
Um þennan viðburð
make-a-thek | Táfýlutextíll með Emma Shannon
Táfýlutextíll er smiðja þar sem við könnum einfaldar aðferðir til að umbreyta gömlum sokkum í nýjan textíl. Taktu með þér slitna sokka og lærðu hvernig má klippa þá í hringi, búa til keðjur og byggja sveigjanleg, leikandi textílform úr efnum sem þú átt nú þegar.
Smiðjan er opin öllum og engin reynsla af textílvinnu er nauðsynleg. Það eina sem þú þarft að taka með eru sokkar. Þetta er afslöppuð og skapandi samvera sem leggur áherslu á endurnýtingu, tilraunir og að uppgötva nýja möguleika í hversdagslegum efnum.
Emma Shannon er skosk textíllistakona og hönnuður búsett í Reykjavík. Verk hennar kanna mörk klæðanlegrar tækni og hefðbundins handverks. Með því að sameina verklega sköpun og nýja tækni sérhæfir hún sig í að skapa aðgengileg, þverfagleg rými sem hvetja til tilraunastarfs og framtíðarmiðaðra lausna fyrir sjálfbærni og skapandi samvinnu. Sem hluti af Endurtakk og samfélaginu á bakvið reddingarkaffi hefur áhersla hennar verið á skapandi endurnýtingu, viðgerðir og endurhugsun á staðbundnum textíl og fatnaði.
Borgarbókasafnið Gerðubergi er þátttakandi í alþjóðlegu verkefni til þriggja ára sem nefnist make-a-thek. Markmiðið með þessu verkefni er að skapa vettvang fyrir skapandi og framsækna neytendur (prosumer) þar sem þekkingu er deilt og við lærum í sameiningu nýjar aðferðir t.d. við að gera við textíl, og kynnumst allskyns handverki og aðferðum. Þetta er ferðalag og áfangastaðurinn mótast með þátttöku sem flestra. Verkefnið er styrkt af Evrópusambandinu.
Nánari upplýsingar veitir:
Atli Pálsson, sérfræðingur
atli.palsson@reykjavik.is | 411-6170