Kynningarmynd fyrir söngleikinn Eitruð lítil pilla

Um þennan viðburð

Tími
17:30 - 18:30
Verð
Frítt
Hópur
Fullorðnir
Fræðsla
Kaffistundir
Spjall og umræður

Leikhúskaffi | Eitruð lítil pilla

Þriðjudagur 30. janúar 2024

Í febrúar næstkomandi verður söngleikurinn Eitruð lítil pilla (Jagged Little Pill) frumsýndur á stóra sviði Borgarleikhússins. Söngleikurinn byggir á tónlist af samnefndri plötu Alanis Morissette, einni áhrifamestu plötu tíunda áratugarins og einni söluhæstu hljómplötu allra tíma.

Leikhúskaffið er skemmtilegur viðburður fyrir öll sem hafa áhuga á leikhúsi og hefst á Borgarbókasafninu Kringlunni þar sem Álfrún Helga Örnólfsdóttir leikstjóri segir gestum stuttlega frá sýningunni. Í kjölfarið verður farið samferða yfir á stóra svið Borgarleikhússins þar sem leikmyndin verður skoðuð og boðið upp á umræður og spurningar fyrir áhugasama.

Aðgangur er ókeypis og gestum leikhúskaffis býðst 10% afsláttur af miðaverði á sýninguna.

Eitruð lítil pilla er kraftmikill söngleikur sem mun taka við af stórsýningunni Níu líf, sem gengið hefur fyrir fullum sal frá því í mars 2020 og slegið öll aðsóknarmet á Íslandi. Tónlist Alanis Morissette einkennist af óbeisluðum krafti og hráum og hnitmiðuðum textum. Lög á borð við „You Oughta Know“, „You Learn“ og „Ironic“ eru ótvírætt meðal helstu einkennislaga tíunda áratugarins. Alanis, sem var aðeins 21 árs þegar hún gaf út plötuna Jagged Little Pill, er talin hafa rutt veginn fyrir margar ungar tónlistarkonur. Stjörnur á borð við Olivia Rodrigo, Pink, Katy Perry og Avril Lavigne hafa nefnt plötuna sem mikinn áhrifavald og innblástur í tónlist þeirra.

Jóhanna Vigdís Arnardóttir fer með hlutverk Mary Jane, húsmóður á miðjum aldri sem býr í úthverfi með fjölskyldunni sinni. Á yfirborðinu er allt í himnalagi. Eiginmaður hennar, Steve, sem leikinn er af Vali Frey Einarssyni er í góðu starfi og sonur þeirra Nick, leikinn af Sigurði Ingvarssyni, var að komast inn í Harvard. Aldís Amah Hamilton fer með hlutverk Frankie, sem er að reyna að fóta sig sem ættleidda tvíkynhneigða dóttir úthverfadrottningarinnar. Smátt og smátt er þó farið að kvarnast upp úr fallegu fjölskyldumyndinni sem Mary Jane sendir með jólakortinu á hverju ári. Hún hefur ánetjast ópíóðalyfjum og áður en yfir lýkur þarf öll fjölskyldan að horfast í augu við óþægilegar staðreyndir - óþægilegar staðreyndir sem eru kannski grundvöllur lífsins þegar betur er að gáð. Með önnur hlutverk fara Íris Tanja Flygenring, Elín Sif Hall og Haraldur Ari Stefánsson ásamt fleirum. Íslensk þýðing verksins er í höndum Matthíasar Tryggva Haraldssonar og Ingólfs Eiríkssonar.

Ókeypis inn og öll velkomin.

Viðburðurinn á Facebook

 

Nánari upplýsingar veitir:
Guttormur Þorsteinsson, deildarbókavörður
guttormur.thorsteinsson@reykjavik.is | s. 411 6204

Bækur og annað efni