heim til fólks og gera við þær.“

Börnin litu hvort á annað og Jósúa hvíslaði: Þarna lék Gluggagægir aldeilis á okkur. Þykist vera einhver voða sniðugur tölvukarl.“

En Þórkatla kunni ráð við þessu eins og öðru.

Þegar bjallan hringdi létu börnin tölvuna síga niður í bónus plastpoka í löngu bandi. Það var alveg sama hvernig Gluggagægir hamaðist á bjöllunni. Börnin æptu bara að þau mættu ekki hleypa ókunnugum inn í húsið.

Nýmóðins jólasveinn

22 – Gáttaþefur afhjúpaður

„Gáttaþefur?“ hváði Þórkatla. „Hvað gerir hann nú?“

„Þefar út í loftið,“ ansaði Jósúa. „Hann er með risastórt nef og finnur prumpulykt í vesturbænum ef barn prumpar í Breiðholti.“

„Er hann kannski hundur?“ 

„Já, eða jólasveinn með hundshaus?“ Jósúa var varla búin að sleppa orðinu þegar dyrabjallan hringdi. Börnin flýttu sér út í glugga til að líta niður á götuna.

„Hver er þar?!“ kallaði Þórkatla eins valdsmannslegri röddu og hún gat.

Niðri á götu stóð maður sem var alls ekki með hundshaus. Hann leit satt að segja út eins og ósköp venjulegur pítsusendill fyrir utan það að hann var  með frekar stórann maga og með stórt rautt nef sem gægðist undan rauðri derhúfu. Hann hélt á stórum hvítum pítsukassa.

„Mannstu eftir sögunni af Gosa?“ hvíslaði Jósúa.  

„Já, auðvitað.“

„Kannski er gáttaþefur alveg eins og gosi.“

„Áttu við að nefið á honum stækki þegar hann lýgur?“

Jósua kinkaði ákaft kolli.

„Prófum þá að spyrja hann að einhverju,“ sagði Þórkatla og hækkaði róminn: „Heyrðu þú þarna! Hvað ertu með í þessum kassa?“

„Þetta er nú pitsa salami með ananas,“ ansaði Gáttaþefur glaðlega og börnin sáu hvernig nefbroddurinn á honum rykktist örlítið til, líkt og hann tæki vaxtarkipp.

„Ertu pitsusendill?“ hváði Þórkatla.

„Auðvitað!“ ansaði Gáttaþefur og nú sáu börnin greinilega hvernig rautt nefið skaust undan skyggninu og varð á stærð við væna gulrót.

„Hingað var ekki pöntuð nein einasta pitsa!“ skrækti Þórkatla og skellti glugganum með látum. Gáttaþef féllust hreinlega hendur við að hitta svona ákveðna stelpu í Reykjavík. Hann snarhætti við að hrekkja börn þessi jólin.

23 – Ketkrókur á Þorláksmessu

„Hver er svo jólasveinn dagsins?“

„Það er hann Ketkrókur.

„Enn eitt matargatið?“ 

„Við megum varla vera að því að eiga við hann.“

„Af hverju segirðu það?“

„Það er Þorláksmessa í dag og á morgun er aðfangadagur. Í dag ætla mamma og pabbi að klára að skreyta húsið og setja upp jólatréð. Og svo ætlum við mamma að fara í friðargöngu niður Laugaveginn. Þú mátt alveg örugglega koma með. Ketkrókur fer ekkert í friðargöngu.“

„Ó, nei. Hann vill örugglega engan frið.“

„Og svo ætlar afi að elda skötu heima hjá okkur.“ 

„Skötu? Hvað er nú það?“

„Það er svona skemmdur fiskur, kemur alveg hrikaleg lykt í ganginn. Afi er nefnilega frá Vestfjörðum og þegar hann var barn voru allir að borða skötu þar og nú borða margir fullorðnir svona út um allt land á þessum degi. Það kemur rosalega vond lykt!“

Og nú fór Þórkatla að hlæja því henni datt svolítið skemmtilegt í hug. Hún vissi nákvæmlega hvernig þau myndu losna við kjötkrók þennan daginn.

Þegar Jósúa og Þórkatla komu heim úr friðargöngunni mætti þeim skelfileg lykt í stigaganginum því afi var kominn í heimsókn og var búinn að elda skötu. Hann píndi pabba meir að segja til að smakka bita af hákarli og drekka heilt staup með brennivíni. Það hlaut að vera alveg svakalega vont á bragðið.

Svo þegar Ketkrókur lét loks sjá sig um það leiti sem börnin voru að fara að sofa þá mætti honum ekki sæt lykt af hangikjöti eins og hann hafði vonast til heldur ótrúlega sterk lykt af kæstri skötu, svo sterk að hann fékk tár í augun. 

„Hvað er um að vera!“ hrópaði Ketkrókur. „Er þetta táragas?“ Svo hljóp hann grátandi út úr húsinu og út úr Reykjavík. Hann mun ekki stríða neinum börnum þessi jólin.

Jólatré

24 – Aðfangadagur og allir glaðir 

„Hvað heitir jólasveinn dagsins?“ spurði Þórkatla á aðfangadagsmorgun.

„Sá síðasti heitir Kertasníkir,“ svaraði Jósúa að bragði. „Hann eltir börn og reynir að ná af þeim kertum.“

„Það er enginn krakki með kerti í vasanum í dag. Hvað ætli þetta eigi að þýða í nútímanum?“

„Eitthvað nammi. Við sleppum því bara að fá okkur sætindi þangað til seint í kvöld.“

Undir jólatrénu sem stóð á miðju stofugólfinu heima hjá Þórkötlu voru margir pakkar sem biðu þess að vera opnaðir um kvöldið. Pabbi Þórkötlu tók þó fram að stærsta gjöfin kæmi um það leiti sem börnin færu að sofa. 

Jólin voru hringd inn um sex leitið og þá settust þau öll niður og borðuðu hangikjöt í aðalrétt. Jósúa og fjölskyldu þótti kjötið ansi framandi en þó ljúfengt. En þegar mamma Jósúa ætlaði að ná í möndlugrautin sem hafði verið í kæli úti á svölum á neðri hæðinni dæsti pabbi Þórkötlu allt í einu þungur í bragði. Hann hafði verið kallaður á vakt. Löggur þurfa nefnilega oft að vinna þegar annað fólk er að halda jól.

Þórkatla var fyrst svolítið leið yfir því að pabbi þyrfti að fara en hún gleymdi því nást um leið. Því stuttu eftir að pabbinn var farinn birtist óvæntur gestur í gættinni. Þetta var alvöru jólasveinn í rauðum fötum og með hvítt skegg. Hann var með allskonar jólapakka fyrir þæga krakka.

Og nú urðu börnin ósköp glöð því þau fengu fullt af fínum gjöfum. Þegar þau voru síðan orðin örþreytt og við það að fara að sofa minnti jólasveinninn á stærstu gjöfina sem þau myndu fá þessi jól. Sú gjöf var handa þeim báðum og foreldrunum líka. Jólasveinninn dró upp sem leit alveg eins út eins og öll bankabréfin sem mamma Þórkötlu fékk í sífellu. Í því stóð  að Jósúa og fjölskylda fengi að búa áfram á Íslandi í friði eins lengi og þau vildu.

ENDIR