Grófarhús | Vitavegur verður til
Draumur borgarbúa um framtíðarbókasafnið
Á síðastliðnum sex árum hefur fólk á öllum aldri og úr ólíkum samfélagshópum, tekið þátt í að móta draum að framtíðarbókasafni Reykjavíkur. Víðtækt samráð hefur farið fram og borgarbúar og starfsfólk Borgarbókasafnsins hefur tekið þátt í fjölmörgum vinnustofum, verkefnum og könnunum sem snúa að þörfum notenda og starfsfólks. Þannig höfum við mótað saman drauminn að framtíðarbókasafninu.
Hönnunarsamkeppni á vegum Reykjavíkurborgar
Árið 2022 var boðað til hönnunarsamkeppni um endurhönnun og stækkun á Grófarhúsi. Fimm teymi voru valin til að taka þátt í forvali og sendu inn tillögur að umbreytingu hússins. Það verkefni sem varð fyrir valinu ber heitið Vitavegur, en á bak við það stendur hollenska arkitektastofan JVST, hönnunarteymið Inside Outside, Hanrath Architect og Kreatíva teiknistofa. Verkfræðistofan Efla sér um verkfræðihönnun.
Hönnunarteymið hefur tekið virkan þátt í samráðinu og hlustað vandlega á mismunandi óskir borgarbúa. Hönnun á nýju Grófarhúsi er svar við kalli um sameiginlegan stað sem nýtist okkur öllum; staður fyrir mennskuna eins og einn notandi orðaði það á vinnustofu um framtíðarbókasafnið.
Áætlað er að dyrnar að nýju samfélagsbókasafni í Grófinni, mannvænu og notalegu, verði opnaðar árið 2031. Hönnunarferlið er langt komið og áætlað að framkvæmdir hefjist árið 2027.
Gluggað inn í framtíðina
Í samstarfi við hönnunarteymið hefur Borgarbókasafnið gert ferlið sýnilegra fyrir framtíðarnotendur nýja bókasafnsins með „sýningarglugga“ sem er lifandi og síbreytilegur eftir því sem hönnuninni miðar áfram. Í fyrsta glugganum berjum við stóru myndina augum, skoðum ytri ásýnd hússins og fáum fyrstu tilfinninguna fyrir rýminu innandyra. Glugginn er staðsettur í viðbyggingunni við hlið Grófarhúss, Tryggvagötu megin.
Tilraunastofa ímyndunaraflsins á HönnunarMars
Tilraunastofa ímyndaraflsins er opin á HönnunarMars dagana 3. - 6. apríl 2025 í viðbyggingu Grófarhúss. Þar fá borgarbúar smjörþef af barnadeildinni eins og hún er teiknuð í dag, en hönnunarteymi Grófarhúss hefur fengið þverfaglega hönnunarteymið ÞYKJÓ í lið með sér til að hanna heila hæð tileinkaða börnum. Börn og fjölskyldur þeirra munu loksins fá það svæði innanhúss sem kallað hefur verið eftir, en barnadeildin mun stækka úr 203 m2 í 600 m2.
Á Tilraunastofu ímyndaraflsins gefst almenningi tækifæri til að taka þátt í að fínpússa barnahæðina með þátttöku í skapandi smiðjum og samtali við ÞYKJÓ.
Hringrásarhagkerfið
Kjarninn í starfsemi bókasafna er hringrásarhagkerfið; að deila og endurnýta. Stefnt er að því að framtíðarbókasafnið fái umhverfisvottunina BREEAM Excellent og því er sterk áhersla lögð á hvers kyns endurnýtingu við endurhönnun Grófarhúss. Hönnunarteymið hefur látið gera úttekt á því sem hægt er að endurnýta en á meðal þess er öll núverandi utanhússklæðning hússins og verður hún yfirborðsmeðhöndluð og notuð aftur innanhúss á fjölbreyttan hátt.
Pláss fyrir fólk
Bókasafnið mun stækka úr 2700 m2 í 5977 m2 eða um rúmlega helming. Vitavegurinn, sem heiti verkefnisins vísar til, mun byrja á fyrstu hæðinni og leiða þig áfram upp alla bygginguna á vit ævintýranna í átt að vitanum á efstu hæðinni. Hvort sem þig langar að njóta þess að lesa í friði í faðmi bóka og plantna, taka þátt í viðburði eða halda þinn eigin, kynnast nýju fólki, eiga gæðastund með fjölskyldunni, grúska eða vinna, þá mun leiðin um Vitaveginn á nýja bókasafninu mæta þörfum þínum eða þú uppgötvar eitthvað nýtt og spennandi.
