
Um þennan viðburð
Make-a-thek | Helgarpeysan með Fözz Studio
Átt þú safn af afgangs garni og langar að prjóna úr því fallega og skapandi peysu?
Helgarpeysan er hönnuð sem afgangapeysa og hjálpar þ.a.l við að nota alla garnenda og afganga sem hafa safnast upp. Peysan er prjónuð á 12mm hringprjóna, en vegna stóru prjónanna vinnst peysan mjög hratt. Uppskriftin er mjög einföld og hentar bæði byrjendum sem og lengra komnum prjónurum.
Stella Ögmundsdóttir útskrifaðist úr textíldeild Myndlistaskólans í Reykjavík vorið 2024, en hún vinnur ýmsar flíkur og textílverk undir nafninu Fözz Studio. Stella vinnur eingöngu með endurnýtt efni í sínum verkum og fær efniviðurinn oftar en ekki að ráða ferðinni í hennar sköpun.
Þátttakendur eru beðnir um að koma sjálf með garnafganga og eftirfarandi prjóna:
- 12 mm hringprjón 100 cm langan
- 12 mm hringprjón 50 cm langan
Einnig verður nægt garn í boði á staðnum fyrir þau sem eiga ekki nóg.
Um er að ræða viðburðarsyrpu þar sem við hittumst þrjú miðvikudagskvöld í röð. Við erum því samferða í helgarpeysu prjóninu okkar þar sem hver og einn prjónar sína útgáfu.
Velkomið að mæta þó þú komist ekki öll skiptin.
Borgarbókasafnið Gerðubergi er þátttakandi í alþjóðlegu verkefni til þriggja ára sem nefnist Make-a-thek. Markmiðið með þessu verkefni er að skapa vettvang fyrir skapandi og framsækna neytendur (prosumer) þar sem þekkingu er deilt og við lærum í sameiningu nýjar aðferðir t.d. við að gera við textíl, og kynnumst allskyns handverki og aðferðum. Þetta er ferðalag og áfangastaðurinn mótast með þátttöku sem flestra. Verkefnið er styrkt af Evrópusambandinu.
Nánari upplýsingar veitir:
Ilmur Dögg Gísladóttir, deildarstjóri í Gerðubergi
ilmur.dogg.gisladottir@reykjavik.is | 411 6170