Verkstæðið Gerðubergi

Á Verkstæðinu í Gerðubergi er lögð áhersla á fikt og sköpun fyrir yngri kynslóðina og eru ýmis spennandi tól á staðnum á borð við þrívíddarprentara, Raspberry Pi tölvur, barmmerkjavél og vínylskera. Verkstæðið er opið á opnunartíma safnsins mánudaga til fimmtudaga og allar leiðbeiningar má finna á staðnum.  

Við mælum með því að mæta á Fiktdaga ef þig vantar aðstoð við að læra á þau tæki og tól sem Verkstæðið hefur upp á að bjóða. 

Tölvurnar

Í tölvunum á Verkstæðinu er hægt taka fyrstu skrefin í forritun, til dæmis í leiknum Scratch sem hentar yngstu börnunum vel. Einnig er hægt að læra grunnhugtök forritunar með því að forrita í Minecraft.

3D prentarinn okkar

3D prentari

Hægt er að tengjast 3D prentara í gegnum tölvu á staðnum, en við hvetjum fólk til að stofna frían reikning og prófa sig áfram á Tinkercad.com til að skapa módel fyrir prentarann og koma með skjalið tilbúið. Best er að koma með .stl skjal á SD korti en einnig er hægt að vista skjalið á Tinkercad eða koma með USB lykil og opna í tölvunni á Verkstæðinu. Aðgangur að 3D prentaranum er ókeypis en greiða þarf fyrir efni.

Little bits 

Í gegnum LittleBits, sem samanstendur af kubbum og vírum, læra börnin á virkni rafleiðslna og forritunar. 

Saumavélar

Á verkstæðinu er að finna tvær saumavélar sem hægt er að nota til að breyta, bæta, hanna og skapa.

Hér getur þú skoðað græjurnar sem í boði eru og bókað tíma.

Fullt af fróðleik

Á bókasöfnunum er líka hægt að fá lánaðar bækur um alls kyns tækni og tilraunir, bæði á söfnunum sjálfum og á Rafbókasafninu. Meðal annars er gott úrval af bókum um Minecraft, forritun í Scratch og Python, Sonic Pi og þrívíddarprentun.

 

Komdu að fikta!