Opið rými allra
Á fyrstu hæðinni er tekið vel á móti öllum. Hér má nálgast helstu þjónustu og upplýsingar, sækja bækur sem þú hefur tekið frá, skila bókum og uppgötva það nýjasta í hillunum. Þú getur einnig horft upp eftir öllum hæðum í bjartri hvelfingu sem nær upp í gegnum allt húsið. Þar sérðu glitta í leiðarkerfið um bókasafnið, bleika Vitaveginn sem gefur til kynna spennandi ferðalag um bygginguna. Allt aðgengi er hugsað með fjölbreyttar þarfir notenda í huga.
Staður fyrir barnafólk
Önnur hæðin er tileinkuð börnunum en barnadeildin stækkar úr 203 m2 í 600 m2. Fjölskyldur hafa kallað eftir rými fyrir foreldra og börn, til að kynnast og tengjast og er lögð áhersla á það í nýju barnadeildinni. Hæðin verður landakort ævintýra og upplifunar, sannkallaður staður fyrir ímyndunaraflið og allt hannað með ólíkar þarfir fjölskyldna í huga. Þar er að finna leiksvæði fyrir börn á öllum aldri sem hvetur til uppgötvana og leiks en líka til samveru og slökunar. Stórt smiðjuherbergi er á hæðinni þar sem skapandi viðburðir fara fram og söguherbergi þar sem ævintýrin lifna við. Bækurnar umkringja rýmið og eru settar fram á lestrarhvetjandi hátt. Þar geta börnin notið þess að lesa í einrúmi í allskonar leyniskotum eða kúrt með fjölskyldunni yfir bók í notalegu og öruggu umhverfi. Barnahæðin verður það rými sem óskað hefur verið eftir af barnafólki í borginni.
Svæði til að skapa
Notendarýmin verða fjölmörg og breytileg. Á þriðju hæðinni verða spennandi rými af ýmsum toga, til dæmis svæði þar sem hægt er að setja upp bíósýningar eða leikrit, rými til að spila tölvuleiki, tölvur með öllum helstu forritum, hlaðvarpsstúdíó og hljóðver svo eitthvað sé nefnt.
Hvað með allar bækurnar?
Safnefnið er kjarni bókasafnsins en fjórða hæðin verður hljóðlátt svæði tileinkað bókunum. Þú finnur bækur á öllum hæðum safnsins, hvort sem þú ert rétt að stinga inn nefinu á fyrstu hæðina til að ná þér í nýjustu titlana eða langar að lesa í friði og ró á fjórðu hæðinni. Þín bíður fjölbreytt og spennandi safnefni á leið þinni um Vitaveginn þar sem þú getur týnt þér á milli hillnanna, kannski uppgötvað eitthvað nýtt eða fundið bókina sem breytir lífi þínu! Á hæðinni er nægt rými til að setjast niður og glugga í bók eða læra í ró og næði. Ef þú þarft hvíld frá amstri dagsins, vilt hugleiða eða bara vera í friði, þá getur þú fundið þar til gert íhugunarrými með útsýni yfir hafið og átt þar gæðastund án truflunar.
Leiðir okkar liggja saman á Samfélagstorginu
Á fimmtu hæðinni finnur þú Samfélagstorgið. Hugsunin á bak við torgið er að hver sem er geti notað það til að vekja athygli á málefnum, tengjast öðrum, hreyfa sig, hlaða batteríin, ræða saman eða gera tilraunir. Samfélagstorgið býður upp á endalausa möguleika fyrir borgarbúa til að búa til eitthvað nýtt og deila því með öðrum. Þau sem eru nýkomin til landsins finna leið inn í samfélagið og í sameiningu getum við hlúð að samfélaginu okkar. Staður sem þessi á sér enga hliðstæðu í borginni og það verður gaman að sjá lífið á torginu dafna í takt við þarfir og hugmyndir borgarbúa. Fyrir þau sem vilja vinna í ró og næði er upplagt að bóka lokað vinnurými fyrir einstaklinga eða hópa sem finna má á 5. hæðinni.
Þakgarður, kaffihús og viðburðasalur - nærumst og njótum
Á sjöttu og sjöundu hæð er glæsilegt kaffihús og þakgarður, með stórbrotnu útsýni til allra átta. Á fallegum sumardögum er hægt að njóta blíðunnar af svölunum, en þegar kaldir vindar blása er tilvalið að koma sér vel fyrir með heitan drykk í hlýju gróðurhúsinu. Þarna er einnig stór viðburðasalur með aðstöðu sem býður upp á fundarhöld, fyrirlestra og tónleika. Hægt er að nota salinn og kaffihúsið utan opnunartíma bókasafnsins fyrir fjölbreytta viðburði.
Hæðin er nýtt sem samfélagseldhús og smiðjurými fyrir fjölbreytta viðburði þar sem ólíkir menningarheimar geta notið þess að deila mat og upplifunum.
Þetta nýja bókasafn í miðbæ Reykjavíkur verður ómissandi þáttur í tilveru borgarbúa um ókomin ár!